Hoppa yfir valmynd

Nr. 708/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 30. nóvember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 708/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23090105

 

Kæra […],

og barna hans

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 14. september 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Kólumbíu (hér eftir kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 30. ágúst 2023, um að synja honum og börnum hans,  […], fd. […], ríkisborgara Kólumbíu (hér eftir A), og […], fd. […], ríkisborgara Kólumbíu (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Þess er aðallega krafist að hinar kærðu ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að kæranda og börnum hans verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og kæranda ásamt börnum hans verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og honum ásamt börnum hans verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.      Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 11. júlí 2022. A lagði fram umsókn hér á landi 10. ágúst 2022 og B 19. júlí 2023. Þá sótti uppkomin dóttir kæranda, […], um alþjóðlega vernd hér á landi 2. febrúar 2023, verður fjallað efnislega um umsókn hennar í sérstökum úrskurði. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 22. september 2022, ásamt talsmanni sínum. A kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 26. september 2022. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að í ljósi frásagnar foreldris B hafi ekki verið talið tilefni til að taka sjálfstætt viðtal við B enda væri B ung að árum og framburður foreldris um málsástæður B talinn fullnægjandi til að leggja til grundvallar ákvörðun í máli B. Með ákvörðunum, dags. 7. desember 2022 og 15. desember 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda og A um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Ákvarðanir Útlendingastofnunar voru felldar úr gildi með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 237/2023, dags. 28. apríl 2023, og var Útlendingastofnun gert að taka mál kæranda og barna hans til nýrrar meðferðar. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 30. ágúst 2023, var kæranda og börnum hans synjað um alþjóðlega vernd og synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda og börnum hans var jafnframt brottvísað frá landinu og kæranda ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Ákvarðanir Útlendingastofnunar voru kærðar til kærunefndar útlendingamála 14. september 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda og barna hans 14. október 2023.

III.    Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna fjárkúgana sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki. Þá sé kærandi í hættu vegna heilsufarsástæðna og þess að hann hafi fengið takmarkaða heilbrigðisþjónustu í heimaríki sínu.

Niðurstaða ákvarðana Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hans var sú að kærandi og börn hans væru ekki flóttamenn og þeim skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda og börnum hans var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli A kemur fram að hann hefði komið til viðtals hjá stofnuninni 26. september 2022. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli B kemur fram að í ljósi frásagnar kæranda hafi ekki verið talið tilefni til að taka sjálfstætt viðtal við B enda væri B ung að árum og framburður kæranda um málsástæður talinn fullnægjandi til að leggja til grundvallar ákvörðun án þess að taka viðtal við B. Fram kom að umsóknir barna kæranda væru grundvallaðar á framburði A og kæranda og kæranda hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun í máli kæranda hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfðu við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli kæranda, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að börnum kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja föður sínum til heimaríkis.

Kæranda og börnum hans var brottvísað frá landinu og veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Kæranda var ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður.

Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvarðananna, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi mótmæli niðurstöðu Útlendingastofnunar og vísar til þeirra gagna sem hann hafi lagt fram með umsókn sinni sem sýni að mati kæranda að hann sé í hættu vegna meðlima skæruliðahóps í heimaríki sem hafi ofsótt þau og að full ástæða sé til að óttast áframhaldandi ofsóknir snúi þau aftur til heimaríkis. Lögreglukærur og lögregluvernd sem þeim hafi verið veitt renni stoðum undir frásögn hans. Þá mótmælir kærandi sérstaklega mati stofnunarinnar á hæfi lögregluyfirvalda til að veita sér og börnum sínum viðhlítandi vernd. Þegar þeim hafi verið veitt lögregluvernd hafi þeim verið sagt að lögreglan hefði ekki burði til að vernda sjálfa sig, hvað þá almenna borgara. Það samræmist frásögnum annarra flóttamanna og skýrslum mannréttindasamtaka, sem séu samhljóða um ofbeldi af hálfu lögreglu í ríkinu og getuleysi til að veita borgurum trausta vernd. Kærandi hafnar því að afbrot séu fátíð í heimahéraði þeirra, sem og að ítök skæruliðahópa séu ívið minni þar en annarsstaðar í heimaríki. Afbrot séu mjög algeng og ósjaldan séu hópar skæruliða á götum úti. Þá hafi kærandi reynt að losna undan taki skæruliðahóps en þrátt fyrir ítrekaðar greiðslur hafi hópurinn haldið áfram að ofsækja þau. Því telji kærandi ljóst að ofsóknirnar muni halda áfram verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis. Lögregluyfirvöld geti ekki veitt þeim viðhlítandi vernd og hópurinn muni ekki stöðva háttsemi þótt kærandi flytti innanlands enda um landlægt vandamál að ræða. Kærandi hafi reynt að losna úr taki skæruliðahóps sem ofsæki fjölskylduna en þrátt fyrir ítrekaðar greiðslur hafi skæruliðarnir haldið kúgunum áfram. Kærandi óttist að A verði hnepptur í vinnuánauð auk þess sem konur séu í sérstakri hættu. Verði kæranda og börnum hans ekki veitt alþjóðleg vernd eða viðbótarvernd krefst kærandi þess að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, með vísan til lífshættulegra aðstæðna þeirra í heimaríki.

Kærandi glími við lífshættulegan sjúkdóm og geti ekki fengið viðeigandi meðferð í heimaríki. Sjúkratryggingar í Kólumbíu hafi neitað honum um meðferðina. Þá geti kærandi ekki greitt fyrir lyfjameðferð í heimaríki, enda kosti hún ríflega lágmarkslaun. Myndi hann greiða fyrir hana gæti hann ekki séð fjölskyldu sinni fyrir húsaskjóli og fæði. Ljóst sé að þrátt fyrir að heilbrigðisþjónusta teljist ekki óaðgengileg ef greiða þurfi fyrir hana þá eigi það ekki við þegar kostnaður vegna lífsnauðsynlegrar meðferðar nemi nærri fullum mánaðarlaunum. Veikindi hans séu raunveruleg og alvarleg. Hann hafi leitað á bráðavakt eftir komu til Íslands og fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og lyfjameðferð. Verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis muni hann ekki hljóta þá þjónustu og hætt sé við alvarlegum afleiðingum. Byggir kærandi því á því að 42. gr. laga um útlendinga standi endursendingu hans og barna hans í vegi. Byggir kærandi jafnframt á því að hagsmunir barna kæranda skuli hafðir að leiðarljósi. Aðstæður barnanna séu vægast sagt slæmar og raunar lífshættulegar.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað kólumbískum vegabréfum fyrir sig og börn sín A og B. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi og börn hans séu kólumbískir ríkisborgarar.

Réttarstaða barna kæranda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með hagsmuni þess að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd föður síns og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Kólumbíu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Acled. Dashboard, 24. febrúar 2022 – 24. febrúar 2023;
  • Amnesty International Report 2021/22 – Colombia (Amnesty International, 29. mars 2022);
  • Amnesty International Report 2022/23 – Colombia (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • Annual Report 2020 – Chapter IV.A: Human Rights Development in the Region (IACHR, 2021);
  • Availability and accessibility of mental health services, particularly in Bogotá, Cartagena and Barranquilla; treatment of individuals with mental illness by society and by the authorities; state protection, including recourse and complaint mechanism (Immigration and Refugee Board of Canada, 11. ágúst 2021);
  • Children and armed conflict in Colombia – Report of the Secretary-General (UN Security Council, 8. desember 2021);
  • Colombia: Fact-Finding Mission Report. Conflict Dynamics in the Post- FARC- EP Period and State Protection (Immigration and Refugee Board of Canada, mars 2020);
  • Colombia: First-ever indictments against ex- FARC fighters for child soldier recruitment (Le Monde, 9. mars 2023);
  • Colombia (skýrsla aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna (S/2021/312), 30. mars 2021);
  • Colombia´s Armed Groups Battle for the Spoils of Peace (International Crisis Group, 19. október 2017);
  • Colombia at a Stabilization Crossroads (Center for Strategic and International Studies (CSIS), 5. mars 2021);
  • Colombia Complex crisis (ACAPS, 9. ágúst 2021);
  • Colombia: Country Focus (EUAA, desember 2022);
  • Colombia, Cundinamarca (ACLED Dashboard, 3. mars 2023);
  • Colombia: Events of 2021 (Human Rights Watch, 2022);
  • Colombia: Fact – Finding Mission Report; Conflict Dynamics in the Post- FARC-EP Period and State Protection (mars, 2020);
  • Colombia´s illegal armed groups (maps) (Colombia Reports, 3. október 2021);
  • Colombia. Social Institutions and Gender Index 2019 (Organization for Economic Co-operation and Development, 7. desember 2018);
  • Colombia Travel Advisory (US Department of State, Bureau of Consular Affairs, síðast uppfært 11. maí 2023);
  • Colombia 2020 Crime and Safety Report (US Department of State, Bureau of Diplomatic Security, 13. mars 2020);
  • Colombia: Egregious Police Abuses Against Protesters: Police Reform Urgently Needed to Prevent Future Violations (Human Rights Watch, 9. júní 2021);
  • Colombia/Venezuela: Border Area Abuses by Armed Groups: Killings, Disappearances, Child Recruitment, Forced Displacement (Human Rights Watch, 28. mars 2022);
  • Colombia – Overview of the Education System (OECD, Education at a glance 2023);
  • Conflict persists five years after peace deal (Norwegian Refugee Council, 23. nóvember 2021);
  • Education in Colombia (World Education News+Reviews, 23. júní 2020);
  • Freedom in the World 2023 - Colombia (Freedom House, 2023);
  • Foreign travel advice: Colombia (Gov.uk, síðast uppfært 13. nóvember 2023);
  • Gender-based violence (GBV), particularly domestic and sexual violence; impact of COVID-19; state protection and support services available, including psychological services, particularly in Bogotá, Santiago de Cali and Medellín (2020- July 2022) (Immigration and Refugee Board of Canada, 3. ágúst 2022);
  • Gustavo Petro and Francia Márquez: A new era For Colombia (BBC, 20. júní 2022);
  • How peace efforts are making a difference (or not) in Colombia (The New Humanitarian, 15. febrúar 2023);
  • International Protection Considerations with Regard to People Fleeing Colombia (UNHCR, ágúst 2023);
  • Los Focos del Conflicto en Colombia. Informe Sobre Presencia de Grupos Armados (Indepaz, 4. október 2021);
  • Left Undefended – Killings of Rights Defenders in Colombia´s Remote Communities (Human Rights Watch, 10. febrúar 2021);
  • Mental Health ATLAS 2017. Member State Profile. Colombia (World Health Organization, 2018);
  • Protecting Colombia´s Most Vulnerable on the Road to Total Peace (International Crisis Group, 24. febrúar 2023);
  • Resolution 2573(2023) (United Nations Security Council, 11. janúar 2023);
  • Situation of human rights in Colombia. Report of the United Nations High Commissioner for Human Rights (UN Human Rights Council, 10. febrúar 2021);
  • Social Security Throughout the World, The Americas, 2019 – Colombia (Social Security Administration. Office of Retirement and Disability Policy. Office of Research, Evaluation and Statistics, mars 2020);
  • The struggle of child soldiers in Colombia (The Borgen Project, 5. febrúar 2022);
  • The World Factbook: Colombia (CIA, síðast uppfært 6. nóvember 2023);
  • UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum Seekers from Colombia (UNHCR, september 2015);
  • UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum-Seekers from Colombia (UNHCR, september 2015);
  • United Nations Verification Mission in Colombia: Report of the Secretary – General (United Nations, 24. mars 2023);
  • World Report 2021 – Events of 2020 (Human Rights Watch, 13. janúar 2021);
  • World Report 2022 – Events of 2021 (Human Rights Watch, 13. janúar 2022);
  • World Report 2023 – Events of 2022 (Human Rights Watch, 12. janúar 2023);
  • 2021 Country Report on Human Rights Practices – Colombia (US Department of State, 30. mars 2022);
  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices – Colombia (US Department of State, 20. mars 2023);
  • Upplýsingar af vefsíðu kólumbíska heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytisins (https://www.minsalud.gov.co);
  • Upplýsingar af vefsíðu Colombia Reports (colombiareports.com);
  • Upplýsingar af vefsíðu International Insurance (Overview of Colombia Healthcare System | International Insurance, síðast skoðað 3. apríl 2023) og
  • Upplýsingar af vefsíðu Refugees International (https://www.refugeesinternational.org).

Kólumbía er stjórnarskrárbundið lýðveldi með tæplega 50 milljónir íbúa. Í landinu aðhyllast um 92% íbúa kristna trú, þar af meirihlutinn rómversk-kaþólska trú. Hinn 5. nóvember 1945 gerðist Kólumbía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1969. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gegn konum árið 1982 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um réttindi barnsins árið 1991, ásamt valfrjálsri bókun um þátttöku barna í vopnuðum átökum árið 2005 og valfrjálsri bókun um sölu á börnum, barnavændi og barnaklámi árið 2003. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2022 kemur fram að 20. júní 2022 hafi Gustavo Petro verið kjörinn forseti Kólumbíu. Petro sé fyrsti vinstrisinnaði forseti landsins og heimildir bendi til þess að hann hafi á yngri árum tilheyrt M-19 skæruliðahreyfingunni áður en hann hafi snúið sér að stjórnmálum. Í kosningabaráttunni hafi hann heitið því að berjast gegn spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi í landinu auk þess að beita sér fyrir auknu jafnrétti. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2023 kemur fram að eftirlitsaðilar hafi talið kosningarnar frjálsar og þær friðsælustu í áratugi. Í skýrslu Freedom House frá 2023 kemur fram að forsetinn hafi valið Francia Márquez sem varaforseta. Hún sé umhverfisverndarsinni af Afró-kólumbískum uppruna og önnur konan til að gegna stöðu varaforseta.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 kemur fram að helstu vandamál á sviði mannréttinda í landinu séu m.a. handahófskennd morð, pyndingar, víðtæk spilling, nauðganir og misnotkun kvenna og barna af hálfu ólöglegra vopnaðra hópa í landinu og ofbeldi gegn hinsegin einstaklingum. Spilling sé umtalsverð á meðal stjórnmálamanna og innan lögreglu landsins. Í skýrslunni kemur fram að stjórnvöld hafi almennt gert ráðstafanir til að lögsækja og refsa embættismönnum fyrir mannréttindabrot þó sum mál taki langan tíma. Stjórnvöld hafi almennt beitt lögum sem leggi refsingu við opinberri spillingu. Þá hafi ríkisstjórnin innleitt umbætur hjá lögreglunni sem miði að því að auka ábyrgð og bæta mannréttindavernd og samskipti almennings og lögreglu. Þá hafi refsileysi innan öryggissveita landsins verið vandamál en stjórnvöld hafi á síðustu árum aukið þjálfun liðsmanna öryggissveita landsins hvað varðar mannréttindi ásamt því að rannsaka og sakfella í auknum mæli brot liðsmanna þeirra. Þá hafi dregið úr samstarfi á milli öryggissveita og ólöglegra vopnahópa. Ólöglegir vopnahópar beiti ofbeldi, svo sem fjárkúgunum, morðum, mannránum, pyndingum og sprengjuárásum og beiti barnahermönnum. Lögregluyfirvöld rannsaki almennt þessi brot og sæki ábyrga til saka.

Af framangreindum heimildum, m.a. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023, má ráða að glæpa- og morðtíðni sé há og að glæpahópar séu starfandi víðs vegar um landið og séu ráðandi á ákveðnum svæðum, einkum í héruðunum Cauca, Narino, Catatumbo og Norte de Santander. Þeir stærstu og þekktustu hafi verið skæruliðahóparnir FARC-EP (e. Revolutionary Armed Forces of Colombia -People´s Army) og ELN (e. National Liberation Army). Þá séu einnig starfandi svokallaðir NAG (e. New Armed Groups) sem hafi sprottið út frá hersveitum sem áður hafi starfað í landinu. Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 að í kjölfar undirritunar friðarsamkomulags stjórnvalda við skæruliðahópinn FARC, hafi formlegri afvopnun hópsins lokið árið 2017 og það sama ár hafi fyrrum meðlimir myndað stjórnmálaflokk og tekið þátt í þingkosningum í mars árið 2018. Í skýrslunni kemur fram að her landsins hafi áætlað að meðlimir í afsprengihópum FARC væru nú fleiri en 5.200 talsins. Af fyrirliggjandi gögnum, þ. á m. skýrslu Indepaz frá 2021 og kortum Columbia Reports frá 2020, verður ráðið að afsprengihópar FARC hafi að mestu haldið til í suður-, suðvestur- og suðausturhluta Kólumbíu og við landamæri Venesúela. Hóparnir hafi verið virkir utan tilgreindra svæða, þá ýmist með leynilegum aðgerðum eða í gegnum bandalög með öðrum glæpahópum, en séu ekki með mikla viðveru eða sterk ítök í höfuðborg landsins, Bógóta eða í Cundinamarca héraði. Í skýrslu Freedom House frá 2023 kemur fram að sum landsvæði, einkum svæði sem séu rík af náttúruauðlindum og svæði þar sem flutningur fíkniefna eigi sér stað, séu óörugg. Meðlimir afsprengihópa skæruliðahópa, m.a. ELN og FARC, misnoti óbreytta borgara, sérstaklega á svæðum þar sem kókaín sé ræktað. Almenn sundrung og aukning átaka hafi leitt til þess að íbúar verst útsettu svæðanna hafi neyðst til að flýja heimili sín. Í desember 2022 hafi skrifstofa Sameinuðu þjóðanna um samhæfingu mannúðarmála (OCHA) greint frá því að 78 þúsund manns hafi hrakist á flótta á árinu 2022 sem sé aukning frá árinu áður.

Í skýrslu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu um glæpi og öryggi í Kólumbíu frá 13. mars 2020 kemur m.a. fram að lögregluyfirvöld í Kólumbíu séu alla jafna öflug og fagleg. Þrátt fyrir framangreind vandamál hafi dregið verulega úr ofbeldi í landinu öllu á síðustu 20 árum. Megi rekja þessa fækkun ofbeldisglæpa einkum til friðarsamkomulagsins við FARC og vopnahlés og friðarviðræðna við ELN. Þó kemur fram m.a. í skýrslu Freedom House frá árinu 2023 að ofbeldi og glæpatíðni hafi tekið að rísa á ný frá árinu 2017. Megi meðal annars rekja hluta þess til að fyrrverandi skæruliðar hafi tekið að rísa á ný frá árinu 2017. Megi meðal annars rekja hluta þess til að fyrrverandi skæruliðar hafi hafið glæpastarfsemi á ný vegna þess að þeir telji stjórnvöld ekki hafa staðið við sína hlið friðarsamningsins. Í frétt á vef fréttamiðilsins Al Jazeera frá 4. október 2022 kemur fram að kólumbísk yfirvöld og ELN hafi komist að samkomulagi um að hefja friðarviðræður á ný eftir að þeim hafi verið slitið 2018. Þá kemur fram í skýrslu Freedom House frá árinu 2023 að forseti landsins hafi lagt til nýjan friðarsamning við andófsmenn FARC í ágúst 2022, sem hafi verið tilefni gagnrýni frá þeim aðilum er komu að samningaviðræðum vegna friðarsamningsins árið 2016. Forsetinn hafi hafið samningaviðræður við ELN í desember 2022 og hafi það verið fyrstu viðræðurnar við samtökin síðan árið 2019. Í sama mánuði hafi ríkisstjórnin tilkynnt um sex mánaða vopnahlé við ELN, FARC andófsmenn og þrjá aðra glæpahópa. Þá hafi ELN samþykkt vopnahlé til sex mánaða sem hafi byrjað 9. ágúst 2023. Vopnahléið hafi bætt öryggi íbúa þeirra svæða þar sem ítök hópanna séu hvað mest tímabundin.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi framlengt umboð verkefnis sannleiks- og sáttanefndar (e. UN Verification Mission) í Kólumbíu til 2022. Nefndinni hafi verið gert að fylgjast með og hafa eftirlit með framfylgd ríkisstjórnar og samningsaðila FARC á friðarsamkomulaginu, þ.m.t. pólitíska, efnahagslega og félagslega enduraðlögun FARC meðlima og innleiðingu persónulegra og sameiginlegra öryggistrygginga ásamt því að halda utan um yfirgripsmiklar áætlanir um öryggis- og verndarráðstafanir fyrir samfélög og stofnanir á svæðunum. Í skýrslu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna frá 24. mars 2023 kemur fram að kólumbíska ríkisstjórnin og FARC hafi samþykkt að framlengja umboð nefndarinnarr til að fylgja eftir og hafa eftirlit með framfylgd friðarsamkomulagsins til fjögurra ára.

Í skýrslu kanadíska innflytjendaeftirlitsins kemur fram að skrifstofa umboðsmanns (s. Defensoría del Pueblo), sem sett var á fót árið 1991, sinni margvíslegu hlutverki til að stuðla að bættri mannréttindavernd í Kólumbíu. Skrifstofan beri ábyrgð á að sinna eftirliti og aðhaldi með stjórnvöldum, taki við kvörtunum frá einstaklingum, hópum og lögaðilum og beiti sér fyrir aukinni vernd og fræðslu um mannréttindi. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 kemur fram að undirfjármögnun takmarki getu skrifstofunnar til að fylgjast með misnotkun á áhrifaríkan hátt. Umboðsmaðurinn, sem og meðlimir svæðisskrifstofu umboðsmanns, fái hótanir frá vopnuðum hópum í gegnum ýmsa miðla. Skrifstofa umboðsmanns gefi reglulega út viðvaranir fyrir svæði sem hún telji hættuleg en ríkisstjórnin bregðist hægt við tilmælum og viðvörunum. Þá veiti ríkisstofnunin National Protection Unit einstaklingum vernd sem telji sig þurfa á vernd að halda, m.a. þolendum mannréttindabrota og vopnaðra átaka. Eðli verndarinnar fari eftir áhættumati sem stofnunin framkvæmi fyrir hvern og einn einstakling. Verndin sem stofnunin veiti sé þó ekki alltaf fullnægjandi eða í samræmi við þá hættu sem viðkomandi sé í. 

Samkvæmt stjórnarskrá Kólumbíu eiga ríkisborgarar rétt á grunnheilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð í landinu. Samkvæmt vef Alþjóðabankans var atvinnuleysi í Kólumbíu 10,5% árið 2022 og minnkaði frá árinu 2021 er það var 14,3%. Ráðuneyti heilbrigðis- og félagslegrar verndar (s. Ministerio de Salud y de Protección Social) beri ábyrgð á að hafa eftirlit með og samræma þjónustu á starfssviði sínu á landsvísu. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu frá 2015 (s. La Ley Estatutaria de Salud 1751 de 2015) telst heilbrigði til grundvallarmannréttinda og bann er lagt við því að synja sjúklingum um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á grundvelli efnahagslegrar stöðu. Samkvæmt heimildum sé heilbrigðiskerfið í Kólumbíu með þeim bestu í heiminum og samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni er Kólumbía í 22. sæti yfir skilvirkustu heilbrigðiskerfi í heimi. Heilbrigðisþjónusta í Kólumbíu sé almennt ekki kostnaðarsöm og aðgengi ríkisborgara að heilbrigðisþjónustu almennt gott. Í Kólumbíu rekur heilbrigðiskerfið sjúkratryggingar sem beri heitið Entidades Promotoras de Salud (EPS). Umrætt sjúkratryggingakerfi sé í boði fyrir alla íbúa Kólumbíu með litlum tilkostnaði. EPS sjúkratryggingakerfið sé með þriggja þrepa greiðslukerfi sem nái yfir greiðsluþátttöku EPS vegna rannsóknarstofuprófa, myndgreininga, sérfræðiheimsókna og lyfja. Þá kemur fram í skýrslum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (World Health Organization, WHO) og innflytjenda- og flóttamannanefndar Kanada að sérstök löggjöf um geðheilbrigðismál í Kólumbíu hafi verið í gildi frá árinu 2013. Samkvæmt þeirri löggjöf sé ríkisborgurum Kólumbíu tryggt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og þurfi meirihluti fólks sem sæki þjónustu hjá geðheilbrigðissérfræðingum ekki að greiða fyrir slíka þjónustu. Biðtími geti verið langur en aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum sé betra í þéttbýli heldur en í dreifbýli, þ. á m. í Bógóta.

Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2023 að um 6,7 milljónir íbúa í Kólumbíu séu vegalausir innanlands (e. internally displaced people), flestir vegna vopnaðra átaka í landinu. Samkvæmt lögum hafi 52 opinberar stofnanir í Kólumbíu það hlutverk að veita einstaklingum sem hafi þurft að flýja heimkynni sín aðstoð. Jafnframt séu fjöldi félaga og samtaka í samstarfi með stjórnvöldum og hafi tekið að sér að veita mannúðaraðstoð til þeirra sem hafi þurft að flytjast á brott frá heimasvæði sínu. Stjórnvöld hafi þó sætt gagnrýni fyrir seinar og ófullnægjandi aðgerðir. Þá hafi mannúðarsamtök aukið fræðslu og dreifingu hreinlætisvara, í tengslum við Covid-19 heimsfaraldurinn.

Í skýrslu kanadísku innflytjendastofnunarinnar kemur fram að kynbundið ofbeldi sé útbreitt í Kólumbíu. Í skýrslunni kemur fram að ofbeldi gegn konum hafi aukist í Covid-19 heimsfaraldinum en að löggjöf í landinu kveði á um jafnrétti kvenna. Í skýrslu Freedom House kemur fram að um 20 prósent þingsæta í hverri þingdeild sé í höndum kvenna og varaforseti Kólumbíu sé kona. Löggjafinn hafi um árabil hunsað réttindi kvenna en árið 2021 hafi lög verið samþykkt sem ætlað sé m.a. að bæta félagslegar og efnahagslegar aðstæður kvenna. Í framangreindum skýrslum kemur fram að kólumbísk stjórnvöld hafi fullgilt alla gildandi alþjóðasamninga er lúti að mannréttindum og réttindum kvenna og ríkið hafi náð þýðingarmiklum framförum varðandi þróun löggjafar sem styðji jafnrétti kynjanna og mannréttindi kvenna. Sem dæmi um það hafi lög verið sett árið 2014 til að bæta aðgengi þolenda kynferðisofbeldis að réttvísi. Mismunun og ofbeldi gagnvart konum og refsileysi gerenda í slíkum málum sé þó vandamál í ríkinu. Konur verði fyrir kynbundnu ofbeldi, m.a. kynferðisofbeldi, í tengslum við átök tengd glæpastarfsemi og baráttu stjórnvalda við glæpahópa í landinu. Kólumbísk lög leggi skyldu á kólumbísk stjórnvöld að veita þolendum heimilisofbeldis tafarlausa vernd gegn frekara ofbeldi. Í skýrslu fulltrúa aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um kynferðislegt ofbeldi í Kólumbíu kemur m.a. fram að stofnun um velferð fjölskyldunnar (s. Instituto Colombiano de Bienestar Familiar) sé starfrækt í landinu. Stofnunin vinni að alhliða velferð barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra og reki svæðisbundnar fjölskyldumiðstöðvar í öllum borgum landsins. Skrifstofa umboðsmanns standi auk þess vörð um mannréttindi bæði þolenda og gerenda þegar um ofbeldi sé að ræða, m.a. með því að veita einstaklingum ráðgjöf og aðstoð. Í skýrslunni kemur fram að starfræktar séu neyðarlínur sem opnar séu allan sólarhringinn, þar sé hægt að tilkynna kynbundið ofbeldi. Samkvæmt skýrslu samtakanna Freedom House frá 2023 standi konur frammi fyrir mismunun á vinnumarkaði og verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. Stjórnlagadómstóll Kólumbíu hafi áréttað skyldu fyrirtækja til að bregðast við og refsa fyrir kynbundið ofbeldi á vinnustað. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að lög leggi bann við hvers kyns áreitni á vinnustað og mæli jafnframt fyrir um eins til þriggja ára fangelsisvist fyrir slík brot.

Í yfirliti frá Efnahags- og framfarstofnuninni um menntamál í Kólumbíu fyrir árið 2023 og á heimasíðu World Education News+Reviews kemur fram að í landinu sé skyldubundið grunnskólanám öllum að kostnaðarlausu. Flestir skólar séu ríkisreknir og gert að fylgja lögboðnum námsskrám sem gefin séu út af menntamálaráðuneyti Kólumbíu. Það framfylgi ákveðnum gæðastöðlum menntunar.

Í skýrslu International Crisis Group frá 2023 kemur fram að meðlimir glæpahópa í Kólumbíu hafi um árabil stundað það að fá ólögráða börn til að taka þátt í starfsemi sinni. Afsprengihópar FARC hafi fengið fjölda nýrra meðlima frá árinu 2016 og barnaverndarkerfi Kólumbíu hafi skráð 1166 tilvik þar sem börn undir 18 ára aldri séu nýir meðlimir. Glæpahópar nýti sér heimsfaraldur og efnahagsþrengingar í dreifbýli Kólumbíu til að laða að sér nýja meðlimi. Talið sé að meira en helmingur tilvika sé í norður Cauca héraði og annars staðar þar sem glæpahópar hafi sterka viðveru. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 og skýrslu Freedom House frá 2023 kemur fram að ólöglegir hópar haldi áfram að þvinga börn til þátttöku í vopnuðum átökum og kynlífsþrælkun.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi byggir umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna fjárkúgana sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki sínu. Þá ber kærandi því einnig við að hann sé í hættu vegna heilsufarsástæðna og þess að hann hafi fengið takmarkaða heilbrigðisþjónustu í heimaríki sínu. Þá greindi kærandi frá því að hann óttist um öryggi barna sinna, m.a. A verði tekinn og látinn starfa fyrir glæpahóp.

Kærandi og börn hans hafa ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann og börn hans óttist ofsóknir af hálfu kólumbískra yfirvalda sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Skýrslur og önnur gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Kólumbíu bera með sér að ítök glæpahópa séu á sumum svæðum sterk og löggæsla veik. Þrátt fyrir að gögn um aðstæður í Kólumbíu bendi til þess að glæpahópar séu áhrifamiklir á sumum svæðum í Kólumbíu, er það mat kærunefndar að gögnin sýni fram á að á öðrum svæðum geti kólumbísk yfirvöld almennt verndað grundvallarmannréttindi ríkisborgara sinna.

Fyrir liggur að kærandi og börn hans bjuggu í […] í Cundinamarca héraði í Kólumbíu. Kærandi kveðst hafa rekið verslun og fyrirtæki í heimaríki. Kærandi hefur lagt fram skjal sem hann kveður vera kæru til lögreglunnar í […], dags. […]. Í skjalinu kemur fram að kærandi hafi fengið símtal 2. maí s.á. þar sem honum hafi verið hótað að ef hann greiddi ekki 200 milljón pesóa innan átta daga yrðu börn hans tekin af lífi. Kærandi krefjist því verndar fyrir börn sín og móður þeirra. Kærandi kvaðst hafa fengið dómsúrskurð um vernd lögreglu en þegar hann hafi leitað til lögreglu hafi honum verið ráðlagt að kaupa sér vopn og verja sig og börn sín sjálfur þar sem að lögreglan geti ekki verndað sig sjálfa. Kærandi telji því að lögreglan geti ekki aðstoðað hann. Með vísan til framangreindra upplýsinga um heimaríki kæranda telur kærunefnd ekki ástæðu til að draga í efa að kærandi, sem kvaðst hafa rekið verslun og veitingastað í heimaríki, kunni að hafa orðið fyrir fjárkúgunum og hótunum af hálfu meðlima glæpahópa í heimaríki. Þrátt fyrir að gögn um aðstæður í Kólumbíu bendi til þess að glæpahópar séu áhrifamiklir á sumum svæðum þar í landi, er það mat kærunefndar að gögn sýni fram á að á öruggari svæðum geti kólumbísk yfirvöld almennt verndað grundvallarmannréttindi ríkisborgara sinna. Heimildir benda ekki til þess að ítök og áhrif glæpa- og skæruliðahópa séu slík í Cundinamarca héraði í Kólumbíu að ómögulegt sé fyrir kæranda að leita aðstoðar yfirvalda. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem leggja grunn að staðhæfingum hans um að þar til bær yfirvöld í heimaríki hafi ekki eða muni ekki veita kæranda og börnum hans vernd, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Kærandi og börn hans hafi því raunhæfan möguleika á að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef þau telja sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal, við mat skv. 1. og 2. mgr. 37. gr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Í ákvæðinu kemur fram að við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis barnsins, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.

Leggur kærunefnd mat á hagsmuni A og B samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af upplýsingum úr fyrirliggjandi gögnum málsins og framangreindum aðstæðum í heimaríki þeirra. Útlendingastofnun tók viðtal við A þar sem hann lýsti aðstæðum sínum í heimaríki og ástæðum flótta. Í viðtalinu kvað A að sér hafi liðið vel í Kólumbíu en að vinur pabba hans hafi passað upp á sig þegar hann var úti. Hann hafi verið í skóla og þótt gaman í skólanum. Hann sé fæddur í […] og uppalinn í […], þar sem hann hafi búið hjá föður sínum. Þá hafi A átt vini og æft körfubolta. Hann hafi ekki mátt fara út að leika sér nema undir eftirliti. Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli A kemur fram að kærandi óttist um öryggi hans vegna þess að skæruliðahópurinn FARC hafi hótað að taka A og láta hann starfa fyrir FARC. Þar kemur fram að kólumbísk stjórnvöld hafi stigið ákveðin skref til að sporna við því að vopnaðir hópar noti barnahermenn í sinni þjónustu. Stofnunin hafi ekki talið að A ætti á hættu að vera neyddur til að ganga til liðs við FARC eða aðra vopnaða hópa í heimaríki sínu. Þá var talið að kærandi gæti leitað til yfirvalda eftir aðstoð og vernd. Þrátt fyrir viðveru glæpahópa í heimaríki kæranda og barna hans verður af gögnum sem kærunefnd hefur yfirfarið og öðrum gögnum málsins ekki annað séð en að kærandi og börn hans geti fengið vernd sem þau þarfnist vegna glæpahópa. Þá verður ekki talið að börn kæranda séu í sérstakri hættu á að verða þvinguð til þess að ganga til liðs við vopnaða hópa í heimaríki þeirra.

Að mati kærunefndar var sjónarmiðum A og B nægilega komið á framfæri með framburði A, framburði kæranda og hagsmunagæslu talsmanns. Kærunefnd telur, að teknu tilliti til ákvæða í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og barnaverndarlögum nr. 80/2002, að engin rök standi í vegi fyrir því að A og B fylgi föður sínum aftur til heimaríkis. Kærunefnd horfir m.a. til þess að A og B eru hér á landi með föður sínum sem hefur verið starfandi í heimaríki og sinnt framfærslu barna sinna. Hafi börnin notið stuðnings föður og móður sinnar sem er búsett í heimaríki þeirra. Þá benda gögn ekki til annars en að A og B geti búið hjá foreldrum sínum eða öðrum ættingjum í heimaríki sínu fari þau til baka. Líkt og áður greinir stendur A og B til boða gjaldfrjáls grunnskólamenntun í heimaríki þeirra. Þá er móðir þeirra og aðrir fjölskyldumeðlimir búsett í Kólumbíu og eru A og B í sambandi við móður sína í heimaríki. Þau munu jafnframt hafa aðgang að heilbrigðiskerfinu í heimaríki. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar, að teknu tilliti til sjónarmiða um öryggi, velferð og félagslegan þroska A og B, að það sé þeim fyrir bestu að þau fylgi föður sínum til heimaríkis.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann og börn hans hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. og 3. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hans uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda og barna hans séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997.

Kærandi vísar til þess að hann og börn hans séu í hættu vegna glæpahóps sem hafi beitt hann fjárkúgun og hótað börnum hans. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að ástandið í Kólumbíu sé víða ótryggt, sumum svæðum sé að mestu leyti stjórnað af glæpa- og skæruliðahópum og að íbúar landsins kunna að eiga á hættu að vera beittir ofbeldi af hálfu slíkra hópa. Að jafnaði hafi kólumbísk stjórnvöld og öryggissveitir þeirra góða stjórn á öðrum svæðum og séu þau svæði nokkuð friðsæl og örugg. Þá séu lögregluyfirvöld að öllu jöfnu öflug og fagleg í landinu. Að virtum framburði kæranda og barna hans, gögnum málsins og landaupplýsingum um ástandið í Cundinamarca héraði, er það mat kærunefndar að kærandi og börn hans eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði þeim gert að snúa til Kólumbíu.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefnd að aðstæður kæranda og barna hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefnd því ljóst að kærandi og börn hans uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi. 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og börn hans uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi hefur greint frá erfiðum aðstæðum í heimaríki vegna starfsemi glæpahópa og að yfirvöld geti ekki veitt kæranda og börnum hans fullnægjandi vernd. Kærandi telur m.a. ljóst að hann geti ekki lifað öruggu og eðlilegu lífi fjarri ofbeldi og hefndaraðgerðum í heimaríki sínu og að ástand mannréttindamála þar í landi sé slæmt og félagslegar aðstæður bágbornar. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi m.a. til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu og þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Í athugasemdum kemur jafnframt fram að erfiðar almennar aðstæður geti tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar um aðstæður í Kólumbíu telur kærunefnd að almennar aðstæður kæranda og barna hans séu ekki slíkar að grundvöllur sé til veitingar dvalarleyfis á grundvelli erfiðra almennra aðstæðna.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr., mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Þá kemur fram í framangreindum athugasemdum við lagafrumvarpið að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur sé hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Í 5. mgr. 43. gr. a. reglugerðar um útlendinga kemur fram að þegar stjórnvöld taka ákvörðun um veitingu og útgáfu dvalarleyfis á þessum forsendum skal taka mið af fyrirliggjandi gögnum, þar á meðal læknisvottorðum og öðrum læknisfræðilegum gögnum. Umsækjandi ber sjálfur ábyrgð á að afla slíkra gagna og leggja fram við meðferð málsins hjá stjórnvöldum.

Kærandi hefur lagt fram heilsufarsgögn þar sem fram kemur að hann hafi glímt við hjartasjúkdóm sem ber heitið […] og að hann hafi komið hingað í þeirri von að fá betri heilbrigðisþjónustu en hann hafi fengið í heimaríki. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa glímt við hjartavandamál frá árinu 2011 og fengið bjargráð árið 2012. Hann hafi greint frá því að bjargráðurinn virki ekki sem skyldi en að hann hafi verið í frekari rannsóknum í heimaríki. Þá hafi hann ekki getað fengið hjálpartæki sem sé þróaðra því tryggingar neiti að greiða fyrir tækið. Kærandi hefur einnig greint frá því að kostnaður fyrir mánaðarskammt af lyfjum sem honum séu nauðsynleg kosti meira en lágmarkslaun í landinu. Hann hafi kært ákvörðun kólumbískra stjórnvalda um að sjúkratryggingarnar taki ekki þátt í kostnaði en ekki fengið svör. Þá hafi læknar í heimaríki tjáð honum að hann ætti aðeins eitt ár eftir á lífi. Kærandi lagði fram sjúkdómsgreiningu frá Kólumbíu, kæru vegna synjunar á heilbrigðisþjónustu og greiðslukvittun vegna hjálpartækja. Þá hefur kærandi lagt fram heilsufarsgögn vegna læknisaðstoðar sem hann hefur þurft á að halda hérlendis, bráðamóttökuskrá og upplýsingar um blóðhag kæranda. Í gögnunum kemur fram að kærandi hafi leitað aðstoðar á bráðadeild Landspítala 16. október 2022 vegna hjartsláttartruflana, brjóstverks og doða í höndum. Í vottorði, dags. 1. febrúar 2023, kemur fram að kærandi sé í eftirliti og meðferð á göngudeild hjartabilunar á Landspítala, kærandi hafi verið í svefnrannsókn sem hafi staðfest alvarlegan kæfisvefn og hættulega lága súrefnismettun að nóttu til. Hann hafi fengið meðferð með kæfisvefnsvél og sé í eftirliti vegna þess. Að auki hafi hann verið í rannsókn vegna verkja fyrir brjósti en nýleg kransæðamyndataka hafi ekki staðfest að um kransæðasjúkdóm væri að ræða. Þá kemur fram í vottorðinu að kærandi hafi áframhaldandi þörf á sérhæfðri meðferð vegna hjartasjúkdóms og kæfisvefns. Að auki sé hann með erfiðan háþrýsting sem e.t.v. eigi sinn þátt í hjartasjúkdómi og sykursýki tegund 2. Hann þurfi áframhaldandi eftirlit og lyfjameðferð. Hugsanlegt sé að ástand sjúkdómsins þróist á þann hátt að huga verði að hjartaskiptum. Eins og fram hefur komið er öllum ríkisborgurum í Kólumbíu tryggður aðgangur að heilbrigðiskerfinu í landinu. Heilbrigðisþjónusta sé góð og sjúkratryggingakerfi í boði fyrir ríkisborgara með litlum tilkostnaði. Heimildir um heilbrigðisþjónustu í Kólumbíu benda til þess að hún sé góð og aðgengileg. Kærandi hefur lagt fram gögn um að hann hafi gengist undir aðgerðir, fengið bjargráð og verið í rannsóknum vegna sjúkdóms síns. Er það mat kærunefndar að hann geti áfram fengið þá heilbrigðisþjónustu og lyf sem hann þarfnast í heimaríki sínu. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að A og B séu við góða andlega og líkamlega heilsu.

Þá er í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga og í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi sé menntaður og hafi starfað við verslunarrekstur í heimaríki. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hafi ekki fjárhagslega burði til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Að mati kærunefndar verður ekki séð að staða kæranda sé slík að hann geti ekki starfað og aflað tekna í heimaríki. Þá hefur kærandi greint frá því að börn hans hafi verið í skóla. Ljóst sé að börn kæranda hafa ekki skort neitt í heimaríki, svo sem húsnæði, mat og klæði. Þá liggur fyrir að móðir barna kæranda búi í heimaríki og starfi hjá lyfjafyrirtæki. Í umræddum athugasemdum kemur einnig fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að börn kæranda hafi aðgang að heilbrigðis- og skólakerfi landsins og geti leitað aðstoðar yfirvalda þar í landi. Þá sé móðir þeirra og aðrir fjölskyldumeðlimir þeirra í heimaríki.

Kærunefnd telur að þrátt fyrir þær aðstæður sem kærandi hefur greint frá hafi hann haft atvinnu í heimaríki og þá eigi svör kæranda um að honum sé ekki unnt að verða sér úti um vinnu vegna aldurs, ekki við rök að styðjast. Þrátt fyrir veikindi kæranda verði ekki annað séð en að hann sé fær um að framfleyta sér og börnum sínum og njóti auk þess stuðnings fjölskyldu í heimaríki. Jafnframt hafi kærandi og börn hans aðgang að félagslegu kerfi í Kólumbíu auk þess sem honum stendur til boða stuðningur og úrræði í heimaríki vegna hótana og áreitis sem hann hefur greint frá. Kærunefnd telur því að félagslegar aðstæður kæranda og barna hans við komu til heimaríkis séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og barna hans og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann og börn hans teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda og barna hans í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda og börnum hans dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann lagði inn umsókn sína dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða að uppfylltum skilyrðum 2. og 3. mgr. ákvæðisins. Ef um barn er að ræða skal miða við 16 mánuði.

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd 11. júlí 2022, A lagði fram umsókn hér á landi 10. ágúst 2022 og B 19. júlí 2023 og á ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga því ekki við.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda og barna hans. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda og barna hans þangað.

Brottvísun og endurkomubann

Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kom hingað til lands 11. júlí 2022 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Börn kæranda komu hingað til lands 10. ágúst 2022 og 18. júlí 2023. Eins og að framan greinir hefur umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hafa þau því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinum kærðu ákvörðunum réttilega bundinn endir á heimild kæranda og barna hans til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa þeim úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi. Það athugast að kæra til kærunefndar útlendingamála frestaði réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun var kæranda tilkynnt að Útlendingastofnun væri með það til skoðunar hvort brottvísa bæri honum frá landinu með endurkomubanni til tveggja ára. Með tölvubréfi, dags. 21. júlí 2023, var kæranda gefið færi á að tjá sig um það og hafa uppi andmæli. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að engin svör hafi borist frá kæranda við þeim fyrirspurnum. Kærunefnd óskaði með tölvubréfi, dags 16. nóvember 2023, eftir framangreindum gögnum frá talsmanni. Engin svör bárust frá kæranda. Af gögnum málsins er ljóst að kærandi á bróður hér á landi en ekkert í gögnum málsins bendir til þess að kærandi hafi önnur tengsl við Ísland eða önnur Schengen-ríki.

Af þeim svörum sem kærandi gaf um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun hans og endurkomubann verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð hans eða nánustu aðstandenda hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá horfir kærunefnd jafnframt til þess að kærandi getur komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi hann Ísland innan þess frest sem honum er gefinn.

Í ákvörðunarorðum Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var kæranda veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið og tekið fram að yfirgefi hann landið sjálfviljugur innan þess frests verði endurkomubannið fellt niður.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kæranda til að yfirgefa landið. Endurkomubann kæranda fellur niður yfirgefi kærandi landið sjálfviljugur innan framangreinds frests.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar.

Athygli er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar. Endurkomubann verður fellt úr gildi fari þau frá sjálfviljug frá Íslandi innan 15 daga.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed. If the appellant leaves Iceland voluntarily within 15 days, the re-entry bans will be revoked.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Sindri M. Stephensen                                                Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta