Mál nr. 9/2014
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Kærandi kærði synjun Tryggingastofnunar ríkisins um áframhaldandi greiðslur endurhæfingarlífeyris en hún taldi synjunina ganga gegn sjónarmiðum um jafnræði kynjanna. Þar sem ákvörðun kærða hafði verið felld úr gildi með úrskurði æðra stjórnvalds var það mat kærunefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins væru ekki til staðar. Málinu var því vísað frá kærunefnd jafnréttismála.
-
Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 22. apríl 2015 er tekið fyrir mál nr. 9/2014 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
-
Með kæru, dagsettri 19. desember 2014, kærði A ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að synja umsókn hennar um endurhæfingarlífeyri. Kærandi telur að synjunin brjóti gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
-
Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 5. janúar 2015. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 12. febrúar 2015, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 18. febrúar 2015. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 22. febrúar 2015, og voru þær kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 24. febrúar 2015. Viðbótargögn bárust frá kæranda 2. mars 2015. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 10. mars 2015, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 16. mars 2015.
-
Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
MÁLAVEXTIR Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir tímabilið 1. febrúar 2014 til 31. maí 2014. Kærandi óskaði eftir að framlengja endurhæfingartímabilið til 30. nóvember 2014 en var synjað meðal annars á þeirri forsendu að endurhæfingarlífeyrir væri alla jafna ekki veittur á meðan umsækjendur væru í fæðingarorlofi. Kærandi átti von á barni í júní 2014 og var því talið að hún gæti ekki verið í virkri starfsendurhæfingu á því tímabili sem sótt var um. Kærandi bar synjun Tryggingastofnunar ríkisins bæði undir úrskurðarnefnd almannatrygginga og kærði hana til kærunefndar jafnréttismála. Úrskurðarnefnd almannatrygginga felldi ákvörðunina úr gildi með úrskurði frá 12. febrúar 2015 og vísaði máli kæranda til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
SJÓNARMIÐ KÆRANDAKærandi greinir frá því að kærði hafi vísað til þess að hún hafi ekki getað sinnt þeirri endurhæfingu sem hafi verið lagt upp með nema að hluta vegna þungunar og því hafi ekki verið um eiginlega starfsendurhæfingu að ræða. Kærandi bendir á að um sjúkraþjálfun hafi verið að ræða sem hún hafi ekki getað stundað vegna samdráttarverkja. Auk þess hafi henni verið ráðlagt af sjúkraþjálfara og ljósmóður að stunda ekki sjúkraþjálfun á tilteknu tímabili. Kærandi telur synjun kærða brjóta gegn lögum nr. 10/2008 þar sem einungis sé hægt að nota slíka forsendu gegn barnshafandi konum en ekki körlum og að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin á grundvelli ástands sem leiði beint af þungun hennar. Þá hafi kærði greint frá vinnureglu stofnunarinnar að samþykkja ekki endurhæfingaráætlanir einstaklinga strax eftir fæðingu en áherslan sé á fyrstu þrjá mánuði eftir fæðingu. Eðli málsins samkvæmt sé yfirleitt ekki um að ræða starfsendurhæfingu með endurkomu á vinnumarkað í huga strax eftir fæðingu. Kærandi bendir á að einungis heilsa móður breytist við þungun og fæðingu barns og því hljóti slík vinnuregla einungis að gilda um konur en ekki karla.
-
Kærandi bendir á að kærði hafi tekið fram að yfirleitt gætu einstaklingar ekki stundað endurhæfingu eftir fæðingu barns en að öll tilvik séu metin. Það sé því ljóst að það þurfi ekki allir að sæta reglunni sem hljóti að gera kynjamismuninn enn sterkari. Eðli málsins samkvæmt hljóti að halla á konur ef lagt sé mat á heilsufarið þar sem fæðing hafi engin áhrif á heilsu karla. Það hljóti því að leiða til þess að karlar þurfi ekki að sæta vinnureglunni. Kærandi tekur fram að kærði hafi ekki lagt fram nein gögn um að heilsufar hennar hafi verið metið eftir fæðingu barns hennar þrátt fyrir ítrekaða beiðni um slík gögn. Það sé ólíklegt að slíkt mat hafi farið fram þar sem synjun kærða hafi borist sama dag og barn hennar hafi fæðst. Kærandi telur ljóst að vinnuregla kærða feli í sér grófa innbyggða kynjamismunun sem sé ekki í samræmi við jafnréttislög eða jafnræðisreglur annarra laga sem leggi áherslu á jafna stöðu kynjanna.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA Í greinargerð kærða kemur fram að kæranda hafi verið synjað um framlengingu á endurhæfingarlífeyri á þeim forsendum að hún hefði ekki sinnt fyrri endurhæfingaráætlun, ný endurhæfingaráætlun hafi verið ófullnægjandi og að alla jafna væri ekki veittur endurhæfingarlífeyrir á meðan umsækjendur væru í fæðingarorlofi. Kærði fellst ekki á að sú ákvörðun feli í sér mismunun á grundvelli kynferðis. Jafnræðis sé gætt í hvívetna því viðskiptavinir fái sambærilega afgreiðslu við sambærilegar aðstæður, hvort sem um karla eða konur sé að ræða. Kærði bendir á að til sé dæmi um að greiðslur til föður í fæðingarorlofi hafi verið stöðvaðar þar sem hann hafi ekki verið í virkri endurhæfingu á umræddum tíma. Þungun eða fæðing barns þurfi ekki að útiloka það að staðið sé við endurhæfingaráætlun ef endurhæfing sé samþykkt og við hana staðið.
-
Kærði tekur fram að hvert tilvik sé metið sérstaklega og stuðst við upplýsingar sem fram komi í umsókn, læknisvottorði og endurhæfingaráætlun. Kærði hafi metið það svo að eðli málsins samkvæmt og á grundvelli reynslu sé yfirleitt ekki um að ræða virka starfsendurhæfingu með endurkomu á vinnumarkað í huga strax eftir fæðingu barns. Umsækjandi fái hins vegar samþykktan endurhæfingarlífeyri sýni hann fram á að hafa verið og að hann verði áfram í virkri endurhæfingu á umræddum tíma.
-
Kærði vísar til ákvæðis 7. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, þar sem kveðið sé á um greiðslu endurhæfingarlífeyris. Kæranda hafi verið synjað um áframhaldandi endurhæfingarlífeyri þar sem hún hafi ekki sinnt þeirri endurhæfingaráætlun sem hafi áður verið í gildi. Það skipti í raun ekki máli hvort það hafi verið vegna þungunar, annars heilsufars eða af öðrum ástæðum. Það sé ekki um eiginlega starfsendurhæfingu að ræða þegar endurhæfingu er ekki sinnt, sama af hvaða ástæðu. Skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði en verði rof á endurhæfingu sé ekki greiddur endurhæfingarlífeyrir, óháð ástæðu þess. Einnig sé ekki veitt sumarfrí á endurhæfingarlífeyri eða sambærileg leyfi þar sem greiðslur séu í skamman tíma hverju sinni með takmarkaðri heimild til framlengingar. Þá sé afar mikilvægt að endurhæfingarlífeyrisþegi sé á þessum tíma í virkri endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Kærði tekur einnig fram að endurhæfingaráætlun kæranda hafi verið ófullnægjandi og ekki ljóst hvernig hún ætti að skila kæranda aftur út á vinnumarkað. Því hafi ekki verið hægt að samþykkja hana.
-
Kærði bendir á að vinnuregla stofnunarinnar eigi bæði við um konur og karla en í hverju tilfelli fyrir sig sé horft á endurhæfingaráætlunina sem slíka og þær upplýsingar sem þar komi fram. Það sé litið til þess hvort virk endurhæfing sé í gangi með starfsendurhæfingu að markmiði og hvort fyrri endurhæfingaráætlun hafi verið sinnt, sé hún til staðar. Ef endurhæfingaráætlun sé skýr og fyrri áætlun hafi verið fylgt þá telji stofnunin skilyrði fyrir áframhaldandi endurhæfingarlífeyri vera uppfyllt. Í endurhæfingaráætlun kæranda frá 28. ágúst 2014 komi skýrt fram að rof hafi orðið á endurhæfingu hennar fyrstu þrjá mánuðina eftir fæðingu barns hennar.
ATHUGASEMDIR KÆRANDA Kærandi tekur fram að það sé ljóst að heilsufarslegar aðstæður sem leiði beint af meðgöngu og fæðingu eigi einungis við um konur en ekki karla. Stjórnvaldsákvörðun sem byggð sé á slíkum aðstæðum muni alltaf fela í sér íþyngjandi sérreglur fyrir konur og því brjóta gegn jafnræðisreglum íslenskrar löggjafar. Kærandi bendir á að það hafi reynst henni örðugt að stunda sjúkraþjálfun eftir því sem leið á meðgönguna vegna samdráttarverkja. Hún hafi fylgt fyrirmælum fagaðila sinna, sjúkraþjálfara og ljósmóður og sleppt því að stunda sjúkraþjálfun við þessar aðstæður. Í synjun kærða um áframhaldandi endurhæfingarlífeyri sé aðaláherslan lögð á ástundun sjúkraþjálfunar sem slíka en horft framhjá aðstæðum hennar.
Kærandi vísar til úrskurðar úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem fram komi að kærða hafi ekki verið heimilt að synja henni um áframhaldandi endurhæfingarlífeyri án þess að rannsaka nánar hvers vegna endurhæfingu hafi ekki verið sinnt að öllu leyti. Að mati kæranda hljóti kærði að þurfa að taka tillit til jafnræðisreglna íslenskrar löggjafar og 26. gr. jafnréttislaga við mat á ástæðu þess að hún hafi ekki sinnt sjúkraþjálfun sem skyldi. Kærandi telur einsýnt að ekki hafi verið heimilt að synja henni þar sem hún hafi ekki getað stundað sjúkraþjálfun vegna samdráttarverkja en karlar fái ekki samdráttarverki.
Kærandi gerir athugasemdir við vinnureglu kærða en hún feli í sér alhæfingu um möguleika nýbakaðra foreldra til að stunda endurhæfingu. Kærandi fær ekki séð hvað ætti að breytast hjá umsækjendum um endurhæfingarlífeyri eftir fæðingu barns sem snúi að kærða, annað en heilsa þeirra kvenna sem hafi gengið með og fætt börn. Kærði haldi því fram að vinnureglan gildi jafnt um karla og konur en hafi einungis nefnt eitt dæmi þar sem greiðslur til föður í fæðingarorlofi hafi verið stöðvaðar. Kærandi bendir á að það þurfi að fara fram raunverulegt mat á færni fólks til endurhæfingar eftir fæðingu barns og það hljóti að þurfa að fjalla um breytt heilsufar fólks eftir fæðinguna. Vinnureglan feli því í sér íþyngjandi sérreglu fyrir konur og brjóti gegn jafnræðisreglum íslenskrar löggjafar sem banni alla mismunun á forsendum kynferðis. Einnig sé brotið gegn 26. gr. laga nr. 10/2008 þar sem fram komi að ekki megi láta aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir.
NIÐURSTAÐAÍ 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna, sem telja að ákvæði laganna hafi verið brotin á sér, geta leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt þessu er skilyrði kæru til nefndarinnar að kærandi hafi einstaklingsbundinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn ágreiningsefnisins.
Líkt og að framan greinir bar kærandi synjun kærða um áframhaldandi greiðslur endurhæfingarlífeyris undir úrskurðarnefnd almannatrygginga sem felldi ákvörðunina úr gildi með úrskurði frá 12. febrúar 2015 og vísaði máli kæranda til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur verið ógilt og engin sambærileg tekin á ný er það mat kærunefndar jafnréttismála að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki lengur til staðar. Af þeim sökum verður kærunni vísað frá kærunefndinni.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.
Björn L. Bergsson
Grímur Sigurðsson
Þórey S. Þórðardóttir