Hoppa yfir valmynd

Nr. 202/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 12. apríl 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 202/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23020073

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 24. febrúar 2023 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Georgíu ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. febrúar 2023, um að synja umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga, og til þrautavara að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir stofnunina að taka málið til nýrrar meðferðar á grundvelli 10., 12 og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 26. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 6. september 2017. Hinn 15. desember 2017 dró kærandi umsókn sína til baka og var honum birt skilyrt ákvörðun um brottvísun og endurkomubann til landsins sem myndi taka gildi yfirgæfi kærandi ekki landið innan frests. Kærandi yfirgaf ekki landið innan þess frests sem honum var gefinn eftir að hann dró umsókn sína til baka og tók Útlendingastofnunar ákvörðun um brottvísun og endurkomubann hans til landsins í tvö ár 8. janúar 2018. Þar sem Útlendingastofnun barst staðfesting á því að kærandi hafi farið með flugi út af Schengen-svæðinu 14. janúar 2018 var hætt við ákvörðun um brottvísun og endurkomubann hans til landsins. Hinn 13. febrúar 2018 skráði Þjóðskrá Íslands kæranda í svokallað utangarðsskrá Þjóðskrár og gaf út kennitölu fyrir hann að beiðni Arion Banka, Borgartúni 19. Hinn 1. júní 2019 var kæranda birt tilkynning um hugsanlega brottvísun og endurkomubann til landsins. Hinn 4. júní 2019 lagði kærandi fram myndir með stimplum út af Schengen-svæðinu og í kjölfarið var hætt við ákvörðun um brottvísun. Hinn 9. júní 2022 lagði kærandi svo fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. febrúar 2023, var umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála 24. febrúar 2023. Hinn 10. mars 2023 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga megi veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Kærandi hafi aldrei haft dvalarleyfi hér á landi og hafi þar af leiðandi ekki uppfyllt skilyrði um fjögurra ára dvalartíma á grundvelli dvalarleyfis sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Kærandi uppfylli því ekki búsetuskilyrði 58. gr. laga um útlendinga og hafi umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi því verið synjað. Þá kemur fram að kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um efni málsins, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um útlendinga, enda hafi það verið mat Útlendingastofnunar að slíkt hafi augljóslega verið óþarft.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi komið hingað til lands 6. september 2017 og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd. Hinn 15. desember 2017 hafi hann dregið umsókn sína til baka og stuttu seinna fengið vinnu hér á landi og sótt um kennitölu. Kærandi hafi fengið útgefna kennitölu og farið að vinna hjá íslenskum vinnuveitanda. Eftir að hafa búið hér á landi í rúmlega fjögur ár hafi honum verið bent á að hann ætti rétt á ótímabundnu dvalarleyfi þar sem hann væri með fasta búsetu á Íslandi.

Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að hann uppfylli allar kröfur 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Hann hafi uppfyllt almenn skilyrði fyrir dvalarleyfi þegar hann hafi sótt um ótímabundið dvalarleyfi. Hann hafi sýnt fram á að framfærsla hans hafi frá upphafi verið trygg, hann hafi getað framfleytt sér hér á landi á löglegan hátt og geti það áfram. Því til stuðnings hafi kærandi lagt fram skattframtöl og gögn frá skattayfirvöldum. Kærandi hafi hvorki þegið félagslega aðstoð frá ríki né sveitarfélagi. Hann hafi sótt námskeið í íslensku fyrir útlendinga, engin mál séu til meðferðar sem geti valdið því að kæranda verði vísað úr landi og hann eigi ekki ólokið mál í refsivörslukerfinu þar sem hann sé grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.

Samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga um útlendinga fari ráðherra með yfirstjórn laganna en Útlendingastofnun, kærunefnd útlendingamála, lögregla, sýslumenn, Þjóðskrá Íslands og önnur stjórnvöld annist framkvæmd laganna. Á þessari stundu liggi ekki fyrir hvaða stofnun hafi tekið ákvörðun um að veita kæranda kennitölu en eðli máls samkvæmt sé hægt að gera ráð fyrir að Þjóðskrá Íslands hafi tekið þá ákvörðun með samþykki Útlendingastofnunar. Hafi embættismaður gert þau mistök að gefa út kennitölu án lagaheimildar sé ekki eðlilegt að kærandi gjaldi fyrir þau mistök.

Þegar kærandi hafi fengið útgefna kennitölu hafi hann aldrei verið upplýstur um það að henni fylgdu ekki dvalar- eða atvinnuleyfi og lagakvöð á endurnýjun slíkra leyfa. Honum hafi aðeins verið sagt að hann mætti vinna þar sem hann væri kominn með kennitölu. Kærandi hafi alla tíð unnið fyrir sér og borgað alla þá skatta og skyldur af launum sínum eins og honum beri að gera. Síðustu rúmlega fimm ár hafi hann verið í samskiptum við viðeigandi stjórnvöld eftir þörfum og aldrei fengið athugasemdir um að hann byggi og starfaði hér á landi. Hann starfi m.a. sem atvinnubílstjóri og hafi fengið skráningarkort útgefið af Samgöngustofu til að geta stjórnað vöruflutningabílum og skráð réttan aksturstíma. Einnig hafi tvisvar verið keyrt á hann og hann verið í samskiptum við lögregla í bæði skiptin. Kærandi telji að hann hafi lögmætar væntingar til þess að hann búi löglega á Íslandi á grundvelli kennitölu sem hann hafi fengið úthlutaðri af þar til bærum stjórnvöldum og eigi rétt á að fá ótímabundið dvalarleyfi þar sem hann uppfylli öll skilyrði til slíks.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda krefst hann þess til vara að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi verið búsettur á Íslandi í ríflega fimm ár og á þeim tíma byggt upp framtíðarheimili sitt á Íslandi og myndað vinasambönd við aðra innflytjendur og Íslendinga. Útlendingastofnun krefjist þess að kærandi yfirgefi landið innan 15 daga en ekkert komi fram um það í ákvörðunarorðum. Kærandi starfi hér á landi, hann sé með leigusamning vegna íbúðarhúsnæðis og hafi viðað að sér ýmsum eignum og persónulegum munum. Fráleitt sé að ætlast til þess að kærandi geti gengið frá þessu öllu á 15 dögum og yfirgefið landið fyrir fullt og allt. Kærandi hafi á síðastliðnum fimm árum myndað tengsl við land og þjóð og byggt sér framtíð hér á landi. Íslenskum stjórnvöldum beri að taka tillit til þess og veita honum dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu kæranda krefst hann þess til þrautavara að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og stofnuninni verði gert að taka málið til nýrrar meðferðar á grundvelli 10., 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 26. gr. sömu laga. Samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, sbr. 10. gr. laganna, beri stjórnvöldum skylda til að rannsaka mál til þaula til að komast að réttri niðurstöðu. Ekkert í málinu bendi til þess að rannsókn að einhverju tagi hafi farið fram hjá Útlendingastofnun. Ekki liggi ljóst fyrir hver hafi gefið út kennitölu kæranda og á hvaða grundvelli. Þá hafi engar athugasemdir verið gerðar þegar kærandi hafi sótt um aksturskort og þegar kærandi hafi verið í samskiptum við lögreglu vegna áðurnefndra umferðaróhappa. Því sé ljóst að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað málið nægilega vel og með því brotið rannsóknarskyldu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, skuli stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Kærandi hafi verið búsettur á Íslandi í fimm ár og hafi á þeim tíma, ekki gerst brotlegur við lög og borgað sína skatta. Því sé krafa Útlendingastofnunar um að kærandi yfirgefi landið innan 15 daga óskiljanleg.

Að lokum beri að hafa í huga að Útlendingastofnun hafi virt andmælarétt kæranda að vettugi. Kærandi hafi ekki fengið tækifæri til að tjá sig um efni ákvörðunar Útlendingastofnunar enda þótt liggi fyrir að niðurstaðan sé verulega íþyngjandi fyrir hann. Þar sem Útlendingastofnun hafi ekki fylgt málsmeðferðarreglum og skert verulega réttindi kæranda á ómálefnalegan hátt sé þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og stofnuninni verði gert að taka málið til nýrrar meðferðar á grundvelli 10., 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 26. gr. sömu laga.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna.

Fyrir liggur í málinu að kærandi hefur aldrei verið með dvalarleyfi hér á landi. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um samfellda dvöl hér á landi síðustu fjögur ár á grundvelli dvalarleyfis sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Í 2.-5. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um undanþágur frá skilyrðum 1. mgr. 58. gr. laganna. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að undanþáguákvæði 58. gr. laga um útlendinga eigi við í máli kæranda. Með vísan til framangreinds er ljóst að kærandi uppfyllir ekki skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis.

Kærandi byggir á því til vara að veita beri honum dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd leiðbeinir kæranda um að telji hann sig uppfylla skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis hér á landi, t.a.m. á grundvelli sérstakra tengsla, geti hann lagt slíka umsókn fram hjá til Útlendingastofnunar. Með þessum leiðbeiningum er kærunefnd þó ekki að taka afstöðu til þess hvernig slík umsókn verði afgreidd.

Kærandi gerir að lokum kröfu um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og stofnuninni gert að taka málið til nýrrar meðferðar á grundvelli 10., 12. og 13. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 26. gr. sömu laga. Af greinargerð verður ráðið að sú krafa byggi á því að Útlendingastofnun hafi borið að rannsaka mál hans nánar með vísan til dvalar hans hér á landi og veita honum andmælarétt vegna synjunar stofnunarinnar. Kærunefnd áréttar að af gögnum málsins er ljóst að kæranda var ljóst eða mátti vera ljóst að dvöl hans hér á landi krefðist dvalarleyfis sem og að kennitala væri ekki dvalarleyfi. Breytir þar engu um þótt kærandi hafi átt í samskiptum við önnur stjórnvöld á meðan á þeirri dvöl stóð. Þá er ljóst að kærandi sótti um ótímabundið dvalarleyfi þar sem skilyrði er að sá sem um það sækir hafi haft gilt dvalarleyfi síðast liðin fjögur ár. Verður því ekki fallist á að nauðsynlegt hafi verið að veita kæranda frekari tækifæri til andmæla.

Að öllu framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.

Samkvæmt framangreindu hefur kærandi ekki dvalarleyfi hér á landi. Til þess að kærandi eigi rétt á áframhaldandi dvöl á landinu þarf hann að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli. Að öðrum kosti ber kæranda að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku úrskurðarins líkt og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frestsins kann að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta