Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 6/2008. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 25. júní 2008

í máli nr. 6/2008:

Bílaleiga Flugleiða ehf.

gegn

Ríkiskaupum           

Með bréfi, dags. 19. júní 2008, sem barst kærunefnd útboðsmála 20. júní s.á., kærði Bílaleiga Flugleiða ehf. ákvörðun kærða, Ríkiskaupa, um val á tilboði Alp ehf. í ramma­samnings­útboði nr. 14501 - Bílaleigubílar.

Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:

„Aðalkröfur

Að kærunefnd [svo] hefji ekki samningsgerð við Alp á grundvelli niðurstöðu útboðslýsingarinnar.

Að kærunefnd úrskurði Alp vanhæft til að gera tilboð á grundvelli útboðslýsingarinnar þar sem fyrirtækið uppfyllir ekki lágmarkskröfur um hæfi bjóðenda sbr. grein 1.2.1.3. í útboðslýsingunni og þar af leiðandi að litið verði fram hjá því tilboði sem Alp hefur þegar gert skv. útboðslýsingunni.

Að kærunefnd úrskurði að varnaraðili skuli ganga til samninga við kæranda í stað Alp.

Varakrafa

Að kærunefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda.“

            Þrautavarakrafa

Kærandi krefst þess að varnaraðili greiði kæranda þann kostnað sem fallið hefur til við að hafa kæruna uppi.

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Með bréfi kærða, dags. 24. júní 2008, krafðist kærði þess að hafnað yrði kröfu um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir.

 

Þrátt fyrir ónákvæmt orðalag telur kærunefnd útboðsmála að kærandi geri augljóslega kröfu um að kærunefndin stöðvi gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva gerð samnings.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.

 

I.

Hinn 23. apríl 2008 auglýsti kærði útboðið „Rammasamningsútboð nr. 14501-Bílaleigubílar”. Kærandi var einn bjóðenda í útboðinu. Með tölvupósti til kæranda, dags. 13. júní 2008, tilkynnti kærði að ákveðið hefði verið að velja tilboð frá Höldi ehf. og Alp ehf.. Kæra barst nefndinni, eins og áður segir, 20. júní 2008.

 

II.

Kærandi telur að kærða sé óheimilt að ganga til samninga við Alp ehf. þar sem það félag uppfylli ekki skilyrði útboðsskilmála um tæknilega getu. Nánar til tekið telur kærandi að Alp ehf. hafi hvorki starfsstöð á Höfn né Ísafirði og því uppfylli félagið ekki skilyrði um að bjóðandi „hafi opna afgreiðslu a.m.k. alla virka daga ársins, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu, Ísafirði, Akureyri, Egilstöðum, Höfn, Keflavík og þar sem bjóðandi hefur aðsetur sitt“.

 

III.

Kærði telur að hafna beri öllum kröfum kæranda m.a. vegna þess að Alp ehf. uppfylli öll sett skilyrði útboðslýsingar þ. á m. um afgreiðslustaði á Höfn og Ísafirði. Í bréfi kærða kemur fram að kærði hafi endanlega samþykkt tilboð við félögin Höld ehf. og Alp ehf. hinn 24. júní 2008.

 

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, getur kærunefnd útboðsmála stöðvað gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Eftir að bindandi samningur skv. 76. gr. er kominn á verður hann þó ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 100. gr. laganna.. Frá því að ákvörðun um val tilboðs var tilkynnt og þangað til tilboð var endanlega samþykkt liðu tíu dagar. Í þeim innkaupum sem mál þetta lýtur að hefur þannig komist á bindandi samningur samkvæmt 76. gr. laganna og þegar af þeirri ástæður er ekki heimilt, lögum samkvæmt, að stöðva samningsgerðina.

 

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Bílaleigu Flugleiða ehf., um stöðvun samningsgerðar í kjölfar útboðsins „ Ramma­samnings­útboð nr. 14501 - Bílaleigubílar“ er hafnað.

 

Reykjavík, 25. júní 2008.

                                                               Páll Sigurðsson

                                                               Sigfús Jónsson

                                                               Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík, 25. júní 2008.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta