Hoppa yfir valmynd

A-532/2014. Úrskurður frá 30. maí 2014

Úrskurður

Hinn 30. maí 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-532/2014 í máli ÚNU 14010004. 

Með erindi 24. janúar 2014 kærði A f.h. B og C  afgreiðslu Snæfellsbæjar 3. janúar sama ár á beiðni umbjóðenda hennar um aðgang að gögnum vegna útboðs á vegum Hafnarsjóðs Snæfellsbæjar undir heitinu „Ólafsvík steypt þekja og masturshús og Arnarstapi steypt þekja“. 

Í kærunni kemur fram að forsaga málsins sé sú að Samkeppniseftirlitið hafi með nánar tilgreindri ákvörðun sinni komist að þeirri niðurstöðu að Snæfellsbær hefði með ólögmætum hætti haft skaðleg áhrif á samkeppni með athöfnum sínum í aðdraganda og með gerð samninga sveitarfélagsins við úthlutun leyfa til malarnáms á Breið sumarið 2007. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hafi verið tekin í kjölfar kvörtunar kærenda. Hafi Samkeppniseftirlitið komist að þeirri niðurstöðu að samkeppnishamlandi háttsemi Snæfellsbæjar hafi haft skaðleg áhrif á rekstur kærenda. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu hafi kærendur ákveðið að leita réttar síns vegna þess tjóns sem þeir hafi orðið fyrir. Í því skyni að átta sig á umfangi tjónsins, svo sem vegna missis hagnaðar af útboðnum verkum, hafi verið óskað eftir upplýsingum vegna framangreindra útboða. 

Þetta hafi verið gert með bréfi, dags. 12. nóvember 2013, þar sem óskað var eftir upplýsingum um „heildarverð í tilboði þess tilboðsgjafa sem hlaut verkið í eftirfarandi kostnaðarliðum: Hvert var verðið í 16 m3 steypu skv. lið 2.2.4.3? Hvert var verðið í 378 m3 steypu skv. lið 2.2.6.6? Hvert var verðið í 105 m3 steypu skv. lið 2.2.9.5? Hver framleiddi steypu fyrir þann sem hlaut verkið?“ Í beiðninni var tekið fram að hún varðaði upplýsingar um kærendur sjálfa í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. 

Í synjun sveitarfélagsins, dags. 3. janúar 2014, kom fram að það væri afstaða þess að þær upplýsingar sem óskað væri eftir varðandi þá kostnaðarliði sem taldir voru upp í bréfi kærenda félli undir ákvæði 9. gr. upplýsingalaga og 17. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup. Taldi Snæfellsbær að kærendur ættu ekki rétt á að fá sundurliðun á tilboðum frá öðrum bjóðendum með þeim hætti sem óskað væri í bréfi þeirra, enda gæti slík upplýsingagjöf beinlínis haft skaðleg áhrif á tilboðsgerð síðar og skekkt samkeppnisstöðu fyrirtækja á svæðinu ef slíkar upplýsingar væru gefnar upp. Ekki væru til staðar hagsmunir sem réttlættu þessa upplýsingagjöf. Einnig lægi fyrir að lægstu tilboðin í verkið hafi verið nánast jöfn og því afar óeðlilegt að kærendur fengju viðkvæmar viðskiptaupplýsingar samkeppnisaðila og gætu þannig kortlagt verð þeirra. Slíkt þjónaði ekki almannahagsmunum og væri andstætt markmiðum framangreindra laga. 

Í kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál er því hafnað að takmarkanir 6.-10. gr. og 14. gr. upplýsingalaga taki til hinna umbeðnu upplýsinga eins og vísað sé til í ákvörðun Snæfellsbæjar. Beiðnin varðaði aðgang að gögnum annarra þátttakenda í útboði sem hefðu orðið til áður en gengið var til samninga við tiltekinn bjóðanda. Þá var því einnig hafnað að trúnaðarskylda sveitarfélaga samkvæmt 17. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup takmarkaði aðgang kærenda að hinum umbeðnu gögnum. Umrædd trúnaðarskylda feli ekki í sér sérstakt þagnarskylduákvæði sem gangi framar upplýsingarétti aðila samkvæmt upplýsingalögum.
 

Málsmeðferð

Með bréfi 7. febrúar 2014 var Snæfellsbæ gefinn kostur á að tjá sig um framangreinda kæru. Í svari sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar 7. mars sama ár er einkum vísað til þeirra sjónarmiða sem fram komu í synjun sveitarfélagsins til kærenda. 

Í umsögn Snæfellsbæjar til úrskurðarnefndarinnar segir einnig að fyrir liggi að lægstbjóðandi í umræddu útboði, D, sé aðili frá sama byggðarlagi og kærandi. Hljóti það að vera ljóst að þeim aðilum sem buðu í umrætt verk hafi ekki verið mismunað eftir búsetu. Í þeim gögnum sem farið sé fram á séu afar viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem varði grundvallaratriði viðkomandi í samkeppnisrekstri þess aðila sem í hlut eigi, enda varði þær verðlagningu einstakra liða við gerð tilboða. Verði það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Snæfellsbæ beri að afhenda umrædd gögn megi nánast fella 17. gr. laga nr. 84/2007 úr gildi og taka upp nýtt verklag við útboð sem feli í sér að öll boð og sundurliðanir verði opin öllum aðilum, enda ljóst að hver sem tæki þátt í útboði mætti eiga von á því að samkeppnisaðili sem ekki fengi verk gæti snúið sér til úrskurðarnefndarinnar og fengið upplýsingar um tilboð hans og þau verð og forsendur sem það byggðist á. Þetta væri í algjörri andstöðu við almennar reglur um trúnað við framkvæmd útboða sem séu í gildi hér á landi og í „hinum vestrænu löndum almennt“. Þá væri það í andstöðu við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/18/EB frá 31. mars 2004 hvað varðar trúnað, en rík áhersla sé lögð á trúnaðarkvaðir í þeirri tilskipun hvað varði tæknileg leyndarmál og viðskiptaleyndarmál, sbr. 6. gr., 3. mgr. 29. gr. og 4. mgr. 32. gr. tilskipunarinnar. Um sé að ræða lögvarða hagsmuni rekstraraðila sem séu rækilega varin í löggjöf vestrænna ríkja þar sem brot gegn þeim varði við samkeppnislög auk þess sem þau geti verið refsiverð við vissar kringumstæður þegar upplýsingum sé miðlað með ólögmætum hætti. Verði í öllu falli að gera þá kröfu til þeirra sem upplýsinga krefjast að þeir geri skýra grein fyrir lögvörðum hagsmunum til að unnt sé að taka kröfu þeirra til greina. Slíkt hafi ekki verið gert í þessu máli. Þar sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/18/EB frá 31. mars 2004 hafi verið lögfest á Íslandi verði að líta svo á að upplýsingalög nr. 140/2012 nái ekki til útboða eins og þess sem málið lúti að sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna þar sem segir að lögin gildi ekki um upplýsingar sem trúnaður skuli ríkja um samkvæmt þjóðréttarsamningum sem Ísland eigi aðild að. 

Þá mótmælir Snæfellsbær því að Samkeppniseftirlitið hafi komist að þeirri niðurstöðu að sveitarfélagið hafi með ólögmætum hætti haft skaðleg áhrif á samkeppni. Í þeirri ákvörðun hafi fyrst og fremst falist sú niðurstaða að við úthlutun leyfa til malarnáms hafi auglýsingu verið ábótavant. Engu hafi verið slegið föstu um það hvort umrætt fyrirkomulag hafi valdið tjóni eða hindrað samkeppni. Á hinn bóginn hljóti að liggja ljóst fyrir að ekki hafi verið til staðar samkeppnishindrandi starfsemi að þessu leyti þegar aðili frá Grundarfirði hafi fengið verk það sem kærendur byggi kvartanir sínar á. 


Í umsögn bæjarins segir jafnframt að ekki verði séð að kærendur eigi hagsmuna að gæta varðandi umræddan aðgang að upplýsingum og enn síður að þeir hagsmunir séu ríkir. Hvað varði beiðni kærenda um að fá upplýsingar um það hver framleiddi þá steypu sem notuð var við viðkomandi verk þá liggi engar opinberar upplýsingar um það, enda hafi ekki verið gerð krafa um það við umrætt útboð að tilboðsgjafar upplýstu hvar þeir öfluðu efnis til verksins. 

Kærendum var gefinn kostur á að taka afstöðu til umsagnar Snæfellsbæjar. Umsögn kærenda barst nefndinni 1. apríl 2014. Er þar vísað til þess að kærendur séu aðili máls í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Í því samhengi er vísað til úrskurða nefndarinnar í málum nr. A-407/2012, A-472/2013, A-409/2012 og A-388/2011. Kærendur hafi því sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum og séu heimildir þeirra rýmri en ella. 

Kærendur telja að hagsmunir þess aðila er hlaut verkið af því að leyna hinum umbeðnu upplýsingum séu hverfandi í samanburði við þá verulegu hagsmuni sem kærendur hafi af því að fá upplýsingarnar afhentar. Ítrekað er að Snæfellsbær hafi ítrekað beitt samkeppnishamlandi aðgerðum. Af hinum umbeðnu gögnum geti kærendur áttað sig á umfangi tjóns síns vegna framangreindra brota og þar með undirbúið málshöfðun. 

Í umsögn kærenda segir jafnframt að Snæfellsbær hafi ekki leitast við að sýna fram á hvaða hagsmunir standi í vegi fyrir því að kærendum verði veittur aðgangur að umbeðnum upplýsingum. Þá sé ljóst að Snæfellsbær geti ekki á þeim óljósa og ósannaða grundvelli byggt synjun sína. Sönnunarbyrðin um þessa ætluðu veigamiklu hagsmuni hvíli á Snæfellsbæ sbr. úrskurði nefndarinnar í málum nr. A-472/2013, A-232/2006 og A-414/2012. Takmörkun á aðgangi gagna vegna fjárhags- og viðskiptahagsmuna beri að túlka þröngt í samræmi við markmið upplýsingalaga sbr. úrskurði nefndarinnar í málum nr. A-168/2004, A-206/2005 og A-133/2001. Hinar umbeðnu upplýsingar séu enn síður til þess fallnar að raska samkeppni en þær sem deilt var um í málum nefndarinnar í málum nr. A-409/2012, A-472/2012, A-168/2004, A-179/2004, A-180/2004, A-407/2012 og A-414/2004 en í umræddum málum hafi nefndin talið rétt að veita aðgang að umbeðnum gögnum. Í niðurstöðu nefndarinnar í máli nr. A-179/2004 hafi meðal annars komið fram að sjónarmið um að halda leyndum mikilvægum fjárhags- eða viðskiptahagsmunum yrðu að jafnaði að víkja fyrir almennum fyrirmælum upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings. Þá vísa kærendur til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. A-472/2013 í heild sinni en þar hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að upplýsingar um einingaverð í einstaka verkliði tilboðs fyrirtækis væru ekki til þess fallnar að raska samkeppni eða ganga á einhvern hátt á fjárhagslega og viðskiptalega hagsmuni bjóðanda. Hin umbeðnu gögn hafi orðið til áður en samningur komst á milli Snæfellsbæjar og þess aðila sem hlaut verkið. Þá séu þrjú ár síðan útboðið fór fram. 

Þá mótmæla kærendur því að synjað verði um aðgang að gögnunum með vísan til 17. gr. laga nr. 84/2007 eða tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/18/EB frá 31. mars 2004. Vísa kærendur í þessu samhengi til úrskurðar nefndarinnar í málum nr. A-407/2012 og 409/2012. Ljóst sé að þagnarskylda 17. gr. laga nr. 84/2007 gangi ekki framar rétti kærenda samkvæmt upplýsingalögum. Þá hafi ákvæði umræddrar tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins verið innleidd efnislega í 17. gr. laga nr. 84/2007. Trúnaðarskylda samkvæmt því lagaákvæði gangi ekki framar rétti kærenda til aðgangs að gögnum. 

Úrskurðarnefndin ritaði D  bréf 8. maí 2014. Í bréfinu var þess óskað að fyrirtækið lýsti afstöðu til þess hvort hafna bæri að veita kærendum aðgang að umbeðnum upplýsingum vegna fjárhags- eða viðskiptahagsmuna fyrirtækisins. Legðist fyrirtækið gegn því að veittur yrði aðgangur að umbeðnum upplýsingum yrði tekin afstaða til þess af hvaða ástæðum afhending þeirra gæti varðað mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækisins. Var félagið upplýst um að réttur kærenda kynni ýmist að vera reistur á 1. mgr. 5. gr. eða 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. 

Svar D barst úrskurðarnefndinni 19. maí 2014. Lagðist fyrirtækið gegn því að kærendum yrði veittur aðgangur að hinum umbeðnu upplýsingum. Vísað var til þess að fyrirtækið starfi á markaði þar sem mikil samkeppni ríki um einstök verk og einstaka viðskiptavini. Samkeppnishæfni D væri reist á getu fyrirtækisins til að halda kostnaði í lágmarki, leit að hagstæðum birgjum, skipulagi, verkviti og fleiri þáttum. Það gæti skaðað samkeppnisstöðu fyrirtækisins ef samkeppnisaðilar hefðu upplýsingar um birgja, verð frá birgjum, álagningu og annað sem máli skipti við gerð tilboða. D beri að  gæta trúnaðar gagnvart sínum birgjum, enda leggi þeir almennt áherslu á að samkeppnisaðilar hafi ekki upplýsingar um einstök viðskipti þeirra eða annað sem gerist innan veggja þeirra fyrirtækja. Fráleitt sé að samkeppnisaðilar fyrirtækisins geti aflað sér viðskiptaupplýsinga D sem almennt séu trúnaðarupplýsingar og almennt ekki aðgengilegar í viðskiptum einkaréttarlegs eðlis. Þetta eigi sérstaklega við þegar sá aðili sem krefjist upplýsinganna sé í samkeppni við þann aðila sem upplýsingarnar séu komnar frá og tilgangurinn augljóslega enginn annar en að nýta þær í samkeppni við D. Ekki verði heldur séð að kærendur hafi nokkra lögvarða hagsmuni af því að fá umræddar upplýsingar, enda hafi verið fullkomið jafnræði milli aðila þegar þeir tóku þátt í umræddu útboði. Augljóst sé að það muni valda D tjóni ef umræddar upplýsingar verði veittar. Vísað er til þess að kærendum yrðu þá veittar upplýsingar um það hvernig D standi að tilboðum sínum, hverjir séu viðskiptaaðilar fyrirtækisins og hvernig einstakir efnisþættir séu verðlagðir. Þetta skerði samkeppnisstöðu D sem eðlilega auki líkur á að fyrirtækið missi af verkefnum. Ómögulegt sé að segja til um það með neinni vissu eða nákvæmni hve mikið tjón gæti hlotist af þessu, enda varði það og ráðist af ókomnum verkum í ókominni framtíð. Yrðu umræddar upplýsingar veittar væri það ekki aðeins inngrip í rekstur D heldur yrði ógnað viðskiptahagsmunum fyrirtækisins sem meta megi til fjár. Verði upplýsingarnar veittar kærendum myndi það valda D fjárhagslegu tjóni sem myndi vera brot á stjórnarskrárvörðum eignarrétti fyrirtækisins. Einnig myndi inngrip af þessu tagi vera gróft inngrip í einkamál og friðhelgi D sem bryti gegn lögum.  

Niðurstaða

1.

Í beiðni kærenda frá 12. nóvember 2013 óskuðu þeir sameiginlega eftir tilteknum gögnum. Meðal þess sem óskað var eftir voru upplýsingar í tilteknum liðum tilboðs D í útboði hafnarsjóðs Snæfellsbæjar og Siglingamálastofnunar á verkinu „Ólafsvík steypt þekja og masturshús og Arnarstapi steypt þekja“ en tilboði D vegna útboðsins var tekið. Í beiðni kærenda kom fram að aðeins annar þeirra, þ.e.a.s. B, óskaði eftir aðgangi að þessum upplýsingum, en af beiðninni verður ráðið að kærendur hafi sameiginlega óskað aðgangs að öðrum gögnum sem mál þetta lýtur ekki að. Auk B hefur C einnig kært ákvörðun Snæfellsbæjar um synjun um aðgang að gögnum. Þar sem beiðni kærenda verður ekki skilin svo að síðarnefnda fyrirtækið hafi staðið að beiðni um aðgang að gögnum að þessu leyti er því fyrirtæki ekki unnt að bera synjun Snæfellsbæjar undir úrskurðarnefndina samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Verður kæru C því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Auk framangreinda upplýsinga lýtur kæra B m.a. að synjun Snæfellsbæjar á beiðni kæranda um upplýsingar um það hver hafi framleitt þá steypu sem D notaði í umrætt verk. Í bréfi Snæfellsbæjar til kærenda 3. janúar 2014 kemur fram sveitarfélagið hafi ekki þær upplýsingar undir höndum. Í ljósi þess liggur að þessu leyti ekki fyrir synjun bæjarins á aðgangi að gögnum í skilningi 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012  og verður beiðni kærenda þar að lútandi vísað frá úrskurðarnefndinni.

Vegna alls framangreinds, og með hliðsjón af bréfi Snæfellsbæjar til úrskurðarnefndarinnar 7. mars 2014, verður að miða við að mál þetta lúti einvörðungu að synjun Snæfellsbæjar á beiðni B um aðgang að gögnunum „Tafla 1, samanburður á tilboðum“ og „Tilboð frá [D], dags. 14.07.2011“. 

2.

Snæfellsbær hefur vísað til þess að heimilt hafi verið synja kæranda um aðgang að hinum umbeðnu upplýsingum með vísan til 17. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup en telja verður að synjunin hafi stuðst við 1. mgr. nefnds lagaákvæðis sem er svohljóðandi: „Kaupanda er óheimilt að láta af hendi upplýsingar sem fyrirtæki hefur lagt fram sem trúnaðarupplýsingar. Til slíkra upplýsinga teljast einkum tækni- og viðskiptaleyndarmál auk þeirra atriða í tilboði sem leynt skulu fara.“ Sérstaklega er kveðið á um í 3. mgr. 17. gr. laga nr. 84/2007 að umrætt ákvæði 1. mgr. 17. gr. hafi „ekki áhrif á skyldu opinbers aðila til að leggja fram upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga“. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 84/2007 verður ráðið að 1. mgr. 17. gr. laganna feli í sér almennt þagnarskylduákvæði sem takmarki ekki rétt til aðgangs að upplýsingum samkvæmt upplýsingalögum sbr. 3. mgr. 4. gr. þeirra laga. Verður synjun Snæfellsbæjar á aðgangi að hinum umbeðnu upplýsingum því ekki byggð á 17. gr. laga nr. 84/2007. 

Þá hefur tilvísun Snæfellsbæjar til 6. gr. og 3. mgr. 29. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/18/EB frá 31. mars 2004, sbr. 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga, ekki þýðingu við úrlausn málsins, enda var ákvæðið efnislega tekið upp í 17. gr. laga nr. 84/2007 sbr. niðurstöður úrskurðarnefndarinnar í málum nr. A-407/2012 og nr. A-409/2012. Snæfellsbær vísar einnig til 4. mgr. 32. gr. tilskipunarinnar en óljóst er hvaða þýðingu umrætt ákvæði getur haft fyrir málið þar sem það lýtur að rammasamningum. 
Með vísan til þessa verður því hafnað að Snæfellsbæ hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að hinum umbeðnu upplýsingum með vísan til ákvæða laga nr. 84/2007 og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/18/EB.  

3.

Af hálfu kæranda er vísað til 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til stuðnings beiðni þeirra um aðgang að hinum umbeðnu gögnum. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Ákvæðið hefur verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur litið svo á að þátttakandi í útboði teljist „aðili máls“ í skilningi þessa ákvæðis þegar hann fer fram á að fá aðgang að útboðsgögnum, þ. á m. gögnum frá öðrum þátttakendum í útboði, sem verða til áður en að til samninga er gengið við tiltekinn bjóðanda. Vísast um þetta meðal annars til úrskurða nefndarinnar í málum nr. A-407/2012, A-409/2012 og A-472/2013. 

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni þeirra gagna er málið lýtur að en ekki verður annað ráðið en þau hafi orðið til áður en gengið var til samninga um það verkefni sem útboðið náði til. Kærandi var þátttakandi í umræddu útboði og nýtur því réttar til aðgangs að umræddum gögnum samkvæmt ákvæði 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Í ákvörðun Snæfellsbæjar 3. janúar 2014 var kæranda neitað um aðgang að hinum umbeðnu upplýsingum meðal annars með vísan til 9. gr. upplýsingalaga en það ákvæði felur í sér takmörkun á upplýsingarétti almennings samkvæmt 5. gr. laganna. Þar sem réttur kæranda í máli þessu verður reistur á 14. gr. upplýsingalaga var Snæfellsbæ ekki heimilt að synja um aðgang á grundvelli 9. gr. laganna heldur urðu takmarkanir á upplýsingarétti hans aðeins reistar á 2. eða 3. mgr. 14. gr. þeirra. 

Í ákvörðun Snæfellsbæjar 3. janúar 2014 og umsögn sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar 7. mars sama ár var hvorki vísað til 2. né 3. mgr. 14. gr. til stuðnings synjunar sveitarfélagsins. Á hinn bóginn var ítrekað vísað til þess að hagsmunum samkeppnisaðila kæranda, þ.e. D, yrði raskað yrði kæranda veittur aðgangur að umbeðnum upplýsingum. Þarf því að taka afstöðu til þess hvort niðurstaða Snæfellsbæjar eigi sér stoð í 3. mgr. 14. gr. upplýsingalaga en þar er kveðið á um að heimilt sé að „takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum“.
  

4.

Gögn þau sem beiðni kæranda lýtur að eru tvö skjöl. Annars er um að ræða töflu þar sem gerður er samanburður á tilboðum kæranda og D eftir svokölluðum „tilboðsliðum“ en í þessu skjali er ekki að finna nánari útlistun á því hvernig tilboðin tvö voru sundurliðuð. Þær upplýsingar er hins vegar að finna í hinu skjalinu sem er „tilboðsskrá“ [D] vegna verksins. Er þar að finna einingaverð sem miðað var við í tilboði fyrirtækisins. 

Eins og að framan greinir var D veitt færi á að veita umsögn vegna beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Í umsögn fyrirtækisins kom meðal annars fram að fyrirtækið teldi ljóst að það yrði fyrir tjóni yrði veittur aðgangur að hinum umbeðnu gögnum. 

Í málum þar sem fjallað hefur verið um beiðnir um aðgang að einingaverðum í tilboðum útboða aðila er falla undir upplýsingalög hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál almennt komist að þeirri niðurstöðu að veita beri aðgang á grundvelli 9. gr. eldri upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 14. gr. núgildandi upplýsingalaga, en þessar lagagreinar eru sama efnis. Hefur nefndin lagt áherslu á hagsmuni þeirra sem taka þátt í slíkum útboðum er lúta að því að rétt sé staðið að framkvæmd útboðanna og að almannahagsmunir standi til þess að veittur sé aðgangur að gögnum er varði ráðstöfun opinberra fjármuna. Þá sé rétt að líta til þess að fyrirtæki og aðrir lögaðilar verði hverju sinni að vera undir það búin að mæta samkeppni frá öðrum aðilum og að upplýsingalög gildi um starfsemi hins opinbera. 

Þrátt fyrir þessi almennu sjónarmið verður að skoða í hverju tilviki fyrir sig hvort aðgang að slíkum upplýsingum beri að takmarka á grundvelli upplýsingalaga. Eins og fram kemur í athugasemdum við 14. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur við það mat einkum til skoðunar hvort hætta sé á því að einkahagsmunir skaðist ef aðila yrði veittur aðgangur að upplýsingum. Í athugasemdunum kemur einnig fram að aðila verði ekki synjað um aðgang að gögnum á grundvelli hugleiðinga um það hvort aðgangur að tiltekinni tegund upplýsinga sé almennt til þess fallinn að valda einhverju tjóni. 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir þær upplýsingar sem beiðni kæranda lýtur að. Af gögnunum verður ekki ráðið að hagsmunum D sé hætta búin þótt kæranda verði veittur aðgangur að þeim. Eru þau verð sem beiðni kæranda lýtur að enda frá árinu 2011 og eru upplýsingarnar því þriggja ára gamlar. Í hinum umbeðnu gögnum er ekki að finna neinar upplýsingar um sambönd D við viðskiptamenn félagsins, þau viðskiptakjör sem fyrirtækið nýtur, álagningu þess eða afkomu. Í ljósi þessa fellst nefndin ekki á að neita beri kæranda aðgangi að gögnum er innihalda þær upplýsingar er beiðni hans lýtur að. Snæfellsbæ ber því að afhenda kæranda skjölin „Tafla 1, samanburður á tilboðum“ og „[D], dags. 14.07.2011“.   

Úrskurðarorð

Kæru C er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Snæfellsbæ ber að afhenda kæranda skjölin „Tafla 1, samanburður á tilboðum“ og „Tilboð frá D, dags. 1407.2011“.    


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Sigurveig Jónsdóttir          

Friðgeir Björnsson













Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta