Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 64/2015 - Endurupptaka

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekið mál nr. 64/2015

Fimmtudaginn 24. nóvember 2016

A og B

gegn

Sveitarfélaginu Árborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. nóvember 2015, kærði C, f.h. A og B til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, synjun Sveitarfélagsins Árborgar, dags. 27. október 2015, á umsóknum þeirra um styrk til kaupa á spjaldtölvu.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 63. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsóknum, dags. 27. ágúst 2015, sóttu kærendur um styrk hjá Velferðarþjónustu Árnesþings til kaupa á spjaldtölvu á grundvelli 27. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Umsóknum kærenda var synjað með bréfum Velferðarþjónustu Árnesþings, dags. 27. október 2015, með þeim rökum að þær féllu ekki að reglum um úthlutun styrkja. Kærendur báru synjun sveitarfélagsins undir úrskurðarnefnd velferðarmála sem staðfesti ákvörðunina með úrskurði þann 7. apríl 2016. Í kjölfarið kvörtuðu kærendur til umboðsmanns Alþingis yfir úrskurði nefndarinnar og með bréfi, dags. 11. ágúst 2016, óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum frá nefndinni um tiltekið álitaefni. Í ljósi nýrra upplýsinga sem fram komu í kvörtun kærenda til umboðsmanns ákvað úrskurðarnefndin að endurupptaka málið, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. september 2016, var óskað eftir frekari upplýsingum frá sveitarfélaginu með vísan til bréfs umboðsmanns Alþingis. Umbeðnar upplýsingar bárust frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 6. október 2016, og voru þær sendar kærendum til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. október 2016. Athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi, dags. 25. október 2016, og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. nóvember 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kærenda

Kærendur greina frá því að þau hafi sótt um styrk til kaupa á spjaldtölvu á grundvelli 27. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Í 1. gr. verklagsreglna Þjónusturáðs Suðurlands komi fram að markmið styrkjanna sé að auðvelda fötluðu fólki að afla sér þekkingar og reynslu til að auka færni sína svo þeir megi verða virkir þátttakendur í samfélaginu. Samkvæmt 5. gr. reglnanna séu styrkir veittir vegna námsgagna og/eða skólagjalda. Kærendur hafi stundað nám við D undanfarin ár og spjaldtölvan því verið þeim nauðsynlegt námsgagn.

Í erindi til umboðsmanns Alþingis kemur fram að kærendur hafi fengið aðstoð starfsmanns Velferðarþjónustu Árnesþings til að sækja um styrkinn. Starfsmaðurinn hafi fyllt út reit sem sé merktur sem styrkur til verkfæra og tækjakaupa en greinilegt hafi verið að sækja ætti um styrk vegna námsgagna. Velferðarþjónustan hafi átt að sjá að um mistök starfsmanns væri að ræða og gefa kærendum færi á að leiðrétta umsóknina eða upplýsa þau um mistökin. Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 7. apríl 2016 hafi niðurstaða Velferðarþjónustu Árnesþings verið staðfest en vísað til þess að ef kærendur hafi talið að spjaldtölva hafi verið þeim nauðsynlegt námsgagn gætu þau lagt inn nýja umsókn um styrk til kaupa á spjaldtölvu hjá sveitarfélaginu á grundvelli 1. mgr. 5. gr. framangreindra verklagsreglna. Slíku erindi kærenda hafi verið synjað hjá Velferðarþjónustu Árnesþings þegar það hafi verið lagt fram.

III. Sjónarmið Sveitarfélagsins Árborgar

Í greinargerð Sveitarfélagsins Árborgar kemur fram að umsóknum kærenda hafi verið hafnað þar sem þær hafi ekki fallið að reglum um úthlutun styrkja. Í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks komi fram að heimilt sé að veita fötluðu fólki aðstoð vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar. Markmið styrkjanna sé meðal annars að auðvelda fötluðu fólki að afla sér þekkingar og reynslu til að auka færni sína svo þeir megi verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Samkvæmt leiðbeinandi reglum úr velferðarráðuneytinu geti sveitarfélög ákveðið forgangsröðun eða áherslusvið við úthlutun styrkja. Í verklagsreglum Þjónusturáðs Suðurlands um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa segi að markmið með styrkjunum sé að auðvelda fötluðu fólki að skapa sér atvinnu með heimavinnu eða sjálfstæða starfsemi. Vegna aldurs kærenda teljist þau tæplega uppfylla skilyrði og markmið með veitingu styrkja til tækjakaupa á grundvelli 27. gr. laga nr. 59/1992.

Sveitarfélagið tekur fram að þegar sótt sé um styrki til kaupa á spjaldtölvum hafi venjan verið sú að sækja um slíkt sem verkfæri eða tæki en ekki sem námsgagn. Þrátt fyrir að umsækjendur hafi í fyrstu ætlað á námskeið til að læra að nota tækið þá séu slík tæki að mestu notuð til upplýsingaöflunar og afþreyingar af fullorðnu fólki. Öðru gegni ef tækið sé einstaklingnum nauðsyn sem hjálpartæki við nám til þess að geta lært ólíkar námsgreinar sem annars væri ekki mögulegt. Að mati sveitarfélagsins eigi það ekki við í tilviki kærenda og því hafi kærendum ekki verið leiðbeint að fylla út umsókn með öðrum hætti.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Sveitarfélaginu Árborg hafi borið að samþykkja umsóknir kærenda um styrk til kaupa á spjaldtölvu á grundvelli 27. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks.

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 59/1992 er heimilt að veita fötluðu fólki aðstoð vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar sem hér segir:

1. Styrk til verkfæra- og tækjakaupa eða aðra fyrirgreiðslu vegna heimavinnu eða sjálfstæðrar starfsemi að endurhæfingu lokinni.

2. Styrk til greiðslu námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga.

Í 2. mgr. 27. gr. laganna kemur fram að ráðherra sé heimilt að gefa út leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélögin um framkvæmd þjónustunnar á grundvelli ákvæðisins. Sveitarstjórnum sé jafnframt heimilt að setja sér nánari reglur um þjónustuna á grundvelli ákvæðisins og leiðbeinandi reglna ráðherra, svo sem skilyrði sem uppfylla þarf til að njóta aðstoðarinnar og viðmiðunarreglur um fjárhæð styrkja.

Ákvæði 1. mgr. 27. gr. laga nr. 59/1992 um heimild til að veita fötluðu fólki aðstoð vegna félagslegrar hæfingar og endurhæfingar felur ekki í sér fortakslausa skyldu sveitarfélaga til slíkrar aðstoðar. Sveitarfélög hafa almennt ákveðið svigrúm til að meta, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu og aðstoð þau vilja veita fötluðu fólki í samræmi við fyrrgreind markmið laganna. Sveitarfélagið Árborg hefur útfært nánar framangreinda þjónustu í verklagsreglum Þjónusturáðs Suðurlands um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa. Í 1. gr. reglnanna kemur fram að heimilt sé að veita styrk til 18 ára og eldri vegna námskostnaðar sem ekki er greiddur samkvæmt ákvæðum annarra laga og sem ætlaður er til greiðslu vegna námsgagna og námskeiðs- og skólagjalda. Einnig sé heimilt að veita styrk til 18 ára og eldri vegna verkfæra- og tækjakaupa sem ætlað er að auðvelda fötluðu fólki að skapa sér atvinnu með heimavinnu eða sjálfstæðri starfsemi. Samkvæmt ákvæðinu er markmið styrkjanna að auðvelda fötluðu fólki að afla sér þekkingar og reynslu til að auka færni sína svo þeir megi verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Í 5. gr. verklagsreglnanna er kveðið á um mat á þörf og skilyrði fyrir styrkjum. Í 1. mgr. 5. gr. kemur fram að styrkir vegna náms séu veittir vegna námsgagna og/eða námskeiðs- og skólagjalda. Þá segir í 2. mgr. 5. gr. að styrkir vegna verkfæra- og tækjakaupa séu til að auðvelda fólki að skapa sér atvinnu með heimavinnu eða sjálfstæðri starfsemi. Sýna þurfi fram á að starfsemin skapi viðkomandi atvinnu. Þá kemur fram í 3. mgr. 5. gr. reglnanna að þörf fyrir styrki sé metin hverju sinni út frá fötlun einstaklingsins og aðstæðum hans í heild. Við matið sé horft til gagnsemi náms og/eða tækja fyrir umsækjanda, sem og gildi þess sem félagsleg hæfing eða endurhæfing.

Samkvæmt gögnum málsins var það ætlun kærenda að sækja um styrk til kaupa á spjaldtölvu á grundvelli 1. mgr. 5. gr. framangreindra reglna þar sem tölvan væri námsgagn í þeirra tilfelli. Af hálfu sveitarfélagsins hefur komið fram að litið sé á spjaldtölvur sem verkfæri/tæki en ekki námsgagn og því fari umsóknir um slíka styrki í þann farveg, sbr. 2. mgr. 5. gr. reglnanna. Af hálfu kærenda hefur komið fram að þau hafi stundað nám við Fjölmennt, fullorðinsfræðslu fatlaðra, undanfarin ár og spjaldtölva sé þeim nauðsynlegt námsgagn.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það mat úrskurðarnefndarinnar að málsmeðferð sveitarfélagsins vegna umsókna kærenda um styrk til kaupa á spjaldtölvu hafi ekki verið í samræmi við 5. gr. framangreindra reglna. Sveitarfélaginu bar að leggja mat á hvort spjaldtölvurnar væru námsgagn í tilviki kærenda og þá hvort þau hefðu þörf fyrir slíkan styrk vegna fötlunar þeirra, sbr. 1. og 3. mgr. 5. gr. reglnanna. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál séu nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Ljóst er að sveitarfélagið gætti ekki að þeirri lagaskyldu sinni áður en ákvörðun um synjun var tekin. Að því virtu verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað aftur til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sveitarfélagsins Árborgar um synjun á umsóknum A og B um styrk til kaupa á spjaldtölvu er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta