Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 29. september 2004.
Miðvikudaginn 29. september 2004 var tekið fyrir matsmálið nr. 3/2004
Vegagerðin
gegn
Ómari Antonssyni
og kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:
Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Sigríður Kristinsdóttir, hdl og löggiltur fasteignasali, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.
II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:
Með matsbeiðni dags. 5. mars 2004, sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 12. mars 2004, fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á landspildu undir vegsvæði og jarðgöng á Hringvegi í landi Horns I, Hornafirði. Eigandi landsins er Ómar Antonsson, kt. 150853-2739, Hagatúni 20, Hornafirði (eignarnámsþoli).
Vegna fyrirhugaðra jarðgangna undir Almannaskarð þarf að leggja veg á um 1.400 m. kafla að gangnamunna yfir land eignarnámsþola. Andlag eignarnámsins er það land sem þörf er á vegna vegarins, gangnamunna, vegskála og jarðgangna, en af hálfu eignarnema er gerð krafa til eignarnáms á landi yfir göngunum allt þar til göngin eru komin á 30 m. dýpi miðað við miðlínu þeirra.
Hin eignarnumda spilda er 12,41 ha. að stærð, en til frádráttar henni koma 1,26 ha. sem er núverandi vegsvæði sem skilað verður. Heildarstærð þess lands sem krafist er mats á er því 11,15 ha.
Eignarnámið styðst við heimild í 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.
III. Málsmeðferð:
Mál þetta var fyrst tekið fyrir þann 12. mars 2004. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum og gekk matsnefndin að því loknu á vettvang og kynnti sér aðstæður. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema.
Þriðjudaginn 6. apríl 2004 ar málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram greinargerð og fleiri gögn og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar og gagna af hálfu eignarnámsþola.
Föstudaginn 14. maí 2004 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð auk frekari gagna og var málinu frestað til munnlegs flutnings fyrir nefndinni.
Mánudaginn 28. júní 2004 var málið tekið fyrir. Þá höfðu borist frekari gögn frá eignarnema til framlagningar og voru þau lögð fram. Í júlí 2004 bárust enn gögn til framlagningar frá eignarnámsþola og voru þau lögð fram í málinu þann 21. júlí 2004.
Miðvikudaginn 22. september 2004 var málið tekið fyrir og fór þá fram munnlegur flutningur málsins fyrir matsnefndinni. Að flutningnum loknum var málið tekið til úrskurðar.
IV. Sjónarmið eignarnema:
Eignarnemi kveður eignarnámið nauðsynlegt vegna lagningar vegar að nýjum göngum í gegnum Almannaskarð. Eignarnemi kveður tilraunir til samninga milli aðila um bætur fyrir hið eignarnumda ekki hafa borið árangur, en kveður þó samkomulag hafa náðst um bætur til eignarnámsþola að fjárhæð kr. 1.200.000- vegna efnistöku og tímabundinnar aðstöðu meðan á framkvæmdum stendur. Nefnd fjárhæð sundurliðst þannig að kr. 1.000.000- sé greiðsla fyrir 20.000 m³ efnis sem tekið verði úr námu í landi eignarnámsþola og kr. 200.000- í bætur fyrir aðstöðu sem notuð verður meðan á framkvæmdum stendur. Nefndar bætur hafa þegar verið greiddar eignarnámsþola.
Eignarnemi kveður eignarnámið ná til landspildu undir vegsvæði hins nýja vegar í landi Horns og breikkunar núverandi vegar auk vegskála, gagnamunna og lands yfir jarðgöngum allt þar til miðlína þeirra er á 30 m. dýpi undir yfirborði. Að auki sé miðað við að eignarnámið nái til lands undir nýja tengingu vegar að Stokksnesi við Hringveginn og landræmu milli þessa vega sem ekki verði nýtanleg eftir framkvæmdirnar. Eignarnemi kveður vegsvæðið, þ.m.t. skerðingar, vera 11,15 ha. og þá sé tekið tillit til þess að skilað sé landi undir núverandi veg, samtals 1,26 ha.
Eignarnemi bendir á að hið eignarnumda land sé staðsett sunnan undir hlíðum Almannaskarðs. Í hlíðinni ofanvið hina eignarnumdu spildu sé viðvarandi hætta á grjóthruni. Þá séu veðurfarsaðstæður óheppilegar þar sem mikil hvassviðri geti orðið á svæðinu, einkum í norðaustanátt. Þá bendir eignarnemi sérstaklega á að raflínur liggi um landið endilangt sjávarmegin, skammt frá hinni eignarnumdu spildu. Í fljótu bragði virðist eignarnema því hin eignarnumda spilda geta einungis nýst til beitar fyrir búpening og telur eignarnemi því eignarnámið ekki hafa í för með sér neikvæð áhrif á nýtingu landsins til þeirra nota.
Eignarnemi kveður að samkvæmt gildandi aðalskipulagi séu engin áform um nýtingu landsins til annars en hefðbundinna landbúnaðarnota. Þá kveður eignarnemi eignarnámið ekki hafa nein áhrif á nýtingu hlunninda jarðarinnar s.s. selveiði og dún- og eggjatekju í eyjum í Skarðsfirði, nema ef vera skyldi jákvæð áhrif vegna bættra samgangna.
Eignarnemi mótmælir sérstaklega kröfum eignarnema um bætur fyrir hið eignarnumda land. Sérstaklega mótmælir eignarnemi að unnt sé að hafa úrskurð Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu nr. 2/2002, Vegagerðin gegn Kristbjörgu Hrólfsdóttur, til hliðsjónar í máli þessu þar sem aðstæður allar hafi verið allt aðrar í því máli. Eignarnemi telur að líta beri til orðsendingar nr. 8/2003 sem lögð hefur verið fram í málinu, en samkvæmt þeirri orðsendingu sé verð fyrir ræktunarhæft land undir veg kr. 25.600 pr. ha. en óræktunarhæft gróið land kr. 9.600 pr. ha. Eignarnemi telur ekki í ljós leitt að verðmæti þess lands sem hér um ræði sé hærra en þessar tölur gefi tilefni til að ætla. Sérstaklega vísar eignarnemi til úrskurðar Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu nr. 4/1998, Vegagerðin gegn eigendum Eyja I og II, Strandasýslu, en í þeim úrskurði hafi bætur numið kr. 8.000 pr. ha. og sérstaklega tekið fram að undirlendi jarðarinnar hafi verið lítið og því öll skerðing þess bagaleg. Eignarnemi bendir á að Horn sé enn fjær frá Reykjavík en Eyjar I og II.
Eignarnemi mótmælir sérstaklega að honum verði gert að greiða bætur fyrir það malarefni sem komi úr jarðgöngunum og hann nýti til vegagerðarinnar. Eignarnemi kveður það efni augljóslega vera verðlaust fyrir eignarnema og möguleikar á nýtingu þess einungis til komnir vegna framkæmda eignarnema sjálfs. Ekki sé um að ræða gæði jarðarinnar sem eignarnemi hafi með nokkru móti getað nýtt sér.
Varðandi málskostnaðarkröfu eignarnámsþola mótmælir eignarnemi sérstaklega að honum verði gert að greiða eignarnema fyrir verðmat sem Magnús Leópoldsson, löggiltur fasteignasali framkvæmdi fyrir eignarnámsþola. Eignarnemi telur augljóst að óþarft hafi verið fyrir eignarnámsþola að ráðast út í þann kostnað þar sem málsmeðferð fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta sé það úrræði sem menn hafa þegar eignarnemi og eignarnámsþoli ná ekki samkomulagi um bætur. Að auki telur eignarnemi Magnús ekki hlutlausan í málinu þar sem hann hafi jörð eignarnema til sölumeðferðar og líta beri til þess þegar mat hans er skoðað.
V. Sjónarmið eignarnámsþola:
Eignarnámsþoli telur að líta beri til þess við matið að hið eignarnumda land er staðsett í námunda við helsta þéttbýliskjarna landsfjórðungsins. Þá kveður eignarnámsþoli þess grundvallar misskilnings gæta hjá eignarnema að líta til þess að á jörðinni verði stundaður búskapur. Þar hafi ekki verið stundaður hefðbundinn búskapur um árabil og landið sé nú fremur fallið til sumarhúsabyggðar en hefðbundinna landbúnaðarnota.
Eignarnámsþoli bendir á að undirlendi jarðarinnar sé lítið og því sé skerðing þess á því svæði sem nú er tekið eignarnámi sérstaklega bagaleg. Telur eignarnámsþoli að allur vestasti hluti jarðarinnar, þ.e. undirlendi hennar, ónýtist í raun, frá kaflanum frá merkjum við Þinganes út fyrir gangamunna hinna fyrirhugðu jarðganga. Telur eignarnámsþoli að um sé að ræða fjórðung af öllu undirlendi jarðarinnar.
Eignarnámsþoli telur ekki tækt að lækka bætur sem eignarnema verði gert að greiða þó á landinu liggi nú raflína. Það geri spjöll þau sem eignarnemi gerir á landinu engu minna. Þá bendir eignarnemi á að til framtíðar litið verði raflögn austur í Lón fyrirkomið með öðrum hætti eða neðanjarðar.
Eignarnámsþoli telur að áhrif hins nýja vegar gæti langt út fyrir það svæði sem eignarnenmi taki eignarnámi. Hefur eignarnámsþoli lagt fram skjal er sýni að endanlega ónýtist samtals 72,6 ha. lands vegna veglagningarinnar. Í þessu sambandi vísar eignarnámsþoli sérstaklega til úrskurðar Matsnefndar eignarnámsbóta í málinu nr. 2/2002, Vegagerðin gegn Kristbjörgu Hrólfsdóttur.
Eignarnámsþoli bendir á að hann hafi aflað mats frá Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, um það tjón sem hann telji eignarnámsþola verða fyrir vegna eignarnámsins. Að áliti Magnúsar nemi tjónið samtals kr. 13.095.000-. Eignarnámsþoli bendir í þessu sambandi sérstaklega á að Magnús sé einn helsti sérfræðingur landsins á sviði verðmats og sölu jarða og til þess beri að líta þegar mat hans er virt. Að auki vísar eignarnámsþoli til kaupsamnings um landspildu úr jörðinni Gautavík í Djúpavogshreppi frá 9. september 2003, þar sem em kaupverð 14,64 ha. lands hafi verið kr. 4.600.000-, eða u.þ.b. kr. 314.000- pr. ha. Eignarnámsþoli mótmælir sérstaklega að litið verði til orðsendingar nr. 8/2003 sem lögð hafi verið fram í málinu af hálfu eignarnema. Telur eignarnámsþoli þau verð sem þar komi fram í engum takt við það sem gengur og gerist í viðskiptum með jarðir í dag. Þá mótmælir eignarnámsþoli því einnig að litið sé til þeirra kaupsamninga sem eignarnemi hafi lagt fram í málinu, því þar sé einkum um að ræða sölu á ríkisjörðum, en alkunna sé að sérstök sjónarmið gildi oft á tíðum um verðlagningu slíkra jarða, sérstaklega þegar um sölu til ábúenda sé að ræða.
Eignarnámsþoli gerir sérstaka kröfu til þess að fá bætur fyrir það malarefni sem komi úr göngunum enda verði það nýtt af eignarnema. Eignarnámsþoli kveður 85.000 m³ efnis koma samtals úr göngunum og rétt sé að gera ráð fyrir að eignarnámsþoli fái bætur fyrir helming þess efnis. Varðandi verðlagningu efnisins bendir eignarnámsþoli á að fyrir liggi að eignarnemi hafi þegar keypt af honum malarefni úr námu til sömu nota fyrir kr. 50- pr. m³. Því séu hæfilegar bætur fyrir þennan þátt kr. 2.125.000-. Eignarnásmþoli mótmælir sérstaklega sjónarmiðum eignarnema um að honum beri engar bætur fyrir malarefnið sem komi úr göngunum. Vísar eignarnámsþoli sérstaklega til ákvæða laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, einkum 2. og 3. gr.
Eignarnámsþoli mótmælir því að umsamdar bætur fyrir aðstöðu verktaka upp á kr. 200.000- séu fullnaðarbætur og taki í engu til þess tímabundna óhagræðis sem eignarnámsþoli verði fyrir á verktímanum. Þannig teppist t.a.m. aðgengi hans að jörðinni á verktímanum og möguleikar hans til nýtingar jarðarinnar til hrossabeitar, sem eru verulegir, minnki á tímabilinu.
Eignarnámsþoli mótmælir alfarið sjónarmiðum eignarnema um að honum verði ekki gert að greiða fyrir verðmat sem eignarnámsþoli aflaði vegna málsins. Eignarnámsþoli telur augljóst að honum sé bæði rétt og skylt að afla þeirra gagna sem til þurfi til að niðurstaða í málið og verðmat Magnúsar Leópoldssonar, löggilts fasteignasala, sem lagt hafi verið fram sé grundvallarskjal að þessu leyti.
VI. Álit matsnefndar:
Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Ekki er fallist á það með eignarnámsþola að leggja til grundvallar í þessu máli úrskurð nefndarinnar í málinu nr. 2/2002, Vegagerðin gegn Kristbjörgu Hrólfsdóttur, enda voru aðstæður þar allt aðrar. Í því landi sem nú hefur verið tekið eignarnámi liggur fyrir vegur þannig að ekki var um það að ræða að hin nýja veglagning nú hafi spillt ósnertu landi eins og var í nefndum úrskurði nr. 2/2002. Af þessum sökum er ekki fallist á það með eignarnámsþola að eignarnámið spilli í raun 72,6 ha. lands svo sem haldið er fram af eignarnámsþola og gerð er krafa um bætur fyrir. Þá er það álit matsnefndarinnar að verðmæti þess lands sem til umfjöllunar er í þessu máli sé minna en landið sem til umfjöllunar var í nefndum úrskurði.
Fallist er á það með eignarnámsþola að tilvist raflínu á svæðinu breyti ekki því að eignarnema beri að greiða fullnaðarverð fyrir landið eins og matsnefnd telur markaðsverð þess vera. Að áliti matsnefndarinnar er hinn eignarnumdi hluti jarðar eignarnámsþola ekki sérlega hentugur til sumarhúsa- eða frístundabyggðar. Aðrir hlutar jarðarinnar nýtast betur til þeirra hluta.
Fallist er á það með eignarnámsþola að malarefni það sem kemur úr göngunum sé hans eign með vísan til laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu. Malarefnið hefur því fjárgildi þó ekki myndi borga sig að grafa eftir því sérstaklega. Í þessu sambandi ber að líta til þess að eignarnemi nýtir efnið til vegagerðarinnar sem fyllingarefni og losnar í staðin við að flytja efni til þeirra nota um lengri eða skemmri veg. Við mat á verðmæti malarefnisins ber að líta til orðsendingar nr. 8/2003 sem lögð hefur verið fram í málinu, en að áliti matsnefndarinnar er almennur markaður fyrir efnið á svæðinu, enda þörf fyrir fyllingarefni í Hornafirði töluverð. Frá þeim stað er göngin hafa náð 30 m. dýpi að landamerkjum Horns nemur það magn sem grafið er úr göngunum um 11.000 m³. Að áliti matsnefndar ber að bæta matsþola fyrir þá efnistöku.
Hvað málskostnað varðar er fallist á það með eignanámsþola að honum sé rétt og skylt að afla þeirra gagna sem hann telur nauðsynleg í þágu málsins, enda sé sú gagnaöflun innan skynsamlegra marka. Við ákvörðun málskostnaðar í þessu máli hefur m.a. verið höfð hliðsjón af útlögðum kostnaði eignarnámsþola vegna málsins.
Með hliðsjón af framanrituðu þykir matsnefndinni hæfilegar eignarnámsbætur í máli þessu vera kr. 1.569.000- og sundurliðast fjárhæðin þannig:
Bætur fyrir 11,15 ha lands kr. 1.115.000-
Bætur fyrir 11.000 m³ malarefnis kr. 154.000-
Bætur fyrir tímabundin afnotamissi lands kr. 300.000-
Samtals kr. 1.569.000-
Að auki skal eignarnemi greiða eignarnámsþola kr. 600.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og kr. 618.976- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta að málinu.
ÚRSKURÐARORÐ
Eignarnemi, Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, Ómari Antonssyni, kt. 150853-2739, Hagatúni 20, Hornafirði, kr. 1.569.000- í eignarnámsbætur og kr. 600.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta.
Þá greiði eignarnemi kr. 618.976- í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf matsnefndarinnar í máli þessu.
____________________________________
Helgi Jóhannesson, hrl.
__________________________________ ___________________________
Sigríður Kristinsdóttir, hdl. Vífill Oddsson, verkfr.