Hoppa yfir valmynd

Nr. 126/2018 - Úrskurður

Örorkumat

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 126/2018

Fimmtudaginn 31. maí 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 4. apríl 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. febrúar 2018 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en henni metinn tímabundinn örorkustyrkur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með örorkumati 1. september 2016 var kæranda metinn örorkustyrkur frá 1. júlí 2016 til 31. ágúst 2018. Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 23. nóvember 2017. Með örorkumati, dags. 16. febrúar 2018, var umsókn kæranda synjað en hún var talin uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. september 2017 til 31. ágúst 2021. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni með bréfi, dags. 27. febrúar 2018, og var umbeðinn rökstuðningur veittur með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 14. mars 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. apríl 2018. Með bréfi, dags. 5. apríl 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 26. apríl 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. maí 2018. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir engar formlegar kröfur í málinu, en ráða má af kæru að hún óski eftir því að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins verði endurskoðuð.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi ekki fengið nein stig vegna líkamlegra veikinda. Í rauninni sé eingöngu gert ráð fyrir stoðkerfisverkjum, ekki taugaverkjum og verkjaköstum sem hrjái hana. Hún sé með greind með „migraine with aura“, sem hái henni mikið í daglegu lífi og hafi mikil áhrif á hvort og hvaða atvinnu hún geti stundað. Kærandi hafi komið mikið inn á þetta í viðtali við skoðunarlækni Tryggingastofnunar en að hans sögn þurfi hann að fylgja ákveðnum stöðlum og listum. Það sem farið sé fram á sé að þessir staðlar séu endurmetnir og þeim breytt í takt við það. Það gangi ekki upp að Tryggingastofnun segi að kærandi sé ekki líkamlega veik en samt sé hún rúmliggjandi marga daga í viku og þurfi að leita á bráðamóttöku oftar en eðlilegt geti talist fyrir konu á hennar aldri.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kært sé endurmat örorku Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. febrúar 2018. Í örorkumatinu hafi kæranda verið synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar en hún hafi hins vegar verið talin uppfylla áfram skilyrði örorkustyrks samkvæmt 19. gr. sömu laga.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999.

Kærandi hafi sótt um endurmat á örorku með umsókn, dags. 23. nóvember 2017. Örorkumat hjá skoðunarlækni Tryggingastofnunar hafi farið fram 13. desember 2017 og í kjölfar þess gerði örorkumat lífeyristrygginga hjá Tryggingastofnun endurmat á örorku kæranda þann 16. febrúar 2018. Kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar en hún hafi hins vegar áfram verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laganna. Mat um örorkustyrk hafi gilt frá 1. september 2017 til 31. ágúst 2021. Rangt upphafsár hafi verið tilgreint í örorkumatinu, dags. 16. febrúar 2018, en þar hafi upphafstíminn verið 1. september 2018, en eigi hins vegar að vera 1. september 2017, og hafi það verið leiðrétt. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi Tryggingastofnunar með bréfi, dags. 27. febrúar 2018. Því hafi verið svarað með bréfi, dags. 14. mars 2018, þar sem farið hafi verið yfir ástæður þess að henni hafi verið synjað um örorkulífeyri en metinn örorkustyrkur.

Við mat á örorku styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir. Við örorkumat lífeyristrygginga 16. febrúar 2018 hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 13. nóvember 2017, svör við spurningalista Tryggingastofnunar vegna færniskerðingar, dags. 23. nóvember 2017, umsókn kæranda, dags. 23. nóvember 2017, ásamt skoðunarskýrslu læknis, dags. 13. desember 2017. Einnig hafi verið til eldri gögn hjá Tryggingastofnun sem höfð hafi verið til hliðsjónar við vinnslu þessa kærumáls til að meta hvort ástand kæranda hafi farið versnandi. Gögnin séu tilkomin vegna fyrri umsóknar kæranda um örorkumat þar sem kæranda hafi einnig verið metinn örorkustyrkur frá 1. júlí 2016 til 31. ágúst 2018 af því að skilyrði til örorkulífeyris hafi ekki verið talin uppfyllt.

Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi hafi strítt við erfitt mígreni ásamt B12 vítamínskorti. Kærandi hafi verið í tengslum við C vegna sjálfsskaða og hjá sálfræðingi í […] vegna gruns um þunglyndi sem kærandi segi að komi í tengslum við mígrenisköst sín. Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið talin uppfyllt. Kærandi hafi ekki fengið stig í líkamlega hlutanum en sjö stig í þeim andlega, færni kæranda til almennra starfa hafi áfram verið talin skert að hluta og henni hafi verið metinn örorkustyrkur frá 1. september 2017 til 31. ágúst 2021.

Ítarlega hafi verið farið yfir öll gögn málsins og viðbótargögn sem hafi fylgt kæru. Farið hafi verið sérstaklega yfir hvort að niðurstaða skoðunarskýrslu læknis og örorkumats væri í samræmi við gögn málsins. Að öllum þessum gögnum virtum telji stofnunin ekki að um ósamræmi sé að ræða eða að ný gögn um versnandi heilsufar kæranda hafi komið fram.

Rétt sé þó að hafa í huga að í skoðunarskýrslu séu svör kæranda og aðrar upplýsingar í málinu metnar af skoðunarlækninum. Í þessu tilfelli megi til dæmis benda á að það sé mat skoðunarlæknis að vegna kvíða, þunglyndis, streitu og andlegs álags, ásamt einbeitingarskorti og skapgerðarbreytingum hafi kærandi hlotið sjö stig í andlega þættinum.

Það sé því niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja um örorkulífeyri en veita henni áfram örorkustyrk, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Jafnframt sé áréttað að ákvörðunin sem kærð hafi verið í þessu máli hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. febrúar 2018, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni veittur áframhaldandi tímabundinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 13. nóvember 2017. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu eftirfarandi:

„Svörun við mikilli streitu og aðlögunarraskanir

Geðlægðarlota, ótilgreind

Kvíðaröskun, ótilgreind

Mígreni með fyrirboða“

Um fyrra heilsufar segir:

„Stutt sjúkrasaga: A hefur greint með migren síðan hún var X ára. […] Hún er að vinna á D í X% vinnustarf. Hún minnkaði vinnu vegna migrenis. A tekur Imigran, Parkodin Forte, Afipran og Phenergan í migrenisköstum sem hún er með í „minnsta kosti“ þrisvar í viku. A hefur verið á C hjá sálfræðingi og í E vegna grun um þunglyndi. A segir í dag að þunglyndiseinkenni koma vegna migrenis.

Endurhæfingardvöl á F 2015, sem því miður skilaði ekki árangri hvað varðar tíðni og þyngd mígrenikasta að sögn sjl. sjálfs.

Stutt félagssaga: A er ekki búin með [...]. Hún býr saman með [...] í [...].“

Þá segir í læknisvottorðinu í lýsingu læknisskoðunar:

„Skoðun: „alltaf með höfuðverki“ NRS 3-4 migrenikast á minnsta kosti þrisvar í viku, tekur þá öll lyf er þá með NRS 8-10 mismunandi lengi, frá 2kl til 2 sólarhringar. Hún er þá að kasta upp í köstum. Hún hefur alltaf kastað upp vegna migrenis. Hún er með brjóstsviði.

PHQ-9: 24stig >>> Alvarlegt þunglyndi. A er sjálfsvígshugsandi í dag og nánast alla daga og vill fá hjálp. Hún segir hún mundi aldrei gera þetta án að tala við einhverjum um þetta mál.

GAD-7: 17stig >>> Alvarlegur kvíða

DASS: Þunglyndi 35, Kvíði, 19 Streita 37

s-ED: alvarleg streitu

Útskýring í dag: Alvarleg streitu, alvarlegur kvíða, alvarlegt þunglyndi“

Við örorkumatið lá fyrir læknisvottorð F, dags. 21. júní 2016, þar sem segir að kærandi hafi verið greind með: Mígraine og mixed anxiety and depressive disorder. Í sjúkrasögu segir meðal annars svo:

„Mikil saga um mígreni. Fær slæm mígrenisköst 2 sinnum í viku og er allt að 2 daga að jafna sig. Þurfti að hætta í […] vegna sjúkdóms og hefur ekki getað haldið vinnu frá því hún byrjaði að vinna X ára

Er einnig með þunglind og með kvíða sem hugsanlega tengjist mígreninu. Hefur verið í sálfræðimeðferð tengt því.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún sé með fatlandi mígrenisköst og mikil andleg veikindi sem fylgi. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hún geti ekki setið lengur en 30-40 mínútur, þá fái hún verk í hálsinn sem leiði til mígrenis. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að hún þurfi að standa upp mjög hægt, annars fái hún svima og hausverk. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa og rétta sig upp aftur þannig að hún geti ekki beygt sig í bakinu, bara í hnjánum, annars svimi hana og hún fái hausverk. Kærandi svarar spurningu um það hvort erfitt sé að ganga upp og niður stiga þannig að hún geti ekki gengið upp margar tröppur, það valdi svimakasti og hausverk. Kærandi svarar spurningu um það hvort erfitt sé að teygja sig eftir hlutum þannig að hún geti einungis beygt sig í hnjánum eftir hlutum, ekki í bakinu. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að hún geti ekki lyft þungum hlutum, hún fái þá verki í hálsinn og svima sem verði að hausverk. Kærandi svarar spurningu um það hvort sjónin bagi hana þannig að hún fái áru (sjóntruflanir) í 5 – 15 mínútur fyrir kast. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún í eigi í talerfiðleikum þannig að í mígreniskasti sé mjög erfitt að tala og hlusta, heyrnin verði mjög viðkvæm. Kærandi svarar spurningu um það hvort heyrnin bagi hana þannig að heyrnin verði næm og viðkvæm í mígreniskasti þá megi helst ekki tala við hana eða gera einhver hljóð í kringum hana. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi, um sé að ræða mikinn kvíða og vanlíðan í kringum köst, yfirleitt sjálfsvígshugsanir í kasti.

Skýrsla H skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins 13. desember 2017. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hún geti ekki setið nema í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi geti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt. Að mati skoðunarlæknis er kæranda ekki annt um útlit sitt og aðbúnað í lífinu. Svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Hugaræsing vegna hversdagslegra atburða leiði til óviðeigandi/truflandi hegðunar kæranda. Þá ergi kærandi sig yfir því sem ekki hafi angrað hana áður en hún varð veik. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir atferli kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Kemur vel fyrir og gefur ágæta sögu. Verður aðeins meyr þegar rætt er um hennar veikindi en annars eðlilegt lundafar. neitar dauðahugsunum en kveðst annars finna fyrir þeim í mígrenisköstum.

Er snyrtileg til fara og ekki koma fram neinar ranghugmyndir.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Hefur verið í tengslum við C vegna sjálfskaða og hjá sálfræðingi í E vegna gruns um þunglyndi sem hún segir að komi í tengslum við mígrenisköstin. Á spurningalistum er hún að mælast með alvarlegt þunglyndi og kvíða, hefur verið með sjálfsvígshugsanir.“

Í athugasemdum segir:

„Kveðst vera með mígreni hálfa vikuna þar sem hún getur lítið gert og einangrar sig. Dettur í þessum köstum oní kvíða og þunglyndi með dauðahugsunum og hefur vegna þess leitað til geðdeildar.

Er í viðtali ekki í mígreniskasti.“

Í stuttri sjúkrasögu segir meðal annars:

„Atvinnusaga: hefur unnið við [...] frá 2015-2017. Var sagt upp nú í X 2017 Á D og var hún í X% starfi en var eingöngu að ná að mæta í 10-20% skipta.“

Í málinu liggur einnig fyrir eldri skoðunarskýrsla, I læknis, dags. 2. ágúst 2016. Samkvæmt þeirri skoðunarskýrslu telur skoðunarlæknir að kærandi sé ekki líkamlega færniskert samkvæmt örorkustaðli. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi sitji oft aðgerðarlaus tímunum saman. Skoðunarlæknir telur að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún hafi notið áður og þá forðist kærandi hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Kæranda finnist oft að hún hafi svo mörgu að sinna að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis. Hugaræsingur vegna hversdagslegra atburða leiði til óviðeigandi/truflandi hegðunar og að hún ergi sig yfir því sem ekki hafi angrað hana áður en hún varð veik. Þá kjósi kærandi að vera ein sex tíma á dag eða lengur. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu samkvæmt örorkustaðli.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur ekki stig samkvæmt örorkustaðli. Að öðru leyti er það mat skoðunarlæknis að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu samkvæmt staðlinum. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda engin. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi geti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir telur að kæranda sé ekki annt um útlit sitt og aðbúnað í lífinu. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að hugaræsingur vegna hversdagslegra atburða leiði til óviðeigandi/truflandi hegðunar. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hafi angrað hana áður en hún varð veik. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til átta stiga stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. laga um almannatryggingar mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Fyrir liggur samkvæmt gögnum þessa máls að tvö örorkumöt hafa verið framkvæmd hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna umsókna kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur og þá hafi hún í bæði skiptin gengist undir mat hjá skoðunarlækni. Fyrra matið var framkvæmt 2. ágúst 2016 og það síðara 13. desember 2017. Samkvæmt þeim uppfyllir kærandi ekki skilyrði staðals um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en hún er talin uppfylla skilyrði örorkustyrks.

Úrskurðarnefnd velferðarmála leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að nokkurs misræmis gæti í gögnum málsins varðandi mat á andlegri færni kæranda. Einkum gætir slíks misræmis milli þeirrar skoðunarskýrslu sem hin kærða ákvörðun byggir á og fyrri skoðunarskýrslu sem unnin var rétt tæplega einu og hálfu ári fyrr, dags. 2. ágúst 2016. Samkvæmt nýrri skýrslunni fær kærandi stig fyrir nokkur atriði sem ekki áttu við samkvæmt fyrri skýrslunni en einnig eru nokkur atriði sem kærandi fær ekki stig fyrir samkvæmt nýrri skýrslunni þótt hún hafi fengið þau samkvæmt þeirri fyrri. Ekki kemur fram í rökstuðningi við einstök atriði síðari skýrslunnar hvað hafi breyst frá því fyrri skýrslan var rituð. Það er mat skoðunarlæknis að kærandi sitji ekki oft aðgerðalaus tímunum saman en það átti við samkvæmt fyrri skoðunarskýrslunni. Fyrir það fékk kærandi tvö stig við fyrra mat á örorku. Það er mat skoðunarlæknis að geðrænt ástand kæranda komi ekki í veg fyrir að hún sinni áhugamálum sem hún naut áður en það átti við samkvæmt fyrri skoðunarskýrslu. Fyrir það fékk kærandi eitt stig. Það er mat skoðunarlæknis að kærandi forðist ekki hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi en það átti við samkvæmt fyrri skoðunarskýrslunni. Fyrir það fékk kærandi eitt stig. Það er mat skoðunarlæknis að kæranda finnist ekki oft að hún hafi svo mikið að gera að það leiði til uppgjafar vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis en það átti við samkvæmt fyrri skoðunarskýrslunni. Fyrir það fékk kærandi eitt stig. Það er mat skoðunarlæknis að kærandi kjósi ekki að vera ein sex tíma á dag eða lengur en það átti við samkvæmt fyrri skoðunarskýrslunni. Fyrir það fékk kærandi eitt stig. 

Þannig gæti kærandi fengið allt að sex stigum til viðbótar eða alls fjórtán stig vegna andlegrar færniskerðingar og uppfyllt skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Hins ber að geta að einnig er hugsanlegt að aðrir liðir matsins gæfu ekki stig, kæmi til endurskoðunar. Þrátt fyrir að svo sé telur úrskurðarnefndin misræmið í skoðunarskýrslum, varðandi mat á andlegri færni kæranda, svo mikið að ekki verði hjá því komist að nýtt mat fari fram á örorku. Er æskilegt að í örorkumatinu verði tekin rökstudd afstaða til þess sem misræmi lýtur að. Hafa ber í huga að miklir hagsmunir eru því tengdir fyrir kæranda hvort hún uppfyllir skilyrði örorkulífeyris.

Af framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta