A-534/2014. Úrskurður frá 30. maí 2014
Úrskurður
Hinn 30. maí 2014 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. A-534/2014 í máli ÚNU14040004.
Kæra
Hinn 14. apríl 2014 barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæra frá A yfir að Vestmannaeyjabær hafi ekki afhent sér ársreikning fyrir árið 2013 útprentaðan á pappír. Í kærunni segir: „Kæra mín er sú að vísað skuli á heimasíðu bæjarins, óska eftir því að úrskurðað verði að reikningarnir afhendist á pappír.“
Málsmeðferð
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi Vestmannaeyjabæ bréf, dags. 29. apríl 2014, og gaf bænum kost á athugasemdum við framangreinda kæru. Í svarbréfi bæjarins, dags. 5. maí 2014, segir m.a.:
„Eins og fram kemur í meðfylgjandi svarbréfi sem fylgdi erindi ykkar þá kemur fram að ársreikningurinn var ekki tilbúinn þegar erindið frá [A] barst en vísað er á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar þegar hann verður vistaður þar eftir síðari umræðu í bæjarstjórn sem ákveðið hefur verið að verði þann 8. maí nk.Í erindi [A] dags. 02.04. s.l., þar sem hann óskar eftir ársreikningi Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans, kemur ekki fram sú ósk að reikningurinn verði sendur til hans á pappír. Telur undirrituð sig hafa svarað erindi [A] skv. upplýsingalögum með því að vísa til heimasíðu Vestmannaeyjabæjar. Ef [A] óskar eftir upplýsingum á pappír þarf það að koma fram í erindi hans og verður honum þá sendur greiðsluseðill vegna ljósritunarkostnaðar.“
Niðurstaða
Mál þetta varðar beiðni kæranda um að fá ársreikning Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2013 á pappír.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 140/2012 er heimilt að bera synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Hið sama gildir um synjun á beiðni um að afhenda gögn „á því formi“ sem óskað er. Í athugasemdum við þessa grein, í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 140/2012, segir m.a.: „Heimilt er að bera bæði synjun að hluta og synjun að öllu leyti undir nefndina. Hins vegar verður að liggja fyrir formleg ákvörðun um að synja beiðni áður en nefndin tekur kæru til meðferðar.“ Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál liggur slík ákvörðun ekki fyrir.
Samkvæmt 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal, eftir því sem því við verður komið, veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði, og á þeim tungumálum sem þau eru varðveitt á, nema þau séu þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. Þegar gögn eru eingöngu varðveitt á rafrænu formi getur aðili valið á milli þess að fá þau á því formi eða útprentuð á pappír.
Samkvæmt bréfi Vestmannaeyjabæjar, dags. 5. maí 2014, er bærinn fús til að afhenda kæranda gögnin á pappír komi fram ósk frá honum um það. Kærandi muni þó þurfa að bera kostnað vegna ljósritunarinnar.
Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefnd um upplýsingamál að ekki liggi fyrir synjun stjórnvalds á beiðni um aðgang að gögnum í skilningi 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Því séu skilyrði fyrir kæru til nefndarinnar ekki uppfyllt. Fyrirvari um hugsanlega gjaldtöku felur ekki í sér synjun á afhendingu gagna og haggar þessu ekki. Verður því að vísa málinu frá.
Úrskurðarorð
Vísað er frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál kæru A, dags. 14. apríl 2014, á hendur Vestmannaeyjabæ.
Hafsteinn Þór Hauksson, formaður
Sigurveig Jónsdóttir
Friðgeir Björnsson