Hoppa yfir valmynd

Nr. 111/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 111/2019

Miðvikudaginn 3. júlí 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. mars 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. febrúar 2019 þar sem umsókn kæranda um heimilisuppbót var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. febrúar 2019, var kærandi upplýst um mögulegan rétt á frekari greiðslum vegna stöðvunar lífeyrisgreiðslna til maka hennar vegna dvalar hans á stofnun. Með umsókn, dags. 11. febrúar 2019, sótti kærandi um heimilisuppbót frá X 2019 vegna fangelsisvistunar maka hennar. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 13. febrúar 2019, var kæranda synjað um greiðslu heimilisuppbótar þar sem hún uppfyllti ekki það skilyrði að maki hennar væri á stofnun sem falli undir dvalar- eða hjúkrunarheimili.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. mars 2019. Með bréfi, dags. 18. mars 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 1. apríl 2019, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 2. apríl 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja henni um heimilisuppbót verði endurskoðuð í ljósi breytinga á fjárhag kæranda þar sem maki hennar hafi misst lífeyrisgreiðslur sínar vegna dvalar á stofnun.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi eftir ábendingu frá Tryggingastofnun sótt um heimilisuppbót vegna breyttra aðstæðna þar sem  lífeyrisgreiðslur til maka hennar hafi fallið niður vegna dvalar hans á stofnun, þ.e. í fangelsi. Tryggingastofnun hafi síðan synjað henni um heimilisuppbót þar sem  maki hennar dvelji ekki á stofnun sem falli undir dvalar- eða hjúkrunarheimili.

Þar sem  lífeyrisgreiðslur eiginmanns kæranda hafi fallið niður þurfi hún nú að standa ein undir rekstri heimilisins sem þau hjónin hafi áður staðið undir saman. Vegna tekjulækkunar hafi kærandi átt erfitt með að standa skil á þessum greiðslum.

Staðreyndin sé sú að greiðslur hafi fallið niður til eiginmanns kæranda eins og um sé að ræða dvöl á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Í upplýsingum Tryggingastofnunar um heimilisuppbót segi: „Maki þess sem hættir að fá lífeyrisgreiðslur getur sótt um heimilisuppbót. Skilyrði fyrir því er að makinn sé lífeyrisþegi hjá Tryggingastofnun og búi einn.“ Kærandi uppfylli bæði þessi skilyrði og þá hafi stofnunin hvatt hana til að sækja um heimilisuppbót en hafi svo synjað henni um þær greiðslur.

Samkvæmt þessu sé jafnræðis ekki gætt varðandi greiðslur og upplýsingar til lífeyrisþega frá Tryggingastofnun þegar lífeyrir maka falli niður. Þó svo að maki kæranda dveljist ekki á stofnun fyrir aldraða þá séu aðstæður kæranda þær sömu og ef svo væri.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun stofnunarinnar á umsókn kæranda um heimilisuppbót.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segi:

“Heimilt er að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.”

Í 3. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og lífeyri segi:

„Heimilt að greiða uppbætur samkvæmt reglugerð þessari til þeirra lífeyrisþega sem eiga lögheimili hér á landi enda uppfylli þeir önnur skilyrði fyrir greiðslum. Um almenn skilyrði og útreikning uppbóta fer samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og reglugerð þessari.“

Í 5. gr. reglugerðarinnar segi:

„Við útreikning heimilisbótar skv. II kafla reglugerðar þessarar skuli fara skv. 8. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. einnig 16. gr. laga um almannatryggingar.“

Í 8. gr. reglugerðarinnar segi:

„Nú dvelst maki elli- eða örorkulífeyrisþega til frambúðar á dvalar- eða hjúkrunarheimili og er þá heimilt að greiða makanum sem heima býr heimilisuppbót, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum til greiðslu bóta samkvæmt reglugerð þessari.“

Í reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé kveðið á um það að einungis sé heimilt að greiða maka sem sé búsettur heima heimilisuppbót ef maki elli- og örorkulífeyrisþega dvelji til frambúðar á dvalar- eða hjúkrunarheimili.

Með bréfi, dags. 7. febrúar 2019, hafi Tryggingastofnun bent kæranda á hugsanlegan rétt til greiðslu heimilisuppbótar. Tryggingastofnun hafi með bréfinu ekki verið að úrskurða um rétt til handa kæranda heldur hafi eingöngu verið að sinna sínu upplýsingahlutverki og verið að koma á framfæri vinsamlegri ábendingu um að hugsanlega gæti verið réttur til heimilisuppbótar. 

Við nánari athugun á máli kæranda hafi komið í ljós að réttur hafi ekki verið til staðar þar sem  dvöl maka kæranda hafi ekki verið á dvalar- eða hjúkrunarheimili heldur í fangelsi, eins og fram hafi komið á umsókn, dags. 4. febrúar 2019. Þær upplýsingar hafi ekki legið fyrir þegar bréf Tryggingastofnunar frá 7. febrúar hafi verið sent kæranda. Í kjölfarið hafi Tryggingastofnun sent kæranda bréf, dags. 13. febrúar 2019, þar sem henni hafi verið tilkynnt um synjun á greiðslu á heimilisuppbót þar sem lagaskilyrðum hafi ekki verið fullnægt vegna þess að maki hennar dvelji í fangelsi en ekki á dvalar- eða hjúkrunarheimili, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 1200/2018.

Tryggingastofnun sé ekki heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega þegar maki hans dvelji í fangelsi heldur einungis þegar maki lífeyrisþega dvelji til frambúðar á dvalar- eða hjúkrunarheimili eins og fram komi í 8. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri og þar af leiðandi hafi kæranda verið synjað um heimilisuppbót.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. febrúar 2019 um að synja kæranda um heimilisuppbót.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri nr. 1200/2018 var sett með stoð í 5. mgr. 9. gr., sbr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 8. gr. reglugerðarinnar er fjallað um undantekningu frá framangreindu skilyrði um að lífeyrisþegi þurfi vera einhleypur en þar segir:

„Nú dvelst maki elli- eða örorkulífeyrisþega til frambúðar á dvalar- eða hjúkrunarheimili og er þá heimilt að greiða makanum sem heima býr heimilisuppbót, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum til greiðslu bóta samkvæmt reglugerð þessari.“

Ljóst er að til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði lagaákvæðisins að vera uppfyllt nema framangreint undantekningarákvæði 8. gr. reglugerðarinnar eigi við. Tryggingastofnun ríkisins synjaði umsókn kæranda um heimilisuppbót með þeim rökum að maki hennar sé í fangelsi en ekki til frambúðar á dvalar- eða hjúkrunarheimili.

Kveðið er skýrt á um það í 8. gr. laga um félagslega aðstoð að umsækjandi um heimilisuppbót þurfi meðal annars að uppfylla það skilyrði að vera einhleypur. Skilgreining á orðinu einhleypur samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók, sem birt er á netinu og unnin hjá orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, er að um sé að ræða einstakling sem sé hvorki í sambúð né í hjónabandi. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi sé í hjúskap. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að kærandi sé ekki einhleyp í skilningi 8. gr. laga um félagslega aðstoð.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 er kveðið á um þröngt afmarkaða undantekningu frá því lagaskilyrði að um einhleypan lífeyrisþega sé að ræða. Undantekningu þessa ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Óumdeilt er að maki kæranda dvelur í fangelsi en ekki til frambúðar á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því ljóst að framangreint reglugerðarákvæði eigi ekki við í tilviki kæranda.

Kærandi byggir á því að jafnræðis sé ekki gætt varðandi greiðslur frá Tryggingastofnun þegar lífeyrir maka fellur niður. Fram kemur að þó svo að maki kæranda dveljist ekki á stofnun fyrir aldraða þá séu aðstæður hennar þær sömu og ef svo væri.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að hin kærða ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sé í samræmi við 8. gr. reglugerðar nr. 1200/2018. Í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Stjórnvöldum ber við setningu stjórnvaldsfyrirmæla að fylgja 65. gr. stjórnarskrárinnar og óskráðum grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins um jafnrétti borgaranna. Ein helsta forsenda þess að jafnræðisreglan komi til álita er að tilvik eða aðstæður séu í raun sambærileg þegar þau eru skoðuð saman til að sýna fram á að mismunun hafi átt sér stað.

Fyrir liggur að undantekning 8. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 á einungis við þegar maki elli- eða örorkulífeyrisþega dvelst til frambúðar á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Engar upplýsingar liggja fyrir um hversu lengi maki kæranda þarf að dvelja í fangelsi. Aftur á móti er ljóst að fangelsisdómar eru ávallt tímabundnir, sbr. 34. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að lífeyrisþegar sem eiga maka í fangelsi séu ekki í sambærilegri stöðu og lífeyrisþegar sem eiga maka sem dveljast til frambúðar á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Því er ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að um brot á jafnræðisreglu sé að ræða.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærandi eigi ekki rétt á greiðslu heimilisuppbótar. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. febrúar 2019 um að synja umsókn kæranda um heimilisuppbót er því staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 13. febrúar 2019 um að synja A, um heimilisuppbót, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta