Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 55/2014

Fimmtudaginn 16. apríl 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 19. maí 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. maí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 20. maí 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 26. júní 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 3. júlí 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 5. ágúst 2014. Með bréfi kærunefndarinnar 8. ágúst 2014 var óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til athugasemda kæranda. Umboðsmaður skuldara tilkynnti 12. ágúst 2014 að embættið myndi ekki aðhafast frekar vegna athugasemda kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1978. Hann er einhleypur tveggja barna faðir. Börn kæranda dvelja hjá honum aðra hverja viku. Kærandi býr í eigin 111,9 fermetra húsnæði að B götu nr. 30 í sveitarfélaginu C .  

Kærandi er án atvinnu og hefur 243.114 krónur til ráðstöfunar á mánuði vegna atvinnuleysis-, vaxta- og barnabóta.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 37.811.336 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005-2007. Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til atvinnuleysis.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 13. desember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. júní 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge..

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 23. maí 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Í tilkynningu umsjónarmanns var frá því greint að tillaga að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun hafi verið send kröfuhöfum 8. maí 2013. Andmæli bárust frá Landsbankanum 14. maí 2013 þar sem fram kom að bankinn hafnaði frumvarpi kæranda með vísan til gjaldeyrisviðskipta kæranda í greiðsluskjóli. Taldi bankinn að kaup kæranda á 1.915 evrum 23. ágúst 2012 hefðu verið brot á skyldum kæranda samkvæmt 12. gr. lge. og vísaði til þess að greiðslugeta kæranda hefði verið neikvæð á þessum tíma. Kærandi gaf umsjónarmanni þær skýringar að móðir hans hefði boðið honum í utanlandsferð vegna jarðarfarar erlendis auk þess sem hún hafi gefið honum 40.000 krónur í gjaldeyri. Óskaði umsjónarmaður frekari skýringa kæranda um gjaldeyrisviðskipin en án árangurs.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 22. apríl 2014 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Kærandi brást við bréfi umboðsmanns skuldara með bréfi 29. apríl 2014 þar hann tók fram að móðir hans hefði stutt hann fjárhagslega vegna utanlandsferðar. Með svari sínu sendi kærandi meðal annars yfirlýsingu frá móður hans þar fram kom að hún hefði stutt hann fjárhagslega í ágústmánuði 2012 vegna utanlandsferðar til Moskvu fyrir samtals 40.000 krónur í gjaldeyri ásamt andvirði flugmiða.

Með bréfi til kæranda 8. maí 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi greinir frá því að draga megi í efa að umsjónarmaður og/eða umboðsmaður skuldara hafi lögformlega heimild til að afla upplýsinga um gjaldeyrisviðskipti einstaklinga. En þótt það væri  talið heimilt liggi fyrir sú ótrúlega staðreynd í málinu að embætti umboðsmanns skuldara taki ekki mark á staðfestri yfirlýsingu móður kæranda um að hún hafi fjármagnað fyrrgreind gjaldeyrisviðskipti í ljósi bágrar fjárhagsstöðu sonar hennar. Þessi vinnubrögð séu án skýringa eða rökstuðnings. Ekki sé vitað til þess að starfsmenn umboðsmanns skuldara hafi haft samband við móður kæranda til að staðreyna yfirlýsinguna. Því sé alfarið vísað á bug að fullnægjandi skýringar hafi ekki borist frá kæranda. Það sé því ósatt og ósannað með öllu að kærandi hafi brotið gegn 12. gr. lge.

Kærandi kveðst hafa fengið frænda sinn til að greiða með kreditkorti flugmiða til Moskvu með millilendingu í Þýskalandi. Kærandi hafi svo endurgreitt miðann með evrum sem hann keypti. Þá hafi þessir fjármunir verið notaðir til að greiða fyrir gistingu bæði í Moskvu og Þýskalandi. Kærandi tekur fram að hann hafi talið að ekki kæmi til greina að sleppa því að vera viðstaddur útför nákomins ættingja.

Kærandi greinir frá því að mál hans hafi verið í vinnslu hjá umboðsmanni skuldara frá því í desember 2009. Á þessum tíma hafi kærandi að mestu verið atvinnulaus og hafi hann að beiðni umsjónarmanns skilað bifreið sinni til kröfuhafa ásamt því að hætta með ýmsa þjónustu eins og heimasíma, internet og áskriftir. Kærandi greinir frá því að hann hafi sökum atvinnuleysis ekki getað lagt fyrir fjármuni. Hann hafi hins vegar fengið atvinnu í september 2013 og síðan þá hafi margt breyst. Hann hafi greitt niður skuldir hjá vinum og vandamönnum sem hann hafi þurft að þiggja lán frá meðan hann var atvinnulaus. Þá hafi honum verið stefnt í forræðismáli í desember 2012 sem hafi verulegan kostnað í för með sér. Að mati kæranda var þeim fjármunum þó ekki illa varið enda féll dómur honum í hag. Kærandi greinir frá því að hann hafi eignast annað barn með sambýliskonu sinni og því séu nú fimm einstaklingar búsettir á heimlinu. Kærandi kveðst hafa náð að leggja til hliðar fjármuni á söfnunarreikning.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Málsatvik voru þau að umsjónarmaður tilkynnti umboðsmanni skuldara með bréfi 23. maí 2013 að kærandi hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem hann hafi keypt gjaldeyri á tímabili greiðsluskjóls í stað þess að leggja fé til hliðar. Skýringar kæranda hafi verið þær að móðir hans hafi boðið honum í utanlandsferð vegna jarðarfarar erlendis auk þess sem hún hafi gefið honum 40.000 krónur í gjaldeyri. Umsjónarmaður hafi talið þessar skýringar ófullnægjandi og óskað frekari skýringa frá kæranda um utanlandsferðina ásamt skýringum á gjaldeyriskaupum. Fullnægjandi skýringar hafi ekki borist frá kæranda og því hafi málinu verið vísað til umboðsmanns skuldara samkvæmt 15. gr. lge. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara bárust þær skýringar frá kæranda að móðir hans hefði stutt hann fjárhagslega vegna utanlandsferðarinnar. Með svari sínu lét kærandi meðal annars fylgja undirritaða yfirlýsingu frá móður hans þess efnis að hún hafi stutt kæranda fjárhagslega í ágústmánuði 2012 vegna utanlandsferðar til Moskvu fyrir samtals 40.000 krónur í gjaldeyri ásamt andvirði flugmiðans.

Umboðsmaður skuldara taldi að útskýringar kæranda á gjaldeyrisviðskiptum sínum við Landsbankann 23. ágúst 2012 fyrir samtals 1,915 evrum, eða því sem samsvarar 299.237 krónum miðað við sölugengið 154,25 sama dag, hafi verið ófullnægjandi. Hafi því ekki verið hjá því komist að telja að kærandi hafi með hátterni sínu brotið gegn annars vegar a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki umrætt fé til hliðar og hins vegar d-lið sama ákvæðis með því að gera ráðstafanir sem hafi skaðað hagsmuni kröfuhafa.

Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem nutu frestunar greiðslna hjá umboðsmanni skuldara hafi verið sent bréf 27. nóvember 2012, þar sem brýndar voru skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 27. júní 2011 sem honum hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kæranda því mátt vel vera ljóst að hann skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hann hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum og að honum hafi einnig verið óheimilt að stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Í kæru sé tekið fram að umboðsmaður skuldara hafi ekki tekið mark á staðfestri yfirlýsingu móður kæranda um að hún hafi fjármagnað umrædd gjaldeyriskaup. Umboðsmaður skuldara tekur fram að í yfirlýsingu móður kæranda sé þess getið að hún hafi fjármagnað gjaldeyriskaup kæranda fyrir samtals 40.000 krónur, ásamt flugmiða fram og til baka frá Moskvu. Umboðsmaður skuldara telur að umrædd yfirlýsing skýri ekki gjaldeyriskaup kæranda fyrir samtals 1.915 evrur, eða því sem samsvarar 299.237 krónum miðað við sölugengi 23. ágúst 2012. Að mati umboðsmanns skuldara séu framlögð gögn kæranda jafnframt ófullnægjandi. Að öðru leyti telur umboðsmaður skuldara að engar nýjar upplýsingar hafi komið fram í kæru sem nauðsynlegt sé að taka afstöðu til.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til þeirra forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. má skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað er til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 23. maí 2013 að hann teldi að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda 8. maí 2014.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum í greiðsluskjóli með því að ráðstafa 299.237 krónum, sem leggja átti til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., til kaupa á gjaldeyri. Þá hafi kærandi með sömu háttsemi skaðað hagsmuni kröfuhafa samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í málinu liggur fyrir að kærandi keypti gjaldeyri fyrir 299.237 krónur og að eigin sögn ráðstafaði hann þeim fjármunum til kaupa á flugfari og hótelgistinu. Umræddir fjármunir hafi verið gjöf og vísar kærandi máli sínu til stuðnings til skriflegrar yfirlýsingar frá móður hans þar sem fram kemur að hún hafi gefið syni sínum 40.000 krónur í gjaldeyri auk fjármuna fyrir flugfarmiða frá Íslandi til Moskvu og til baka í ágúst 2012.

Að mati kærunefndarinnar verður að fallast á það mat umboðsmanns skuldara að fyrirliggjandi yfirlýsing móður kæranda sé ekki fullnægjandi sönnun þess að umræddir fjármunir hafi verið gjöf. Eingöngu sé hægt að byggja á viðhlítandi opinberum gögnum við mat á því hvort umræddir fjármunir hafi tilheyrt móður kæranda. Ekki hefur verið sýnt fram á það með gögnum með hvaða hætti gjaldeyriskaup kæranda að fjárhæð 299.237 voru fjármögnuð. Fyrirliggjandi yfirlýsing móður kæranda og eftirfarandi skýringar um að fjármunirnir hafi verið gjöf er að mati kærunefndarinnar ekki nægjanleg sönnun þar um.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta