Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 77/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 9. apríl 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 77/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. apríl 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og B. Í kjölfarið hefði Vinnumálastofnun ákveðið á grundvelli 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að skerða greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda vegna makalífeyrisgreiðslna. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 5. maí 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði endurgreiddur mismunurinn. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 3. janúar 2011. Með umsókn kæranda fylgdi tekjuáætlun vegna makalífeyrisgreiðslna frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga.

Þann 8. apríl 2011 var bréf sent til kæranda þar sem honum var tilkynnt að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og B. Í bréfinu var óskað eftir skriflegum skýringum á ótilkynntum tekjum. Í framhaldinu barst stofnuninni 26. apríl 2011 tilkynning um tekjur fyrir janúarmánuð vegna uppgjörsgreiðslu frá B. Í sömu tilkynningu tilkynnti kærandi um áætlaðar makalífeyrissjóðsgreiðslur að fjárhæð 13.166 kr. á mánuði frá Greiðslustofu lífeyrissjóða.

Kærandi hóf störf þann 23. ágúst 2011 og var því skráður af atvinnuleysisskrá Vinnumálastofnunar.

Þann 22. nóvember 2011 barst Vinnumálastofnun beiðni frá kæranda um rökstuðning á skerðingu atvinnuleysisbóta hans vegna makalífeyrissjóðsgreiðslna. Vinnumálastofnun sendi kæranda umbeðinn rökstuðning fyrir ákvörðuninni með bréfi, dags. 16. febrúar 2012, og taldi að rétt hefði verið staðið að skerðingu atvinnuleysisbóta til hans á greiðslutímabilinu.

Í erindi kæranda vísar hann til ákvörðunar Vinnumálastofnunar þar sem segi að lífeyrisgreiðslur falli undir ákvæði 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og gerir kröfu um að Vinnumálastofnun brjóti ekki landslög, með vísan til 1. mgr. 36. gr. laganna, með því að skerða atvinnuleysisbætur kæranda um makalífeyri sinn og endurgreiði sér því það sem ólöglega hafi verið tekið af honum með vöxtum skv. 5. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi telur að Vinnumálastofnun hafi mistúlkað 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og vitnað ranglega í þau. Tilvitnun stofnunarinnar sé til „lífeyrisgreiðslna“ en í lögunum standi „elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum“ og með því undanskilji löggjafinn að maka- og barnalífeyrir komi til með að skerða greiðslur atvinnuleysisbóta.

Kærandi greinir frá samskiptasögu sinni við Vinnumálastofnun og að þegar hann skráði sig atvinnulausan þá hafi hann mótmælt því að hann þyrfti að gefa upp makalífeyri sinn. Hann hafi fengið hótunarbréf frá Vinnumálastofnun af því hann hafði ekki talið upp alla aðilana sem greiði honum makalífeyri. Hann hafi gefið upp það sem á hafi vantað en mótmælti enn meðferðinni á makalífeyrinum. Hann hafi sent Vinnumálastofnun tölvupóst, dags. 22. nóvember 2011, til að leita réttar síns í málinu og ítrekað bæði um miðjan janúar 2012 og í byrjun febrúar 2012.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 11. júní 2012, er bent á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Ákvörðun um skerðingu atvinnuleysisbóta kæranda vegna makalífeyrisgreiðslna hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laganna.

Af efni málsgreinarinnar megi ráða að þrátt fyrir upptalningu einstakra tekjuliða sem komi til frádráttar greiðslu atvinnuleysistrygginga, þá sé ákvæðinu einnig ætlað að ná til annarra greiðslna sem hinn tryggði kunni að fá frá öðrum aðilum. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að makalífeyrissjóðsgreiðslur falli undir 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Til frekari rökstuðnings á framangreindu sjónarmiði megi benda á að í 2. mgr. 36. gr. laganna sé sérstaklega gerð grein fyrir þeim greiðslum sem ekki koma til frádráttar greiðslum atvinnuleysisbóta.

Samkvæmt málsgreininni skuli Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki hvort greiðsla sem ekki sé sérstaklega talin upp í ákvæðinu og ekki ætluð til framfærslu hins tryggða, skuli koma til frádráttar skv. 1. mgr. sama ákvæðis. Þar sem makalífeyrir sé ætlaður til framfærslu eftirlifandi maka verði ekki séð að slíkar greiðslur geti fallið undir undanþáguákvæði 2. mgr. 36. gr. laganna.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 27. júní 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

 

Í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um frádrátt af atvinnuleysisbótum vegna tekna og hljóðar málsgreinin svona:

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er gerð grein fyrir þeim greiðslum sem ekki koma til frádráttar greiðslum atvinnuleysistrygginga og er lagagreinin svohljóðandi:

 

Umönnunargreiðslur sem ætlaðar eru til að mæta útlögðum kostnaði vegna veikinda eða fötlunar barns, styrkir úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem ekki eru ætlaðir til framfærslu hins tryggða og styrkir úr opinberum sjóðum eða sambærilegum sjóðum sem hinn tryggði fær til þróunar eigin viðskiptahugmyndar skulu ekki koma til frádráttar greiðslum samkvæmt lögum þessum. Þegar um er að ræða aðrar áður ótaldar greiðslur sem ekki eru ætlaðar til framfærslu hins tryggða skal Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki hvort þær skuli koma til frádráttar atvinnuleysisbótum skv. 1. mgr.“

Kærandi fékk greiddan makalífeyri á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt tilvitnaðri 2. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki hvort greiðsla sem ekki er sérstaklega talin upp í ákvæðinu og er ekki ætluð til framfærslu hins tryggða, skuli koma til frádráttar skv. 1. mgr. lagagreinarinnar. Í ljósi þess að makalífeyrir er ætlaður til framfærslu eftirlifandi maka telur úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ljóst að slíkar greiðslur falli ekki undir undanþáguákvæði 2. mgr. 36. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A um að skerða bótarétt hans vegna makalífeyrisgreiðslna er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir

formaður

 

 


Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta