Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 73/2013

Fimmtudaginn 26. mars 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 30. maí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. maí 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 11. júní 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. júlí 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 22. júlí 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 22. ágúst 2013. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1972 og 1979. Þau búa ásamt tveimur börnum sínum í eigin 124 fermetra íbúð að C götu nr. 5 í sveitarfélaginu D.  

Kærandi A var á þessum tíma í fæðingarorlofi og fékk mánaðarlega 157.398 krónur. Áður var hún að hluta til með atvinnuleysisbætur og að hluta til í starfi. Kærandi B er bílstjóri og eru útborgaðar tekjur hans 234.699 krónur á mánuði. Að auki fá kærendur mánaðarlegar barna- og vaxtabætur að fjárhæð 85.462 krónur.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 34.567.805 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga árið 2005.

Kærendur rekja ástæður skuldasöfnunar til atvinnuleysis, tekjulækkunar og tímabundinna veikinda í kjölfar slyss.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 4. nóvember 2010 og með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. maí 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 8. mars 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Því væri það mat hans að fella ætti niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kom fram að þegar semja hefði átt frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings hefði komið í ljós að kærendur hefðu aðeins lagt 50.000 krónur til hliðar á greiðsluaðlögunartímabilinu en greiðslugeta þeirra væri 88.435 krónur á mánuði eftir greiðslu framfærslukostnaðar. Kærendur hafi lagt fram beiðni um greiðsluaðlögun í nóvember 2010 og því hefðu þau átt að vera búin að leggja til hliðar 2.084.261 krónu á tímabilinu nóvember 2010 til janúar 2013. Miðað sé við meðaltal allra tekna kærenda á tímabilinu samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Við útreikninga á framfærslukostnaði sé miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara fyrir hjón með tvö börn. Umsjónarmaður hafi greint kærendum frá því hvaða afleiðingar þetta gæti haft í för með sér og gefið þeim færi á því að útskýra af hverju þau hefðu ekki lagt fyrir. Hafi kærendur tiltekið að þau hefðu greitt viðgerðir á bifreið að fjárhæð 325.871 króna og vanskil lögðveða að fjárhæð 246.103 krónur. Alls nemi þessi kostnaður 571.974 krónum. Því standi eftir 1.512.287 krónur sem kærendur hafi ekki gert grein fyrir. Tók umsjónarmaður fram að hann teldi ámælisvert að kærendur hafi ekki greitt lögveð á tímabili greiðsluskjóls en þau séu talin með í framfærslukostnaði umboðsmanns skuldara.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 3. apríl 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kærenda kom fram að þau hefðu nýtt peningana til að láta gera við bifreið. Þau hefðu ekki allar nótur vegna viðgerðanna undir höndum en hefðu afhent umsjónarmanni þær nótur sem þau hefðu. Einnig væri kostnaður vegna jólahalds, afmæla o.fl. Þá kveðast kærendur ekki skilja hvernig þau hafi átt að leggja til hliðar 3.000.000 króna á greiðsluaðlögunartíma en þau hafi ekki haft nægilega há laun til þess. Nú sjái kærendur sér á hinn bóginn fært að leggja til hliðar 88.435 krónur á mánuði þar sem kærandi A hafi fengið starf og tekjur hennar hækkað frá því sem áður var. Einnig hafi laun kæranda B hækkað smávægilega.

Með bréfi til kærenda 10. maí 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað þeirra svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveðast leita aðstoðar þar sem þau geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Af þessu leiði að kærendur hafi ekki efni á að leggja fé til hliðar.

Kærendur hafi þurft að greiða viðgerðarkostnað vegna bifreiðar. Þau eigi ekki allar kvittanir vegna þessa og sé það ein ástæða fyrir óútskýrðum kostnaði. Einnig hafi þvottavél, þurrkari og sjónvarp bilað og þar sé komin skýring á frekari útgjöldum.

Að mati kærenda gefi það ranga mynd af launum þeirra að deila heildarlaunum tímabilsins niður á mánuði.

Kærendur greina frá því að staða þeirra hafi batnað þar sem kærandi A sé komin í fasta vinnu og laun kæranda B hafi hækkað örlítið. Geti þau nú lagt til hliðar og vilji einnig leggja næstu vaxtabætur inn á bankareikning. Væri þar komin töluverð fjárhæð í sparnað.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið að finna á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 12. maí 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar.

Kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar 4. nóvember 2010 og hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., svokallað greiðsluskjól, þá hafist. Einnig hafi skyldur skuldara tekið gildi á þeim degi. Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 28 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. nóvember 2010 til 28. febrúar 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur frá byrjun nóvember 2010 og út febrúarmánuð 2013 í krónum:

 

Launatekjur 1. nóvember 2010 til 28. febrúar 2013 að frádregnum skatti 11.321.022
Vaxtabætur, barnabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 836.926
Vaxtabætur, barnabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2012 832.812
Endurgreiðsla ofgreiddra opinberra gjalda 2011 og 2012 272.870
Samtals 13.263.630
Mánaðarlegar meðaltekjur 473.701
Framfærslukostnaður á mánuði 364.913
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 108.788
Samtals greiðslugeta í 28 mánuði 3.046.066

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 473.701 krónu í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 364.913 krónur á mánuði á meðan þau nutu greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað marsmánaðar 2013 fyrir hjón með tvö börn. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 3.046.066 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 108.788 krónur á mánuði í 28 mánuði.

Kærendur hafi lagt fram reikninga til umsjónarmanns vegna viðgerða á bifreið að fjárhæð 325.871 króna og vegna innborgana á vanskil lögveðskrafna að fjárhæð 246.103 krónur.

Að mati umboðsmanns skuldara sé ekki unnt að líta svo á að greiðslur lögveðskrafna teljist til óvæntra útgjalda þar sem almennt sé gert ráð fyrir því í framfærsluviðmiðum að skuldarar standi skil á slíkum kröfum. Því sé aðeins hægt að taka til greina framlagða reikninga kærenda vegna viðgerða á bifreið. Samkvæmt því sé útlagður kostnaður kærenda vegna óvæntra útgjalda 325.871 króna. Kærendur kveðast hafa lagt 50.000 krónur fyrir inn á bankareikning. Sé tekið mið af því standi eftir 2.670.195 krónur sem kærendur hafi átt að leggja til hliðar á tímabili greiðsluskjóls en hafi ekki gert grein fyrir.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins varð ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 8. mars 2013 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja til hliðar í greiðsluskjóli. Taldi hann því rétt að umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 10. maí 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 2.670.195 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 4. nóvember 2010 til 10. maí 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 108.788 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi lagt fram skýringar og kvittanir vegna kostnaðar í greiðsluskjóli, samtals að fjárhæð 325.871 króna auk þess sem þau segist hafa lagt 50.000 krónur inn á bankareikning.

Kærendur kveðast ekki hafa haft tök á því að leggja fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þau ættu ekki gögn um allan kostnað vegna bílaviðgerða en sá kostnaður væri hærri en framlagðir reikningar sýndu fram á. Einnig hefðu þau þurft að endurnýja dýr heimilistæki á tímabilinu.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindum tímabilum:

 

Tímabilið 1. desember 2010 til 31. desember 2010: Einn mánuður
Nettótekjur A 208.762
Nettótekjur B 233.710
Nettótekjur alls 442.472


Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: Tólf mánuðir
Nettótekjur A 1.566.214
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 130.518
Nettótekjur B 2.755.236
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 229.603
Nettótekjur alls 4.321.450
Mánaðartekjur alls að meðaltali 360.121


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: Tólf mánuðir
Nettótekjur Ar 1.887.894
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 157.325
Nettótekjur B 3.420.789
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 285.066
Nettótekjur alls 5.308.683
Mánaðartekjur alls að meðaltali 442.390


Tímabilið 1. janúar 2013 til 30. apríl 2013: fjórir mánuðir
Nettótekjur A 631.315
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 157.829
Nettótekjur B 1.253.931
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 313.483
Nettótekjur alls 1.885.246
Mánaðartekjur alls að meðaltali 471.312


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.957.851
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 412.340

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. desember 2010 til 30. apríl 2013: 29 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.957.851
Bótagreiðslur 1.947.036
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 13.904.887
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 479.479
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 364.913
Greiðslugeta kærenda á mánuði 114.566
Alls sparnaður í 29 mánuði í greiðsluskjóli x 114.566 3.322.410

 

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur gefið viðhlítandi skýringar og lagt fram gögn vegna óvæntra útgjalda að fjárhæð 325.871 króna. Er það í samræmi við fyrirliggjandi gögn og verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Kærendur hafa á hinn bóginn ekki sýnt fram á 50.000 króna inneign á bankareikningi og er því ekki unnt að taka tillit til þess.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Að teknu tilliti til óvæntra útgjalda að fjárhæð 325.871 króna hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 2.996.539 krónur á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta