Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 49/2012

Fimmtudaginn 23. janúar 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. febrúar 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 31. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 5. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. apríl 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 26. apríl 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kærendum 3. október 2012.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru 45 og 50 ára. Þau eru gift og búa í eigin einbýlishúsi sem er 134,5 fermetrar. Kærandi B er þroskaþjálfi og starfar hjá V ehf. Mánaðarlega fær hún útborgaðar 290.319 krónur. Kærandi A er múrari og starfar hjá X ehf. Mánaðarlega fær hann 118.216 krónur útborgaðar. Samanlagðar framfærslutekjur kærenda eru því 408.535 krónur á mánuði að meðaltali.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra um áratug aftur í tímann. Dóttir þeirra hafi átt við veikindi að stríða og hafi þau þurft að taka á sig fjárhagsskuldbindingar vegna veikindanna. Veikindin hafi einnig orðið til þess að kærandi B hafi um tíma haft takmarkaðar aðstæður til að sinna starfi utan heimilis. Kærandi A hafi starfað við eigin rekstur en árið 2008 hafi vinna hjá honum farið minnkandi og erfitt hafi reynst að innheimta útistandandi kröfur. Samhliða því hafi tekjur kæranda A orðið óstöðugar sem aftur hafi leitt til þess að kærendur hafi lent í vanskilum með lán og skattaskuldbindingar. Á árunum 2009 og 2010 hafi kærandi A verið atvinnulaus að miklu leyti án þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 88.344.133 krónur og þar af falla 24.815.385 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað 2004 til 2007.

Kærendur lögðu fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 7. febrúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 31. janúar 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með tilliti til skattskulda, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að þeim verði veitt greiðsluaðlögun. Samþykki kærunefndin ekki að báðir kærendur uppfylli skilyrði greiðsluaðlögunar sé þess óskað að mál kæranda B einnar verði tekið til afgreiðslu. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi að því er varðar annan eða báða kærendur.

Kærendur telji ekki rétt að þeim sé báðum hafnað um greiðsluaðlögun vegna skattskuldar sem hvíli á kæranda A en ekki kæranda B. Einnig vilji þau taka fram að þar sem ekki hafi átt sér stað opinber rannsókn á skattskilum kæranda A sé ekki ljóst hvort háttsemi hans sé refsiverð. Slíkt mat sé ekki í höndum umboðsmanns skuldara.

Umboðsmanni skuldara beri að leiðbeina þeim sem leiti til hans á grundvelli stjórnsýslulaga. Hefði umboðsmaður því átt að gera kærendum grein fyrir því að kærandi B gæti ein sótt um greiðsluaðlögun enda ljóst að hún sem einstaklingur hefði getað fengið úrlausn sinna mála. Aðeins þannig geti kærendur endurskipulagt fjármál sín. Þess beri að geta að á þessum tíma hafi kærendur ekki notið liðsinnis lögmanns og því hafi það verið mun brýnna að umboðsmaður rækti leiðbeiningarskyldu gagnvart þeim.

Kærendur telji sig eiga rétt á greiðsluaðlögun og nefni því til stuðnings að Landsbankinn hafi samþykkt lækkun á húsnæðislánum þeirra í samræmi við svonefnda 110% leið. Muni það leiða til 15.000.000 króna lækkunar á skuldum þeirra. Einnig greini þau frá því að þau hafi náð samkomulagi við aðra kröfuhafa um greiðslufyrirkomulag sem lækkað gæti skuldir þeirra um 8.000.000 króna að fjórum árum liðnum.

Tekið sé fram að ⅔ hlutar skattskulda séu dráttarvextir, aðfarar- og uppboðsbeiðnir. Standi vilji kærenda til að semja um greiðslu þessara skulda til dæmis með því að greiða inn á þær og fá síðan eftirstöðvar á skuldabréfi til langs tíma. Þá nefni kærendur að afborganir af námslánum hefjist ekki fyrr en 2014–2015.

Kærendur kveðast vera að leita til skattalögfræðings vegna ósamræmis í fjárhæðum frá skattstjóra og áætlunum sem hafi ekki verið leiðréttar þrátt fyrir að gögn og skýrslur þess efnis hafi löngu verið lagðar fram hjá skattstjóra. Við þær leiðréttingar muni skattskuldir þeirra lækka talsvert.

Loks komi fram það sjónarmið kærenda að þar sem tímabil mikilla veikinda og atvinnuleysis sé að baki finnist þeim þau eigi rétt á greiðsluaðlögun og aðstoð við að semja um skuldir.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Í ákvæðinu sé það tekið fram að við mat á því skuli taka sérstakt tillit til atvika sem talin séu upp í stafliðum ákvæðisins. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lge. sé það tekið fram að aðstæðurnar sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. gr. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika er hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 sé refsivert ef skattskyldur maður afhendir ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nemi skuldir kærenda 88.344.133 krónum. Skuldir vegna virðisaukaskatts, þing- og sveitarsjóðsgjalda, staðgreiðslu tryggingagjalds, launatengdra gjalda og bifreiðagjalda nemi alls 41.235.204 krónum. Þessar skuldir séu 46,7% af heildarskuldum kærenda miðað við fyrirliggjandi skuldayfirlit. Verði að telja ljóst að fjárhagserfiðleikar kærenda séu að miklu leyti vegna atriða sem þau beri sjálf ábyrgð á með framgöngu sinni, þ.e. með vanskilum á greiðslum opinberra gjalda.

Skuldir vegna vangoldins virðisaukaskatts nemi 21.867.465 krónum eða um 25% af skuldum kærenda. Skattskuldir þessar stafi frá árunum 2005 til 2011. Séu skattskuldir frá árunum 2005 til 2009 byggðar á innsendum skýrslum til skattyfirvalda og nemi skuld vegna þeirra 20.822.325 krónum eða um 24% af skuldum kærenda. Skattskuldir frá árunum 2010 og 2011 séu byggðar á áætlun skattyfirvalda og nemi skuld vegna þeirra 1.045.140 krónum.

Eignir kærenda séu að verðmæti 29.323.206 krónur og skuldir þeirra séu 88.344.133 krónur. Því sé eignastaða þeirra neikvæð um 59.020.927 krónur. Ekki verði ráðið af gögnum málsins að eignir kærenda séu slíkar að hinn ógreiddi virðisaukaskattur sé smávægilegur með hliðsjón af þeim.

Með tilliti til þessa sé það mat umboðsmanns skuldara að skuldir kærenda sem rekja megi til þeirrar háttsemi sem tilgreind sé í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu ekki smávægilegar miðað við fjárhag kærenda.

Kærendur greini frá því að þau muni fá 15.000.000 króna niðurfellingu veðskulda samkvæmt svokallaðri 110% leið. Þá kveðast kærendur hafa náð samkomulagi við Landsbanka og Íslandsbanka sem leitt geti til lækkunar skulda þeirra. Loks taki kærendur fram að afborganir af námslánum kæranda B hefjist árin 2014 til 2015. Telji umboðsmaður skuldara að þessi atriði hafi ekki slík áhrif á fjárhag kærenda að það breyti niðurstöðu málsins.

Að teknu tilliti til gagna málsins og með hliðsjón af framangreindu sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að kærandi A hafi bakað sér skuldbindingu svo einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Þyki því af þessum sökum óhæfilegt að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart þeim þar sem kæranda B hafi ekki verið leiðbeint um að hún gæti sótt um greiðsluaðlögun sem einstaklingur. Af gögnum málsins má ráða að skuldir kæranda B nemi alls 15.848.107 krónum. Af þeim falla 12.900.187 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. lge. Af þeirri fjárhæð eru 10.677.567 krónur tryggðar með veði í fasteign kæranda A en 2.222.620 krónur eru lausaskuldir kæranda B. Miðað við tekjur og framfærslukostnað kæranda B telur kærunefndin verulegan vafa leika á því að hún uppfylli skilyrði fyrir því að leita greiðsluaðlögunar. Almennt verður að telja að umboðsmanni skuldara beri að veita leiðbeiningar sem nauðsynlegar eru til að mál fái rétta meðferð. Í máli þessu er ekki um slíkan annmarka að ræða að hann sé verulegur þannig að leiði til ógildingar ákvörðunar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar, en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Þær skuldbindingar sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi er vangoldinn virðisaukaskattur að fjárhæð 21.867.465 krónur frá árunum 2005 til 2011. Þar af byggist skuld að fjárhæð 16.803.225 krónur á innsendum skýrslum til skattyfirvalda og skuld að fjárhæð 4.019.100 krónur á skattsektum skattrannsóknarstjóra frá 2009. Samanlögð fjárhæð þessara skulda er 20.822.325 krónur. Skuld að fjárhæð 1.045.140 krónur byggist á áætlun skattyfirvalda.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu en fyrir liggur að kærandi A hefur hlotið skattsekt vegna vanskila sinna eins og framan greinir. Frá þessu eru ekki undanþágur líkt og kærendur virðast gera ráð fyrir. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda A sem virðisaukaskattskyldan aðila.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Ljóst er að með því að láta hjá líða að skila virðisaukaskatti hefur kærandi A bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um liðlega 59.000.000 króna þegar tekið hefur verið tillit til lækkunar húsnæðisláns. Skuld sem stofnast hefur vegna framangreindrar háttsemi kæranda A er ógreiddur virðisaukaskattur, sem byggir á skattsekt og gögnum frá kæranda A sjálfum, og nemur alls 20.822.325 krónum en það verður að telja afar háa fjárhæð. Skuld þessi er 23,5% af heildarskuldum kærenda. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi A hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta, en skuldin var vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari sem bakað hafði sér skuldbindingu sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir, sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti, falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kærenda þannig að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærendur óska þess að mál kæranda B verði tekið til afgreiðslu sérstaklega fallist kærunefndin ekki á sameiginlega beiðni þeirra. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. er hjónum eða fólki í óvígðri sambúð heimilt að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að heimildin sé ætluð þeim sem séu í einhverjum mæli ábyrgir fyrir skuldum hvers annars. Eigi hjón eða sambýlisfólk veðtryggða fasteign í óskiptri sameign er eðlilegt að þau leiti greiðsluaðlögunar í sameiningu enda úrræðið háð því að eigandi geti ekki greitt af áhvílandi veðskuldum. Séu auk þess horfur á að sameiginleg greiðsluaðlögun leiði til þess að málsmeðferð og framkvæmd greiðsluaðlögunarinnar megi einfalda með þessum hætti er slíkt heimilt. Kærendur leituðu greiðsluaðlögunar í sameiningu á grundvelli 3. mgr. 2. gr. lge. og telur kærunefndin þau uppfylla skilyrði lagagreinarinnar til þess. Leyst verður úr máli þeirra í samræmi við það. Mál kæranda B kemur því ekki til úrlausnar óháð máli kæranda A nema hún leiti greiðsluaðlögunar sem einstaklingur.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta