Mál nr. 307/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 307/2023
Mánudaginn 25. september 2023
A
gegn
Barnavernd BB
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Helgi Viborg sálfræðingur.
Með kæru, dags. 16. júní 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B, dags. 19. maí 2023, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna sonar kæranda, C
I. Málsatvik og málsmeðferð
Drengurinn, C, er X ára gamall sonur kæranda. Mál drengsins hófst í kjölfar tilkynningar, dags. 19. mars 2023, samkvæmt 17. gr. bvl. Kærandi tilkynnti áhyggjur af aðbúnaði drengsins í umsjá móður sökum áfengisneyslu. Þann sama dag hafi bakvakt Barnaverndar B farið á heimili móður til að kanna aðstæður.
Að undangenginni könnun var mál drengsins tekið fyrir hjá starfsmönnum Barnaverndar B þann 10. maí 2023 og var niðurstaðan sú að ekki væri þörf á aðgerðum á grundvelli barnaverndarlaga og því hafi málinu verið lokað.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 16. júní 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. júní 2023, var óskað eftir greinargerð Barnaverndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndar B barst nefndinni með bréfi, dags. 26. júní 2023. Með bréfi, dags. 28. júní 2023 var greinargerðin send kæranda til kynningar. Frekari efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að úrskurðarnefnd velferðarmála ógildi ákvörðun barnaverndar B, dags. 19. maí 2023.
Kærandi telur alvarlega vankanta á vinnubrögðum í könnun Barnaverndar. Upplýsingaöflun hafi verið stórlega ábótavant, röng eða misvísandi mynd hafi verið dregin af málsatvikum, viðtal við drenginn hafi verið með ófullnægjandi hætti, og fjarstæðukenndar ásakanir móður í garð kæranda um samsæri hans og vinkvenna móður hafi fengið að standa án nokkurra tilrauna til að kanna hvort fótur væri fyrir þeim.
Kærandi krefst þess að könnun verði opnuð á ný og unnin með fullnægjandi hætti, þ.e. að rætt verði við þá aðila sem hafi upplýsingar um málið og komi fyrir í tilkynningu föður eða útskýringum móður, s.s. móðurömmu barnsins og vinkonur móður, og tekið verði viðtal við drenginn til að spyrja hann út í þá atburði sem hann lýsi í tilkynningu kæranda til Barnaverndar. Að því loknu verði niðurstaða fengin í málið með tilliti til allra upplýsinga sem komið hafi fram.
Kærandi telji nauðsynlegt að gera neðangreindar athugasemdir við það sem fram kemur í gögnum Barnaverndar.
Kærandi telji misvísandi lýsingu á atburðum kvöldsins 19. mars 2023. Í niðurstöðu könnunar sé minnst á atburði kvöldsins 19. mars 2023 þegar fulltrúi barnaverndar hafi farið ásamt lögreglu á heimili móður í kjölfar tveggja tilkynninga til neyðarlínu vegna áhyggja af ástandi móður. Þar sé tekið fram að „móður og barni hafi verið brugðið“ við heimsóknina, og að „erfitt hafi verið að meta ástand [móður] en háttalag hennar hafi verið undarlegt.“ Hún hafi „ekki viljað blása í áfengismæli og samþykkt að drengurinn færi til föður.“ Tekið sé fram að heimilið hafi verið „eðlilegt og á borðum mátti sjá grillaðan mat og meðlæti.“ Ekkert sé minnst frekar á þessa heimsókn í niðurstöðu Barnaverndar.
Kærandi telji þessa lýsingu alls ekki gefa raunsæja mynd af því sem hafi gerst þetta kvöld. Í skýrslu bakvaktar Barnaverndar, sem hafi verið gerð af fulltrúa sem hafi farið í umrædda heimsókn, komi margt fram sem kærandi telji furðu sæta að hafi ekki talist viðeigandi í samantekt niðurstöðu könnunar á atburðum kvöldsins. Til að mynda segi í skýrslunni að móðir hafi verið „glær í augunum, ögn þvoglumælt og mátti sjá hvíta froðu í munnvikum hennar að mati starfsmanns.“ Þá segi í skýrslunni að móðir hafi upphaflega neitað því að hafa drukkið áfengi, en síðar í heimsókninni hafi neitað að svara því hvort hún hafi neytt áfengis. Starfsmaður hafi borið upp þetta misræmi í svörum móður og spurt hvort hún vildi breyta upphaflega svarinu sínu, en móðir hafi ekki svarað spurningunni.
Í skýrslunni segi að starfsmaður hafi haft orð á því að „honum þætti móðir einkennileg í háttum og sagðist telja móður vera undir áhrifum áfengis og þætti honum óljóst hvort að móðir væri einnig undir áhrifum lyfja.“ Einnig að „starfsmanni þætti móðir sýnilega undir áhrifum og væri það einnig mat lögreglunnar á vettvangi.“
Í skýrslunni segi að lögregla hafi bent starfsmanni á að í svefnherbergi inn af ganginum, þ.e. svefnherbergi móður, hafi verið opinn bjór sem hafi virst vera nýopnaður.
Við brottför hafi starfsmaður sagt að einhver myndi vera í sambandi við móður næsta dag upp á næstu skref, en þá „svaraði móðir engu og lokaði hurðinni á starfsmann.“
Kærandi telji einnig mikilvægt að horft sé til tímasetningar atburða kvöldsins 19. mars 2023 í samhengi við upphaflega tilkynningu kæranda til Barnaverndar vegna lýsinga drengsins á áfengisneyslu móður. Kærandi hafi sent þá tilkynningu inn 16. mars 2023, og þremur dögum síðar hafi drengurinn verið færður frá móður til kæranda vegna gruns Barnaverndar um vanrækslu móður vegna áfengisneyslu. Í ljósi alls þessa telji kærandi með öllu óskiljanlegt hvernig niðurstaða könnunar geti verið að engin gögn styðji grun um áfengisvanda móður.
Kærandi telji rangfærslur í samantekt á viðtali við sig. Í samantekt á viðtali við kæranda segi að hann byggi tilkynningu sína á upplýsingum sem komi frá drengnum og „fyrrum vinkonum móður.“ Kærandi hafi aldrei talað um „fyrrum“ vinkonur móður enda hafi þær verið í vinasambandi þegar hann hafi fengið upplýsingar frá þeim. Móðir hafi hins vegar reynt að fjarlægja sig frá þeim með staðhæfingum þess efnis að hún hafi ekki verið í samskiptum við þær árum saman, þrátt fyrir að sjálf gögn Barnaverndar sýni annað. Einnig hefði verið auðvelt að komast að hinu sanna með því að taka viðtal við þær vinkonur sem um ræði.
Í samantektinni segi einnig: „Við upphaf viðtals kom fram að upplýsingarnar hefði hann [kærandi] einnig frá móðurömmu, en þegar leið á viðtal kom fram að svo væri ekki.“ Kærandi kannist ekki við það sem hann eigi að hafa sagt þegar hafi liðið á umrætt viðtal, enda hafi hann átt regluleg samtöl á þessum tíma við móðurömmu drengsins um sameiginlegar áhyggjur þeirra af áfengisneyslu móður. Úr þessari lýsingu megi lesa að kærandi hafi orðið missaga í þessu viðtali, sem sé harðlega mótmælt.
Kærandi geri athugasemdir vegna viðtals við móður. Móðir segi að kærandi hafi verið ósáttur við skilnað þeirra. Það sé ósatt, enda hafi það verið kærandi sem hafi óskað eftir skilnaðinum. Vikurnar á undan hafði hann rætt þá ákvörðun ítarlega við fólk í sínu nærumhverfi, meðal annars foreldra sína.
Móðir saki kæranda um að hafa haft samband við vinkonur sínar til að „þreifa fyrir um neikvæð ummæli í garð móður.“ Þetta sé uppspuni frá rótum að mati kæranda. Kærandi hafi engin samskipti haft við vinkonur móður að fyrra bragði, þvert á móti hafi þær haft samband við kæranda til að ræða áhyggjur sínar af síversnandi áfengisneyslu móður sem þær hafi orðið vitni af í samskiptum við hana. Allt þetta hefðu umræddar vinkonur móður getað staðfest hefði verið talað við þær í tengslum við könnun Barnaverndar.
Móðir saki kæranda einnig um að reyna slíkt hið sama við móðurömmu drengsins, að „þreifa fyrir um neikvæð ummæli í garð móður.“ Þetta sé einnig uppspuni að mati kæranda. Hið sanna sé að kærandi hafi átt regluleg samtöl við móðurömmu drengsins um sameiginlegar áhyggjur þeirra af áfengisneyslu móður, og hvað hægt sé að gera til að hjálpa henni. Þetta hefði verið hægt að staðfesta ef talað hefði verið við móðurömmu í tengslum við könnun Barnaverndar.
Móðir segist ekki hafa verið í samskiptum í nokkur ár við umræddar vinkonur sínar. Þetta standist ekki nánari skoðun að mati kæranda, og komi það meðal annars fram í gögnum Barnaverndar. Símtal kæranda við neyðarlínuna kvöldið 19. mars 2023 hafi komið í kjölfar þess að vinkona móður hafi hringt í kæranda og lýst áhyggjum sínum eftir að hafa talað við móður í síma fyrr um kvöldið. Þessar upplýsingar hafi kærandi látið í té fulltrúa Barnaverndar, sem hafi hringt í umrædda vinkonu og fengið þær staðfestar hjá henni, eins og komi fram í skýrslu bakvaktar Barnaverndar. Eigin gögn Barnaverndar sýni því að móðir hafi átt símtal þetta kvöld við vinkonu sem hún segist ekki að hafa talað við í nokkur ár. Einnig hefði verið hægt að staðfesta að móðir hafi átt regluleg og náin samskipti við umræddar vinkonur ef talað hefði verið við þær. Ósannsögli í viðtali við fulltrúa Barnaverndar hljóti að skipta máli þegar grunur um áfengisvanda sé metinn og telji kærandi óskiljanlegt að ekkert hafi verið gert til að kanna hvort útskýringar móður stæðust.
Móðir segist jafnframt leggja upp með góð samskipti við kæranda en þær tilraunir séu einhliða. Það sé algjör viðsnúningur á sannleikanum að mati kæranda. Samskipti kæranda við móður geti, og hafi oft verið, góð svo lengi sem móðir hafi fengið sínu framgengt eins og hún væri eina foreldri drengsins. Um leið og kærandi hafi mótmælt eða svarað neitandi hafi samskiptin snarversnað af hálfu móður. Sem dæmi hafði móðir óskað eftir því að skipta á umgengnisvikum við kæranda, enda hafi það hentað henni betur. Kærandi hafi ekki getað orðið við því enda myndu vikuskipti henta honum mun verr. Móðir hafi brugðist mjög illa við því, og eftir ítrekaðar kröfur hafi hún gripið til þess ráðs að beita blekkingum til að fá sínu framgengt. Í ótengdu samtali um tilhögun sumarfrís hafi móðir lagt til dagsetningar sem kærandi hafi tekið sem heiðarlegri tillögu og samþykkt. Síðar hafi komið í ljós að tímabilið sem móðir hafði lagt til hafi hljóðað upp á þrjár vikur hjá móður en tvær hjá föður, þó sumarfrí ætti að vera skipt jafnt, með þeim afleiðingum að það skiptist á vikum. Þegar kærandi hafi vakið máls á þessu hafi móðir brugðist mjög illa við og tilkynnt kæranda að hún hygðist óska eftir úrskurði um umgengni hjá sýslumanni. Þetta sé aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um samskiptavanda móður, og stóran hluta þeirra megi staðfesta með skriflegum gögnum.
Móðir segi að „ummæli drengsins um áfengisneyslu hennar eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum“ og „séu þær komnar frá föður.“ Kærandi hafi hlustað á drenginn lýsa reynslu sinni af áfengisneyslu móður í mörgum samtölum yfir nokkurra daga tímabil. Aldrei hafi kærandi lagt drengnum til orð eða spurt leiðandi spurninga heldur hafi hann leyft drengnum að segja frá eins og hann hafi verið tilbúinn að gera í hvert skipti. Þetta geti sambýliskona kæranda og föðuramma drengsins staðfest sem hafi einnig átt samtöl við drenginn þar sem hann lýsi áfengisneyslu móður með eigin orðum. Kæranda finnst illskiljanlegt að móðir fái að afskrifa lýsingar drengsins á áfengisneyslu hennar með því að um lygar kæranda sé að ræða, eftir að Barnavernd og lögregla höfðu heimsótt móður og komið drengnum til kæranda vegna gruns um vanrækslu vegna áfengisneyslu móður, og ekkert sé gert til að kanna hvort fótur sé fyrir þeim ásökunum.
Móðir haldi því fram að „aðbúnaður barnsins í hennar umsjá sé til fyrirmyndar en það sama sé ekki hægt að segja um aðbúnað barns hjá föður.” Engin rök eða skýringar fylgi þessari fullyrðingu. Einu upplýsingarnar sem liggi fyrir á þessum tíma um aðstæður barnsins sé að Barnavernd og lögregla höfðu nýlega heimsótt heimili móður og komið barninu í umsjá föður vegna gruns um vanrækslu vegna áfengisneyslu móður. Ekkert liggi fyrir um aðbúnað barnsins hjá föður.
Móðir tali um fyrirhugaða sáttameðferð hjá sýslumanni, og minnst sé á hana í niðurlagi niðurstöðu könnunar sem tækifæri til að betrumbæta samskipti foreldra. Kæranda sé ekki kunnugt um neina fyrirhugaða sáttameðferð hjá sýslumanni, og hafi engin slík verið á döfinni þegar kærandi og móðir hafi farið í viðtöl hjá fulltrúa Barnaverndar. Kærandi telji furðulegt að þessari fullyrðingu móður, sem og öðrum, hafi verið tekið sem sannleika og engar tilraunir gerðar til að sannreyna þær.
Kærandi telji viðtal við drenginn hafa verið ófullnægjandi. Í niðurstöðu könnunar segi að fulltrúi Barnaverndar hafi heimsótt skóla drengsins og átt samtal við hann þar. Þar segi: „Var hann þá spurður út í matar- og drykkjuvenjur á heimili foreldra sinna. Hjá föður sagðist hann borða spaghettí með kjötbollum og drekka vatn með. Aðspurður sagði hann föður sinn drekka vatn eða kaffi með matnum. Þá sagðist hann borða spaghettí með beikoni hjá móður og drekka vatn eða mjólk með. Aðspurður sagði hann móður sína drekka vatn. Spurður nánar út í drykkjarval móður sagði hann móður af og til fá sér pepsi.“ Í niðurlagi niðurstöðu könnunar segi að í viðtali við drenginn hafi „ekkert varhugavert komið fram“, og „voru svör drengsins ekki í takt við áhyggjur föður.“
Kærandi vilji gera eftirfarandi athugasemdir við framkvæmd og vinnslu þessa viðtals. Viðtalið hafi átti sér stað um það bil mánuði eftir að drengurinn hafi verið fjarlægður af heimili móður vegna gruns um vanrækslu vegna áfengisneyslu, og nokkrum vikum eftir að móðir hafi gengist undir sátt hjá sýslumanni þess efnis að hún lofi að neyta ekki áfengis á meðan barnið sé í hennar umsjá. Svör drengsins hafi verið í samræmi við aðstæður eins og þær hafi verið hjá honum á þeim tíma sem viðtalið hafi farið fram, en það sé ekki hægt að draga ályktanir af því um hvernig aðstæður voru vikum og mánuðum saman þar á undan.
Kærandi telji illskiljanlegt hvers vegna drengurinn hafi ekki verið spurður, beint eða óbeint, út í nein atriði sem hann hafi lýst og komu fram í tilkynningu kæranda til Barnaverndar.
Kærandi telji einnig illskiljanlegt hvers vegna drengurinn hafi ekki verið spurður um upplifun hans og reynslu af atburðum kvöldsins 19. mars 2023, en hann hafi sagt kæranda og sambýliskonu hans frá því hvernig mamma sín hafi drukkið mikinn bjór og verið sofandi stóran hluta dagsins. Á einum tímapunkti hafi hann reynt að vekja hana en ekki getað það.
Kærandi geri athugasemd við að tilkynning hans til Barnaverndar, sem sé gerð fyrir hönd drengsins og byggist á nákvæmum og ítarlegum lýsingum hans á áfengisneyslu móður, sé afgreidd sem „áhyggjur föður“.
Miðað við framangreindar athugasemdir telji kærandi skýrt að framkvæmd viðtalsins hafi verið svo ófullnægjandi að ómögulegt sé með sanngjörnum hætti að draga þær ályktanir sem komi fram í niðurstöðu könnunar.
Áætluð lok könnunar hafi verið 13. júlí 2023, þ.e. þremur mánuðum eftir að hún hafi byrjað, en henni hafi verið hætt eftir rétt rúman mánuð. Kærandi eigi erfitt með að skilja hvers vegna svo stuttum tíma hafi verið eytt í könnunina miðað við áætlun, sér í lagi þegar svo lítilla gagna hafi verið aflað miðað við tilefni.
Í niðurstöðu könnunar segi að dómsúrskurður hafi fallið um umgengni við drenginn, sem sé rangt. Enginn dómsúrskurður hafi fallið um umgengni, en hins vegar hafi sýslumaður úrskurðað um umgengni við drenginn 6. október 2022.
Varðandi heimsókn Barnaverndar og lögreglu til móður kvöldið 19. mars 2023, þá segi niðurstaða könnunar að „móðir hafi verið upplýst um eðli tilkynningar, sem kæmi frá aðila úr hennar nærumhverfi.“ Kærandi hafi hringt í neyðarlínuna það kvöld og tilkynnt undir nafni. Í skýrslu bakvaktar Barnaverndar um þetta kvöld segi að starfsmaður hafi „upplýst móður um að tilkynning hefði borist frá föður ásamt frá öðrum aðila í gegnum neyðarlínuna.“ Kærandi geri athugasemd við að þessari setningu úr skýrslu bakvaktar hafi verið breytt í niðurstöðu könnunar þannig að lesa megi úr að kærandi hafi tilkynnt undir nafnleynd.
Í kjölfar þess að kærandi hafi tilkynnt móður til Barnaverndar hafi hún einangrað sig félagslega og slitið öllum samskiptum við þær sem hafi áður talist til vinkvenna hennar. Drengurinn hafi alltaf átt í nánu sambandi við móðurömmu sína, og gist reglulega heima hjá henni þegar hann hafi verið í umsjá móður. Það hafi gjörbreyst eftir tilkynningu kæranda, móðir hafi að mestu leyti slitið samskiptum við móðurömmu drengsins, sem hafi mánuðum saman ekki fengið að hitta drenginn í umsjá móður nema í eitt skipti í stuttan tíma. Það hafi því komið í hlut kæranda að tryggja að drengurinn fái að umgangast móðurömmu sína, sem honum hafi þótt sjálfsagt þrátt fyrir óheppilegar aðstæður. Kærandi hafi átt í góðum samskiptum við móðurömmu drengsins og leyft þeim að hittast, bæði með því að heimsækja hana og bjóða henni í heimsókn á heimili kæranda. Allt þetta hefði komið fram ef talað hefði verið við umræddar vinkonur eða móðurömmu drengsins.
Í 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga komi fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu sé reynt að tryggja að ákvarðanir nefndarinnar séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Samkvæmt 22. gr. bvl. sé það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skuli barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan barns. Leita skuli aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefji. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. barnaverndarlaga skuli í kjölfar könnunar máls meta þörf barns fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Að mati kæranda liggi fyrir gögn og upplýsingar sem bendi til þess að þörf sé á áætlun um meðferð máls, sbr. 23. gr. barnaverndarlaga, og eftir atvikum beiting úrræða til hagsbóta fyrir drenginn. Í niðurstöðu könnunar segi þó: „Á tímabili könnunar studdu engin gögn grun föður um áfengisvanda móður.“
Að öllu framangreindu sögðu telji kærandi óskiljanlegt hvernig fulltrúi Barnaverndar geti komist að þessari niðurstöðu með sanngjörnum hætti.
Að framangreindu virtu telji kærandi óumdeilanlegt að könnun Barnaverndar hafi verið með ófullnægjandi hætti og að rannsókn málsins hafi brotið gegn 41. gr. barnaverndarlaga. Þá telji kærandi jafnframt að það hafi ekki verið tímabært að loka máli drengsins og að frekari eftirfylgni hafi verið nauðsynleg. Kærandi líti sérstaklega til þess sem fram komi í I. kafla barnaverndarlaga sem fjalli um markmið barnaverndarlaga og fleira, nánar tiltekið 2. mgr. 1. gr., um að allir sem hafi uppeldi og umönnun barna með höndum skuli sýna þeim virðingu og umhyggju og óheimilt sé með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrum beri að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best henti hag og þörfum þeirra. Þeim beri að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna. Af þeim sökum krefjist kærandi þess að ákvörðun barnaverndar B, dags. 19. maí 2023, verði felld úr gildi.
III. Sjónarmið Barnaverndar B
Í greinargerð barnaverndar kemur fram að um sé að ræða dreng fæddan í X, sem lúti sameiginlegri forsjá foreldra sinna. Málefni drengsins hafa ekki áður verið til könnunar á grundvelli barnaverndarlaga hjá Barnavernd B. Kærandi hafi tilkynnt þann 16. mars 2023, áhyggjur af aðbúnaði drengsins í umsjá móður sökum áfengis- og lyfjanotkunar hennar. Kærandi hafi byggt tilkynninguna á upplýsingum frá fyrrum vinkonu móður, móðurömmu og drengnum sjálfum. Kærandi hafi tilkynnt að nýju þann 19. mars 2023 og hafi bakvakt Barnaverndar B farið á heimilið í kjölfar þeirrar tilkynningar. Í bakvaktarskýrslu, dags. þann sama dag, komi fram að erfitt hafi verið að meta ástand móður, en háttarlag hennar hafi verið undarlegt. Móðir hafi ekki viljað blása í áfengismæli og því hafi verið farið fram á að kærandi myndi sækja drenginn og hafa hann hjá sér þar til annað kæmi í ljós. Móðir hafi samþykkt það og undirbúið drenginn fyrir för til kæranda. Þann 20. mars 2023 hafi bráðavakt fylgt málinu eftir með símtölum við foreldra.
Í könnun máls hafi verið rætt við báða foreldra, drenginn og upplýsinga verið aflað frá skóla hans. Í viðtölum hafi komið fram að foreldrar hafi slitið samvistum árið 2019. Í kjölfar sambandsslita hafi samskipti foreldra ekki verið mikil og verið erfið, en framan af hafi drengurinn dvalið viku og viku hjá hvoru foreldri. Samskipti foreldra hafi versnað í kjölfar úrskurðar, að kröfu móður, um að drengurinn dvelji í níu daga hjá móður til móts við fimm daga hjá kæranda. Kærandi hafi orðið ósáttur við úrskurðinn og kært hann. Móðir hafi greint frá að í kjölfarið hafi kærandi byrjað ómálefnalega aðför að foreldrahæfni hennar, sem hafi meðal annars falið í sér tilkynningar til Barnaverndar B. Móðir hafi tekið fyrir misnotkun á áfengi og vísað meðal annars til þess að sinna krefjandi starfi sem mannauðsstjóri. Í viðtal við drenginn þann 28. apríl 2023 hafi drengurinn greint frá góðum aðbúnaði á heimili beggja foreldra. Drengurinn hafi verið spurður bæði óbeinna og opinna spurninga sem hafi beinst að áfengisdrykkju móður. Svör drengsins hafi ekki verið í takt við áhyggjur kæranda. Í svarbréfi frá skóla drengsins hafi ekki verið uppi áhyggjur af aðbúnaði drengsins í umsjá móður.
Út frá fyrirliggjandi upplýsingum í málinu hafi það verið mat starfsmanna í bókun meðferðarfundar þann 19. maí 2023 að málið væri þess eðlis að ekki væri þörf á því að það yrði unnið áfram á grundvelli barnaverndarlaga. Vísað hafi verið til þess að á tímabili könnunar hafi ekki borist nýjar tilkynningar í máli drengsins og við könnun hafi ekki vaknað alvarlegar áhyggjur af líðan drengsins eða aðstæðum hans. Fram komi í bókun starfsmanna að á tímabili könnunar hafi engin gögn stutt grun kæranda um áfengisvanda móður. Fyrir hafi legið að samskipti foreldra væru slæm og hafi foreldrar verið hvattir til að vinna að bættum samskiptum sínum, drengsins vegna. Jafnframt komi fram í bókun að fyrir liggi að foreldrar fari í sáttarmeðferð hjá sýslumanni sem geti verið góður vettvangur til að ná samkomulagi um umsjá drengsins.
Barnaverndarmál séu undantekningalítið viðkvæm mál sem fjalli um mikilvæga hagsmuni barna og fjölskyldna þeirra. Í 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé sett fram það meginmarkmið barnaverndarstarfs að tryggja að börn sem búi við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofni heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Þá segi þar jafnframt að leitast skuli við að ná markmiðum laganna með því að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það eigi við. Samkvæmt þeim meginreglum barnaverndarstarfs sem settar séu fram í 4. gr. barnaverndarlaga skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu og hafa ávallt hagsmuni barna í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda, sbr. ákvæði 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Í 4. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga komi fram að barnaverndaryfirvöld skuli leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra. Eðli málsins samkvæmt sé það forsenda fyrir samvinnu milli barnaverndaryfirvalda og foreldra að hún þjóni fyrst og fremst hagsmunum barnsins. Í 7. mgr. sama ákvæðis komi fram að úrræði barnaverndaryfirvalda skuli ávallt miða við að beitt sé vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt. Því skuli aðeins gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum þegar lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Í samræmi við markmið laganna séu barnaverndaryfirvöldum fengnar ýmsar heimildir til að hafa afskipti af málum barna og högum þegar hagsmunir barna krefjist þess. Meðal annars sé kveðið á um að sé það niðurstaða eftir könnun að þörf sé á beitingu sérstakra úrræða samkvæmt lögunum skuli barnaverndarþjónusta gera skriflega áætlun um meðferð máls í samvinnu við foreldra samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga um frekari meðferð máls, sbr. 24. gr. sömu laga. Samkvæmt 22. gr. barnaverndarlaga sé það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, allt í samræmi við hagsmuni og hag barns. Í 1. mgr. 41. gr. sömu laga komi fram að barnaverndarþjónusta skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Þannig sé reynt að tryggja að ákvarðanir séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Hafa beri í huga að öll afskipti á grundvelli barnaverndarlaga af málefnum fjölskyldu feli í sér íhlutun og því sé lögð áhersla á að sýna þeim sem málið varði fyllstu nærgætni og að könnun sé ekki umfangsmeiri en nauðsyn krefji, sbr. 2. mgr. fyrrnefndrar 41. gr. laganna.
Það hafi verið niðurstaða starfsmanna Barnaverndar B á meðferðarfundi þann 19. maí 2023, í kjölfar könnunar málsins, að ekki væri þörf á áframhaldandi vinnslu í máli drengsins á grundvelli barnaverndarlaga og málinu yrði lokað. Með hliðsjón af framangreindu og allra gagna málsins sé fyrir hönd Barnaverndar B gerð krafa um að hin kærða ákvörðun, þess efnis að loka máli C með bréfi, dags. 19. maí 2023, verði staðfest.
VI. Niðurstaða
Drengurinn, C, er sonur kæranda. Mál drengsins hófst í kjölfar tilkynningar kæranda sem barst barnavernd 16. mars 2023. Efni tilkynningar voru aðstæður drengsins í umsjá móður. Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndar B var ákveðið að loka barnaverndarmáli drengsins í kjölfar könnunar máls.
Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir nefndarinnar séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarnefnd skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.
Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.
Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort Barnavernd B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum drengsins og því bæri að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl.
Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti kærandi áhyggjur af aðbúnaði drengsins í umsjá móður sökum áfengisnotkunar hennar með tilkynningum 16. og 19. mars 2023. Bakvakt Barnaverndar B fór ásamt lögreglu á heimili móður í kjölfar seinni tilkynningarinnar. Samkvæmt bakvaktarskýrslu, dags. 19. mars 2023, var móðir glær í augunum, ögn þvoglumælt og mátti sjá hvíta froðu í munnvikum hennar að mati starfsmanns Barnaverndar. Móðir neitaði því að hafa verið undir áhrifum áfengis og neitaði því að blása í áfengismæli. Að mati starfsmanns var móðir einkennileg í háttum. Að mati starfsmanns Barnaverndar og lögreglu var móðir sýnilega undir áhrifum og var nýopinn bjór í svefnherbergi hennar. Þar sem móðir var ekki fús til samvinnu fór drengurinn til kæranda yfir nóttina. Barnavernd ræddi við kæranda og móður í síma daginn eftir. Þann 13. apríl 2023 var tekið viðtal við kæranda hjá Barnavernd og þann 14. apríl 2023 var tekið viðtal við móður. Þann 18. apríl 2023 var tekið viðtal við drenginn í skólanum hans. Í viðtalinu greindi drengurinn frá því að honum liði vel hjá móður, honum liði nánast aldrei illa og gat hann ekki gert grein fyrir því hvenær hann upplifði síðast vanlíðan. Þá kallaði Barnavernd eftir gögnum frá skóla drengsins sem bárust með bréfi, dags. 5. maí 2023. Samkvæmt gögnunum er drengurinn oftast glaður og mætir með allt sem þarf að nota í skólanum. Heimavinnu er sinnt að einhverju leyti. Hann kemur vel klæddur í skólann og með viðeigandi fatnað eftir því hvernig viðrar og mætir á réttum tíma. Enn fremur kemur fram að umsjónakennari drengsins sé í góðum samskiptum við kæranda og móður.
Í niðurstöðu könnunar Barnaverndar B kemur fram að á tímabili könnunar hefðu ekki borist nýjar tilkynningar í máli drengsins. Þá hafi ekki vaknað alvarlegar áhyggjur af líðan drengsins eða aðstæðum hans. Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að kærandi og móðir drengsins hafa átt í deilum um umgengni.
Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort Barnavernd B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum drengsins og því bæri að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl. Ákvörðun Barnaverndar byggist aðallega að niðurstöðu viðtals sem tekið var við drenginn 18. apríl 2023 þar sem svör drengsins voru ekki í samræmi við tilkynningar um áhyggjur af áfengisneyslu móður.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að gögn málsins séu um margt óljós um stöðu og hagi drengsins. Að mati úrskurðarnefndar hefði verið nauðsynlegt að ræða við móðurömmu drengsins sem hefur komið að málum hans og jafnframt að eiga ítarlegri viðtöl við foreldra hans. Í ljósi fyrirliggjandi gagna málsins telur úrskurðarnefndin einnig að tilefni hafi verið til þess að kanna betur líðan drengsins og að skoðað verði sérstaklega hvort skipa ætti drengnum talsmann í samræmi við ákvæði 3. mgr. 46. gr. bvl. Þá eru gögn málsins óljós um aðkomu sýslumanns að málefnum drengsins og er til þess er að líta að mikið ósamræmi er í afstöðu foreldra til umönnunar drengsins en samskipti milli þeirra virðast vera slæm.
Með hliðsjón af framansögðu telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið tímabært að loka máli drengsins. Úrskurðarnefndin telur að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti áður en tekin var ákvörðun í því og kveðið er á um í 1. mgr. 41. gr. bvl., sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með vísan til þess telur úrskurðarnefndin að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun Barnaverndar B. Málinu er vísað til nýrrar meðferðar Barnaverndar B.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Barnaverndar B, dags. 19. maí 2023, um að loka máli vegna drengsins C, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson