Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 374/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 374/2019

Miðvikudaginn 22. janúar 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. september 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. júlí 2019 um að synja kæranda um breytingu á endurreikningi og uppgjöri tekjutengdra bóta hennar vegna ársins 2018.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2018 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 160.240 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. maí 2019. Með tölvubréfi 21. júní 2019 andmælti kærandi endurreikningnum og með bréfi, dags. 22. júlí 2019, var kæranda tilkynnt um að fyrri útreikningur myndi standa óbreyttur.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. september 2019. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. október 2019, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. október 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé krafa vegna ofgreiðslu.

Við útreikning vegna ársins 2018 hafi reiknast ofgreiðsla vegna sérstakrar uppbótar. Fyrstu mánuði ársins 2019 hafi kærandi eingöngu verið með endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun. Í september 2018 hafi vinnuprófun verið hluti af endurhæfingaráætlun. Öllum upplýsingum um breytingar á tekjum hafi verið skilað, auk breyttrar tekjuáætlunar.

Þrátt fyrir að hafa sinnt skyldu sinni að upplýsa Tryggingastofnun um breytingar á tekjum fyrir seinni hluta árs 2018 hafi myndast ofgreiðsla sérstakrar uppbótar. Röksemdin sé sú að uppbót sé reiknuð út fyrir árið.

Kærandi hafi andmælt ákvörðuninni þar sem Tryggingastofnun hafði allar upplýsingar um breytingar á hennar tekjum en samt sem áður hafi stofnunin sent rukkun um ofgreiðslu sem hefði ekki átt að myndast.

Kærandi telji að þar sem Tryggingastofnun hafi fengið allar upplýsingar um breytingar á tekjum hennar og að hún hafi sinnt skyldu sinni að tilkynna þeim um breyttar aðstæður hafi átt að taka tillit til þess strax en ekki leggja ofgreiðslu á seinna.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2018. Kærandi hafi andmælt endurreikningnum og hafi þeim verið svarað með bréfi, dags. 22. júlí 2019.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009, sbr. breytingarreglugerð nr. 1118/2013, sé Tryggingastofnun ríkisins heimilt, þegar einstaklingur leggi inn nýja umsókn um bætur, að miða útreikning bóta eingöngu við þær tekjur sem áætlað sé að aflað verði eftir að bótaréttur stofnist. Unnt sé að beita heimildinni, bæði um nýja umsókn um örorkubætur, endurhæfingarlífeyri og um nýja umsókn um ellilífeyri hjá sama einstaklingi, enda sé ekki um samfellt bótatímabil að ræða. Heimildinni verði þó eingöngu beitt einu sinni um útreikning ellilífeyris. Þegar um endurhæfingar- eða örorkulífeyrisþega sé að ræða teljist umsókn vera ný ef liðin séu meira en tvö ár frá því að síðasta örorkumat hafi runnið út eða viðkomandi einstaklingur hafi verið í virkri endurhæfingu og/eða fengið greiðslur frá Tryggingastofnun.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Á árinu 2018 hafi kærandi verið með endurhæfingarlífeyri og tengdar greiðslur frá 1. apríl 2018 og út árið. Í samræmi við ákvæði 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 598/2009 þá hafi allar tekjur kæranda á tímabilinu 1. apríl 2018 til 31. desember 2018 áhrif á réttindi kæranda. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 160.240 kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2019 vegna tekjuársins 2018 hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafði gert ráð fyrir. Endurreikningur hafi byggst á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Kærandi hafi sent inn tekjuáætlun þann 22. febrúar 2018 þar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir neinum tekjum nema öðrum skattskyldum tekjum að fjárhæð 564.063 kr. fyrir tímabilið janúar til og með mars 2018, þ.e. fyrir tímabil fyrir upphaf greiðslu endurhæfingarlífeyris. Tryggingastofnun hafi fallist á þá tekjuáætlun ásamt því að gera ráð fyrir 40.391 kr. í launatekjur í febrúar 2018 og sameiginlegum tekjum þeirra hjóna í vexti og verðbætur 50.526 kr. allt árið 2018. Kæranda hafi verið greitt samkvæmt henni út ágúst 2018.

Kærandi hafi skilað inn nýrri tekjuáætlun þann 20. ágúst 2018 þar sem gert hafi verið ráð fyrir 794.791 kr. í launatekjur en að öðru leyti hafi hún verið óbreytt. Tryggingastofnun hafi sent kæranda bréf, dags. 24. ágúst 2018, og tilkynnt að bótaréttur hennar hefði verið endurreiknaður og fyrir lægi ofgreiðsla að fjárhæð 63.429 kr. sem ekki yrði innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bóta ársins.

Með bréfi, dags. 18. september 2018, hafi kæranda verið tilkynnt að skilyrði áframhaldandi endurhæfingarlífeyris væru uppfyllt frá 1. október 2018 til 31. desember 2018. Í því bréfi hafi gleymst að tilkynna kæranda að við þá framlengingu og endurreikning á bótarétti hafi myndast ofgreiðsla að fjárhæð 96.811 kr. en kæranda hafi verið sent greiðsluskjal, dagssett sama dag, þar sem ofgreiðslan hafi komið fram.

Í maí 2019 hafi árið verið gert upp. Kærandi hafi lokið endurhæfingartímabili sínu þann 31. desember 2018 og í samræmi við ákvæði 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 598/2009 höfðu allar tekjur kæranda á tímabilinu 1. apríl 2018 til 31. desember 2018 áhrif á réttindi kæranda. Tekjuáætlun Tryggingastofnunar hafði gert ráð fyrir því að á því tímabili hefði kærandi 754.400 kr. í launatekjur og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna væru 37.896 kr. í vexti og verðbætur.

Við bótauppgjör ársins 2018 hafi komið í ljós að á tímabilinu 1. apríl til 31. desember 2018 hafi kærandi verið með 817.523 kr. í launatekjur og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna hafi verið 128.792 kr. í vexti og verðbætur. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2018 hafi verið 160.240 kr. skuld, að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu, þ.e. hinar áður mynduðu ofgreiðslur.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta kærðri ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um breytingu á endurreikningi og uppgjöri á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2018.

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins frá 1. apríl til 31. desember 2018. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun ríkisins um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Í 5. mgr. 16. gr. kemur fram að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins og að bótagreiðsluár sé almanaksár. Aftur á móti segir að ef um nýja umsókn um bætur sé að ræða skuli bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda og eftir atvikum maka hans sem aflað sé frá þeim tíma sem bótaréttur hafi stofnast. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar.

Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, er greint meðal annars frá því að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Í 3. mgr. sömu greinar segir að til tekna samkvæmt ákvæðinu teljast allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins gerði tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2018, dags. 22. febrúar 2018, eingöngu ráð fyrir tekjum fyrir töku endurhæfingarlífeyris. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 15. mars 2018, var fjármagnstekjum að fjárhæð 25.263 kr. bætt við tekjuáætlunina og voru bótaréttindin reiknuð út frá þeim forsendum. Kærandi skilaði inn nýrri tekjuáætlun þann 20. ágúst 2018 þar sem hún gerði ráð fyrir 794.791 kr. í launatekjur, en að öðru leyti var áætlunin óbreytt. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 24. ágúst 2018, var fallist á innsenda tekjuáætlun og var kærandi jafnframt upplýst um áætlaða kröfu að fjárhæð 63.429 kr. Við endurmat Tryggingastofnunar á endurhæfingarlífeyri kæranda, dags. 18. september 2018, var gert ráð fyrir óbreyttum tekjum. Í greiðsluskjali stofnunarinnar, dagsettu sama dag, var kærandi jafnframt upplýst um nýja áætlaða kröfu að fjárhæð 96.811 kr. Engar athugasemdir bárust við þá tekjuáætlun.

Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2018 reyndust launatekjur hennar á tímabilinu 1. apríl til 31. desember hins vegar vera 817.523 kr., að frádregnum 65.396 kr. iðgjöldum í lífeyris- og séreignarsjóð og 128.792 kr. í fjármagnstekjur með maka. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2018 leiddi í ljós að kærandi hafi ekki átt rétt á sérstakri uppbót á árinu. Samtals reyndist ofgreiðsla ársins vera 160.240 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafin um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Samkvæmt framangreindu reyndust tekjur kæranda vera hærri á árinu 2018 en gert hafði verið ráð fyrir. Um var að ræða annars vegar launatekjur og hins vegar fjármagnstekjur. Í kæru gerir kærandi athugasemdir við að þurfa að endurgreiða sérstaka uppbót þar sem hún hafi sinnt skyldu sinni að tilkynna stofnuninni um tekjur. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð er heimilt að greiða meðal annars endurhæfingarlífeyrisþegum sérstaka uppbót vegna framfærslu ef sýnt þykir að þeir geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi, sem ekki fær greidda heimilisuppbót, geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar var á árinu 2018 miðað við að heildartekjur væru undir 227.883 kr. á mánuði, sbr. þágildandi 3. málsl. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laganna teljast allar skattskyldar tekjur samkvæmt ákvæðinu til tekna. Þá liggur fyrir að Tryggingastofnun bar að líta til allra þeirra tekna sem kærandi aflaði á tímabilinu 1. apríl til 31. desember 2018, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þar sem kærandi var með heildartekjur umfram framangreinda fjárhæð á tímabilinu, sem hún fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, átti hún ekki rétt á að fá greidda sérstaka uppbót til framfærslu sökum tekna og þarf því að endurgreiða þær bætur að fullu.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2018.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2018, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                                Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta