Mál nr. 293/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 293/2023
Fimmtudaginn 24. ágúst 2023
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 12. júní 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. mars 2023 um upphafstíma greiðslna örorkulífeyris.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn 26. janúar 2023 sótti kærandi um örorkulífeyri frá 1. janúar 2021. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. mars 2023, var umsókn kæranda samþykkt með gildistíma frá 1. október 2022 til 31. mars 2025. Með tölvupósti til Tryggingastofnunar sama dag óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvers vegna umsóknin hefði einungis verið samþykkt fjóra mánuði aftur í tímann. Með tölvupósti Tryggingastofnunar 9. mars 2023 var kæranda tilkynnt um að ekki væri heimilt að greiða lífeyri vegna tímabils sem hún hafi verið búsett í Púertó Ríkó.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. júní 2023. Með bréfi, dags. 13. júní 2023, var kæranda tilkynnt að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hún að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dagsettu sama dag. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. júlí 2023, var kæranda gefinn kostur á að leggja fram læknisfræðileg gögn máli hennar til stuðnings. Gögn og athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 9. ágúst 2023.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að sótt hafi verið um örorkulífeyri tvö ár aftur í tímann. Aðeins hafi verið samþykkt að greiða fjóra mánuði aftur í tímann vegna búsetu í Púertó Ríkó með þeim rökstuðningi að Púertó Ríkó væri ekki í Bandaríkjunum þrátt fyrir að allir íbúar Púertó Ríkó væru með amerískt vegabréf og njóti sömu velferðarréttinda og samlandar þeirra.
Í athugasemdum kæranda frá 13. júní 2023 segir að í bréfi frá úrskurðarnefnd velferðarmála komi fram að kæra hafi borist of seint og vísað sé til þriggja mánaða kærufrests frá 9. mars 2023 að telja. Kærandi hafi sent kæruna 11. júní 2023. Það muni því einungis tveimur dögum, í raun einum virkum degi þar sem hinir tveir dagarnir séu laugardagur og sunnudagur.
Kærandi telur afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr þar sem hún hafi ekki verið heilsufarslega fær um að kæra vegna erfiðleika í fjölskyldumálum og veikinda, auk þess að slasast illa á því tímabili sem til stóð að senda inn kæruna.
Þá telur kærandi að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Það ætti að vera öllum ljóst að tímabundin viðvera í Púertó Ríkó bæti ekki upp örorku viðkomandi. Tryggingastofnun segi í ákvörðun sinni að Púertó Ríkó sé ekki hluti af Bandaríkjunum þrátt fyrir að allir íbúar Púertó Ríkó séu með amerískt vegabréf og njóti sömu velferðarréttinda og samlandar þeirra. Þetta sé einhliða ákvörðun Tryggingastofnunar um skilgreiningu á örorkulífeyrisréttindum hennar sem íslenskur ríkisborgari. Þá hafi kærandi heyrt að örorkulífeyrisþegar megi vera í allt að sex mánuði á öðru landsvæði en þeim löndum sem Tryggingastofnun skilgreini samkvæmt samningum landa á milli.
Í athugasemdum kæranda frá 9. ágúst 2023 kemur fram að kærandi hafi orðið fyrir slysi þann 7. júní 2023 og því hafi hún ekki náð að kæra fyrir 9. júní 2023. Kærandi hafa misst hátt í 2 lítra af blóði í mjög stórt hematoma á baki báðum megin hryggsúlu. Þetta hafi verið erfiður áverki að eiga við og mikill sársauki hafi fylgt honum. Þá hafi kærandi verið að eiga við tachycardia frá mars 2023 og hypokalemia frá ágúst 2022.
III. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. mars 2023, um að upphafstími greiðslna örorkulífeyris skuli vera 1. október 2022.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.
Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.
Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur aðila, fari hann fram á rökstuðning samkvæmt 21. gr. laganna.
Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmir þrír mánuðir frá því kæranda var tilkynnt um rökstuðning fyrir hinni kærðu ákvörðun 9. mars 2023 þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. júní 2023. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
- afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
- veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 8. mars 2023 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Í athugasemdum kæranda kemur meðal annars fram að kærandi hafi ekki verið heilsufarslega fær um að kæra vegna erfiðleika í fjölskyldumálum og veikinda, auk þess að slasast illa á því tímabili sem til stóð að senda inn kæruna. Úrskurðarnefndin telur að ekki verði ráðið af læknisfræðilegum gögnum málsins að kærandi hafi ekki verið fær um að kæra innan kærufests og því sé ekki unnt að líta svo á að afsakanlegt sé að kæran hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, enda bendir ekkert í gögnum málsins til ágalla á hinni kærðu ákvörðun.
Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir