Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 121/2011

Föstudaginn 19. ágúst 2011

 

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Hjördís Stefánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. mars 2011, kærir X hrl., f.h. A Reykjavík, afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um meðlagsgreiðslur.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn dags. 2. febrúar 2011 óskaði kærandi eftir greiðslu meðlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Meðfylgjandi umsókninni var leyfi til lögskilnaðar, dags. 12. janúar 2011, sem kveður á um skyldu föður til að greiða einfalt meðlag frá 1. maí 2010 og óskaði kærandi eftir greiðslum frá þeim tíma. Með bréfi dags. 7. febrúar 2011 samþykkti stofnunin að greiða meðlag frá 1. febrúar 2011. Stofnunin taldi forsendur til að heimila greiðslur aftur í tímann ekki vera fyrir hendi þar sem kærandi og faðir barnsins hafi verið skráð í hjúskap til 12. janúar 2011.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

 „Í 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 945/2009 er tekið fram að Trst hafi milligöngu um greiðslu meðlags samkvæmt ýmsum skjölum og er þar sérstaklega nefnt samkomulag sem staðfest er af sýslumanni. Í tilviki kæranda lá fyrir skilnaðarleyfi þar sem fram kemur staðfesting embættisins á að barnsfaðir kæranda greiði meðlag aftur til 1. maí 2010. Í 7. gr. framangreindrar reglugerðar er staðfest að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða meðlag allt að 12 mánuðum aftur í tímann. Kærandi sendi beiðni um greiðslu meðlags samkvæmt skilnaðarleyfi í janúar 2011 og fór gerði kröfu aftur um 9 mánuði. Því var hafnað af hálfu Tryggingastofnunar með vísan til 4. tl. 8. gr. reglugerðarinnar (945/2009). Það ákvæði á alls ekki við í tilviki kæranda. Þar segir að meðlagsgreiðslur skuli falla niður ef meðlagsmóttakandi og meðlagsgreiðandi ganga í hjónaband. Þetta ákvæði á því alls ekki við í tilviki kæranda enda er hún að koma úr hjónabandi með barnsföður sínum.

Það er mat kæranda að í framangreindum 1., 2. og 7. gr. framangreindrar reglugerðar sé skýr heimild fyrir því að hún geti fengið greitt meðlag úr hendi barnsföður fyrir milligöngu Tryggingastofnunar eins og skilnaðarleyfi þeirra gefur til kynna. Gerð er krafa um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins verði breytt í samræmi við þennan skýra rétt kæranda.

Gerð er krafa um að afgreiðsla þessa máls fái flýtimeðferð enda um mikilsverð réttindi kæranda og barns hennar.“

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 21. mars 2011. Greinargerð dags. 12. apríl 2011 barst frá stofnuninni þar sem segir:

 Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar um synjun á milligöngu um meðlag með syni kæranda frá 1. maí 2010.

Málavextir eru þeir að með umsókn dags. 2. febrúar 2011 sótti kærandi um að Tryggingastofnun hefði milligöngu um meðlagsgreiðslur til sín frá 1. maí 2010.  Meðfylgjandi umsókn var leyfisbréf til lögskilnaðar dags. 12. janúar 2011 en í því kom fram að faðir skuli greiða meðlag með syni kæranda frá 1. maí 2010.  Með bréfi dags. 7. febrúar 2011 samþykkti Tryggingastofnun að hafa milligöngu um meðlag til kæranda frá 1. febrúar 2011.  Umboðsmaður kæranda óskaði eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun sem gefinn var með bréfi dags. 10. mars 2011.

63. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 kveður á um það að hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum.

Í 4. tölulið 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009, um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, segir að meðlagsgreiðslur skuli falla niður ef meðlagsmóttakandi og meðlagsgreiðandi ganga í hjúskap.

Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá voru kærandi og barnsfaðir hennar skráð í hjúskap fram til 12. janúar 2011, en lögskilnaðurinn er skráður frá þeim tíma í Þjóðskrá.

Í hjúskaparlögum nr. 31/1993 er kveðið á um framfærsluskyldu hjóna meðan á hjúskap stendur.  Í 46. gr. laganna segir að hjón beri sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar.  Þá segir í barnalögum nr. 76/2003 að foreldrum, báðum saman og hvoru um sig, er skylt að framfæra barn sitt.  Með vísan til þessa og  áðurnefnds ákvæðis reglugerðar nr. 945/2009 telur Tryggingastofnun að sér sé ekki heimilt að hafa milligöngu um greiðslu meðlags meðan aðilar eru enn skráðir í hjúskap.  Af þeim sökum neitaði Tryggingastofnun að hafa milligöngu um greiðslu meðlags til kæranda frá 1. maí 2010.

Að gefnu tilefni ber að taka það fram að ákvörðun Tryggingastofnunar hefur engin áhrif á skyldu barnsföður kæranda samkvæmt lögskilnaðarleyfisbréfi kæranda dags. 12. janúar 2011 til að greiða meðlag með syni kæranda frá 1. maí 2010 og þar til Tryggingastofnun hóf milligöngu meðlags hinn 1. febrúar 2011.  Kærandi getur því sótt þær greiðslur samkvæmt almennum reglum úr hendi barnsföður síns.

 

Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi dags. 2. maí 2011 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um greiðslu meðlags. Kærandi fór fram á greiðslur aftur í tímann frá 1. maí 2010 en stofnunin samþykkti greiðslur frá 1. febrúar 2011.

Í rökstuðningi fyrir kæru var greint frá því að kærandi og barnsfaðir hennar hafi slitið samvistum í maí 2010. Frá þeim tíma hafi faðirinn ekki greitt neinn kostnað með barninu. Samkvæmt skilnaðarleyfi útgefnu af sýslumanni skuli faðirinn greiða meðlag frá 1. maí 2010. 

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var greint frá því að stofnunin hafi ekki talið unnt að samþykkja meðlag aftur í tímann þar sem kærandi hafi verið skráð í hjúskap með föður barnsins. Samkvæmt 4. tl. 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga falli meðlagsgreiðslur niður gangi meðlagsmóttakandi og meðlagsgreiðandi í hjúskap. Þá sé kveðið á um framfærsluskyldu hjóna meðan hjúskapur varir í barnalögum nr. 31/1993. Í 46. gr. laganna komi fram að hjón beri sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar.

Í 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 er kveðið á um skilyrði þess að Tryggingastofnun ríkisins hafi milligöngu um meðlagsgreiðslur þar sem segir:

,,Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga.

Samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði er það skilyrði að lögformleg meðlagsákvörðun liggi fyrir til þess að einstaklingur sem hefur barn á framfæri geti átt rétt á fyrirframgreiðslu meðlags. Samkvæmt leyfi til lögskilnaðar, dags. 12. janúar 2011, ber föður barnsins að greiða meðlag frá 1. maí 2010. Mál þetta lýtur að ágreiningi um við hvaða upphafstíma meðlagsgreiðslur þar sem Tryggingastofnun ríkisins hefur milligöngu skuli miðast.

Meginreglan er sú að fyrirframgreiðsla meðlags samkvæmt úrskurði stjórnvalds eða staðfestum samningi, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar, miðar við dagsetningu úrskurðar eða samnings. Í 4. mgr. sömu greinar er að finna heimild til undantekningar frá þeirri meginreglu þar sem segir:

 „Tryggingastofnuninni er heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. ekki við.

Samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að greiða meðlag allt að tólf mánuði aftur í tímann talið frá þeim tíma sem stofnuninni barst úrskurður eða staðfest samkomulag um meðlag. Kærandi sótti um afturvirkar meðlagsgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 2. febrúar 2011, og lagði fram lögformlega meðlagsákvörðun, dags. 12. janúar 2011, samhliða umsókninni.

Tryggingastofnun ríkisins hefur synjað kæranda um afturvirkar meðlagsgreiðslur á þeirri forsendu að kærandi og barnsfaðir hennar voru skráð í hjúskap. Stofnunin vísar til 8. gr. reglugerðar nr. 945/2009, um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga, því til stuðnings, þar sem kveðið er á um stöðvun meðlagsgreiðslna í þeim tilvikum þar sem meðlagsmóttakandi og meðlagsgreiðandi ganga í hjúskap. Kærandi sótti fyrst um milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur með umsókn dags. 2. febrúar 2011 og þar af leiðandi er ekki um stöðvun meðlagsgreiðslna að ræða í tilfelli hennar. Samkvæmt gögnum málsins slitu kærandi og barnsfaðir hennar samvistum í maí 2010 þar sem barnsfaðirinn flutti út af heimili þeirra. Skilnaðarferlið varði frá þeim tíma og þar til sýslumaðurinn í B gaf út leyfisbréf til lögskilnaðar þann 12. janúar 2011.  Fram að þeim tíma sem kærandi fékk hina lögformlegu meðlagsákvörðun var henni ekki unnt að sækja um meðlag til Tryggingastofnunar ríkisins þar sem heimild til greiðslu meðlags grundvallast á slíkum meðlagsákvörðunum, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt lögskilnaðarleyfinu ber barnsföður kæranda að greiða henni meðlag frá 1. maí 2010. Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga er rétt að líta til úrskurðar sýslumanns um meðlagsgreiðslur við mat á því hvort heimila skuli afturvirkar meðlagsgreiðslur samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Með fyrirliggjandi meðlagsákvörðun í máli þessu hefur verið staðfest að kærandi og barnsfaðir hennar slitu samvistum í maí 2010 þar sem meðlag hefur verið úrskurðað frá þeim tíma þrátt fyrir að hjúskapur þeirra hafi verið skráður til lengri tíma samkvæmt opinberri skráningu.

Með hliðsjón af framangreindu, fyrirliggjandi meðlagsákvörðun og 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar er það mat úrskurðarnefndar almannatrygginga að kærandi skuli eiga rétt á milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur frá 1. maí 2010. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríksins um að miða upphafstíma meðlagsgreiðslna við 1. febrúar 2011 er því hrundið.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að miða upphafstíma meðlagsgreiðslna til A við 1. febrúar 2011 er hrundið. Meðlag skal greiðast frá 1. maí 2010.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta