Hoppa yfir valmynd

Nr. 475/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 6. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 475/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18100061

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 9. október 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. júlí 2018, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 15. október 2018. Þann 22. október 2018 barst kærunefnd tölvupóstur frá umboðsmanni kæranda með ósk um frestun réttaráhrifa. Með tölvupósti, dags. sama dag, veitti kærunefnd kæranda frest til 29. október 2018 til þess að skila inn greinargerð og barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum þann 29. október sl. Í greinargerð kæranda kom fram beiðni um endurupptöku málsins á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með tölvupósti til kærunefndar þann 30. október 2018 staðfesti kærandi að óskað væri eftir endurupptöku málsins.

II. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur m.a. fram að kærandi hafi verið metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála. Telji kærandi að viðkvæm staða hans geri það að verkum að stjórnvöldum beri að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi glími við eftirköst áralangrar kynferðismisnotkunar og sé haldinn eiturlyfjafíkn sem sé lífshættulegur sjúkdómur sem þarfnist bráðrar og langvarandi meðferðar við. Kærandi hafi orðið fyrir alvarlegri mismunun í viðtökuríki í skilningi 32. gr. a reglugerðar nr. 540/2017 um útlendinga auk þess sem hann hafi ekki fengið meðferð við framangreindum sjúkdómum í skilningi ákvæðisins.

Kærandi telur að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga hafi verið brotin við meðferð máls hans fyrir Útlendingastofnun og kærunefnd. Kærandi bendi á að hann hafi verið metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu og að stofnunin hafi átt að sjá sóma sinn í því að tryggja að rétt mat yrði framkvæmt og réttlátri meðferð beitt í máli hans.

Þá telji kærandi að hann hafi hvorki fengið viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu né aðstoð varðandi fíknivanda sinn í Noregi og vísar til skýrslna alþjóðlegra stofnanna og frjálsra félagasamtaka máli sínu til stuðnings. Hann muni fá sömu meðferð verði hann endursendur til Noregs. Þá lýsir kærandi þeirri afstöðu sinni að [...] flóttamenn fái ekki réttláta málsmeðferð fyrir norskum stjórnvöld við meðferð umsókna þeirra um alþjóðlega vernd þar í landi og vísar í því sambandi til dóms stjórnlagadómstóls í Lyon í Frakklandi og nánar tiltekinna skýrslna máli sínu til stuðnings. Kærandi bendir á að hann hafi dvalið í nær 20 mánuði í Noregi og þar af 12 mánuði í hæliskerfinu. Kæranda hafi verið neitað um sálfræðimeðferð og þegar hann hafi sótt lækni hafi hann þurft að greiða komugjald sem dregið hafi verið af framfærslu hans. Norsk stjórnvöld hafi ekki og muni ekki sinna einstaklingsbundnum þörfum kæranda og í því ljósi skuli taka mál hans upp auk þess sem það skuli tekið til efnismeðferðar hér á landi.

Meðfylgjandi beiðni kæranda um endurupptöku er bréf, dags. 14. október 2018, þar sem fram kemur lýsing kæranda á ævi hans og aðstæðum í heimaríki. Þar koma fram ástæður þess að hann hafi flúið til Evrópu auk lýsingar kæranda á aðstæðum hans hér á landi og hvernig hann hafi ferðast hingað til lands með bróður sínum er þeir voru á leið frá Noregi til Kanada. Meðal fylgigagna með beiðni kæranda er einnig skimunarpróf sem metur einkenni áfallastreituröskunar (e. Impact of Event Scale-Revised) þar sem fram kemur að niðurstöður prófsins gefi til kynna að hann sé haldinn áfallastreituröskun. Þá er enn fremur að finna komunótur Göngudeildar sóttvarna, dags. 21. febrúar til 9. október 2018 auk bréfs frá sálfræðingi, til umboðsmanns kæranda.

Í bréfinu kemur fram sú greining sálfræðings að kærandi sé haldinn áfallastreituröskun og fíkn sem taka þurfi strax á auk tillagna hans um meðferð kæranda hér á landi. Þar kemur jafnframt fram sú afstaða sálfræðings að engin klínísk sálfræði- eða geðlæknisaðstoð hafi verið í boði fyrir kæranda í Noregi og að nauðsynlegt sé að tryggja að norsk stjórnvöld veiti kæranda viðeigandi þjónustu. Þá kemur fram að kærandi sé […] og lýsir sálfræðingur þeirri skoðun sinni að íslensk stjórnvöld hafi hleypt inn í landið einstaklingum frá [...] sem séu með ógnandi tilburði gagnvart kæranda vegna uppruna hans. Að lokum segir í tillögum sálfræðingsins að þegar hann starfi fyrir Göngudeild sóttvarna sé hann hlutlaus hvað varðar ákvarðanir Útlendingastofnunar eða kærunefndar. Í tilviki kæranda, sem hann hafi hitt á eigin stofu, geti hann þó leyft sér að taka afstöðu og bendir á að kærandi hafi hvorki fengið viðeigandi þjónustu né réttláta málsmeðferð.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar nr. 414/2018, dags. 9. október 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kæranda til Noregs bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Að mati kærunefndar var staða kæranda þess eðlis að hann væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki talið eiga við í máli kæranda, þ.e. að kærandi hefði ekki slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Kærandi byggir beiðni um endurupptöku m.a. á því að ákvörðun í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Í greinargerð kæranda kemur fram að líkur séu á að hann sé haldinn áfallastreituröskun og þurfi á meðferð að halda hér á landi vegna þessa. Þá glími kærandi við alvarleg andleg veikindi og eiturlyfjafíkn og að meta þurfi einstaklingsbundnar aðstæður hans að teknu tilliti til þessara nýju upplýsinga um heilsufar hans. Í greinargerð sem fylgdi kæru kæranda til kærunefndar vegna umsóknar hans um alþjóðlega vernd, kom fram greinargóð lýsing á erfiðleikum sem hann kveðst hafa búið við í heimaríki auk þess sem endurrit af viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun, sem fylgdu kærunni, gefur mynd af þeim bágu aðstæðum sem hann hafi búið við og séu ástæða flótta hans til Evrópu. Þótt nefndin telji að bréf kæranda sem fylgir beiðni hans um endurupptöku veiti ítarlegri lýsingu á aðstæðum hans í heimaríki og ástæðu flótta hans er það mat kærunefndar að upplýsingarnar sem þar koma fram hafi í meginatriðum legið fyrir þegar úrskurðað var í máli hans þann 9. október sl. og að niðurstaða kærunefndar í úrskurði nr. 414/2018 hafi því ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Þá tekur kærunefnd fram að þær upplýsingar sem koma fram í greinargerð kæranda, þ.m.t. upplýsingar úr skýrslum um hlutfall umsækjenda frá [...] sem er veitt alþjóðleg vernd í Noregi og þá gagnrýni sem móttökukerfi umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi hefur fengið af hálfu tiltekinna frjálsra félagasamtaka, lágu fyrir hjá nefndinni þegar úrskurður í máli kæranda var kveðinn upp.

Þá byggir kærandi beiðni sína um endurupptöku einnig á því að ákvörðun í máli hans hafi byggst á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í framangreindum heilbrigðisgögnum sem kærandi hefur lagt fram í málinu kemur m.a. fram að hann sé haldinn áfallastreituröskun. Í úrskurði kærunefndar nr. 414/2018 kemur fram að kærandi hafi nokkra sögu um fíkniefnaneyslu, hann hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi auk þess sem hann glími við sjálfsvígshugsanir, svefnleysi og þunglyndi. Enn fremur var það mat kærunefndar að kærandi væri einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þrátt fyrir að framlögð heilsufarsgögn bendi til þess að líkur séu á að kærandi sé haldinn áfallastreituröskun þá er það mat kærunefndar, m.t.t. þeirra heilsufarsgagna sem lágu til grundvallar ákvörðunar í úrskurði nr. 414/2018, að ekki sé um verulegar breyttar aðstæður að ræða er varðar hagi kæranda.

Hvað varðar málsástæðu kæranda um að hann muni ekki fá nauðsynlega heilbrigðisþjónustu í Noregi og að hann muni ekki fá réttláta málsmeðferð þar í landi bendir kærunefnd á að í framangreindum úrskurði, sem kærandi hefur óskað endurupptöku á, kannaði kærunefnd aðstæður og málsmeðferð í Noregi. Þar kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd geti átt rétt á því að fá mál sín endurupptekin hjá kærunefnd útlendingamála þar í landi (n. Utlendingsnemnda) m.a. á grundvelli nýrra gagna sem gefi til kynna að úrskurður kærunefndarinnar sé byggður á röngum upplýsingum um umsækjanda eða um aðstæður hans. Þá kemur auk þess fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu þar í landi. Kærunefnd telur að skýrslur sem kærandi vísar til í greinargerð sinni með endurupptökubeiðninni breyti ekki því mati sem fram kemur í fyrrgreindum úrskurði einkum hvað varðar aðgang kæranda að heilbrigðisþjónustu og réttláta málsmeðferð í Noregi. Það er mat kærunefndar að endursending kæranda til Noregs muni ekki brjóta gegn meginreglunni um bann við endursendingu einstaklings til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 42. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi áréttar nefndin jafnframt að Noregur, eins og Ísland, er bundinn af mannréttindasáttmála Evrópu, þ.m.t. 3. gr. sáttmálans og að þau réttarúrræði sem til staðar eru í Noregi eru til þess fallin að tryggja réttindi umsækjanda til raunhæfra réttarúrræða, sbr. 13. gr. sáttmálans. Með hliðsjón af framangreindu ítrekar kærunefnd það sem kemur fram í fyrrgreindum úrskurði um að nefndin telji ekki hættu á að endursending kæranda til Noregs brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Þá tekur kærunefnd fram að athugun á málinu hefur ekki leitt í ljós að brotið hafi verið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

Að mati kærunefndar breyta þau nýju gögn sem kærandi hefur lagt fram varðandi ævi hans og heilsufar ekki grundvelli máls kæranda hjá kærunefnd. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að þegar hafi verið tekin afstaða til málsástæðna og aðstæðna kærenda, sem hann ber fyrir sig í máli þessu, í áðurnefndum úrskurði kærunefndar frá 9. október 2018. Verður ekki séð að framangreindur úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat kærunefndar í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að atvik máls hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærunefndin telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd því hafnað.

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The request of the appellant is denied.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Árni Helgason                                                              Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta