Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 472/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 472/2022

Miðvikudaginn 15. febrúar 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, móttekinni 21. september 2022, kærði B læknir, fyrir hönd A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. ágúst 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn 24. maí 2022. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. júlí 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að meðferð og endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi sótti á ný um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn 5. ágúst 2022. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. ágúst 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að meðferð og endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. september 2022. Með bréfi, dags. 26. október 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 23. desember 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. desember 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærð sé afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins og VIRK á beiðni um starfsgetumat annars vegar og hins vegar umsókn kæranda um örorku sem Tryggingastofnun hafi hafnað í tvígang. Umboðsmaður kæranda hafi, vegna umsóknar um örorkubætur, sent afrit af báðum læknisvottorðum og starfsgetumati frá VIRK þar sem skýrt komi fram að starfsendurhæfing hjá VIRK sé óraunhæf. Kærandi vísi í samantekt og álit frá VIRK sem útskýri það mjög vel. Umboðsmaður kæranda hafi einnig sent skýrslu sálfræðings til Tryggingastofnunar sem sé mjög döpur lesning. Tryggingastofnun virðist ekki hafa lesið seinna vottorðið sem fjalli um það. Kærandi sé mjög ósjálfbjarga og hafi átt mjög erfitt með að sækja um stuðning frá C og sé ekki búin að því enn, þrátt fyrir margar ítrekanir hennar. […] Það sé að sjálfsögðu ekki til að bæta ástandið. Í stuttu máli séu engar líkur á að kærandi fari á vinnumarkaðinn aftur. Ef Tryggingastofnun vilji ekki trúa orðum umboðsmanns kæranda leggi hann til að stofnunin sjái sóma sinn í því að skoða kæranda og framkvæma mat á henni. Það þyrfti ansi dapran lækni til að finna ekki út að kærandi sé ekki að fara á vinnumarkaðinn.

Kærandi vonist til að fá skjóta afgreiðslu. Hún ætli að reyna að fyrirgefa […] til að hún fái fjármagn frá honum því að hún hafi ekkert fjármagn til að sinna börnum sínum eða sjálfri sér. Sjálf sé hún að rembast við að fara í endurhæfingu vegna áfallastreituröskunar eftir endurtekið ofbeldi og fleiri áföll. Hún sé með miklar aukaverkanir af Elvanse adult sem þrátt fyrir allt sé skásta lyf sem hún hafi fengið. Kærandi sé með mikið E og erfitt sé fyrir fólk að vera nálægt henni. Umboðsmanni kæranda finnist það þó ekki erfitt. Kærandi leggi til að máli sínu verði hraðað, það sé búið að fara nógu illa með hana svo að hið opinbera geri það ekki líka.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati á grundvelli þess að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. almannatryggingalaga þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Nánar sé fjallað um framkvæmd endurhæfingarlífeyris í reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil endurhæfingarlífeyris um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi.

Þá sé í 37. gr. laganna meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn, dags. 5. ágúst 2022. Með örorkumati, dags. 11. ágúst 2022, hafi verið synjað um örorkumat á grundvelli þess að endurhæfing væri ekki fullreynd. Kærandi hafi áður sótt um örorkumat með umsókn, dags. 24. maí 2022, en þeirri umsókn hafi einnig verið synjað með örorkumati, dags. 5. júlí 2022, á grundvelli þess að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kærandi hafi ekki sótt um endurhæfingarlífeyri og því sé möguleg greiðsluheimild endurhæfingarlífeyris í allt að 36 mánuði með öllu ónýtt.

Við örorkumat lífeyristrygginga þann 11. ágúst 2022 hafi legið fyrir umsókn, dags. 5. ágúst 2022, læknisvottorð B, dags. 5. ágúst 2022, og starfsgetumat VIRK, dags. 11. júlí 2022.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá því sem fram kemur í læknisvottorði, dags. 5. ágúst 2022, og starfsgetumati VIRK, dags. 11. júlí 2022.

Við örorkumat lífeyristrygginga þann 5. júlí 2022 hafi legið fyrir umsókn, dags. 24. maí 2022, læknisvottorð B, dags. 24. maí 2022, og spurningalisti kæranda vegna færniskerðingar, móttekinn 30. september 2022.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er í kjölfarið greint frá því sem kemur fram í læknisvottorði, dags. 24. maí 2022.

Í læknisvottorðum komi fram upplýsingar um að kærandi hafi verið í viðtölum hjá sálfræðingi. Í læknisvottorði, dags. 24. maí 2022, segi til dæmis að vitnað sé í skýrslu sálfræðings.

Í starfsgetumati VIRK komi einnig fram upplýsingar um vikuleg sálfræðiviðtöl á eigin vegum.

Í örorkumati, dags. 11. ágúst 2022, sé sérstaklega tekið fram að í gögnum sé ítrekað vitnað í skýrslu sálfræðings sem umsækjandi, að því er virðist, hafi sótt að eigin frumkvæði. Tryggingastofnun óski eftir að sjá þessa skýrslu. Eins og bent hafi verið á í fyrra bréfi Tryggingastofnunar virðist engin kerfisbundin endurhæfing hafa farið fram.

Kærandi hafi þann 16. ágúst 2022 framsent Tryggingastofnun tölvupóst þar sem fram komi að hún hafi verið í vikulegum viðtölum til að takast á við þunglyndi, kvíða og sorg. Textinn í þeim tölvupósti sé í samræmi við það sem komi fram í læknisvottorði, dags. 24. maí 2022.

Í tölvupóstinum komi hvorki fram hvenær viðtölin hafi átt sér stað né að viðtölin hafi verið við sálfræðing eins og tilgreint hafi verið í læknisvottorðum og starfsgetumati VIRK. Þær takmörkuðu upplýsingar sem þar komi fram hafi ekki áhrif á ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um örorkumat.

Tryggingastofnun telji að kæranda hafi réttilega verið synjað um örorkumat á grundvelli þess að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Í fyrirliggjandi gögnum komi fram að kærandi sé með E og ADHD og að einnig sé um andlega vanlíðan hennar að ræða sem virðist að minnsta kosti að einhverju leyti stafa af álagi í félagslegu umhverfi hennar. Þær upplýsingar gefi tilefni til að telja að endurhæfing geti orðið henni að gagni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. ágúst 2022 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í þágildandi 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda var læknisvottorð B, dags. 5. ágúst 2022. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„KVÍÐI

STREITURÖSKUN EFTIR ÁFALL

[E] SYNDROME

ATTENTION DEFICIT DISORDER WITH HYPERACTIVITY

BAKVERKUR

HÁÞRÝSTINGUR“

Um fyrra heilsufar segir:

„Sjá vottorð frá 24.05.22. Ekkert breyst síðan þá.“

Þá segir svo um heilsuvanda og færniskerðingu nú:

„Síðast vitnaði ég í skýrslu sálfræðings sem var döpur lesning. Í framhaldi af því kom síðan starfsgetumat frá VIRK eftir að þið höfðuð hafnað síðasta örorkuvottorði. Í starfsgetumati VIRK kemur endurtekið fram að ólíklegt sé talið að þessi kona komist nokkurn tímann aftur á vinnumarkaðinn og það er útskýrt með ágætis rökum. Sendi þetta starfsgetumat með. Það ætti að útskýra að A er stopp í kerfinu. Hefur ekkert til að lifa af. Ég ræddi við hana í dag um framfærslu sem hún gæti fengið hjá C á meðan hún er á milli vita. Hún hefur ekki treyst sér að fara þangað. Henni finnst það mjög niðurlægjandi, það get ég vel skilið.“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„Grét hér og táraðist mikið. Er sem fyrr ekki með illusionir, delusionir eða hallucinationir og ég varð í þetta skiptið var við E en ekki alvarlega. Elvanse adult hjálpaði henni mikið með það á sínum tíma en hún var líka skelfileg fyrir það og með erfiðasta E sem ég hef nokkurn tímann séð á langri starfsævi.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. maí 2020 og að ekki megi búast við að færni hennar aukist. Í nánara áliti á vinnufærni segir:

„Endurtek að ég á erfitt með að skilja að konan sé ekki fyrir löngu orðin öryrki, líklega hefur það með hennar stolt að gera. Það hefur margt verið reynt með takmörkuðum árangri þótt Elvanse hafi hjálpað henni með E þá dugar það ekki til að hún sé hæf á vinnumarkaði. E vandamálin ein og sér myndi duga en nóg er af vandamálum eins og lesa má um í skýrslum fram að þessu.“

Í athugasemdum með læknisvottorðinu segir:

„Þakka fyrir hraða afgreiðslu síðast og vonast til að hún verði hröð aftur. Þessi kona er á milli skips og báru og þarf á brýnni hjálp að halda. Þá er ég að tala um fjárhagslega hjálp.“

Þá liggur einnig fyrir læknisvottorð B, dags. 24. maí 2022, vegna fyrri umsóknar kæranda um örorku, dagsett þann sama dag. Þar segir um fyrra heilsufar:

„Heilmikið ofbeldi á stuttum tíma, misst X, Y og Z og líður mjög illa. Verið talsvert hjá sálfræðingi á D og komin er skýrsla frá einum þeirra, ég vitna í það hér fyrir neðan. Fær mjög slæm E köst þau verstu sem ég hef séð og þau hafa háð henni mjög mikið fyrir utan að það að hún lítur ekki mjög vel út í þessum köstum. Mjög virkur ADHD sjúkdómur sem eiginlega gaf sig ekki fyrr en hún fékk Elvanse adult sem var hálfgert kraftaverkalyf fyrir hana.“

Þá segir svo um heilsuvanda og færniskerðingu nú:

„Vill hér vitna í skýrslu sálfræðingsins sem ég nefndi áðan. Sálfræðingurinn segir að A hafi verið í 6 mánuði í vikulegum viðtölum til að takast á við þunglyndi, kvíða og sorg. Hún hafi byrjað hjá henni eftir að hafa misst X, Y og Z með stuttu millibili og upplifað mjög mörg þungbær áföll í æsku. Hafa líka verið að ræða […], ítreka ósætti innan fjölskyldu, mikið vonleysi, litla félagsfærni og verk kvíða. Allt þetta bendir til langvarandi áfallastreituröskunar. Sálfræðingurinn segir að hún og A hafi unnið með sorg og sorgarviðbrögð, kvíðastjórnun, félagsfærniæfingar sem hún hafi verið dugleg að tileinka sér í dag í lífinu.“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„Eins og fyrr, er að reyna að brosa en það var stutt í grátinn. Ekki með illusionir, delutionir eða hallucinationir og ég varð ekki var við E á meðan við töluðum sama. Kom vel fyrir eins og alltaf.“

Í starfsgetumati VIRK, dags. 11. júlí 2022, segir svo í samantekt og áliti:

„A sem X ára hefur upplifað heilmikið ofbeldi og á stuttum tíma hefur hún misst X, Y og Z og liðið mjög illa út af því.

Verið hjá sálfræðing vikulega í hálft ár en sálfræðingurinn veiktist en þær ætla að taka upp málið aftur þegar hún er orðin vinnufær. Hefur einnig mjög virkan ADHD sjúkdóm sem hefur reynst mjög erfitt að meðhöndla öðruvísi en með Elvanse sem reyndist hálfgert kraftaverkalyf fyrir hana borið saman við hvað hitt hafði gert nánast ekki neitt fyrir hana. Það þýðir hins vegar ekki að hún sé orðin vinnufær, langt því frá. […] Hún metur geðræn einkenni sín hamlandi bæði með kvíða og þunglyndi með frestunarhegðun og félagskvíða. Hún skorar á GAD og PHQ sem svarar til miðlungs til alvarlegra einkenna kvíða og depurðar. Hún á erfitt með að vera innan um mikið af fólki, fer helst ekki út í búð og á það til að segja eitthvað við fólk sem hún ætlar ekki að segja. Hún var áður að kenna í I og vann í J […]. […] Finnur að styrkur og úthald er minni. ún gerið allt hér áður fyrr en núna á hún mjög erfitt með að sinna daglegum athöfnum og getur ekki verið í vinnu. Hún er mjög brotinn og með lítið sjálfstraust. Fær mjög slæm E köst og þau há henni mjög mikið fyrir utan að hún lítur ekki vel út í þessum köstum. Auðvitað skiptir að máli þótt það ætti ekki að skipta máli. A fær slæm E köst þar sem hún öskrar og rætur um það bil tvisvar í mánuði. Hún hefur verið hjá taugalækni sem setti hana á lyf sem henni fannst ekki vera að hjálpa þangað til að hún minnkaði að taka lyfin en þá fjölgaði köstunum. Eftir köstin þarf hún að leggja sig og er úrvinda. Er með mikla […] og taugalæknir sagt að áhrif E á talfærin gangi ekki til baka.

Henni finnst E hafa versnað mikið síðustu árin eftir að hafa orðið fyrir áfalli eftir að […] vegna óljósra ástæðna. Auk þess missti hún X sem ól hana upp, Y og Z og allt gerðist þetta á skömmum tíma. […] A er með iðraólgu og á stundum erfitt með að halda hægðum á morgnana. Hún er einnig með álagstengda bakverki.

Heimilislæknir er búin að senda inn umsókn um örorku. Sótt hefur verið um fyrir hana í endurhæfingu á K og er hún búin að fá hana samþykkta en hefur ekki fengið tíma hvenær hún byrjar.

A er með verulega hamlandi geðræn einkenni sem hafa bein áhrif á verulega hamlandi E einkenni auk iðraólgu og sveiflukennds orkuleysis vegna E kasta. Það er mikið búið að vinna með þessi einkenni og hún verið í vikulegum sálfræðiviðtölum á eigin vegum í hálft ár en er enn óvinnufær og ljóst að starfsendurhæfing mun ekki draga verulega úr hennar hamlandi einkennum og telst því óraunhæf og hún metin óvinnufær og er vísað í heilbrigðiskerfið til frekar þjónustu."

Í niðurstöðu starfsgetumatsins segir:

„Heilsubrestur er til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá Virk er talin óraunhæf. Ekki er talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði.

A er með verulega hamlandi geðræn einkenni sem hafa bein áhrif á verulega hamlandi E einkenni auk iðraólgu og sveiflukennds orkuleysis vegna E kasta. Það er mikið búið að vinna með þessu einkenni og hún verið í vikulegum sálfræðiviðtölum á eigin vegum í hálft ár en er enn óvinnufær og ljóst að starfsendurhæfing mun ekki draga verulega úr hennar hamlandi einkennum og telst því óraunhæf og hún metin óvinnufær og er vísað í heilbrigðiskerfið til frekar þjónustu.“

Í tölvupósti L, verkefnastjóra hjá M, dags. 22. maí 2022, segir:

„A hefur í 6 mánuði verið í vikulegum viðtölum til að takast á við þunglyndi, kvíða og sorg. Hún byrjaði hjá okkur eftir að hafa misst X, Y og Z með stuttu millibili.

Mörg þungbær áföll í æsku, E, andlátin, erfið […], ítrekað ósætti innan fjölskyldu, mikið vonleysi, lítil félagsfærni og verkhvíði bendir til langvarandi áfallastreituröskunar.

Við höfum unnið með Sorg og sorgarviðbrögð, kvíðastjórnun og félagsfærni æfingar sem hún hefur verið dugleg að reyna tileinka sér í daglegu lífi.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að meta örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um frekari endurhæfingarúrræði.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af líkamlegum og andlegum toga og hefur ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri. Í læknisvottorðum B, dags. 24. maí 2022 og 5. ágúst 2022, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og ekki megi búast við að færni aukist. Í fyrra læknisvottorði er vitnað í skýrslu sálfræðings þar sem komi fram að kærandi hafi verið í sex mánuði í vikulegum viðtölum til að takast á við þunglyndi, kvíða og sorg. Í síðara læknisvottorði B kemur fram að margt hafi verið reynt í tilviki kæranda með takmörkuðum árangri. Þó svo að lyfið Elvanse hafi hjálpað henni með E einkenni þá dugi það ekki til að hún sé hæf á vinnumarkaði. Í starfsgetumati VIRK, dags. 11. júlí 2022, segir að kærandi sé með verulega hamlandi geðræn einkenni og E einkenni. Þá kemur fram að búið sé að vinna mikið með einkenni hennar, auk þess sem hún hafi verið í vikulegum sálfræðiviðtölum í hálft ár en sé enn óvinnufær. Enn fremur kemur fram að ljóst sé að starfsendurhæfing muni ekki draga verulega úr hamlandi einkennum hennar og því teljist starfsendurhæfing óraunhæf. Kæranda er vísað í heilbrigðiskerfið til frekari þjónustu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að starfsendurhæfing hjá VIRK sé óraunhæf en ekki verður dregin sú ályktun af starfsgetumati VIRK að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi. Þá telur úrskurðarnefndin að ekki verði ráðið af þeim upplýsingum sem fram komi í læknisvottorðum B eða af eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun en heimilt var að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar hin kærða ákvörðun var tekin samkvæmt þágildandi 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. ágúst 2022, um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta