Hoppa yfir valmynd

Álitsgerð nefndar um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í máli nr. 1/2006

Mál A.

1. Aðilar málsins.
Aðilar málsins eru ríkislögreglustjóri, kt. 530697-2079, Skúlagötu 21, Reykjavík og A. Steinar Adolfsson lögfræðingur rak málið f.h. ríkislögreglustjóra en Páll Arnór Pálsson hrl. rak málið f.h. A.

2. Málavextir.
2.1. Málsmeðferð fyrir nefndinni.
Við meðferð málsins skipuðu nefndina Björg Thorarensen prófessor, formaður, Erna Guðmundsdóttir hdl., tilnefnd af samtökum ríkisstarfsmanna og Arnar Guðmundsson skólastjóri, tilnefndur af dómsmálaráðuneyti.

Málið barst nefndinni með bréfi ríkislögreglustjóra dags. 19. desember 2005. Með því var framsent afrit bréfs ríkislögreglustjóra dags. 16. desember 2005 til A þar sem tilkynnt var að ríkislögreglustjóri hefði veitt honum lausn frá starfi lögreglumanns um stundarsakir og tæki lausnin gildi samdægurs. Þann 21. desember 2005 sendi formaður nefndarinnar bréf til fjármálaráðuneytisins og óskaði þess að skipaðir yrðu tveir meðnefndarmenn til þess að fjalla um málið sbr. 2. og 3. málsl. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (hér eftir nefnd starfsmannalög). Sama dag var A tilkynnt með bréfi formanns að málið hefði verið sent nefndinni til meðferðar.

Með bréfi dags. 25. janúar  2006 tilkynnti fjármálaráðuneytið um skipun nefndarinnar.  Einnig sendi ríkislögreglustjóri nefndinni með bréfi dags. 26. janúar 2006 gögn málsins sem lágu til grundvallar ákvörðun um lausn A frá starfi. Að lokinni gagnaöflun og framlagningu greinargerða aðila var málið reifað munnlega af umboðsmönnum þeirra  fyrir nefndinni þann 2. mars 2006. Þá sendi ríkislögreglustjóri nefndinni sama dag verklagsreglur um hlutverk og starfsemi fjarskiptamiðstöðvar lögreglu og samstarf lögregluliðanna á starfssvæði fjarskiptamiðstöðvar lögreglu sem settar voru af ríkislögreglustjóra 21. mars 2001, verklagsreglur og leiðbeiningar um fjarskipti settar 18. maí 2004 svo og reglugerð um fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra nr. 335/2005 og verklagsreglur settar með stoð í henni frá 31. mars 2005. Var lögmanni A sent afrit þessara gagna 3. mars 2006.

2.2. Málsatvik.
A var skipaður lögreglumaður við embætti lögreglustjórans í Reykjavík 1. desember 2004. Þann 30. nóvember 2005 bárust yfirlögregluþjóni við embættið upplýsingar um að í íbúð í Reykjavík væri að finna talstöð eða talstöðvar í vörslum B sem horfið hefðu frá lögreglunni í Reykjavík, en B er ekki starfandi innan lögreglunnar. Samdægurs lagði lögreglustjórinn í Reykjavík fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur kröfu um leit í umræddri íbúð og var heimild til húsleitar veitt með dómsúrskurði. Við  húsleit lögreglu á heimili B sama dag var lagt hald á þrjár Tetra talstöðvar sem þar fundust. Við yfirheyrslu hjá lögreglu að kvöldi 30. nóvember lýsti B því að eina þessara talstöðva hefði hann fundið í Vestmannaeyjum fyrir nokkrum árum og síðar hefði hann komist að því að hún tilheyrði þyrlulækni og eina talstöð hefði hann keypt sjálfur. Þriðju talstöðina hefði hann hins vegar fengið afhenta frá A lögreglumanni hjá lögreglunni í Reykjavík. Hann hefði beðið A um að útvega sér Tetra talstöð frá lögreglunni. Með því gæti hann nýtt sér í starfi sínu sem ljósmyndari upplýsingar frá lögreglu um atburði til að komast á vettvang og tekið myndir sem hann seldi síðan til birtingar hjá 365 Ljósvakamiðlum. Skýrsla var tekin af A sama dag hjá lögreglunni í Reykjavík. Þar kom m.a. fram að hann hefði látið undan þrábeiðni B um að útvega honum Tetra talstöð í því markmiði að B fengi upplýsingar um myndefni varðandi störf lögreglunnar og gæti náð ljósmyndum sem hann gæti selt dagblöðum. A hefði tekið eina Tetrastöð sem hann hefði notað á vakt án þess að hann gæti tilgreint nánar hvenær og afhent B til láns í stuttan tíma en það hefði dregist að fá stöðina til baka. Hann hefði ekkert hagnast á því að afhenda B stöðina. Hann hefði brýnt fyrir B að halda því leyndu að hann hefði talstöðina og nota upplýsingar aðeins fyrir sig til að komast á vettvang fyrir ljósmyndun.

Við könnun á skráningu lögreglunnar á notkun talstöðva kom í ljós að umrædd Tetra talstöð var síðast í notkun 26. mars 2005 og er því talið að stöðin hafi horfið frá lögreglunni þann dag. Ekki hafði þó uppgötvast fyrr að umrædd stöð væri horfin.

Þann 1. desember 2005 sendi lögreglustjórinn í Reykjavík ríkissaksóknara kæru á hendur A fyrir brot í opinberu starfi með því að hafa tekið ófrjálsri hendi talstöð í eigu embættisins og ráðstafað henni með ólögmætum hætti. Kynni brot hans m.a. að varða við 244. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ríkislögreglustjóra barst afrit kærunnar á hendur A og málsgagna sem henni fylgdu. Í bréfi ríkislögreglustjóra til A, dags. 2. desember var vísað til þess að játning A lægi fyrir um að hafa tekið Tetra stöð í eigu lögreglunnar og ráðstafað henni með ólögmætum hætti til einstaklings sem væri utan lögreglunnar. Bent var á að framangreind háttsemi væri refsiverð samkvæmt ákvæðum XIV. kafla almennra hegningarlaga sem brot í opinberu starfi og fæli í sér mjög alvarleg og gróf trúnaðarbrot. Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (hér eftir nefnd starfsmannalög) beri ríkislögreglustjóra að víkja embættismanni úr starfi að fullu, án fyrirvara, ef hann hefur játað að hafa gerst sekur um háttsemi sem ætla má að hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga. Tekið var fram að ríkislögreglustjóri teldi háttsemi A svo alvarlega að honum væri skylt að taka til skoðunar hvort veita bæri honum lausn frá embætti að fullu samkvæmt framangreindu. Áður en hann tæki ákvörðun í málinu væri A veittur frestur til að koma að andmælum samkvæmt 2. mgr. 31. gr. starfsmannalaga til 8. desember. Engin andmæli bárust frá A.

Ríkislögreglustjóri veitti A lausn frá störfum um stundarsakir með bréfi, dags. 16. desember 2005. Eru atvik málsins og málsmeðferð rakin þar svo og eftirfarandi  rökstuðningur fyrir ákvörðuninni:

Með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 35. gr. lögreglulaga þar sem mælt er fyrir um að ríkissaksóknari fari með rannsókn kæra á hendur lögreglumönnum, en rannsóknin er ekki hafin, telur ríkislögreglustjóri rétt að veita yður lausn frá störfum um stundarsakir með vísan til 2. málsliðar 3. mgr. 26. gr. stml. Lausnin er veitt þar sem þér eruð grunaður um háttsemi sem að mati ríkislögreglustjóra getur fallið undir ákvæði XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um brot í opinberu starfi og kynni að hafa í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. laganna.

Eftir að málið kom til meðferðar hjá nefndinni aflaði hún upplýsinga hjá ríkissaksóknara með bréfi dags. 24. febrúar 2006 um það hvar rannsókn málsins stæði auk þess sem óskað var frekari gagna sem kynnu að vera til upplýsingar um málsatvik eða réttarstöðu A. Með svarbréfi ríkissaksóknara til nefndarinnar dags. 1. mars fylgdu afrit frekari gagna sem aflað hafði verið við rannsóknina. Tekið var fram að rannsókn málsins hjá ríkissaksóknara væri á lokastigi, ákæra hefði ekki verið gefin út en með hliðsjón af gögnum málsins, ekki síst skýrslu kærða mætti ætla að afgreiðsla málsins yrði með þeim hætti.

Í skýrslu sem A gaf við rannsókn málsins hjá saksóknara kemur m.a. fram að hann hafi náð í umrædda Tetra talstöð í opnu herbergi hjá varðstjóra, þar sem talstöðvar hafi verið geymdar, og ekki skráð hana á sig eins og ætlast var til, þar sem hann hugðist afhenda B hana. Honum hafi verið ljóst að Tetra fjarskiptakerfið sé með lokaðar rásir þannig að viðkvæmar upplýsingar eigi ekki að geta farið til annarra en lögreglu. Hann hafi hins vegar treyst B til að veita ekki öðrum þær upplýsingar sem hann fengi í gegnum kerfið og þá hafi hann talið öruggt að B myndi ekki vinna þannig að hann gæti spillt rannsóknarhagsmunum. A tók fram að lán á talstöðinni hafi einungis verið vinargreiði, án þess að neitt hafi komið í staðinn. Vegna ýmissa persónulegra vandamála hefði farist fyrir að hann fengi stöðina aftur hjá B.

3.  Sjónarmið málsaðila.
Hér verður nánar lýst kröfum og röksemdum aðila sem fram koma í greinargerðum þeirra til nefndarinnar og við munnlega reifun málsins fyrir nefndinni 2. mars 2006.

3.1.  Sjónarmið ríkislögreglustjóra.
Í greinargerð ríkislögreglustjóra til nefndarinnar frá 10. febrúar 2006 er þess krafist að nefndin rannsaki mál A og láti í ljós rökstutt álit á því hvort rétt hafi verið af ríkislögreglustjóranum að víkja honum frá störfum um stundarsakir. Einnig er krafist staðfestingar nefndarinnar á því að skilyrði fyrir veitingu lausnar um stundarsakir hafi verið uppfyllt þegar ákvörðunin var tekin, að sakir þær sem bornar voru á A hafi verið fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar ríkislögreglustjórans og að rétt hafi verið staðið að framkvæmd hennar.

Í greinargerð ríkislögreglustjóra er áréttað að ákvörðun um tímabundna lausn A byggi á 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga, þar sem fram komi að veita megi embættismanni lausn um stundarsakir ef hann er grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga. Úrræði 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. sé hliðsett því úrræði að krefjast í ákæru réttindasviptingar á grundvelli 68. gr. almennra hegningarlaga og 2. mgr. 1. gr., sbr. d. lið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Með því að beita úrræði 2. málsliðar opnist sú leið að fyrirbyggja að opinber starfsmaður sem sæti rannsókn eða ákæru geti gegnt starfi sínu á meðan, enda kunni slíkt að þykja óviðunandi. Mál viðkomandi starfsmanns fái meðferð fyrir nefndinni sem skuli fara með málið til enda, óháð því að opinber rannsókn sé gerð samhliða, sbr. orðalag 1. mgr. i.f. 27. gr. starfsmannalaganna þar sem segir að hægt sé að vísa máli til opinberrar rannsóknar samhliða meðferð nefndarinnar. Starfsreglur nefndarinnar geri ráð fyrir því sama, sbr. 19. gr. þeirra, þar sem segir að nefndin skuli halda áfram meðferð máls og ljúka því með álitsgerð þótt gefin hafi verið út ákæra þar sem krafist hafi verið sviptingar rétti til að gegna embætti.

Ríkislögreglustjóri vísar til þess að þegar ákvörðun var tekin um lausn A hafi legið fyrir skýrsla A og B og þessi gögn hafi fullnægt fyrra skilyrði 2. málsliðar 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaganna hvað varðar grun um refsiverða háttsemi.

Hvað varðar seinna skilyrði 2. málsliðar 3. mgr. bendir ríkislögreglustjóri á að samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga megi, ef opinber starfsmaður fremur refsiverðan verknað, svipta í opinberu máli á hendur honum réttindum til að rækja starfann. Ekki sé gerður greinarmunur á því hvort umrædd hegðun sé framin í starfi eða utan, heldur velti niðurstaðan á mati á því hvort viðkomandi teljist hæfur til að gegna starfinu eftir dóminn. Fyrrgreint orðalag verði ekki skýrt þannig að það sé skilyrði að mál sæti opinberri ákæru, heldur rannsaki nefndin atvik og leggi á þau mat og setji fram rökstudda niðurstöðu um hvort hinn ætlaði refsiverði verknaður sé slíkur, ef sök sannist, að starfsmaðurinn teljist ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann. Erfitt sé að draga almennar ályktanir um hversu alvarleg brot á refsilögum þurfi að vera til að skilyrðum 68. gr. sé fullnægt. Af dómasafni Hæstaréttar sé ekki að sjá að einhvern tíma hafi komið til þess að embættismaður hafi verið sviptur embætti sínu með dómi skv. 1. mgr. 68. gr. Í álitum nefndar skv. 27. gr. starfsmannalaga hafi heldur ekki verið gerð sú krafa að embættismissis sé krafist í ákæru fyrir dómi. Er í því sambandi vísað til álita nefndarinnar í málum 1/2002, 2/2002 og 3/2002, 3/2003 og 4/2003. Við mat á því hvaða hegðun falli undir 68. gr. almennra hegningarlaga verði m.a. að hafa til hliðsjónar ákvæði IV. kafla starfsmannalaga um skyldur ríkisstarfsmanna sem og III. kafla lögreglulaga nr. 90/1996 um skyldur lögreglumanna og framkvæmd lögreglustarfa. Þá beri einnig að taka mið af kröfum 38. gr. lögreglulaga um inntöku nýnema í Lögregluskóla ríkisins, en skv. a-lið greinarinnar gildi það almenna hæfisskilyrði að lögreglumannsefni hafi ekki gerst brotleg við refsilög.
 
Ákvörðun um lausn A um stundarsakir hafi verið byggð á því að grunur hafi verið kominn fram um ætlaða refsiverða háttsemi hans sem fólgin væri í að afhenda án heimildar Tetra talstöð í eigu lögreglunnar til einstaklings utan lögreglu. Háttsemin kunni að varða við ákvæði XIV. kafla almennra hegningarlaga um brot í opinberu starfi og feli í sér mjög gróf trúnaðar- og þagnarskyldubrot. Í því sambandi bendir ríkislögreglustjóri einkum á 139. gr. almennra hegningarlaga sem mælir fyrir um að hafi opinber starfsmaður misnotað aðstöðu sína sér eða öðrum til ávinnings eða til þess að gera nokkuð það, sem hallar réttindum einstakra manna eða hins opinbera, þá varði það sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Með þessari háttsemi hafi A veitt utanaðkomandi manni aðgang að öllum samskiptum lögreglu á lokuðu fjarskiptakerfi þar sem nær eingöngu sé fjallað um málefni sem gæta eigi trúnaðar um. Það gildi bæði um málefni lögreglunnar og ekki síst um málefni einstaklinga. Auk ákvæðis 22. gr. lögreglulaga um þagnarskyldu lögreglumanna og annarra starfsmanna lögreglu hafi verið settar ýmsar reglur til að tryggja öryggi persónuupplýsinga hjá lögreglu og trúnað um þær. Þar megi nefna reglugerð nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu og reglur ríkislögreglustjóra frá 29. janúar 2002 um málaskrá lögreglu, aðgang að landskerfum lögreglu o.fl. Háttsemi A sé enn alvarlegri þegar höfð er í huga vitneskja hans um fyrirhuguð not af talstöðinni.

Reynist sakargiftir réttar, verði brot A að teljast svo alvarleg að hann verði ekki talinn hæfur eða verður til að rækja starfa sinn sem lögreglumaður og þar með sé fullnægt seinna skilyrði 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga. Það feli í sér að A fullnægi ekki lengur almennu hæfisskilyrði sem krafist verði til að starfa í lögreglunni og með þeirri háttsemi hafi hann svipt sjálfan sig því trausti og virðingu sem sé nauðsynleg í starfi lögreglumanns.

3.2.  Sjónarmið A.
Af hálfu A er þess krafist að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið rétt að víkja honum frá störfum um stundarsakir. 

Í greinargerð lögmanns A er í fyrsta lagi gerð athugasemd við meðferð málsins hjá lögreglunni í Reykjavík sem rannsakaði sjálf málið í byrjun gagnvart A í stað þess að ríkissaksóknari fengi málið til meðferðar samkvæmt 35. gr. lögreglulaga þegar grunur lá fyrir um brot hans. Þótt málið hafi verið sent ríkissaksóknara daginn eftir, hafi eina skýrslan sem lá fyrir af A þegar ríkislögreglustjóri ákvað að víkja honum frá störfum,  verið tekin af lögreglustjóranum í Reykjavík. 

Af hálfu A er viðurkennt að hann hafi afhent talstöðina til láns, í þeim tilgangi að B gæti fylgst með markverðum atburðum og tekið ljósmyndir á vettvangi og þannig verið til þægindaauka fyrir hann. Það hefði ekki verið tilgangurinn að veita B aðgang að trúnaðarupplýsingum um þá sem lögreglan væri  með til rannsóknar eða torvelda rannsóknir. Því væri meint trúnaðarbrot annað og vægara en það sem ríkislögreglustjóri héldi fram. Af hálfu A hefur því ekki verið mótmælt að slíkur grunur sem fjallað er um í 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. liggi fyrir í máli hans og efnisleg skilyrði fyrir lausn hans hafi þannig verið uppfyllt að því leytinu til. Það liggi hins vegar ekki ljóst fyrir á þessari stundu hvert brot hans sé eða hversu alvarlegt það megi teljast. Grunur sé um brot á XIV. kafla alm. hgl. og þá helst gegn 138. gr. laganna en óljóst sé hvort um annað hegningarlagabrot sé að ræða. Rannsókn málsins sé lokið og með öllu óvíst hvort ákært verður fyrir önnur brot. Hann hafi sjálfur engan hagnað haft af broti sínu. Einnig bendir hann á að losarabragur hafi verið á reglum um umgengni lögreglumanna við talstöðvar og vörslur talstöðva. Loks beri að líta til þess að engar frekari aðgerðir hafi átt sér stað gagnvart B sem naut góðs af talstöðinni utan einnar skýrslutöku þegar upp komst um hvarf talstöðvarinnar.

Nefndin hljóti að þurfa meta sjálfstætt hvort hinn meinti refsiverði verknaður sé svo alvarlegur að A teljist ekki verður eða hæfur til að rækja starfann, jafnvel þótt um trúnaðarbrot hafi verið að ræða. Hann sé ungur að árum og halda megi því fram að hann hafi gert glappaskot en menntun hans og framtíð hafi verið bundin við lögreglumannsstarfið. Með honum hafi starfað lögreglumenn sem hafi gerst sekir um alvarlegri brot en að lána talstöð án þess að vera hraktir úr starfi. Ýmsir persónulegir erfiðleikar, m.a. skilnaður og andlát bróður hans hafi leitt til þess að það dróst að hann fengi aftur talstöðina frá B og það mál hafi ekki verið honum ofarlega í huga. Það hafi því ekki verið þörf á að víkja honum úr starfi um stundarsakir

4. Niðurstaða nefndarinnar og rökstuðningur fyrir henni.
Í máli þessu krefst ríkislögreglustjóri þess að nefndin rannsaki mál A og láti í ljós rökstutt álit á því hvort rétt hafi verið af ríkislögreglustjóranum að víkja honum frá störfum um stundarsakir og hvort rétt hafi verið staðið að framkvæmd hennar. Af hálfu A er þess krafist að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið rétt að veita honum tímabundna lausn frá störfum.

Nefndinni er ætlað ákveðið rannsóknarhlutverk, sbr. 1. mgr. 27. gr. starfsmannalaga sem miðast við að láta í ljós rökstutt álit um það hvort skilyrði fyrir veitingu lausnar um stundarsakir hafi verið uppfyllt þegar ákvörðunin var tekin og hvort rétt hafi verið staðið að framkvæmd stjórnvaldsákvörðunarinnar. Nefndin hefur tekið fram í fyrri álitsgerðum sínum að niðurstaða hennar um að rétt hafi verið að víkja manni úr embætti um stundarsakir geti orðið grundvöllur undir síðari ákvörðun viðkomandi stjórnvalds um það hvort starfsmaður skuli taka aftur við embætti sínu eða hvort víkja eigi honum að fullu. Sá grundvöllur sé þó ekki bindandi eins og fram kemur í 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaga. Reynist ávirðingar sem embættismanni eru gefnar að sök ekki vera fyrir hendi, skal stjórnvaldið ekki víkja manni að fullu, þótt nefndin hafi talið rétt að víkja honum um stundarsakir. Þótt stjórnvald hafi fengið niðurstöður nefndarinnar um að rétt hafi verið að víkja embættismanni frá störfum um stundarsakir þarf stjórnvaldið að taka sjálfstæða ákvörðun um endanlega lausn úr embætti.

Ákvörðun ríkislögreglustjóra um að leysa A frá störfum er reist á 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaganna þar sem hann var grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga. Verða nú nánar skoðuð efnisleg skilyrði þeirrar ákvörðunar. Skilyrði fyrir því að stjórnvald beiti þessu ákvæði starfsmannalaganna eru samkvæmt hljóðan þess tvíþætt. Annars vegar að grunur liggi fyrir og hins vegar að háttsemin sé þessi eðlis að hún hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þegar ríkislögreglustjóri tók ákvörðun um að veita A lausn um stundarsakir lágu fyrir skýrslur hans og B um hvernig það bar að A afhenti B Tetra talstöð til þess að hann gæti hagnýtt sér upplýsingar til að taka myndir af vettvangi lögreglu til að selja til fjölmiðla. Ljóst er að A var fyrst yfirheyrður um sakarefnið af lögreglunni í Reykjavík. Nefndin telur eðlilegt að á þessu stigi máls hafi lögreglu verið rétt að kanna hvort frásögn B ætti við einhver rök að styðjast. Hins vegar bar lögreglustjóra að vísa málinu til ríkissaksóknara samkvæmt 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 þegar grunur lá fyrir um ætluð brot A í stað þess að yfirheyra hann sem sakborning í málinu enda skal ríkissaksóknari fara með rannsókn mála sem varða ætluð refsiverð brot lögreglumanna. Verður að gera athugasemd við þennan framgang málsins. Það leiðir þó, að mati nefndarinnar, ekki til þess að ákvarðanir ríkislögreglustjóra sem teknar voru í framhaldinu teljist ógildar, enda lá þá fyrir skýrsla B um það hvernig hann fékk talstöðina auk þess sem kæra um ætlað brot A hafði þá verið send ríkissaksóknara. Hefðu þessi gögn verið nægjanleg fyrir ríkislögreglustjóra til þess að taka ákvörðun reista á 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaganna.

Eftir að ríkislögreglustjóra bárust gögn málsins og tilkynning um kæru til ríkissaksóknara taldi hann sýnt fram á að A hefði játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi sem ætla mætti að hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga, en við þær aðstæður er heimilt að víkja starfsmanni að fullu úr embætti án fyrirvara á grundvelli 3. mgr. 29. gr. starfsmannalaga. Var A veittur kostur á að koma að andmælum áður en tekin yrði ákvörðun á grundvelli þess lagaákvæðis, en hann nýtti sér ekki þann kost. Með vísan til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga ákvað ríkislögreglustjóri hins vegar að veita A lausn um stundarsakir á grundvelli þess að hann væri grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga.

Ljóst er að A hefur viðurkennt að hafa afhent Tetra talstöð til aðila utan lögreglunnar, til hagsbóta fyrir þann síðarnefnda svo hann ætti greiðan aðgang að upplýsingum hjá lögreglu sem nýttust honum fyrir myndatökur. Einnig liggur fyrir að A var ljóst mikilvægi þeirra upplýsinga sem fara um talstöðvakerfi lögreglunnar. Þannig brýndi hann fyrir viðtakandanum að leynd skyldi hvíla yfir því að hann hefði stöðina í sínum vörslum og enginn annar mætti nota upplýsingarnar. Við síðari yfirheyrslu sem fram fór eftir að ákvörðun ríkislögreglustjóra var tekin hefur hann að auki staðfest að hafa tekið talstöðina út úr herbergi þar sem talstöðvar voru geymdar og ekki skráð nafn sitt fyrir henni, þar sem hann hefði haft í huga að afhenda hana öðrum. Í ljósi þessara málsatvika telur nefndin óumdeilt að grunur sé til staðar um þá háttsemi A að hafa brotið gegn ákvæðum XIV. kafla almennra hegningarlaga, einkum 138. gr. og 139. gr. laganna.

Við mat á seinna skilyrði 2. málsl. 3. mgr. um það hvort umrædd háttsemi A hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga, byggir nefndin á því að hinn ætlaði refsiverði verknaður sé slíkur, ef sök sannast, að starfsmaðurinn teljist ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann. Leggur nefndin þannig mat á skilyrðið út frá því hvert er eðli hins ætlaða brots. Skiptir ekki máli í því sambandi þótt ríkissaksóknari hafi ekki krafist sviptingar embættis í opinbera málinu eins og ítrekað hefur komið fram í álitum nefndarinnar eins og ríkislögreglustjóri vísar til, t.d. mál 1/2002, 2/2002, 3/2002 og 4/2003.

Í 138. gr. almennra hegningarlaga segir að hafi opinber stafsmaður gerst sekur um refsilagabrot með verknaði sem telja verði misnotkun á stöðu hans, og við því broti sé ekki lögð sérstök refsing sem broti í embætti eða sýslan, þá skuli hann sæta þeirri refsingu sem við því broti liggur, en þó svo aukinni, að bætt sé við hana allt að helmingi hennar. Þá segir í 139. gr. sömu laga að hafi opinber starfsmaður misnotað stöðu sína sér eða öðrum til ávinnings til þess að gera nokkuð það, sem hallar réttindum einstakra manna eða hins opinbera þá varði það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.

Nefndin telur að þau brot í opinberu starfi sem A var grunaður um að hafa framið þegar ákvörðun var tekin um lausn hans og eru nú til rannsóknar hjá ríkissaksóknara væru til þess fallin að veikja traust almennings á störfum hans og lögreglunnar almennt, héldi hann áfram störfum, á meðan ekki væri skorið úr um hvort þær ávirðingar væru réttar. A var fyllilega ljóst að hann rauf trúnað með því að veita aðgang að viðkvæmum upplýsingum innan lokaðs talstöðvarkerfis lögreglunnar og að þær ætti að hagnýta í ákveðnu skyni af utanaðkomandi aðila.

Nefndin telur ekki hjá því komist að telja að slík háttsemi, ef sönn reyndist, leiddi til þess að hann teldist ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann og hefði þannig í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. almennra hegningarlaga.

Með vísan til þessa verður því fallist á að ríkislögreglustjóranum hafi verið rétt að veita A tímabundna lausn frá störfum á meðan mál hans var rannsakað.

ÁLIT

Nefnd skv. 27. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, telur að ríkislögreglustjóra hafi verið rétt að veita A lögreglumanni við embætti lögreglustjórans í Reykjavík lausn frá störfum um stundarsakir þann 16. desember 2005.

Þann 17. mars 2006

___________________
Björg Thorarensen

 

__________________    ___________________
Arnar Guðmundsson       Erna Guðmundsdóttir 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta