Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 349/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 349/2023

Þriðjudaginn 12. september 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. júlí 2023, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 13. júlí 2023, um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 1. til 14. október 2022.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi þáði fæðingarorlofsgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði frá 1. til 14. október 2022. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 31. mars 2023, var athygli kæranda vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu úr sjóðnum í október 2022 og óskaði frekari gagna og skýringa frá honum. Engar skýringar bárust frá kæranda. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 13. júlí 2023, var kæranda tilkynnt, með vísan til 2. mgr. 41. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), að hann hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri samkvæmt framangreindum lögum og bæri honum því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 147.606 kr., auk 15% álags, samtals 169.747 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. júlí 2023. Með bréfi, dags. 24. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 10. ágúst 2023, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. ágúst 2023. Gögn bárust frá kæranda 15. ágúst 2023. Frekari gagnaöflun fór ekki fram.


 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að kæran varði fæðingarorlof á tímabilinu 1. til 14. október 2022. Þann 3. október 2022 hafi eiginkona kæranda sent Fæðingarorlofssjóði tölvupóst til þess að kanna hvort kærandi gæti fengið fæðingarorlof, á tímabilinu 5. til 12. október 2022, vegna bráðatilfellis. Eiginkona kæranda hafi ekki fengið svar svo hún hafi haft samband við Fæðingarorlofssjóð símleiðis. Þann 3. október 2022 klukkan 12:33 og 13:02 hafi hún talað við starfsmenn Fæðingarorlofssjóðs. Starfsmennirnir hafi tjáð henni að kærandi gæti samkvæmt reglum ekki sótt um fæðingarorlof fyrir eina viku en það hafði hún einnig lesið á heimasíðu sjóðsins. Kærandi þyrfti að taka fæðingarorlof í tvær vikur. Eftir dágóða stund hafi starfsmaður Fæðingarorlofssjóðs tjáð eiginkonu kæranda að hann ætti ekki að taka fæðingarorlof frá 5. til 12. október 2022 heldur frá 1. til 14. október 2022. Þau hafi því gert það. Eiginkona kæranda hafi útskýrt fyrir starfsmanninum að kærandi yrði í vinnu í viku á þessu tímabili, þar sem hann hefði þegar unnið í þrjá daga og ekki væri hægt að breyta því. Starfsmaður sjóðsins hafi þá tjáð henni að kærandi fengi greitt 50% fyrir hverja viku og saman yrði það 100%. Á þennan hátt yrði aðeins ein vika tekin af fæðingarorlofinu en ekki tvær. Þau hafi því farið eftir ráðum starfsmannsins og kærandi hafi sagt yfirmanni sínum frá þessari lausn. Yfirmaður kæranda hafi því næst skrifað undir leyfi hans til fæðingarorlofs frá vinnu. Eiginkona kæranda hafi hringt í Fæðingarorlofssjóð tvisvar til að ganga úr skugga um að skilningur hennar væri réttur. Hún hafi gefið upp upplýsingar um kæranda og starfsmaður stofnunarinnar hafi tjáð henni að þegar þau myndu senda inn umsókn, yrðu upplýsingarnar aðgengilegar í kerfi stofnunarinnar.

Kærandi telji að þau hafi verið blekkt af starfsmönnum Fæðingarorlofssjóðs. Kærandi voni að hægt sé að hlusta á símtöl þeirra til stofnunarinnar svo hægt sé að komast að því rétta í málinu. Kærandi vilji að 15% álag Fæðingarorlofssjóðs verði fellt niður ásamt því að hann verði ekki krafinn um endurgreiðslu á viku fæðingarorlofi sínu.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun sjóðsins um að endurkrefja kæranda um ofgreiðslu frá Fæðingarorlofssjóði fyrir október 2022. Kærandi hafi fengið of háar greiðslur frá vinnuveitanda sínum á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði með barni sem hafi fæðst 6. október 2022.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 31. mars 2023, hafi athygli kæranda verið vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir október 2022. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, útskýringum vinnuveitanda og útskýringum og andmælum kæranda, ásamt öðru því sem skýrt gæti málið.

Þar sem engin gögn, útskýringar, andmæli né ósk um lengri frest hafi borist frá kæranda hafi honum verið send greiðsluáskorun, dags. 13. júlí 2023, þar sem hann hafi verið krafinn um endurgreiðslu á hluta af útborgaðri fjárhæð ásamt 15% álagi. Litið hafi verið svo á að samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins og fyrirhugaðri töku fæðingarorlofs að kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði, samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 2. mgr. 41. gr. ffl.

Samkvæmt 3. gr. ffl. sé fæðingar- og foreldraorlof leyfi frá launuðum störfum sem stofnist til við fæðingu barns, frumættleiðingu barns sem sé yngra en átta ára og töku barns sem sé yngra en átta ára í varanlegt fóstur. Í 8. gr. sé fjallað um rétt foreldra til fæðingarorlofs og í 13. gr. sé fjallað um tilhögun fæðingarorlofs.

Í 1. mgr. 25. gr. ffl sé kveðið á um skerðingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Þar komi meðal annars fram í 1. og 2. málsl. að réttur foreldris sem sé starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3. til 5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi sé bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýti rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem myndi stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og séu hærri en sem nemi mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt sé fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá komi fram í 7. og 8. málsl. sömu greinar að heimilt sé að taka tillit til kjarasamningsbundinna launahækkana, annarra kjarasamningsbundinna greiðslna og launahækkana sem rekja megi til breytinga á störfum foreldris frá því að viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. ljúki og fram að fyrsta degi fæðingarorlofs foreldris. Taka skuli tillit til breytinga á framangreindu tímabili á sama hátt og gert sé við útreikninga á meðaltali heildarlauna foreldris samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr.

Með umsókn kæranda, dags. 19. júlí 2022, hafi hann sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 4,5 mánuði vegna barns sem hafi fæðst X.

Á viðmiðunartímabili kæranda samkvæmt 1. mgr. 23 gr. ffl., hafi viðmiðunarlaun hans verið 776.449 kr. sem miðað hafi verið við, við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu samkvæmt 1. mgr. 25. gr. ffl., enda hafi þau ekki tekið breytingum til hækkunar fram að fyrsta degi fæðingarorlofs, sbr. 7.-8. málsl. þess ákvæðis.

Þann 4. október 2022 hafi borist tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs fyrir tímabilin 5. til 12. október 2022 og 4. september 2023 til 17. janúar 2024. Í framhaldinu hafi kæranda verið send greiðsluáætlun fyrir seinna tímabilið, dags. 6. október 2022. Þann sama dag hafi kæranda verið sent bréf þar sem honum hafi verið leiðbeint um að ekki væri unnt að afgreiða hann um fyrra tímabilið þar sem ekki væri heimilt að taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Þann 6. október 2022 hafi borist leiðrétt tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs fyrir fyrra tímabilið sem þá hafi verið skráð frá 1. til 14. október 2022 ásamt óbreyttu seinna tímabili og hafi kærandi verið afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við hana, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 11. október 2022.

Tímabilið 1. Til 14. október 2022 hafi kærandi fengið greiddar 244.840 kr. úr Fæðingarorlofssjóði og hefði honum því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi numið mismuni á 334.520 kr. og fjárhæð greiðslna úr Fæðingarorlofssjóðs eða 89.680 kr. án þess að það kæmi til skerðingar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 25. gr. ffl.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir október 2022 hafi kærandi þegið 676.204 kr. í laun. Þar sem engin gögn eða útskýringar vegna launa í október 2022 hafi borist sé litið svo á kærandi hafi fengið 43% af þeim launum greidd vegna tímabilsins 1. Til 14. október 2022, þ.e. 317.816 kr. Hann hafi því fengið 228.136 kr. hærri greiðslu frá vinnuveitanda sínum en hann hafi mátt og beri því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði. Ofgreiðsla fyrir október 2022 sé því 147.606 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda.

Í 41. gr. ffl. Sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt ákvæðum laga þessara miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli niður álagið samkvæmt þessari málsgrein sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi ekki sýnt fram á með skriflegum gögnum að honum verði eigi kennt um þá annmarka er hafi leitt til ákvörðunar Vinnumálastofnunar en fyrir liggi af kæru að ofgreiðslan sé tilkomin vegna vinnu kæranda. Í samræmi við það sé ekki tilefni til að fella niður 15% álag á kæranda.

Í kæru haldi kærandi því fram að hann hafi fengið rangar upplýsingar í símtölum þann 3. október 2022 sem hafi leitt til ofgreiðslunnar. Af gögnum málsins verði ekki séð að kæranda hafi verið veittar rangar upplýsingar sem hafi leitt til ofgreiðslunnar. Fyrir liggi að degi síðar, eða þann 4. október, hafi kærandi skilað tilkynningu um tilhögun fæðingarorlofs fyrir tímabilið 5. til 12. október 2022 en ekki tímabilið 1. til 14. október 2022 eins og fullyrt sé að kæranda hafi verið leiðbeint um að gera í síma. Kærandi hafi fengið sent bréf þann 6. október þar sem honum hafi verið leiðbeint um að hann gæti ekki tekið fæðingarorlof í eina viku þar sem ekki væri heimilt að taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn. Í kjölfarið hafi borist leiðrétt tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs þann sama dag frá kæranda þar sem hann óski eftir að taka fæðingarorlof tímabilið 1. til 14. október 2022 sem hann hafi verið afgreiddur með, sbr. greiðsluáætlun til hans, dags. 11. október 2022. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda vegna greiðsluáætlunarinnar.

Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður því ofgreitt kæranda 147.606 kr. að viðbættu 15% álagi, 22.141 kr. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði 169.747 kr., sbr. greiðsluáskorun til hans ásamt sundurliðun á ofgreiðslu, dags. 13. júlí 2023.

Loks þyki rétt að árétta þær upplýsingar sem komi fram í greiðsluáskorun til kæranda, dags. 13. júlí 2023, að í kjölfar endurgreiðslu á ofgreiddu fæðingarorlofi sé Fæðingarorlofssjóði heimilt að endurúthluta að nýju þeim dögum sem hafi verið endurgreiddir, sbr. 1. mgr. 42. gr. ffl, hafi réttur til töku fæðingarorlofs ekki fallið niður.


 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði fyrir október 2022.

Kærandi byggir á því að hún hafi fengið rangar leiðbeiningar frá Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Ljóst er að í kjölfar tilkynningar kæranda, dags. 4. október 2022, um fæðingarorlof sendi Fæðingarorlofssjóður kæranda bréf, dags. 6. október 2022, þar sem honum var leiðbeint um að óheimilt væri að taka fæðingarorlof í skemmri tíma en tvær vikur. Samdægurs barst leiðrétt tilkynning frá kæranda um tilhögun fæðingarorlofs og var sú tilkynning afgreidd með greiðsluáætlun, dags. 11. október 2022. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda og engar upplýsingar liggja fyrir um að leiðbeiningar til kæranda hafi verið rangar. Þess ber að geta að símtöl til Fæðingarorlofssjóðs eru ekki tekin upp. Ekki verður því fallist á að leiðbeiningar til kæranda hafi verið rangar eða ófullnægjandi.

Samkvæmt 1.-4. málsl. 25. gr. ffl. er réttur foreldris sem er starfsmaður og/eða sjálfstætt starfandi, sbr. 3. til 5. tölul. 4. gr., til greiðslna í fæðingarorlofi bundinn því að foreldri uppfylli skilyrði um rétt til fæðingarorlofs samkvæmt III. og IV. kafla og leggi niður launuð störf á því tímabili sem það nýtir rétt sinn til fæðingarorlofs. Greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem mynda stofn til tryggingagjalds samkvæmt lögum um tryggingagjald og eru hærri en sem nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 24. gr. og meðaltals heildarlauna á viðmiðunartímabili samkvæmt 1. til 3. mgr. 23. gr. í réttu hlutfalli við tilhögun fæðingarorlofs foreldris í þeim almanaksmánuði eða hluta úr almanaksmánuði sem greitt er fyrir, sbr. 4. mgr. 24. gr. og 13. gr., skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skulu greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi í hverjum almanaksmánuði koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 41. gr. ffl. er kveðið á um leiðréttingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 2. mgr. að hafi foreldri fengið hærri greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því bar samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum ber foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 4,5 mánuði þann 19. júlí 2022 vegna barns síns sem fæddist X. Tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs barst Fæðingarorlofssjóði 4. október 2022 fyrir tímabilin 5. til 12. október 2022 og 4. september 2023 til 17. janúar 2024. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dagsettu sama dag, var kæranda leiðbeint um að ekki væri heimilt að taka fæðingarorlof skemur en hálfan mánuð í senn, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. Þann 6. október 2022 barst leiðrétt tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs fyrir fyrra tímabilið sem þá hafi verið skráð frá 1. til 14. október 2022. Kærandi var afgreiddur í fæðingarorlof í samræmi við hana. Í greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 11. október 2022, kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili fæðingarorlofs, frá apríl 2021 til og með mars 2022, hafi verið 711.745 kr. og áætluð greiðslufjárhæð miðað við 80% af meðaltali heildarlauna væri 569.396 kr. Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins fyrir október 2022 þáði kærandi 676.204 í laun. Fyrir tímabilið 1. til 14. október 2022 fékk kærandi greiddar 244.840 kr. úr Fæðingarorlofssjóði. Á þeim tíma var kæranda einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismun meðaltals heildarlauna hans og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði, án þess að greiðslur vinnuveitanda til hans kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 31. mars 2023, var athygli kæranda vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hans vegna hugsanlegrar ofgreiðslu úr sjóðnum í október 2022 og óskað frekari gagna og skýringa frá honum. Engar skýringar bárust frá kæranda. Kæranda var því send greiðsluáskorun með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs, dags. 13. júlí 2023, þar sem hann var krafinn um endurgreiðslu ofgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna október 2022. Þar kemur fram að  á tímabilinu 1. til 14. október 2022 hafi kærandi fengið greiddar 228.136 kr. umfram þá fjárhæð sem honum var heimilt. Því bæri honum að endurgreiða 147.606 kr. fyrir tímabilið. Samkvæmt bréfi Fæðingarorlofssjóðs hafi kæranda einnig borið að endurgreiða fjárhæðina að viðbættu 15% álagi, alls 169.747 kr.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er ljóst samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að kærandi fékk ofgreiddar 147.606 kr. fyrir tímabilið 1. til 14. október 2022. Að viðbættu 15% álagi, 22.141 kr., nemur fjárhæð endurgreiðslukröfu á hendur kæranda samtals 169.747 kr. Ákvæði 41. gr. ffl. er fortakslaust að því er varðar skyldu til að endurgreiða ofgreiddar bætur að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysis foreldris. Því verður ekki fallist á kröfu kæranda um að endurgreiðslukrafan verði felld niður. Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 41. gr. laganna skal fella niður álagið samkvæmt þessari málsgrein sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar, en slík gögn hafa ekki verið lögð fram. Því er ekki fallist á kröfu kæranda um niðurfellingu álagsins.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 13. júlí 2023, um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiðslu úr sjóðnum fyrir tímabilið 1. til 14. október 2022 að fjárhæð 169.747 kr. því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 13. júlí 2023, um að krefja A, um endurgreiðslu á ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði fyrir október 2022 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta