Hoppa yfir valmynd

Nr. 82/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 82/2019

Miðvikudaginn 15. maí 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 24. febrúar 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. desember 2018 um að stöðva greiðslu uppbótar vegna reksturs bifreiðar frá X.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. desember 2018, var kæranda greint frá fyrirhugaðri stöðvun uppbótar vegna reksturs bifreiðar þann X þar sem hreyfihömlunarmat var að renna út. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun í málinu, dags. 28. febrúar 2019, þar sem samþykkt var nýtt greiðslutímabil vegna uppbótar vegna reksturs bifreiðar frá X til X.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. febrúar 2019. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 28. febrúar 2019, fór Tryggingastofnun fram á frávísun málsins með þeim rökum að fallist hafi verið á kröfu kæranda. Frávísunarkrafan var kynnt kæranda með bréfi, dagsettu sama dag, og óskað eftir afstöðu hans til kröfunnar. Með bréfi, dags. 19. mars 2019, ítrekaði úrskurðarnefndin beiðni um afstöðu kæranda til frávísunarkröfu stofnunarinnar. Engar athugasemdir bárust.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann óski þess að fyrirhuguð stöðvun á greiðslu uppbótar vegna reksturs bifreiðar verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að uppbót vegna reksturs bifreiðar verði stöðvuð vegna þess að hreyfihömlunarmat hafi verið að renna út.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé stöðvun á uppbót til reksturs bifreiðar samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Greiðslur uppbótarinnar hafi verið stöðvaðar frá X þar sem hreyfihömlunarmat hafi verið útrunnið.

Við skoðun málsins eftir móttöku kærunnar hafi komið í ljós að kærandi hafi verið búinn að skila inn fullnægjandi gögnum til þess að hægt væri að meta hreyfihömlun hans. Stofnunin sé nú búin að samþykkja nýtt hreyfihömlunarmat frá X til X. Á grundvelli þess hafi greiðslur til kæranda verið settar aftur í gang.

Þar sem Tryggingastofnun hafi tekið nýja ákvörðun í málinu og fallist á kröfu kæranda þá sé farið fram á að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Komist nefndin að annarri niðurstöðu áskilji stofnunin sér hins vegar rétt til að koma að efnislegri greinargerð.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. desember 2018 um stöðvun greiðslu uppbótar vegna reksturs bifreiðar til kæranda.

Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun í máli kæranda, dags. 28. febrúar 2019, og samþykkti áframhaldandi greiðslu uppbótar vegna reksturs bifreiðar. Úrskurðarnefndin óskaði ítrekað eftir afstöðu kæranda til ákvörðunar Tryggingastofnunar um að fallast á áframhaldandi greiðslu uppbótar vegna reksturs bifreiðar en engin svör bárust frá honum.

Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um tiltekin ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 13. gr. laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins. Stofnunin hefur samþykkt áframhaldandi greiðslu uppbótar vegna reksturs bifreiðar. Samkvæmt því og þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta