Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 41/2012

Fimmtudaginn 23. janúar 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 20. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 16. febrúar 2012 þar sem umsókn þeirra um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var felld niður.

Með bréfi 22. febrúar 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 25. apríl 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 3. maí 2012 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi 10. maí 2012.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru 64 og 66 ára og búa í eigin 229,4 fermetra íbúð að C götu nr. 4 í sveitarfélaginu D. A er öryrki og hefur 141.599 krónur í mánaðarlegar ráðstöfunartekjur. B er atvinnulaus og fær mánaðarlega til ráðstöfunar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 86.019 krónur. Samtals nema mánaðarlegar ráðstöfunartekjur þeirra 227.618 krónum.

Að sögn kærenda hafa veikindi átt stóran þátt í greiðsluvanda þeirra. Auk örorku A hafi B átt við veikindi að stríða síðan á árinu 2009 en hvoru tveggja hafi haft áhrif á möguleika þeirra til tekjuöflunar. Einnig telji kærendur að rekja megi fjárhagserfiðleika þeirra til rekstrar X ehf. en B hafi rekið félagið ásamt bróður sínum. Upp úr árinu 2000 hafi reksturinn orðið mjög erfiður. Einnig hafi heilsa beggja bræðranna versnað. Eftir efnahagshrunið 2008 hafi verkefnum enn fækkað og þá hafi tekjur B lækkað.

Samkvæmt gögnum málsins eru heildarskuldir kærenda 66.354.796 krónur og falla þær allar innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Skuldirnar sundurliðist þannig:

Kröfuhafi Tegund Ár Vanskil frá Staða 2011 kr.
Landsbankinn Skuldabréf 2003 1.11.2010 2.891.463
Lífeyrissj. verzlunarmanna Veðskuldabréf 2004 6.12.2010 5.333.609
Arion banki Veðskuldabréf 2004 1.4.2009 17.663.067
Landsbankinn Veðskuldabréf 2005 1.11.2010 5.723.399
Arion banki Veðskuldabréf 2005 1.4.2009 8.202.433
SP fjármögnun Bílasamningur 2006 1.10.2010 1.031.052
Frjálsi fjárfestingarbankinn Veðskuldabréf 2007 15.11.2010 16.964.742
Arion banki Veðskuldabréf 2008 1.8.2009 6.211.276
Arion banki Kreditkort 2.5.2010 177.374
Arion banki Yfirdráttur 1.11.2010 352.238
Kreditkort Veltukort 2.12.2010 57.156
Kreditkort Veltukort 2.12.2010 263.309
Byr Yfirdráttur 5.11.2010 975.293
Byr Yfirdráttur 3.11.2010 429.635
Sveitarfélagið D Fasteignagjöld 1.1.2011 78.750
  Samtals: 66.354.796

Samkvæmt yfirliti frá umboðsmanni skuldara er heildarfjárhæð ábyrgðarskuldbindinga sem kærendur hafa tekist á hendur 43.047.198 krónur.

Samkvæmt eignayfirliti umboðsmanns skuldara nema eignir kærenda 53.170.026 krónum en þar af er fasteign kærenda að fjárhæð 52.250.000 krónur.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 10. nóvember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. ágúst 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Var þeim skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Með bréfi umsjónarmanns 11. nóvember 2011 tilkynnti hann umboðsmanni skuldara að 27. október 2010 hefði kærandi B tekið 6.800.000 krónur út af bankareikningi sínum hjá Byr. Hafi þetta verið fjórtán dögum áður en kærendur leituðu greiðsluaðlögunar. Með úttektinni hefði myndast yfirdráttarskuld að fjárhæð 797.922 krónur. Taldi umsjónarmaður að háttsemi kæranda B kynni að varða við ákvæði 6. gr. lge. þar sem úttektin hefði verið gerð á þeim tíma sem kærandi hafi verið ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar en einnig kynni ráðstöfunin að vera riftanleg á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. febrúar 2012 var heimild kærenda til greiðsluaðlögunar felld niður. Byggði sú ákvörðun á því að óhæfilegt þætti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. b- og e-liða 2. mgr. 6. gr. og c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Þótt kærendur hafi sótt um greiðsluaðlögun sem hjón telja þau sig engu að síður eiga rétt til þess að mál þeirra verði afgreitt hvort í sínu lagi. Þar sem athugasemdir umboðsmanns skuldara snúi eingöngu að kæranda B eigi niðurstaða í máli hans ekki að hafa áhrif á mál kæranda A.

Kærendur telji sig hvorki hafa selt eignir, þ.e. bátinn E, gegn ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 né hafa gerst brotleg við ákvæði lge. Hafi þau reynt að koma eignum í verð til að hámarka verðmæti þeirra fyrir kröfuhafa. Samkvæmt viðkomandi lánsskjölum sé ljóst að Íslandsbanki hafi átt veð í bátnum. Bankinn hefði því hvenær sem er getað gripið til aðgerða sem leitt hefðu til vörslusviptingar bátsins. Hefði það orðið til þess að kaupandi bátsins hefði orðið fyrir miklu tjóni og kærandi B hefði gerst brotlegur við ákvæði almennra hegningarlaga. Hefði greiðsluaðlögun verið samþykkt hefði kærandi hvort eð er þurft að skila bátnum.

Kærandi B mótmæli því að hafa gripið til ráðstöfunar sem sé riftanleg samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Umrædd ráðstöfun hafi verið vegna veðskulda en þær njóti forgangs þegar til gjaldþrots komi. Því sé ekki rétt að kærandi B hafi gert eitthvað sem hafi valdið því að hallað hafi á aðra kröfuhafa en þann sem veðkröfu átti í bátnum. Því sé ekki heldur um undanskot eigna að ræða.

Úttekt kæranda B af bankareikningi sínum hjá Byr 27. október 2010 að fjárhæð 6.800.000 krónur hafi verið vegna sölu á bátnum E. Báturinn hafi verið seldur 5. júlí 2010. Samkvæmt samkomulagi milli kæranda B og kaupanda bátsins hafi kærandi átt að aflétta veðskuldum af bátnum samhliða greiðslum frá kaupandanum. Kærandi B hafi þurft að standa við samkomulag þetta enda hafi það verið gert nokkrum mánuðum áður en kærendur óskuðu greiðsluaðlögunar.

Kærandi B hafi verið með sömu yfirdráttarheimild hjá Byr í fimm ár en yfirdrátturinn hafi verið endurnýjaður á sex til tólf mánaða fresti. Í síðasta skipti sem yfirdráttarheimildin hafi verið endurnýjuð hafi ekki verið ljóst hver staða kæranda B hafi verið. Ekki verði sagt að kærandinn hafi stofnað til yfirdráttarins á þeim tíma er hann hafi tekið peninga út af reikningi sínum. Yfirdráttarheimildin hafi verið fyrir hendi og þeir peningar sem greiddir hafi verið fyrir bátinn hafi verið lagðir inn á þann reikning sem var með yfirdráttarheimildina.

Með vísan til þess að kærandi B hafi verið að lækka veðskuldir sínar og standa við gert samkomulag frá því í júlí 2010 verði ekki fallist á rök umsjónarmanns fyrir því að umsókn kærenda um greiðsluaðlögun verði felld niður. Kærandi hafi ekki hagnast á sölu bátsins. Hann hafi sýnt ráðdeild og lækkað skuldir sínar enda hafi ekki verið ljóst á þessum tíma að hann myndi óska greiðsluaðlögunar.

Kærendur séu fullorðin og hafi enga möguleika á að standa undir núverandi skuldbindingum. Verði umsókn þeirra felld niður sé ljóst að það hefði alvarlegar afleiðingar fyrir þau.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar segir að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. Ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laga skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Þar segi jafnframt að við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort þær aðstæður sem tilgreindar séu í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi. Umboðsmaður skuldara rökstyðji synjun á umsókn kærenda með vísan til þeirra aðstæðna sem tilgreindar séu í b- og e-liðum 2. mgr. 6. gr. og c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef stofnað hefur verið til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Ljóst sé að í kaupsamningi vegna sölu á bátnum E hafi meðal annars verið kveðið á um skyldu seljanda til að aflétta öllum veðskuldum af bátnum samhliða greiðslu kaupverðs. Þó sé ekki kveðið á um fjárhæð kaupverðs, hvorki í kaupsamningi né í þinglýstu afsali sem einnig sé dagsett 5. júlí 2010 og þinglýst 6. júlí 2010. Kærandi B hafi ekki gefið út kvittun fyrir kaupverðinu fyrr en 15. nóvember 2010. Aflýsing veðskulda að fjárhæð 8.918.262 krónur hafi ekki átt sér stað fyrr en 10. desember 2010 samkvæmt kvittun fyrir viðskiptunum hjá Íslandsbanka. Af kvittuninni sé ljóst að B hafi greitt 8.900.000 krónur í reiðufé. Hafi kærandi B borið fyrir sig að þar sem um erlent lán hafi verið að ræða og endurútreikningur hafi ekki legið fyrir fyrr en á haustdögum 2010 hafi honum ekki verið unnt að greiða skuldina fyrr en þá. Umsjónarmaður hafi talið þessa háttsemi kæranda B varða við ákvæði 6. gr. lge., einkum b- og e-liða 2. mgr.

Fyrir liggi að kærandi B hafi tekið út 6.800.000 krónur af bankareikningi sínum hjá Byr 27. október 2010 eða 14 dögum áður en kærendur lögðu sameiginlega fram umsókn um greiðsluaðlögun. Leggja verði til grundvallar að kærendur hafi á þeim tíma verið ógjaldfær, þ.e. skort getu til að greiða skuldir og vanskil gagnvart öðrum kröfuhöfum sínum um fyrirsjáanlega framtíð.

Ljóst sé að úttekt umfram innstæðu á nefndum bankareikningi hafi myndað yfirdráttarskuld að fjárhæð 797.922 krónur sem nú sé að fjárhæð 975.239 krónur. Enn fremur hafi kærandi B þurft að standa skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 1.015.936 krónur vegna sölunnar en skatturinn hafi verið innifalinn í kaupverðinu. Hafi kærandi Bgreitt skattinn 7. febrúar 2011. Heildarfjárútlát kæranda B vegna sölu bátsins séu því áætluð um 9.934.198 krónur. Ekki verði fallist á þau rök kærenda að þar sem einvörðungu hafi verið um að ræða nýtingu á gildri yfirdráttarheimild teljist umrædd ráðstöfun ekki stofnun nýrrar skuldar.

Kærendur hafi haldið því fram að þau hafi selt bátinn til að létta greiðslubyrði sína í kjölfar hækkunar á afborgunum áhvílandi lána. Óskað hafi verið eftir því að kærendur legðu fram haldbær gögn sem sýndu fram á raunhækkun afborgana en það hafi þau ekki gert. Umsækjendur hafi því ekki lagt fram viðunandi rök fyrir því að umrædd ráðstöfun hafi verið gerð í því skyni að létta mánaðarlega greiðslubyrði heimilisins.

Samkvæmt því sem fram hafi komið um tímamark greiðslna vegna sölu á bátnum E hafi kæranda B hlotið að vera ljóst að með því að efna samkomulag um aflýsingu veðskulda vegna bátsins og nýta til þess yfirdráttarheimild sína í aðdraganda umsóknar um greiðsluaðlögun, hafi hann stofnað til nýrrar skuldar á þeim tíma er kærendur hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar, sbr. ákvæði laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Samkvæmt 1. mgr. 139. gr. þeirra laga megi krefjast riftunar á greiðslu skuldar ef greitt var eftir frestdag nema reglur XVII. kafla hefðu leitt til að skuldin hefði greiðst við gjaldþrotaskipti, nauðsynlegt hafi verið að greiða til að komast hjá tjóni eða sá sem greiðslu hafi notið hafi hvorki vitað né mátt vita að komið hafi fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti. Miða beri við að við beitingu e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun við frestdag í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

Af gögnum málsins liggi fyrir að kærandi B hafi tekið á móti kaupverði bátsins 6. ágúst 2010.

Í kjölfar áðurnefndrar úttektar af bankareikningi sínum hafi kærandi B greitt upp allar áhvílandi veðskuldir vegna bátsins 10. desember 2010, alls 8.918.262 krónur. Leggja verði til grundvallar að greiðsla þessi inn á áhvílandi veðskuldir bátsins teljist uppgjör skuldar í nafni B en hafa beri í huga að samkomulag um sölu bátsins hafi ekki falið í sér skuldaraskipti gagnvart veðhafanum, Íslandsbanka.

Það sé niðurstaða umboðsmanns skuldara eftir athugun á eðli samkomulags um sölu bátsins að undantekningarákvæði 1. mgr. 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 eigi ekki við í málinu. Ekki sé unnt að slá því föstu að nefndar veðkröfur hefðu verið greiddar að fullu við gjaldþrot með fyrirliggjandi hætti en kærendur hafi einvörðungu vísað til þess að umrædd krafa hefði talist forgangskrafa. Ekki verði talið að greiðsla skuldarinnar og efndir samningsins samkvæmt efni sínu hafi verið nauðsynleg til að forða kærendum frá tjóni. Til að mynda hafi mátt forða tjóni gagnvart kaupanda bátsins með riftun kaupsamningsins í samráði við embætti umboðsmanns skuldara með fullri endurgreiðslu þess fjár sem kaupandi hafði þegar greitt og með fyrirvara um greiðslu vangildis- og/eða skaðabóta.

Enn fremur sé unnt að slá því föstu að Íslandsbanki hafi sem kröfuhafi verið grandsamur um að umræddar veðskuldir kæranda B hafi fallið innan greiðsluskjóls, sbr. 1. mgr. 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og hafi því verið óheimilt lögum samkvæmt að taka á móti nefndri greiðslu samkvæmt a-lið 1. mgr. 11. gr. lge. Samþykki umboðsmanns skuldara fyrir ráðstöfun þessari hafi ekki legið fyrir.

Verði því talið að uppgjör veðskulda sem hvílt hafi á bátnum 10. desember 2010 að fjárhæð 8.918.262 krónur teljist greiðsla skuldar sem væri riftanleg samkvæmt 1. mgr. 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. einnig e-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Um c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur hafi haldið því fram að rekja megi skýringar á þeim drætti er varð á aflýsingu veðkrafna til þess að kærendur hafi beðið endurútreiknings veðlána sem ekki hafi verið lokið fyrr en síðla hausts 2010 í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010. Því hafi kæranda B verið rétt og skylt að aflétta veðlánum af bátnum í samræmi við þinglýst afsal frá 6. júlí 2010, þrátt fyrir að krafan félli innan greiðsluskjóls og frestun greiðslna því hafin samkvæmt 11. gr. lge.

Í 12. gr. lge. komi fram skyldur umsækjenda á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar megi umsækjandi ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla. Slík ráðstöfun geti aftur á móti verið heimil með ákveðnum skilyrðum að fengnu samþykki umboðsmanns skuldara samkvæmt 8. mgr. II. ákvæðis lge. til bráðabirgða. Þó sé það mat umboðsmanns skuldara að skyldur kæranda B samkvæmt samkomulagi um sölu bátsins geti ekki gengið framar skyldum hans samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þá hafi kærandinn B hvorki leitað aðstoðar né samþykkis umboðsmanns skuldara til að efna samkomulag um sölu á bátnum.

Samkvæmt framansögðu hafi kærandi B látið alls 9.934.198 krónur af hendi í tengslum við sölu á bátnum að meðtalinni greiðslu á virðisaukaskatti. Unnt sé að leiða líkur að því að þetta fé hefði getað gagnast öðrum lánardrottnum sem greiðsla. Verði því talið að fullnaðargreiðsla þeirra veðskulda sem hvílt hafi á bátnum og greiðsla virðisaukaskatts falli undir c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Hinn 11. nóvember 2011 hafi umboðsmanni skuldara borist bréf frá umsjónarmanni kærenda. Þar komi fram að 27. október 2010 hafi kærandi B tekið 6.800.000 krónur út af bankareikningi sínum hjá Byr. Af því hafi 6.500.000 krónur verið teknar út í reiðufé en 300.000 krónur verið lagðar inn á reikning Heilsárshúss ehf. en það félag sé í eigu kæranda B. Þegar úttektin hafi átt sér stað hafi reikningurinn verið með yfirdráttarheimild. Innistæða að fjárhæð 6.002.078 krónur hafi verið á reikningnum og hafi úttektin því myndað yfirdráttarskuld að fjárhæð 797.922 krónur sem nú standi í 975.239 krónum. Kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar 10. nóvember 2010 eða fjórtán dögum eftir þessa ráðstöfun.

Kærandi B hafi átt bátinn E en selt hann 5. júlí 2010 fyrir 5.000.000 króna að virðisaukaskatti meðtöldum. Ljóst sé að B hafi nýtt söluandvirði bátsins og hluta framangreindrar yfirdráttarheimildar til að greiða upp veðskuldir vegna bátsins alls að fjárhæð 8.918.262 krónur. Virðist höfuðtilgangur með stofnun nýrrar yfirdráttarskuldar við Byr hafa verið að fjármagna að hluta aflýsingu veðbanda í desember 2010.

Með bréfi 11. nóvember 2011 hafi umsjónarmaður kærenda tilkynnt umboðsmanni skuldara að hann mæltist til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Hafi umsjónarmaðurinn talið að háttsemi kærenda kynni að varða við b- og e-liði 2. mgr. 6. gr. lge. Með úttekt af reikningnum hafi kærendur stofnað til nýrrar skuldar á sama tíma og þau hafi greinilega verið ófær um að standa við aðrar fjárhagsskuldbindingar sínar. Einnig liggi fyrir grunur um að nefnd ráðstöfun kærenda hefði verið riftanleg við gjaldþrotaskipti en þegar einn köfuhafi fái greitt á kostnað annars sé slík ráðstöfun riftanleg samkvæmt ákvæðum XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Hinn 14. nóvember 2011 hafi umboðsmaður skuldara sent kærendum bréf þar sem þeim hafi verið gerð grein fyrir tilkynningu umsjónarmannsins samkvæmt 15. gr. lge. Hafi þeim verið gefinn einnar viku frestur til að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður. Umboðsmanni skuldara hafi borist bréf 22. nóvember 2011 þar sem athugasemdunum hafi verið mótmælt og gögn lögð fram máli kærenda til stuðnings.

Kærendur haldi því fram að úttekt kæranda B af umræddum bankareikningi hafi tengst sölu bátsins E sem seldur hafi verið 5. júlí 2010. Hafi afsal verið gefið út samdægurs en kaupverð hvorki tilgreint á kaupsamningi né afsali. Þó komi fram á skjölunum að kaupverð hafi verið að fullu greitt við afhendingu bátsins sem ráðgerð hafi verið 10. júlí 2010. Ráða megi af efni skjalanna að samningurinn hafi falið í sér fégreiðslu kaupanda til kæranda B að því gefnu að kærandi myndi aflétta öllum áhvílandi veðböndum af bátnum. Frestur kæranda til að aflétta veðskuldunum hefði verið til 1. september 2010 en afsalið hafi verið fært til þinglýsingar 6. júlí 2010.

Samkvæmt því sem fram komi í bréfi kærenda hafi samkomulag um sölu á bátnum verið gert fjórum mánuðum áður en kærendur hafi lagt fram umsókn sína um greiðsluaðlögun. Hafi kæranda B verið skylt að standa við umrætt samkomulag. Hann hafi tekið peninga út af bankareikningi sínum hjá Byr og þar með nýtt yfirdráttarheimild sína en þá heimild hafi hann haft í um fimm ár og hafi heimildin verið endurnýjuð á sex til tólf mánaða fresti. Heimildin hafi verið í gildi 27. október 2010 og hafi kaupverð bátsins verið lagt inn á reikninginn. Því hafi kærendur ekki stofnað til nýrra skulda á þeim tíma er þau hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Einnig mótmæli kærandi B því að hafa gripið til riftanlegra ráðstafana samkvæmt XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Um hafi verið að ræða ráðstöfun vegna veðskulda sem njóti stöðu forgangskrafna við gjaldþrotaskipti. Að því leyti hafi gerningurinn ekki falið í sér ráðstöfun sem hafi orðið til þess að hallað hafi á aðra kröfuhafa. Hefði salan á bátnum ekki átt sér stað lægi fyrir að Íslandsbanki hefði fyrr eða síðar gripið til vörslusviptingar gagnvart kærendum. Þá telji kærendur að dráttur á aflýsingu veðlána af bátnum hefði falið í sér mikið tjón fyrir kaupandann og um leið gert B brotlegan samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Enn fremur hefði greiðsluaðlögun kærenda falið í sér afhendingu bátsins til kröfuhafa og því hafi ekki verið um að ræða undanskot af þeirra hálfu.

Þegar litið sé heildstætt á fjárhag kærenda þyki ljóst að þegar ráðstöfun á bátnum E hafi farið fram hafi skuldastaða þeirra verið slæm og telja verði að þau hafi ráðstafað eign sem hefði komið til skipta við gjaldþrotaskipti, sbr. 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Sé það mat umboðsmanns skuldara að teknu sérstöku tilliti til b- og e-liða 2. mgr. 6. gr. og c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitana.

Telja verði að kærendur uppfylli ekki skilyrði laga um heimild til að leita greiðsluaðlögunar og fari umsjónarmaður fram á niðurfellingu greiðsluaðlögunar-umleitana samkvæmt 15. gr. lge. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge.

Loks skuli þess getið að kærendur hafi gert kröfu um að umsókn þeirra verði skipt í tvo hluta. Hafi þau lagt fram umsókn sína í sameiningu samkvæmt heimild í 3. mgr. 2. gr. lge. en krafa umsjónarmanns um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana byggi að mestu á háttsemi kæranda B. Þessari kröfu hafni umboðsmaður skuldara þar sem ekki sé til að dreifa heimild í lge. um skiptingu umsóknar með þeim hætti sem kærendur geri kröfu um. Á hinn bóginn sé kærendum heimilt að leggja fram nýja umsókn um greiðsluaðlögun í kjölfar niðurfellingar.

Fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að þau eigi rétt til að mál þeirra verði afgreidd hvort í sínu lagi þótt þau hafi sameiginlega sótt um greiðsluaðlögun sem hjón. Þau hafa ekki vísað til lagaheimildar sem þau byggja þennan meinta rétt á. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. er hjónum heimilt að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að heimildin sé ætluð þeim sem séu í einhverjum mæli ábyrgir fyrir skuldum hvers annars. Eigi hjón eða sambýlisfólk veðtryggða fasteign í óskiptri sameign er eðlilegt að þau leiti greiðsluaðlögunar í sameiningu enda úrræðið háð því að eigandi geti ekki greitt af áhvílandi veðskuldum. Séu auk þess horfur á að sameiginleg greiðsluaðlögun leiði til þess að málsmeðferð og framkvæmd greiðsluaðlögunarinnar megi einfalda með þessum hætti er slíkt heimilt. Kærendur leituðu greiðsluaðlögunar í sameiningu sem hjón og telur kærunefndin þau uppfylla skilyrði lagagreinarinnar til þess. Leyst verður úr máli þeirra í samræmi við það. Mál kæranda A kemur því ekki til úrlausnar óháð máli kæranda B nema hún leiti greiðsluaðlögunar sem einstaklingur.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að synjun um heimild til að leita greiðsluaðlögunar byggist á b- og e-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. og c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. skal tekið tillit til þess hvort skuldari hafi stofnað til skulda á þeim tíma sem hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt e-lið 2. mgr. 6. gr. gildir hið sama ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að með því að nýta yfirdráttarheimild á bankareikningi sínum hjá Byr 27. október 2010 hafi kærandi B stofnað til nýrrar skuldar á þeim tíma sem hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Í öðru lagi að með því að ráðstafa peningum sem hann fékk við sölu á bátnum E til uppgreiðslu áhvílandi veðskulda hafi hann gert ráðstöfun sem hefði verið riftanleg við gjaldþrotaskipti. Og í þriðja lagi á því að með sölu bátsins hafi kærandi B selt eign sem hefði getað gagnast lánardrottnum sem greiðsla.

Við mat á því hvort beita skuli b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna, eigna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er. Að því er varðar mál þetta er það einkum árið 2010 sem er til skoðunar. Samkvæmt gögnum málsins voru tekjur, eignir og skuldir kæranda eftirfarandi á árunum 2009 og 2010:

  2009 2010
Ráðstöfunartekjur á mánuði kr. 174.980 258.130
Skuldir alls kr. 74.421.061 68.445.682
Inneignir, verðbréf o.fl. kr. 2.915.720 373.177
Hlutir í félögum 755.000 500.000
Ökutæki kr. 2.332.800 2.099.520
Fasteign kr. 59.850.000 52.250.000
Eignir alls kr. 65.853.520 55.222.697
Nettóeignastaða kr. -8.567.541 -13.222.985

Í júlí 2010 seldi kærandi B bátinn E fyrir 5.000.000 króna. Kaupandinn lagði peningana inn á bankareikning kæranda B hjá Byr. Hinn 27. október 2010 var innstæða á reikningnum 6.002.078 krónur en þann dag tók kærandi B 6.800.000 krónur út af bankareikningnum. Þar með dró hann 797.922 krónur á ónýtta yfirdráttarheimild sína á fyrrnefndum bankareikningi. Peningana notaði hann til að greiða áhvílandi veðskuldir á bátnum sem samkvæmt fyrirliggjandi kvittun voru 8.918.262 krónur. Gögn málsins bera með sér að kærandi hafi síðar nýtt yfirdráttarheimildina enn frekar og var yfirdráttarskuldin orðin 980.004 krónur 5. nóvember 2010. Á þessum tíma voru ráðstöfunartekjur kærenda mjög lágar og skuldir þeirra meiri en eignir enda gátu kærendur ekki staðið í skilum með allar eldri skuldir sínar. Veðlán höfðu verið í vanskilum frá því í apríl og ágúst 2009 og kreditkort hafði verið í vanskilum frá maí 2010. Vanskil urðu svo á öðrum skuldum kærenda í nóvember og desember 2010.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. ágúst 2011 þar sem umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var samþykkt fengu þau sérstakt yfirlit yfir skyldur skuldara við greiðsluaðlögun. Segir þar meðal annars að á meðan greiðsluaðlögunar sé leitað sé skuldara óheimilt að láta af hendi eignir og verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla og óheimilt að stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Einnig segir að telji umsjónarmaður skuldara hafa brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður. Voru kærendur því að fullu upplýst um þær skyldur sem á þeim hvíldu á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.

Fram hefur komið að kærandi B hafi ekki litið á það sem skuldasöfnun að draga á ónýtta yfirdráttarheimild sína hjá Byr. Getur kærunefndin ekki fallist á það sjónarmið enda er yfirdráttarheimild sem slík ekki skuld heldur heimild til að stofna til skuldar á tilteknum bankareikningi með nánar tilgreindum skilyrðum. Það er ekki fyrr en dregið er á yfirdráttarheimildina sem skuld stofnast. Telur kærunefndin því að kærandi B hafi stofnað til nýrrar skuldar þegar hann dró á ónýtta yfirdráttarheimild sína 27. október 2010 og síðan áfram til 5. nóvember það ár.

Þegar litið er til þess sem rakið er hér að framan telur kærunefndin að kærandi B hafi verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingu sína, í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem hann stofnaði til með því að nota ónýtta yfirdráttarheimild á bankareikningi sínum hjá Byr í október og nóvember 2010.

Að öllu ofangreindu virtu telur kærunefndin að heimild A og B hafi réttilega verið felld niður með vísan til b-lið 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A og B til greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta