Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 424/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 10. nóvember 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 424/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16050037

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. maí 2016 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. maí 2016, að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um hæli á Íslandi vegna aðstæðna hans í […], synja honum um hæli vegna aðstæðna hans í Ungverjalandi, auk þess að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um hæli hér á landi þann 17. janúar 2016. Kærandi var boðaður í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 17. febrúar 2016 ásamt talsmanni sínum. Þann 9. maí 2016 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að taka umsókn kæranda um hæli vegna aðstæðna hans í […]ekki til efnismeðferðar hér á landi, auk þess að komast að þeirri niðurstöðu að kærandi væri ekki flóttamaður vegna aðstæðna hans í Ungverjalandi og var honum synjað um hæli á Íslandi á þeim grundvelli. Jafnframt var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga. Kærandi kærði þá ákvörðun við birtingu þann 17. maí 2016. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til meðferðar. Með bréfi kærunefndar, dags. 18. maí 2016, var fallist á beiðni um frestun réttaráhrifa. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 15. júní 2016. Þann 30. ágúst sl. kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að í b-lið 1. mgr. 46. gr. a segi að með fyrirvara um ákvæði 45. gr. geti stjórnvöld synjað því að taka umsókn til efnismeðferðar ef umsækjandi hefur komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns. Kæranda hafi verið veitt viðbótarvernd í Ungverjalandi. Þurfi þá að líta til þess hvort ákvæði 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga komi í veg fyrir að kærandi verði sendur aftur til Ungverjalands.

Óumdeilt sé að kærandi hafi fengið viðbótarvernd í Ungverjalandi og þar með leyfi til að stunda atvinnu og geti því unnið þar fyrir sér og aflað sér húsnæðis. Ungverjaland sé aðildarríki Evrópusambandsins og skuldbundið bæði af flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu. Það sé þó ljóst að mikil aukning hafi orðið á hælisumsóknum í Austur-Evrópu og ungversk yfirvöld hafi verið gagnrýnd fyrir aðbúnað, bæði hælisleitenda og flóttamanna. Eftir ábendingar frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi ungversk yfirvöld hins vegar breytt og bætt fyrirkomulag við aðlögun þeirra sem hafa hlotið hæli eða viðbótarvernd í landinu.

Benti Útlendingastofnun á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi slegið því föstu að 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu leggi ekki skyldu á aðildarríki að sjá öllum sem dvelja innan lögsögu þeirra fyrir heimili og ekki almenna skyldu á aðildarríki til að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum. Að mati Útlendingastofnunar verði því ekki séð að aðstæður kæranda varðandi húsnæði, atvinnu og félagslega þjónustu séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 45. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var jafnframt á það bent að samkvæmt skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sé það mat stofnunarinnar að í Ungverjalandi sé fullnægjandi regluverk sem banni mismunun, auk þess sem þar sé áhrifaríkt stjórnvald sem taki við kvörtunum á þessu sviði og samfélagsleg viðhorf séu almennt góð. Finna megi þó enn svið þar sem gera megi betur, til að mynda varðandi hatursglæpi og hatursorðræðu. Að mati Útlendingastofnunar verði að telja að kærandi geti leitað til yfirvalda verði hann fyrir einhvers konar áreiti vegna uppruna síns.

Í 2. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga komi fram að taka skuli umsókn um hæli til efnismeðferðar ef svo standi á sem segi í b-d-liðum 1. mgr., ef útlendingur hafi slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd. Í viðtali við kæranda hafi komið fram að hann hafi ekki nein tengsl við Ísland og ekki verði séð að sérstakar ástæður mæli með því að hann fái vernd hér á landi.

Þá sagði í ákvörðun Útlendingastofnunar að með hugtakinu heimaland í 44. gr. laga um útlendinga sé, samkvæmt lögskýringargögnum með ákvæðinu, átt við það land þar sem viðkomandi eigi ríkisfang. Kærandi, sem ríkisborgari […], geti því ekki átt rétt á hæli sem flóttamaður vegna aðstæðna sinna í Ungverjalandi þar sem hann hefur þegar hlotið vernd. Kæranda var því synjað um stöðu flóttamanns hér á landi, sbr. 44. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var jafnframt tekið til skoðunar hvort aðstæður kæranda féllu undir ákvæði 12. gr. f laga um útlendinga, í samræmi við 8. mgr. 46. gr. laga um útlendinga. Í lögskýringargögnum með ákvæði 12. gr. f laga um útlendinga komi fram að útlendingur geti átt rétt á vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna þegar um sé að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Þá segi að ákvæðið geti tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríð í heimaríki, en ekki yrði að jafnaði talið að ákvæðið tæki til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Verði því ekki fallist á að ákvæðið taki til neyðar af efnahagslegum toga.

Aðalástæða flótta kæranda hafi virst vera af efnahagslegum toga og að hann óttist um öryggi sitt. Það var mat Útlendingastofnunar að í Ungverjalandi séu engin viðvarandi mannréttindabrot og að íbúar landsins geti fengið vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum með aðstoð lögreglu eða annarra yfirvalda.

Því var það niðurstaða Útlendingastofnunar að synja bæri kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 12. gr. f laga um útlendinga. Þá var kæranda jafnframt synjað um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við Ísland skv. 12. gr. f laga um útlendinga.

Kæranda var vísað frá landi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga, og var réttaráhrifum ekki frestað með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í upphafi greinargerðar sinnar tekur kærandi fram að það sé ljóst samkvæmt gögnum málsins að hann njóti viðbótarverndar í Ungverjalandi. Kærandi bendir aftur á móti á að 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga feli í sér heimild til þess að synja um efnismeðferð, en ekki skyldu.

Krafa kæranda um að verða ekki sendur til Ungverjalands byggist aðallega á því að þangað megi ekki senda hann vegna þess að sterkar vísbendingar séu um að þær aðstæður sem hann megi eiga von á þar í landi séu svo slæmar að það jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi bendir jafnframt á að samkvæmt 45. gr. laga um útlendinga megi ekki senda útlending til svæðis þar sem hann sé í yfirvofandi hættu á að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Kærandi tekur fram að hann sé ekki að óska alþjóðlegrar verndar gagnvart Ungverjalandi, enda uppfylli hann ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga þar sem Ungverjaland sé ekki heimaland hans.

Kærandi tekur fram að jafnvel þó að ekki verði fallist á að aðstæður í Ungverjalandi jafnist á við lýsingar í 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 45. gr. laga um útlendinga séu aðstæður þó svo slæmar að ótvírætt sé að 2. mgr. 46. gr. a laga um útendinga eigi við þannig að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar. Íslenskum stjórnvöldum beri því skylda til þess að taka málið til efnismeðferðar.

Í greinargerð kæranda er vísað til þess að aðstæður, aðbúnaður og réttarstaða þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Ungverjalandi leiði til þess að íslenskum stjórnvöldum sé ekki stætt á því að senda kæranda aftur til Ungverjalands. Í hælisviðtali kæranda hjá Útlendingastofnun hafi komið fram að kærandi hafi ekki ætlað sér að sækja um hæli í Ungverjalandi. Honum hafi reynst ómögulegt að verða sér úti um vinnu, þrátt fyrir að hafa gilt atvinnuleyfi. Miklir kynþáttafordómar séu í landinu og honum hafi aldrei verið kynntur svokallaður aðlögunarsamningur við ungversk yfirvöld. Hann hafi hafst við á götunni og þurft að treysta á ölmusur frá veitingastöðum.

Bendir kærandi á að þrátt fyrir að aðlögunarsamningur við ungversk stjórnvöld hefði verið gerður þá hafi þarlend stjórnvöld heimild til að ógilda slíkan samning ef litið sé svo á að viðkomandi einstaklingur hafi afsalað sér þeirri vernd sem hann hafi hlotið. Því sé alls ekki hægt að útiloka að ungversk stjórnvöld muni líta svo á að kærandi hafi afsalað sér viðbótarverndinni með því að sækja um hæli á Íslandi. Auk þess sé það eitt af skilyrðum aðlögunarsamnings að viðkomandi dvelji í Ungverjalandi út samningstímann. Telur kærandi að gegn því skilyrði væri augljóslega brotið með því að sækja um hæli í öðru landi eins og kærandi hafi gert.

Vísar kærandi í skýrslu mannréttindastjóra Evrópuráðsins. Í skýrslunni komi m.a. fram að þýsk stjórnvöld hafi stöðvað fjölda endursendinga einstaklinga með viðbótarvernd í Ungverjalandi sem höfðu, vegna slæmra aðstæðna sinna þar í landi, sótt um hæli í Þýskalandi. Þýskir dómstólar hafi ítrekað komist að þeirri niðurstöðu undanfarin misseri að einstaklingar með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi eigi á hættu ómannúðlega meðferð þar í landi við endursendingu.

Nýlega hafi innanríkisráðuneyti Ungverjalands lagt fram lagabreytingartillögur um að skerða réttindi viðurkenndra flóttamanna. Þar sé meðal annars lagt til að aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu verði styttur og að flóttamenn fái ekki lengur vasapeninga eða fjármuni fyrir húsnæði eða menntun. Ennfremur sé algengt að flóttafólk í Ungverjalandi verði fyrir mismunun, kynþáttahatri og áreiti, bæði líkamlegu og munnlegu.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðið og Mannréttinda- og lýðræðisstofnun ÖSE hafi, í desember 2015, sent frá sér sameiginlega fréttatilkynningu þar sem ungversk yfirvöld hafi verið hvött til þess að láta af stefnu og aðgerðum sem ýti undir hatur og óþol í garð flóttamanna og hælisleitenda. Kærandi bendir á að nú sé við völd í Ungverjalandi ríkisstjórn sem hafi ekki legið á andúð sinni á útlendingum. Sú andúð sé í takt við þá reynslu sem kærandi hafi af veru sinni í Ungverjalandi.

Kærandi gerir athugasemd við þá fullyrðingu Útlendingastofnunar að samfélagsleg viðhorf séu almennt góð í Ungverjalandi. Skýrslan sem stofnunin vísi til sé síðan 2012 og varpi ekki réttu ljósi á hæliskerfið í Ungverjalandi. Nýjustu upplýsingar beri með sér að samfélagsleg viðhorf gagnvart innflytjendum fari versnandi og andrúmsloftið sé sérstaklega fjandsamlegt hælisleitendum og flóttamönnum.

Í samræmi við 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga telur kærandi því að fella beri ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og taka hælisbeiðni hans til efnislegar meðferðar, með vísan til 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga, sbr. 45. gr. og 2. mgr. 46. gr. a sömu laga.

Til vara gerir kærandi þá kröfu að honum verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga. Kærandi bendir á að í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 115/2010, um breytingu á útlendingalögum, komi m.a. fram í sérstökum athugasemdum að ekki sé um tæmandi talningu að ræða í 12. gr. f laganna á forsendum dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þar sem veita verði stjórnvöldum svigrúm við mat á því hvenær rétt sé að veita dvalarleyfi samkvæmt greininni. Taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé í málum skv. VII. kafla laganna, s.s. almennum aðstæðum í því landi sem viðkomandi yrði sendur til, þar á meðal hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Miðað sé við að heildarmat fari fram á öllum þáttum máls áður en leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé veitt. Þau tilvik sem falli undir 12. gr. f laga um útlendinga geti einnig náð til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir, en að jafnaði taki ákvæðið ekki til neyðar af efnahagslegum rótum, s.s. fátæktar eða húsnæðisskorts.

Kærandi vísar í umfjöllun Útlendingastofnunar um úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (mál nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011, og í máli Samsam Mohammed Hussein og fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013. Auk þess vísar kærandi í úrlausn Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Naima Mohammed Hassan o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (mál nr. 40524/10) frá 27. ágúst 2013. Í framhaldi af því bendir kærandi á að það séu ekki einungis hælisleitendur sem séu sérstaklega viðkvæmur þjóðfélagshópur vegna stöðu sinnar. Einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd séu ekki síður í afar viðkvæmri stöðu og engin ástæða sé til að greina sérstaklega á milli við mat á því hvort skilyrðum 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé fullnægt eða ekki. Bæði hælisleitendur og einstaklingar með alþjóðlega vernd njóti réttinda og beri skyldur samkvæmt löggjöf Evrópusambandsins.

Þrátt fyrir að svo virðist sem einstaklingar með alþjóðlega vernd njóti að mestu sömu réttinda og ungverskir borgarar, sé litið til ungversku útlendingalaganna, verði að hafa hugfast það grundvallaratriði að þrátt fyrir að flóttamaður með viðurkennda stöðu njóti í orði kveðnu sömu réttinda og almennir borgarar viðkomandi lands þá séu flóttamenn í allt annarri og mun viðkvæmari stöðu.

Einstaklingur geti því einn daginn verið heimilis- og bjargarlaus sem hælisleitandi og næsta dag verið áfram heimilis- og bjargarlaus, en með alþjóðlega vernd. Þó svo að einstaklingar með alþjóðlega vernd njóti sömu eða sambærilegra réttinda og almenningur þá sé staða þeirra sjaldnast á pari við hinn almenna borgara. Að gera greinarmun á því hvort um hælisleitanda eða einstakling með alþjóðlega vernd sé að ræða sé því ekki það sem mestu skipti, heldur skuli horfa til þess í hverju tilviki fyrir sig hvort viðkomandi einstaklingur sé í hættu á illri meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Sáttmálinn mæli einungis fyrir um lágmarksvernd og hverju ríki sé heimilt að mæla fyrir um ríkari vernd en leiði af mannréttindasáttmálanum og dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.

Kærandi bendir á að með hliðsjón af lögskýringargögnum varðandi 12. gr. f laga um útlendinga sé á engan hátt útilokað að ákvæðið geti átt við neyð af efnahagslegum rótum, s.s. vegna fátæktar eða húsnæðisskorts. Með vísan til ofangreinds hafi kærandi því sýnt fram á ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna erfiðra almennra aðstæðna í Ungverjalandi og að veita beri honum vernd á grundvelli 1. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951 ásamt viðauka við samninginn frá 1967 og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við komuna til landsins hafi kærandi framvísað vegabréfi útlendings, útgefnu af ungverskum yfirvöldum, auk ungversks og […]persónuskilríkis. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi hafi sannað hver hann sé með fullnægjandi hætti.

Niðurstaða kærunefndar

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn kæranda er byggð á 1. mgr. 46. gr. a, þar sem segir að stjórnvöld geti að uppfylltum ákveðnum fyrirvörum synjað því að taka umsókn um hæli til efnismeðferðar. Til að stjórnvöld geti beitt þessari heimild þarf eitthvert skilyrða a til d liðar ákvæðisins að vera fyrir hendi. Synjun Útlendingastofnunar á því að taka mál kæranda til efnismeðferðar er byggð á því að skilyrði b-liðar ákvæðisins, um að umsækjandi hafi komið til landsins að eigin frumkvæði „eftir að hafa hlotið vernd í öðru ríki eða eftir að hafa dvalist í ríki eða á svæði þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og hafði ekki ástæðu til að óttast að verða sendur aftur til heimalands síns“.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra upplýsinga. Þegar ákvörðun er byggð á því að tiltekin lagaskilyrði séu fyrir hendi þarf að rannsaka með fullnægjandi hætti hvort þau skilyrði séu fyrir hendi í málinu. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu. Um frekari afmörkun á hversu ítarlega beri að rannsaka mál, ber m.a. að líta til þess hversu mikilvægt það er. Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiða til niðurstöðunnar.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar frá 9. maí 2016 er byggt á því að kærandi sé með alþjóðlega vernd í Ungverjalandi. Nánar tiltekið er í ákvörðuninni tekið fram að það sé óumdeilt að kæranda hafi verið veitt viðbótarvernd í Ungverjalandi.

Um stöðu kæranda í Ungverjalandi hefur kærandi sjálfur gert grein fyrir því að hafa fengið viðbótarvernd þar árið 2014. Fyrir liggur að fingraför hans voru skráð í EURODAC gagnagrunninn af stjórnvöldum í Ungverjaland árið 2014. Kærandi hefur framvísað ungversku persónuskilríki sem er með gildistíma til 2. október 2025 en ekki kemur fram á skilríkinu hvort umsækjandi sé með vernd í landinu. Kærandi hefur jafnframt framvísað ferðaskilríki fyrir útlendinga sem njóta viðbótarverndar, útgefnu af ungverskum yfirvöldum, með gildistíma frá 16. október 2015 til 16. október 2016. Samkvæmt framansögðu er ferðaskilríkið eina gagnið í málinu sem stafar frá ungverskum yfirvöldum sem bendir til þess að kærandi hafi fengið vernd í landinu. Í ferðaskilríkinu eru engar upplýsingar um hvenær kærandi fékk vernd í Ungverjalandi en það er eingöngu gefið út til eins árs og er nú runnið út.

Kærunefnd tekur undir þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að gögn málsins gefi til kynna að hann hafi hlotið vernd í Ungverjalandi. Í því sambandi er tekið fram að þegar stofnunin komst að niðurstöðu í málinu var kærandi með gilt ferðaskilríki einstaklings með viðbótarvernd. Aðstæður kæranda eru að þessu leyti breyttar frá því að ákvörðun var tekin hjá Útlendingastofnun.

Ákvörðun um synjun um efnismeðferð umsóknar um hæli er íþyngjandi og almennt verður að gera nokkuð strangar kröfur til þess að gögn málsins sýni ótvírætt fram á að skilyrði synjunar á efnismeðferð umsóknar séu fyrir hendi, sbr. a-d liðir 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga. Það er afstaða kærunefndar að þar sem ferðaskilríki kæranda er nú runnið út geti það gagn eitt og sér ekki verið fullnægjandi grundvöllur undir ályktun um að kærandi njóti enn verndar í Ungverjalandi. Kærunefnd tekur fram að þótt kærandi hafi sjálfur haldið því fram við meðferð málsins hjá stjórnvöldum að hann njóti slíkrar verndar í Ungverjalandi hefur því jafnframt verið haldið fram við meðferð málsins á kærustigi að verndin sé mögulega ekki lengur til staðar. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé nægjanlega upplýst að kærandi sé í reynd með vernd í Ungverjalandi og þar með að skilyrði b-liðar 1. mgr. 46. gr. a laga um útlendinga séu fyrir hendi í máli hans.

Kærunefnd hefur freistað þess að bæta úr þessum skorti á upplýsingum á kærustigi án árangurs. Í því ljósi og með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að rannsaka að nýju hvort skilyrði þess að synja umsókn kæranda um efnismeðferð eru fyrir hendi en að öðrum kosti taka mál hans til efnismeðferðar.


Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda fyrir að nýju.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration is instructed to re-examine the appellant‘s case.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Anna Tryggvadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta