Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 277/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 277/2016

Fimmtudaginn 24. nóvember 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. júlí 2016, kærir A til úrskurðarnefndar velferðarmála, synjun Reykjavíkurborgar, dags. 9. mars 2016, á umsókn hans um fjárhagsaðstoð.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 28. október 2015, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg fyrir tímabilið 1. nóvember 2015 til 31. janúar 2016. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 17. desember 2015, á þeirri forsendu að hún samræmdist ekki 12. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi 9. mars 2016 og staðfesti synjunina. Með bréfi, dags. 18. mars 2016, fór kærandi fram á rökstuðning fyrir synjun Reykjavíkurborgar og var hann veittur með bréfi sveitarfélagsins, dags. 28. apríl 2016.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 28. júlí 2016. Með bréfi, dags. 29. júlí 2016, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 19. ágúst 2016. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. ágúst 2016, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi krefst þess að synjun Reykjavíkurborgar verði felld úr gildi og að viðurkenndur verði ótvíræður réttur hans til aðstoðar frá sveitarfélaginu. Til vara krefst kærandi þess að Reykjavíkurborg verði gert að taka mál hans aftur til efnislegrar og málefnalegrar meðferðar.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að um fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu gildi sú meginregla að umsækjandi fái aðeins greidda fjárhagsaðstoð geti hann ekki framfleytt sér sjálfur. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sbr. og 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar til framfærslu á grundvelli 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð skuli meðal annars horft til 12. gr. reglnanna sem kveði á um hvernig litið skuli til tekna og eigna umsækjanda. Kærandi hafi átt eignir umfram eina bifreið en fimm bifreiðar væru skráðar á skattframtal hans árið 2015. Í skattframtalinu komi einnig fram að kærandi hafi átt inneignir í banka en skýringar hans vegna þeirra hefðu verið teknar til greina á þjónustumiðstöð.

Reykjavíkurborg tekur fram að eignir kæranda séu umfram það sem ákvæði 4. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð heimili en þar segi að einungis sé heimilt að eiga eina fjölskyldubifreið. Þrátt fyrir að fjórar af bifreiðum kæranda séu skráðar verðlausar verði að líta svo á að umræddar eignir séu til staðar, enda sé þeirra getið í opinberum gögnum. Ef sýna eigi fram á annað þurfi að leiðrétta opinbera skráningu og kæranda hafi ítrekað verið leiðbeint um það í samræmi við upplýsingar frá Umferðarstofu og Vöku hf. Ekki sé útilokað að einhverjir fjármunir fáist greiddir fyrir bifreiðarnar, til að mynda með sölu þeirra sem varahluta.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi velferðarráð talið ljóst að kærandi ætti eignir umfram þær sem kveðið væri á um í 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð. Kæranda beri að nýta umræddar eignir sér til framfærslu áður en leitaði sé eftir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi en sú aðstoð sé neyðaraðstoð.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. nóvember 2015 til 31. janúar 2016.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 4. mgr. 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg kemur fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði og eina fjölskyldubifreið eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skuli honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að hann uppfyllti ekki skilyrði 4. mgr. 12. gr. reglnanna þar sem hann ætti fimm bifreiðar, sbr. skattframtal kæranda árið 2015. Reykjavíkurborg byggir á því að kæranda hafi borið að nota fjórar af þessum fimm bifreiðum sér til framfærslu, enda væri litið á fjárhagsaðstoð sem neyðaraðstoð. Fyrir liggur að verðmæti umræddra bifreiða kæranda samkvæmt skattframtali er 0 kr. Samkvæmt gögnum sem kærandi lagði fram hjá Reykjavíkurborg voru umræddar bifreiðar keyptar á árunum 2001 til 2009 og skráningarnúmer þeirra innlögð frá árunum 2001 til 2014. Þá séu bifreiðarnar ótryggðar og skráðar úr umferð.

Samkvæmt gögnum málsins naut kærandi fjárhagsaðstoðar til framfærslu frá Reykjavíkurborg, meðal annars í janúar 2015 og aftur frá mars til og með október 2015. Hefur hann notið fjárhagsaðstoðar með hléum allt frá árinu 1992. Úrskurðarnefndin tekur fram að Reykjavíkurborg er bundin af jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1993, en samkvæmt henni skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þegar stjórnvald hefur byggt ákvörðun á tilteknum sjónarmiðum og lagt áherslu á ákveðin sjónarmið leiðir jafnræðisreglan almennt til þess að þegar sambærilegt mál kemur aftur til úrlausnar ber almennt að leysa úr því á grundvelli sömu sjónarmiða og með sömu áherslu og gert var við úrlausn hinna eldri mála. Úrskurðarnefndin telur að í máli þessu liggi ekki fyrir með nægjanlega skýrum hætti hvernig Reykjavíkurborg lagði mat á aðstæður kæranda. Hefur þannig ekkert komið fram á hvaða grundvelli kæranda var veitt fjárhagsaðstoð framangreind tímabil, þar á meðal mánuði ársins 2015, þrátt fyrir að umræddar bifreiðar hefðu einnig verið skráðar eignir hans samkvæmt skattframtali þess árs, og að hvaða leyti aðstæður hans voru frábrugðnar því sem þá var þegar umsókn hans barst í lok október 2015.

Þá telur úrskurðarnefndin að við mat á því hvort umsækjandi um fjárhagsaðstoð eigi eignir umfram íbúðarhúsnæði og fjölskyldubifreið verði að styðjast við opinber gögn líkt og skattframtal umsækjanda, nema sýnt sé fram á að þær eignir séu ekki lengur til staðar eða andvirði þeirra hafi breyst. Að mati nefndarinnar benda gögn málsins ekki til þess að Reykjavíkurborg hafi rannsakað sérstaklega hvort bifreiðar kæranda, sem bæði eru skráðar verðlausar í opinberum gögnum og skráðar úr umferð um árabil, geti talist eign í skilningi 4. mgr. 12. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Liggur þannig ekki fyrir að um sé að ræða eignir sem kærandi geti notað sér til framfærslu eða sem tryggingu fyrir lánafyrirgreiðslu hjá banka eða sparisjóði. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda hafi ekki verið upplýst nægjanlega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en ákvörðun var tekin í því. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar um synjun á umsókn A um fjárhagaðstoð fyrir tímabilið 1. nóvember 2015 til 31. janúar 2016 er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta