Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 507/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 507/2021

Fimmtudaginn 20. janúar 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. september 2021, um 65% bótarétt.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 1. september 2021. Með ákvörðun, dags. 29. september 2021, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og útreiknaður bótaréttur metinn 65%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. september 2021. Með bréfi, dags. 1. október 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 17. nóvember 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. nóvember 2021. Athugasemdir og viðbótargögn bárust frá kæranda 1. desember 2021 sem voru send Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. desember 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að honum hafi borist bréf frá Vinnumálastofnun með ákvörðun um samþykki við umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Í ákvörðuninni komi fram að útreiknaður bótaréttur hans sé 65% sem hafi komið honum á óvart.

Kærandi tekur fram að hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 2. júlí en ekki hafi komið til þess að hann nýtti sér réttinn sem hafi verið ákvarðaður í það skiptið þar sem framhald hafi orðið á störfum hans. Þann 9. ágúst 2021 hafi hann engu að síður fengið úrskurð við þeirri umsókn sinni og ákvörðun um 56% bótarétt. Frá því að hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 2. júlí hafi hann verið í fullu starfi og fengið full mánaðarlaun, 540.000 kr., í júlí, ágúst og september.

Til að hafa vaðið fyrir neðan sig vegna mögulegs atvinnumissis frá 1. október 2021 hafi kærandi óskað eftir því hjá Skattinum að breyta skráningu þriggja mánaða listamannalauna sem hann hafi fengið greidd síðla hausts 2020. Kærandi hafi aldrei áður hlotið listamannalaun og hafi því ekki hugað að því að skrá launin með þeim hætti í framtalið að hann myndi greiða tryggingagjald og staðgreiðslu af laununum. Af þeim ástæðum hafi hann sótt um breytingu á framtali sínu fyrir árið 2020 þannig að þessar launatekjur myndu að fullu teljast til tekna, ef hann þyrfti að sækja um atvinnuleysisbætur. Hann hafi fengið þá beiðni samþykkta og afgreidda. Með vísan til meðfylgjandi skjals liggi fyrir að launatekjur kæranda á síðustu þremur mánuðum ársins 2020 hækki sem nemi listamannalaunum fyrir þrjá mánuði eða október, nóvember og desember, samtals að fjárhæð 1.222.000 kr.

Önnur viðbót við launatekjur kæranda á síðasta 12 mánaða tímabili sem máli skipti sé sú að launagreiðandi hans, B., hafi greitt laun, staðgreiðslu og tryggingagjald fyrir nóvember 2020 í ágúst 2021. Um hafi verið að ræða 50% starfshlutfall og 270.000 kr. laun. Á móti hafi hann fengið 50% hlutabætur sem geri heildarlaun í þeim mánuði 540.000 kr. 

Frá því að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 2. júlí og fengið úrskurð um 56% bótarétt hafi 12 mánaða viðmiðunartekjur hans hækkað mikið í ljósi framangreindra viðbóta. Kærandi telji því að fjórir mánuðir af fullum launatekjum hafi bæst við vegna launa frá B., auk þriggja mánaða listamannalauna. Því hljóti réttur hans að vera mun hærri en 65%. Vera megi að framangreindar upplýsingar hafi ekki borist Vinnumálastofnun í tæka tíð. Í ljósi þess telji kærandi sig eiga rétt á hærri bótum og óski því eftir að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði endurskoðuð og leiðrétt.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hann hafi haft samband við Greiðslustofu Vinnumálastofnunar eftir lestur greinargerðarinnar til að fá útskýringu á málinu þar sem ekki hafi komið skýrt fram hvers vegna þriggja mánaða listamannalaun hans í október, nóvember og desember 2020 hafi ekki verið reiknuð með til fulls í bótarétti hans. Útskýrt hafi verið fyrir kæranda að þessar skýrt afmörkuðu mánaðargreiðslur vegna listamannalauna, sem hann hafi fengið greiddar í þrennu lagi í október, nóvember og desember 2020, hafi verið deilt niður á alla tólf mánuði ársins 2020 í útreikningnum. Þar með hafi þær launagreiðslur einungis talist sem 25% inn í útreikning bótaréttar á tólf mánaða tímabilinu október 2020 til október 2021. 

Greiðslustofa hafi bent kæranda á að hann yrði að fá Ríkisskattstjóra til að skrá launin sérstaklega á þessa einstöku mánuði því að annars væri ekki hægt að telja þá til fulls. Nánar tiltekið hafi þetta verið flokkað sem „ársmannslaun“ eða eitthvað álíka í útreikningi á bótarétti hans, sem sé á skjön við eðli þessara launa og greiðslnanna sem um ræðir. Kærandi hafi haft samband við Ríkisskattstjóra og óskað eftir að þetta væri skráð sérstaklega á þessa þrjá mánuði. Sérfræðingur í staðgreiðslu skattsins hafi furðað sig á þessu, enda hefði þetta ekki áhrif á þá staðgreiðslu sem hann hafi innt af hendi af þessum launagreiðslum. Enn fremur hafi sérfræðingurinn bent honum á að launin væru nú þegar skráð í þrennu lagi á mánuðina október, nóvember og desember 2020 og að það kæmi fram í samræmingarblaði með framtali hans. Auk þess komi staðfesting á þessum tekjum fram í úrskurði Ríkisskattstjóra á leiðréttingu framtals hans fyrir árið 2020. Staðan sé því þannig að Ríkisskattstjóri haldi því fram að þetta sé nú þegar skráð með skýrum hætti en sérfræðingurinn í staðgreiðslumálum hafi sagt að ekki væri hægt að skrá þetta með frekari hætti inn í kerfið, eins og Greiðslustofa hafi bent kæranda á að biðja Ríkisskattstjóra um. Ástæðan sé sú að þetta hafi verið leiðrétt eftir á þar sem mistök hafi verið gerð við skráningu launanna upphaflega og að ekki væri hægt að skrá staðgreiðsluna með sama hætti inn í kerfið af þeim sökum. Eftir standi að greiðslurnar hafi verið afmarkaðar og í þrennu lagi á þessa þrjá mánuði eingöngu og greiðslurnar sýni það skýrt líka. Þetta komi líka fram með skýrum hætti í framtali hans og sérfræðingur Ríkisskattstjóra furði sig á að ekki sé tekið fullt tillit til skráningarinnar eins og hún sé núna í ljósi þess að allir skattar og gjöld hafa verið greidd og svo framvegis.

Kærandi biðli því til nefndarinnar að taka sanngjarna afstöðu í málinu þannig að listamannalaun hans (ásamt öllum greiddum sköttum og gjöldum) verði talin að fullu til tekna í mati á bótarétti hans á tímabilinu október 2020 til október 2021. Þrátt fyrir framangreind svör frá Skattinum, eðli teknanna og svo framvegis, sýnist kæranda hætta á að Greiðslustofa breyti ekki afstöðu sinni af þeim sökum að það sé kerfislega ekki hægt að breyta staðgreiðslunni í kerfinu með þeim hætti sem þóknist þeim helst. Það þætti kæranda afskaplega ósanngjarnt og til viðbótar rangt mat á eðli og tímasetningu þessara launagreiðslna sem hann hafi greitt fulla skatta og gjöld af. Meðfylgjandi gögn ættu að nægja til að bótaréttur hans verði endurskoðaður og sé tekið tillit til listamannalauna hans haustið 2020 ætti bótaréttur að vera nærri 85% í stað 69%. 

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi fyrst sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga 2. júlí 2021. Með ákvörðun, dags. 9. ágúst 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og útreiknaður bótaréttur hafi verið metinn 56%. Þann 12. ágúst hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar að kærandi hafi dregið umsókn sína til baka. Kærandi hafi því ekki þegið atvinnuleysisbætur á grundvelli umsóknarinnar frá 2. júlí 2021.

Kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga að nýju þann 1. september 2021. Með ákvörðun, dags. 29. september 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og útreiknaður bótaréttur hafi verið metinn 65%. Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi verið farið yfir gögn í máli kæranda að nýju og hafi kærandi í kjölfarið reiknast með 69% bótarétt. Greiðslur til kæranda verði leiðréttar í samræmi við það.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Samkvæmt fyrirtækjaskrá embættis Skattsins eigi kærandi 100% eignarhlut í einkahlutafélaginu B. og hafi hann þegið laun þaðan. Kærandi starfi því við eigin rekstur og beri Vinnumálastofnun því að miða við reglur Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í starfsgrein hans við útreikning á bótarétti kæranda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna.

Um útreikning bótaréttar þeirra sem starfi hjá eigin fyrirtækjum eða sem sjálfstætt starfandi segi í 1., 2. og 3. mgr. 19. gr. laganna:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., telst að fullu tryggður samkvæmt lögum þessum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.

Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hefur mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hefur greitt staðgreiðsluskatt að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar en þá ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.

Til að reikna út tryggingahlutfall sjálfstætt starfandi einstaklings sem greiðir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjald einu sinni á ári skal finna mánaðarlegar meðaltekjur hins tryggða í formi reiknaðs endurgjalds yfir síðasta tekjuár áður en að hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar. Telst hann að fullu tryggður samkvæmt lögum þessum hafi hann greitt staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum á síðasta tekjuári sem nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., fyrir viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði og tryggingagjald. Hafi hann greitt staðgreiðsluskatt af mánaðarlegum meðaltekjum á sama tímabili sem eru lægri en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein í hverjum mánuði skal tryggingahlutfall hans ákvarðast af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.“

Samkvæmt framangreindum ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar beri Vinnumálastofnun að reikna bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings út frá þeim launum sem viðkomandi hafi reiknað sér vegna vinnu sinnar. Ef reiknað endurgjald nái ekki lágmarksviðmiðum Ríkisskattstjóra ákvarðist bótaréttur af  hlutfalli reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið af og viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Sjálfstætt starfandi einstaklingur geti því einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta ef reiknað endurgjald sé lægra en viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra.

Eins og áður segi starfi kærandi við eigin rekstur hjá B. Samkvæmt upplýsingum frá embætti Skattsins séu helstu störf einkahlutafélagsins bókaútgáfa, þýðingar- og túlkunarþjónusta og fleira. Starf kæranda falli undir tekjuflokk C9 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settum samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Viðmiðunartekjur fyrir tekjuflokk C9 vegna ársins 2019 hafi verið 465.000 kr. og 485.000 kr. fyrir árin 2020 og 2021.

Við mat á tryggingahlutfalli kæranda hafi verið horft til síðustu 36 mánaða frá því að hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Mánuðina júní 2021 til september 2021 hafi kærandi reiknað sér laun að fjárhæð 540.000 kr. Aftur á móti hafi kærandi á tímabilinu nóvember 2018 til maí 2021 reiknað sér laun sem hafi ekki náð lágmarksviðmiðum Ríkisskattstjóra, eða að meðaltali 241.315 kr.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé annars vegar litið til starfstíma og hins vegar til starfshlutfalls. Einstaklingur í 100% starfshlutfalli sem starfi samtals í þrjá mánuði öðlist þannig rétt til 25% grunnatvinnuleysisbóta. Starfi hann í sex mánuði ávinni hann sér rétt til 50% atvinnuleysisbóta. Hafi sá hinn sami starfað í níu mánuði á ávinnslutímabilinu eigi hann rétt á 75% atvinnuleysisbótum. Tólf mánaða starf í 100% starfshlutfalli veiti rétt til 100% bóta. Á tólf mánaða tímabili hafi hæsta mögulega meðalhlutfall launa hans numið 69% af viðmiðunartekjum Ríkisskattstjóra. Veiti það honum rétt til 69% bótaréttar.

Í kæru greini kærandi frá því að hann hafi óskað eftir breytingum á skattframtali sínu í þeirri von um að slíkt myndi hafa áhrif á bótarétt hans til hins betra. Vinnumálastofnun hafi þegar tekið tillit til þeirra athugasemda við útreikning á bótarétti kæranda. Með vísan til framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að tryggingahlutfall kæranda sé 69%.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um 65% bótarétt kæranda. Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála var bótaréttur endurmetinn og hækkaður í 69%.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns, sbr. b-lið 3. gr. laganna.

Óumdeilt er að kærandi var sjálfstætt starfandi áður en hann sótti um atvinnuleysisbætur. Í IV. kafla laga nr. 54/2006 er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. telst sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. b-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Í 2. mgr. 19. gr. segir svo um útreikning bótaréttar:

„Sjálfstætt starfandi einstaklingur, sem greitt hefur mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald skemur en tólf mánuði en þó lengur en þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar, telst tryggður hlutfallslega í samræmi við fjölda þeirra mánaða sem hann hefur greitt staðgreiðsluskatt að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr. Hið sama gildir um sjálfstætt starfandi einstakling sem hefur greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sem er lægra en viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar en þá ákvarðast tryggingahlutfall hans af hlutfalli fjárhæðar reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæðar, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.“

Samkvæmt framangreindu ber Vinnumálastofnun að reikna bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings út frá þeim launum sem viðkomandi reiknar sér vegna vinnu sinnar. Ef reiknað endurgjald atvinnuleitanda nær ekki lágmarksviðmiðum Ríkisskattstjóra ákvarðast bótaréttur af hlutfalli reiknaðs endurgjalds sem greitt hefur verið af og viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur getur því einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta ef reiknað endurgjald er lægra en viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein.

Starf kæranda fellur undir tekjuflokk C9 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settum á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Viðmiðunartekjur Ríkisskattstjóra fyrir tekjuflokk C9 vegna ársins 2019 voru 465.000 kr. á mánuði, 485.000 kr. á mánuði vegna ársins 2020 og 519.000 kr. á mánuði vegna ársins 2021. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru laun kæranda mismunandi á milli mánaða. Ágreiningur máls þessa lýtur að listamannalaunum sem kærandi fékk greidd seinni hluta ársins 2020 en þeirri fjárhæð var deilt niður á alla mánuði þess árs. Af fyrirliggjandi gögnum er hins vegar ljóst að kærandi fékk listamannalaunin greidd í þrennu lagi, í október, nóvember og desember 2020 og greiddi staðgreiðsluskatt af þeim fjárhæðum þá mánuði. Séu þær forsendur lagðar til grundvallar við mat á bótarétti kæranda er ljóst að það leiðir til hækkunar á honum. Að því virtu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki hafi verið rétt staðið að útreikningi á bótarétti kæranda. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar Vinnumálastofnunar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. september 2021, um 69% bótarétt A, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta