Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2014

Mánudaginn 3. febrúar 2014

 

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnardóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 13. janúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B lögfræðings, sem tilkynnt var með bréfi 23. desember 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur komist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun 16. september 2011. C héraðsdómslögmaður var skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda 20. september 2011. B var skipuð umsjónarmaður í hans stað 22. október 2013.

Frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi var sent kröfuhöfum í fyrra sinn 13. febrúar 2013 og bárust andmæli frá Landsbankanum 20. febrúar sama ár.

Með tölvupósti 29. október 2013 lagði umsjónarmaður fyrir kæranda drög að frumvarpi til greiðsluaðlögunar. Í frumvarpinu var lögð til 70% eftirgjöf krafna við lok samningstímabils og að tímabil greiðsluaðlögunar yrði 24 mánuðir. Með tölvupósti sama dag óskaði kærandi upplýsinga um ástæðu þess að hlutfall eftirgjafar væri 70%. Svar umsjónarmanns barst kæranda samdægurs þar sem fram kemur að miðað sé við fjárhæð skulda og væntra tekna. Í tilfelli kæranda sé hann að ljúka laganámi og ekki annars að vænta en hann muni starfa við fagið að útskrift lokinni. Með tölvupósti 30. október 2013 upplýsti umsjónarmaður kæranda um að hún myndi hækka tillögu um eftirgjöf í frumvarpinu upp í 80%. Með tölvupósti 31. október 2013 samþykkti kærandi breytt frumvarp.

Frumvarpið var sent kröfuhöfum 4. nóvember 2013. Með tölvupósti 25. nóvember 2013 andmælti Arion banki frumvarpinu. Bankinn hafnaði því að veita nokkra eftirgjöf þar sem ekki þótti sýnt fram á að kærandi væri um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárhagsskuldbindingar sínar þegar litið væri til heildarfjárhæðar skuldbindinga og aldurs kæranda. Taldi bankinn að þar sem kærandi væri að ljúka fullnaðarprófi í lögfræði myndu tekjumöguleikar hans aukast. Bankinn kvaðst þó tilbúinn til að veita kæranda greiðslufrest í 24 mánuði. Umsjónarmaður óskaði þá eftir að bankinn endurskoðaði afstöðu sína til frumvarpsins með því að samþykkja það óbreytt eða veita lægri eftirgjöf en þar væri kveðið á um með tilliti til veikinda kæranda og bágra félagslegra aðstæðna. Með tölvupósti 28. nóvember 2013 hafnaði bankinn endurskoðun á afstöðu sinni til frumvarpsins og ítrekaði fyrri afstöðu sína.

Með bréfi 23. desember 2013 tilkynnti umsjónarmaður kæranda ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi.

 

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að það sé mat Arion banka að kærandi geti að loknu 24 mánaða greiðsluaðlögunartímabili staðið að fullu við skuldbindingar sínar. Sé það einkum með tilliti til þess að hann muni ljúka háskólanámi á vormánuðum 2014 og því séu tekjumöguleikar hans góðir þegar til framtíðar sé litið.

Heildarskuldir kæranda séu 9.965.721 króna en skuldir sem greiðsluaðlögun taki til séu 2.867.063 krónur.

Við mat á því hvort heimilt sé að mæla með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar komist á beri umsjónarmanni meðal annars að taka afstöðu til viðhorfs þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka. Arion banki hafi ekki fallist á eftirgjöf krafna við lok greiðsluaðlögunartímabils einkum með tilliti til aldurs og menntunar kæranda. Það sé mat umsjónarmanns að ekki verði litið framhjá andmælum bankans hvað þetta varðaði einkum með tilliti til aldurs og menntunar kæranda en hann muni ljúka fullnaðarprófi í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri á vormánuðum 2014 og við það muni möguleikar hans til að afla sér tekna aukast til muna.

Jafnframt beri umsjónarmanni að meta hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa. Í því tilliti bendi umsjónarmaður á að við vinnslu málsins hafi verið lagt til að hlutfall eftirgjafar yrði 70% en það hafi verið ákveðið út frá fjárhæð skulda, bæði innan og utan greiðsluaðlögunar, aldurs og menntunar kæranda. Áður en frumvarp hafi verið sent kröfuhöfum til umsagnar hafi kærandi fengið það til yfirlestrar og athugasemda af sinni hálfu í samræmi við 1. mgr. 16. gr. lge., sbr. tölvupóst þar um frá 29. október 2013. Athugasemdir hafi borist frá kæranda varðandi hlutfall eftirgjafar og væntanlegar tekjur hans sem lögfræðingur með fullnaðarpróf. Í samráði við kæranda hafi umsjónarmaður því ákveðið að lögð yrði til 80% eftirgjöf í stað 70% eins og upphaflega hafi verið gert ráð fyrir. Umsjónarmaður hafi útskýrt fyrir kæranda að um frjálsa samninga við kröfuhafa væri að ræða og gætu þeir hafnað frumvarpinu að því er eftirgjöfina varðaði.

Það sé mat umsjónarmanns að með hliðsjón af aldri, menntun og líklegum framtíðartekjum leiti kærandi eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa. Sé þetta mat umsjónarmanns þrátt fyrir að fjárhæð þeirra krafna sem standi utan greiðsluaðlögunar sé 7.098.658 krónur. Kærandi hafi lýst því yfir við umsjónarmann að hann vildi leita nauðsamningar til greiðsluaðlögunar eftir ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Slíkir samningar séu byggðir á úrræðum skuldaskilaréttarins en séu ekki frjálsir samningar við kröfuhafa samkvæmt lge. og því sé um eðlismun á úrræðum að ræða hvað samningsstöðu varðar. Reynt hafi verið til þrautar að ná samningum við Arion banka um lægri eftirgjöf en upphaflega hafi verið lagt til. Afstaða bankans liggi fyrir og vegi röksemdir bankans þar þungt að mati umsjónarmanns þrátt fyrir upphaflega tillögu í frumvarpi til greiðsluaðlögunar samkvæmt lge.

Með vísan alls framangreinds sjái umsjónarmaður sér ekki annað fært en að mæla gegn því að nauðasamningur komist á, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge.

 

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umsjónarmanns verði felld úr gildi. Kærandi hafni afstöðu umsjónarmanns og kröfuhafa.

Í fyrsta lagi telur kærandi að umsjónarmaður hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en samkvæmt greininni skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Hvorki verði séð af ákvörðuninni sjálfri né þeim gögnum sem henni fylgi að tilraun hafi verið gerð til þess að meta hver væntanleg greiðslugeta kæranda yrði að lokinni greiðslufrestun og þá hvort sú greiðslugeta dygði til þess að greiða skuldir kæranda að fullu. Þar sem ekkert mat hafi átt sér stað á því hvort andmæli kröfuhafa ættu við rök að styðjast telur kærandi slíkan annmarka á ákvörðuninni að þegar af þeirri ástæðu beri að fella hana úr gildi.

Í öðru lagi telur kærandi að raunhæft mat á væntanlegri greiðslugetu hans leiði í ljós að hann muni ekki verða fær um að greiða skuldir sínar að fullu við lok greiðslufrests. Í tölvupósti umsjónarmanns frá 29. október 2013 komi fram að hægt sé að miða tekjur við kjarasamninga og notast sé við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara auk tiltækra gagna um annan kostnað. Telji kærandi að ef þetta viðmið sé notað komi í ljós að hann hafi ekki leitað eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi teljast. Kærandi telji að við upphaf starfsferils sem lögfræðingur sé raunhæft að miða við laun samkvæmt þrepi 3.9 í launatöflu Stéttarfélags lögfræðinga frá 1. mars 2013, en þau laun séu 405.670 krónur á mánuði. Að teknu tilliti til persónuafsláttar, skatta og gjalda megi ætla að útborguð laun yrðu um 289.000 krónur á mánuði. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara frá 1. desember 2013 fyrir barnlausan einstakling sé 132.713 krónur á mánuði. Að meðtöldum kostnaði við leigu húsnæðis og tryggingar telji kærandi að mánaðarlegur framfærslukostnaður hans yrði um 251.713 krónur. Greiðslugeta kæranda sé því um 38.000 krónur á mánuði.

Kærandi telji sig þurfa að greiða af kröfu utan greiðsluaðlögunar að fjárhæð 2.900.000 krónur sem tilkomin sé vegna endurkröfu ábyrgðarmanns. Að mati kæranda sé ekki raunhæft að semja um lægri greiðslu af þeirri skuld en 20.000 krónur á mánuði á meðan greitt sé af kröfum innan greiðsluaðlögunar. Slík greiðsla myndi ekki duga fyrir vöxtum af þeirri kröfu og myndi skuldin því hækka á meðan afborgun væri svo lág. Að teknu tilliti til afborgunar af þessari skuld þá væri mánaðarleg greiðslugeta kæranda 18.000 krónur vegna þeirra krafna sem greiðsluaðlögun tæki til. Að mati kæranda sé því óraunhæft að ætla að hann geti staðið að fullu í skilum með þær kröfur sem falli innan greiðsluaðlögunar.

Þá telji kærandi að hann þurfi ekki að greiða af námslánum fyrr en tvö ár séu liðin frá námslokum og þá sé hægt að frysta greiðslur í allt að þrjú ár. Því sé hægt að líta fram hjá þeim lánum þegar greiðslugeta sé metin.

Að mati kæranda verði að miða við hversu mikið greiðist upp af kröfum innan greiðsluaðlögunar á þeim tíma sem hann þurfi ekki að greiða af námslánum og geti greitt lágmarksgreiðslu af endurkröfu ábyrgðarmanns. Miða verði við hversu háa kröfu 18.000 króna mánaðarleg greiðslugeta dugi til að greiða upp á þremur árum. Samkvæmt lánareikni Landsbankans dygði slík fjárhæð til að greiða af um 600.000 króna jafngreiðsluláni til þriggja ára með 10% ársvöxtum. Samsvari þetta um 20% af kröfum innan greiðsluaðlögunar.

Að öllu þessu virtu telji kærandi að tillaga hans um 80% eftirgjöf hafi verið raunhæf og til þess fallin að ná því markmiði lge. að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu. Því beri að ógilda ákvörðun umsjónarmanns um að mæla ekki með því að nauðasamningur komist á.

Í þriðja lagi telur kærandi að jafnvel þótt ekki yrði fallist á að 80% eftirgjöf krafna sé hæfileg þá hafi kærandi ekki hafnað því að eftirgjöf yrði minni. Umsjónarmaður hafi tjáð kæranda í tölvupósti 30. október 2013 aðspurð um hvort mögulegt væri að hafa eftirgjöf aðeins meiri en 70% samkvæmt því frumvarpi sem þá hafi legið fyrir að það væri „…alveg hægt að fara fram á hærri eftirgjöf og þá einfaldlega andmæla kröfuhafar og þá er hægt að gera aðra tillögu og senda út frumvarp að nýju.“ Kærandi hafi því alltaf verið fús til að fallast á lægri eftirgjöf skulda sinna ef fyrir lægju rök byggð á tölulegum forsendum sem kærandi telji að umsjónarmanni hafi borið að leggja fram. Enda sé slíkt grunnforsenda fyrir því að umsjónarmaður geti metið hvaða tillögu eigi að leggja fram annars vegar í frumvarpi og hins vegar við það mat sem umsjónarmanni hafi borið að gera samkvæmt 18. gr. lge. Það mat hafi aldrei farið fram og hafi því í reynd verið um Salómonsdóm umsjónarmanns að ræða þar sem tekið hafi verið undir andmæli kröfuhafa án þess að útreikningar frá kröfuhöfum lægju fyrir eða að umsjónarmaður gerði tilraun til slíkra útreikninga. Að því virtu telji kærandi að ógilda beri ákvörðun umsjónarmanns frá 23. desember 2013.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn nauðasamningi byggist annars vegar á afstöðu kröfuhafa og hins vegar á því að kærandi leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi teljast í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa. Afstaða kröfuhafa er sú að hægt sé að fallast á greiðslufrestun í 24 mánuði en enga eftirgjöf krafna við lok greiðsluaðlögunartímabils, einkum með tilliti til aldurs og menntunar kæranda. Mat umsjónarmanns er að ekki verði litið fram hjá andmælum kröfuhafa hvað þetta varðar enda muni möguleikar kæranda til tekjuöflunar að loknu fullnaðarprófi í lögfræði á vormánuðum 2014 aukast til muna. Enn fremur er það mat umsjónarmanns með vísan til aldurs, menntunar og væntanlegra tekna að kærandi fari fram á eftirgjöf umfram það sem eðlilegt sé.

Kærandi telur að umsjónarmaður hafi ekki rannsakað málið nægilega áður en hann tók ákvörðun. Umsjónarmaður hafi ekki metið hver líkleg greiðslugeta kæranda yrði að lokinni greiðsluaðlögun eða hvort sú greiðslugeta dygði til að greiða skuldir kæranda að fullu. Kærandi telur að slíkt mat myndi leiða í ljós að hann sé ekki fær um að greiða skuldir sínar að fullu við lok greiðslufrests.

Samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 18. gr. lge. skal umsjónarmaður við mat á því hvort hann mælir með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar komist á, líta til ákveðinna atriða, þar á meðal hvort skuldari fari fram á eftirgjöf skulda umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags og framtíðarhorfa. Kærandi telur að við þessar kringumstæður eigi að liggja fyrir sérstakur útreikningur umsjónarmanns um líklegar framtíðartekjur hans og greiðslubyrði sem umsjónarmaður eigi að byggja mat sitt á. Fram kemur í ákvörðun umsjónarmanns að matið sé gert með hliðsjón af aldri, menntun og væntanlegum tekjum kæranda. Hér er því um að ræða heildarmat umsjónarmanns á aðstæðum kæranda nú og til framtíðar.

Þær upplýsingar sem nú liggja fyrir til að meta líklegan fjárhag kæranda er kostnaður við framfærslu kæranda sem nemur 209.810 krónum á mánuði enda er það sá kostnaður sem lagður hefur verið til grundvallar í frumvarpi kæranda til greiðsluaðlögunar. Að mati kærunefndarinnar ber að miða við þennan framfærslukostnað en ekki þann kostnað sem kærandi vill nú miða við og er 251.713 krónur. Jafnfram telur kærunefndin að líta verði til þess að líklegt er að tekjumöguleikar kæranda muni aukast í náinni framtíð. Ómögulegt er þó að áætla nákvæmlega hvaða tekjur kærandi mun hafa í framtíðinni en miðað við áætlun kæranda er ljóst að greiðslugeta hans verður að öllum líkindum meiri að teknu tilliti til framfærslu. Verður því að fallast á mat umsjónarmanns að kærandi fari fram á eftirgjöf umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags og framtíðarhorfa.

Að lokum vísar kærandi til þess að hann hafi alltaf verið fús til að fallast á lægri eftirgjöf krafna en 80% í samningum við kröfuhafa ef fyrir því lægju rök byggð á tölulegum staðreyndum. Samkvæmt tölvupósti umsjónarmanns til Arion banka 28. nóvember 2013 óskaði umsjónarmaður þess að kröfuhafi endurskoðaði afstöðu sína til frumvarps til greiðsluaðlögunar kæranda sem hljóðaði upp á 80% eftirgjöf krafna eða samþykkti frumvarp með lægri eftirgjöf. Þessu hafnaði kröfuhafi með vísan til fyrri andmæla. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndarinnar að umsjónarmaður hafi reynt til þrautar samninga við kröfuhafa. Þá er það mat kærunefndar að málið hafi verið nægilega upplýst til þess að hægt væri að taka ákvörðun í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, enda hafi allar nauðsynlegar upplýsingar um hagi kæranda legið fyrir í gögnum málsins.

Með vísan til framangreinds verður að fallast á að þau sjónarmið sem umsjónarmaður lagði til grundvallar mati sínu þess efnis að kærandi leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa. Ber því og með vísan til 18. gr. lge. að staðfesta ákvörðun umsjónarmanns um að mæla ekki með nauðasamningi kæranda.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B lögfræðings, um að mæla gegn nauðasamningi A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta