Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 195/2012

Fimmtudaginn 23. janúar 2014

 

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Kristrún Heimisdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 22. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. október 2012 þar sem umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi 22. október 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 27. nóvember 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 27. nóvember 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Þann 15. maí 2013 bárust athugasemdir frá kæranda sem voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 16. maí 2013.

 

I. Málsatvik

Kærandi er 54 ára, einhleyp og býr ásamt dóttur sinni í leiguhúsnæði að B götu nr. 3, sveitarfélaginu C. Hún er rekstrarfræðingur að mennt og starfar hjá U ehf. í 50% starfi og fær greiddar 50% atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Kærandi starfaði áður hjá eigin fyrirtæki, X og V ehf. en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2009. Mánaðarlegar nettótekjur kæranda eru 198.445 krónur, þar af eru barnabætur 1.673 krónur, meðlag 23.411 krónur og húsaleigubætur 30.000 krónur.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til rekstrar á byggingafyrirtæki sem ekki hafi gengið eins og vonir stóðu til og til skilnaðar á árinu 2011. Fyrirtækið stofnaði kærandi ásamt þáverandi eiginmanni sínum. Að sögn kæranda voru laun hennar hjá fyrirtækinu lág og hafi allur hagnaður af rekstri félagsins verið notaður til að stækka það og styrkja. Rekstur félagsins hafi gengið vel framan af en við fall íslensku krónunnar árið 2008 hafi farið að halla undan fæti. Félagið og fyrrverandi eiginmaður hennar urðu gjaldþrota árið 2009.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara nema 4.230.246 krónum. Þar af fellur 1.484.296 króna námslán utan samnings. Ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru samtals 3.333.116 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2011.

Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun 26. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. október 2012 var umsókn hennar hafnað með vísan til f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði endurskoðuð með tilliti til breyttra og erfiðra aðstæðna. Kærandi bendir á að hún hafi upphaflega óskað aðstoðar Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og síðan embættis umboðsmanns skuldara. Að sögn kæranda hafi hvorug stofnunin getað aðstoðað hana við að halda heimili hennar sem Glitni banka hafi svo tekist að hafa af henni. Kærandi hafi verið í greiðsluerfiðleikaferli frá árinu 2009 án þess að fá nokkra hjálp. Hún hafi misst heilsuna og sé nú orðin öryrki og einstæð móðir á erfiðum leigumarkaði.

Kærandi vekur athygli á því að hún muni fá endurhæfingarlífeyri frá og með desember 2012 en tekjur hennar muni lítið hækka við það.

Varðandi virðisaukaskattskuld X og V ehf. kveðst kærandi vera í „pattstöðu“ þar sem þrotabú félagins sé í höndum skiptastjóra sem sé með öll bókhaldsgögn félagsins. Höfuðstóll virðisaukaskattskuldar frá árinu 2009 sé 569.557 krónur án vaxtakostnaðar, en það telji kærandi ekki óhóflega skuldasöfnun á krepputímum. Félagið hafi verið lýst gjaldþrota að kröfu Íslandsbanka. Félagið hafi á þeim tíma haft verkefni á dagskrá og hefði að mati kæranda getað greitt skuldir sínar. Kærandi hafi ítrekað reynt að fá skiptastjóra til að svara spurningum ríkisskattstjóra varðandi búið. Jafnframt hafi hún óskað þess að skipaður yrði nýr skiptastjóri en því hafi verið hafnað.

Varðandi skattskuld kæranda frá árunum 2005 til 2006 samtals að fjárhæð 807.455 krónur vísi kærandi til þess að ríkisskattstjóri hafi tekið af henni bætur, svo sem vaxtabætur, sem nægi til greiðslu á höfuðstól skattskuldarinnar en vextir verði felldir niður.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni einkum að kanna hvort fyrir liggi þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. greinarinnar komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Þar segi jafnframt að við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til þess hvort aðstæður þær sem tilgreindar séu í stafliðum ákvæðisins séu fyrir hendi.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast var unnt. Þá komi fram í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að ósanngjarnt sé að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Helstu skuldir kæranda séu vegna vanskila á þing- og sveitarsjóðsgjöldum, auk staðgreiðslu tryggingagjalds, samtals að fjárhæð 2.293.159 krónur, að vöxtum meðtöldum. Um sé að ræða 54% af heildarskuldbindingum kæranda.

Stærstur hluti skattskulda kæranda sé tilkominn vegna vangreidds tekjuskatts af launatekjum hennar og fyrrum eiginmanns hjá félaginu X ehf. samkvæmt tilkynningu skattstjórans í Y-umdæmi 23. október 2007. Skuldin byggist á álagningu og teljist því óumdeild. Elstu vanskil kæranda vegna opinberra gjalda séu rakin til tekjuársins 2005 að fjárhæð 364.292 krónur, og til tekjuársins 2006 að fjárhæð 1.822.465 krónur. Á þeim tíma er vanskilin hafi átt sér stað hafði kærandi stöðu varaskoðunarmanns hjá X ehf.

Samkvæmt skattframtali 2006 fyrir tekjuárið 2005 var meðaltal mánaðarlegra ráðstöfunartekna kæranda og þáverandi eiginmanns hennar samtals 1.715.319 krónur. Eignir voru samtals að fjárhæð 40.188.073 krónur og skuldir 26.616.475 krónur. Eignastaða hjúskapareigna kæranda teljist því hafa verið jákvæð um 6.785.799 krónur. Mánaðarleg greiðslugeta sé áætluð 1.543.979 krónur þegar gert hafi verið ráð fyrir framfærslukostnaði samkvæmt bráðabirgðaneysluviðmiði umboðsmanns skuldara og öðrum uppgefnum kostnaði uppreiknuðum miðað við neysluvísitölu 1. júní 2005. Greiðslubyrði lána hafi verið um 119.700 krónur á mánuði árið 2005 miðað við ofangreindar forsendur.

Samkvæmt skattframtali 2007 fyrir tekjuárið 2006 hafi mánaðarlegar ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar verið 599.033 krónur, eignir 43.844.818 krónur og skuldir 27.671.923 krónur. Eignastaða hjúskapareignar kæranda teljist því hafa verið jákvæð um 8.086.448 krónur. Greiðslugeta á þessum tíma sé áætluð 411.748 krónur á mánuði, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og neysluvísitölu 1. júní 2006. Á sama tíma hafi greiðslubyrði lána verið áætluð um 124.650 krónur á mánuði.

Kveðst umboðsmaður skuldara hafa óskað eftir skýringum kæranda á því hvers vegna hún hafi ekki staðið í skilum með áðurnefnd opinber gjöld á árunum 2005 til 2006, eftir því sem henni var framast unnt, þrátt fyrir að skattframtöl sýndu fram á að hún hafi verið fær um að standa við skuldbindingar sínar á þeim tíma. Í svari kæranda hafi komið fram að allur daglegur rekstur X ehf. hafi verið í höndum fyrrum eiginmanns hennar, þrátt fyrir að hún hafi vissulega átt félagið með honum. Hún hafi gert virðisaukaskattskýrslur en að öðru leyti hvergi komið nálægt rekstrinum.

Hvað sem framburði kæranda líði verði ekki annað ráðið en að ráðstöfunartekjur og eignastaða kæranda árið 2005 hafi verið slík að hún hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem henni var framast unnt. Verði því að telja þær aðstæður vera til staðar sem lýst sé í f- og g-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 25/2011 var talið að líta yrði til sjónarmiða að baki f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. þegar skuldasöfnun vegna opinberra gjalda hafi verið óhófleg á þeim tíma þegar tekjur skuldara hafi verið þokkalegar eða jafnvel góðar.

Að öllu framangreind virtu telur umboðsmaður skuldara að fjárhagsleg staða kæranda hafi verið slík árið 2005 að hún hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar allt frá þeim tíma, þ.e. við greiðslu tekjuskatts af launatekjum frá X ehf. Líta beri til þess að umræddar greiðslur, tekjuskattur af launatekjum, teljist til vörsluskatta sem refsivert sé að gera ekki skil á til ríkissjóðs. Að auki verði að líta svo á að áætluð fjárhæð vegna vantaldrar veltu X og V ehf. fyrir árið 2009 sé slík að telja verði að um hafi verið að ræða óhóflega skuldasöfnun vegna opinberra gjalda. Óhjákvæmilegt sé annað en að synja kæranda um greiðsluaðlögun með vísan til f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. með hliðsjón af úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 25/2011.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara 27. nóvember 2012 kemur fram að hin kærða ákvörðun byggist á heildstæðu mati á atvikum málsins. Skuldir kæranda vegna opinberra gjalda nemi samtals 2.293.159 krónum. Vegna fjárhæðar skulda kæranda sé ljóst að g-liður 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í málinu. Þá sé einnig ljóst að kærandi hafi ekki staðið í skilum með tilteknar skuldbindingar eins og henni var framast unnt meðan hún var ekki í fjárhagserfiðleikum. Heildstætt mat hafi leitt til þess að óhæfilegt hafi þótt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar. Upplýsingar sem fram komi í kæru breyti ekki þeim forsendum sem byggt hafi verið á við ákvarðanatöku í máli kæranda en vísað sé til þess sem að framan greini og þá sérstaklega úrskurðar kærunefndar greiðslu­aðlögunar­mála í máli nr. 25/2011.

Fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á f- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Í f-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Í g-lið er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðslu­aðlögunar nái til þeirra.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að kærandi skuldi opinber gjöld samtals að fjárhæð 2.293.159 krónur að meðtöldum vöxtum vegna vanskila á þing- og sveitarsjóðsgjöldum, auk staðgreiðslu tryggingagjalds. Fram kemur að skattskuldir kæranda séu að stærstum hluta tilkomnar vegna vangreidds tekjuskatts af launatekjum hennar hjá félaginu X ehf. á árunum 2005 og 2006.

Samkvæmt 2. gr. lge. getur einstaklingur sótt um greiðsluaðlögun. Hjón eða einstaklingar í óvígðri sambúð geta einnig í sameiningu leitað greiðsluaðlögunar. Í þessu máli háttar svo til að kærandi sótti ein um greiðsluaðlögun. Ber að meðhöndla umsókn hennar sem slíka.

Í máli kæranda eru það einkum árin 2005 og 2006 sem koma til skoðunar, en þá greiddi kærandi ekki opinber gjöld samkvæmt álagningu, samtals að fjárhæð 2.186.757 krónur.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að samanlagðar tekjur kæranda og þáverandi eiginmanns hennar hafi verið nægar til að standa skil á skuldum kæranda. Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála getur ekki fallist á að fjárhagsleg staða kæranda á þeim tíma sem hér skiptir máli sé metin út frá samanlögðum ráðstöfunartekjum hennar og eiginmanns hennar á þessum tíma. Samkvæmt skattframtölum kæranda fyrir tekjuárin 2005 og 2006 var stofn til útreiknings tekjuskatts hennar og útsvars á þessu tímabili 6.393.748 krónur en í ákvörðun umboðsmanns skuldara er ekki lagt mat á það hvort tekjur hennar á þeim tíma hefðu nægt henni til framfærslu og til að standa skil á framangreindum opinberum gjöldum. Að mati kærunefndarinnar á tilvísun umboðsmanns skuldara til f- og g-liða ekki við þar sem óljóst var að hve miklu leyti ráðstöfunartekjur kæranda gátu staðið undir framangreindum skuldum. Því gerði umboðsmaður skuldara ekki fullnægjandi mat á því sem máli skipti til að unnt væri að byggja niðurstöðuna á lagalega réttum grunni þegar tekin var ákvörðun um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge.

Af framangreindum ástæðum verður að telja slíka ágalla á hinni kærðu ákvörðun að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi og vísa málinu aftur til meðferðar umboðsmanns skuldara.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Kristrún Heimisdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta