Mál nr. 4/2016. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 13. september 2016
í máli nr. 4/2016:
Kongsberg Maritime AS
gegn
Ríkiskaupum
Tækniskólanum
Verkmenntaskólanum á Akureyri
og
Transas Marine Ltd.
Kærandi, Kongsberg Maritime AS, sendi Ríkiskaupum erindi 29. mars sl. vegna útboðs Ríkiskaupa, fyrir hönd Tækniskólans og Verkmenntaskólans á Akureyri, nr. 20149 (hér eftir „varnaraðila“) „Bridge and Engine Room Simulators“. Ríkiskaup framsendu erindið til kærunefndar útboðsmála sem taldi rétt að túlka efni þess sem kæru. Þar sem erindið uppfyllti ekki kröfur 2. mgr. 94. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007, sbr. 11. gr. laga nr. 58/2013, var kæranda hins vegar gefinn frestur til úrbóta. Ný kæra barst 7. apríl sl. þar sem þess er krafist að samningsgerð verði stöðvuð og ákvörðun varnaraðila um að taka tilboði Transas Marine Ltd. verði ógilt en varnaraðila gert að semja við kæranda. Þá er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda og úrskurði kæranda málskostnað. Varnaraðilar krefjast þess aðallega að kærunni verði vísað frá nefndinni en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Transas Marine Ltd. lagði fram athugasemdir sínar 22. apríl sl.
Með ákvörðun 17. maí 2016 aflétti kærunefnd útboðsmála stöðvun samningsgerðar varnaraðila við Transas Marine Ltd. í kjölfar hins kærða útboðs.
I
Í nóvember 2015 auglýstu Ríkiskaup fyrir hönd Tækniskólans og Verkmenntaskólans á Akureyri útboð nr. 20149 „Bridge and Engine Room Simulators“. Með útboðinu var óskað eftir tilboðum í brúar- og vélarrúmsherma sem nota á við kennslu í vélstjórn og skipstjórn í skólunum. Hermarnir skyldu vera nýir og innifalið í tilboðum skyldi vera skoðun, sending, uppsetning, kennsla, ábyrgð og þjónusta til fimm ára. Í útboðsgögnum voru gerðar ýmsar kröfur til boðinna vara, m.a. að þær væru í samræmi við tiltekna staðla og vottaðar af tilteknum aðilum. Þannig var m.a. gerð eftirfarandi krafa í grein 5.3.1.: „The simulator shall be compliant with IMO STCW´95 and type approved by Det Norske Veritas/Germanischer Lloyd (DNV-GL – www.dnvgl.com) Standard for Certification of Maritime Simulator Systems DNV-GL standard number ST-0033:2014-08“. Þá sagði í kafla 2.3 að val tilboða byggðist alfarið á lægsta verði.
Þrír bjóðendur skiluðu tilboðum: tilboð kæranda var að fjárhæð 337.979.955 krónur, tilboð Applied Research International Private Limited var að fjárhæð 351.891.500 krónur og tilboð Transas Marine Ltd. var að fjárhæð 173.700.000 krónur. Hinn 14. mars 2016 tilkynntu Ríkiskaup að tilboð Transas Marine Ltd. hefði verið valið. Í tilkynningunni kom fram að biðtími samningsgerðar yrði til 29. mars 2016 og endanlegur samningur yrði undirritaður 30. mars sama ár.
II
Kærandi telur að óheimilt hafi verið að taka tilboði Transas Marine Ltd. þar sem það hafi ekki uppfyllt óundanþægar tæknilegar kröfur sem komið hafi fram í grein 5.3.1. í útboðsgögnum. Vörur félagsins hafi ekki vottun frá þeim aðila sem tilgreindur sé í útboðsgögnum. Þá telur kærandi að tilboðið hafi verið óeðlilega lágt. Í því samhengi bendir kærandi á að í tilboðinu hafi m.a. falist að bjóðandi skuli sjá kaupanda fyrir viðeigandi vélbúnaði og hugbúnaði. Einnig skuldbindi bjóðandi sig til þess að veita þjónustu á tveimur stöðum á landinu. Kærandi telur ómögulegt að veita þjónustuna á því verði sem Transas Marine Ltd. hafi boðið og bendir á að tilboðið sé jafnhátt tilboði kæranda í uppfærslu búnaðar fyrir árið 2014 eitt og sér. Í því tilboði hafi þó hvorki falist skattar né skuldbinding um þjónustu til fimm ára. Þá sé óeðlilegt að munur á tilboði kæranda og þriðja tilboðinu sem barst sé minni en 15 milljónir króna en tilboð Transas Marine Ltd. sé um 164 milljónum króna lægra.
III
Varnaraðilar telja að kæran sé of seint fram komin enda hafi verið tilkynnt um val tilboðs 14. mars 2016 en endanleg kæra borist 7. apríl sama ár. Hafi þá 20 daga kærufrestur verið liðinn. Þá vísa varnaraðilar til þess að tilboð Transas Marine Ltd. hafi uppfyllt áskildar kröfur þar sem bjóðandinn hafi lagt fram vottorð sem teljist jafngilt því sem áskilið hafi verið í útboðsgögnum. Einnig hafi verðtilboðið ekki verið óeðlilegt enda í samræmi við kostnaðaráætlun varnaraðila. Aftur á móti hafi tilboð kæranda verið rúmum 150 milljónum króna yfir kostnaðaráætlun og hefði þannig aldrei komið til greina að velja það.
Í athugasemdum Transas Marine Ltd. kemur fram að hermar félagsins séu samþykktir og vottaðir af „Class NK“ sem sé algerlega sambærilegt við þær hugbúnaðarkröfur sem gerðar séu af Det Norske Veritas/Germanischer Lloyd. Í athugasemdunum er svo nánar rakið hvernig staðreyna megi að staðlarnir séu sambærilegir. Félagið útskýrir í sex liðum hvernig það gat boðið töluvert lægra verð en aðrir bjóðendur. Kemur þar m.a. fram að vélbúnaður og hugbúnaður sé tiltækur og þurfi þannig ekki að þróa og ýmsir hlutir í herma séu ódýrir og einfaldir í framleiðsluferli félagsins. Þá sé kostnaður við að þjónusta tvo staði á landinu ekki mikill enda muni þjónusta og viðhald að miklu leyti verða fjarstýrt frá skrifstofu félagsins.
IV
Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 11. gr. laga nr. 58/2013, skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá því að kærandi vissi um eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Óumdeilt er að erindi kæranda barst kærunefnd útboðsmála eftir framsendingu varnaraðila 30. mars sl. Nefndinni var rétt að líta á erindið sem kæru og var hún þannig borin undir nefndina innan kærufrests jafnvel þótt upphaflegt erindi hafi ekki fullnægt þeim skilyrðum sem gerðar eru til kæru samkvæmt 3. mgr. 94. gr. laga um opinber innkaup.
Í 51. gr. laga um opinber innkaup segir að kaupendur skuli taka gild sambærileg vottorð sem gefin eru út af stofnunum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og ríkjum stofnsamnings EFTA. Þeir skulu einnig taka gild önnur gögn, sem fyrirtæki leggur fram, sem veita sambærilega sönnun fyrir því að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar með tilliti til gæðakrafna. Með tilboði Transas Marine Ltd. fylgdi vottun um þá staðla sem boðnar vörur fyrirtækisins uppfylla en vottunin var ekki frá því fyrirtæki sem tilgreint var í grein 5.3.1. í útboðsgögnum. Transas Marine Ltd. sendi nefndinni hins vegar gögn sem bjóðandinn taldi sýna fram á að vottun og staðlar sem vörur hans miðast við séu sambærileg þeim vottunum og stöðlum sem vísað var til í útboðsgögnum. Kærunefndin hefur kynnt sér gögn félagsins og þá staðla sem útboðsgögn miðuðu við. Telur nefndin ekki ástæðu til hagga við því mati varnaraðila að þau teljist sambærileg og hafi boðnar vörur Transas Marine Ltd. þannig fyllilega uppfyllt þær efnislegu kröfur sem gerðar voru til tækjanna með grein 5.3.1. í útboðsgögnum.
Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. laga um opinber innkaup, sbr. 3. gr. laga nr. 58/2013, skal kaupandi leita skýringa bjóðanda áður en hann hafnar tilboði sem óeðlilega lágu. Varnaraðilar hafa sent nefndinni afrit af kostnaðaráætlun Tækniskólans 16. desember 2015 þar sem gert er ráð fyrir að kostnaður við kaup á vörunum verði 165.000.000 krónur, en eins og áður segir nam tilboð Transas Marine Ltd. 173.700.000 krónum. Þá hefur Transas Marine Ltd. gert nánari grein fyrir því hvers vegna fyrirtækið gat boðið það verð sem hér um ræðir. Verður því ekki talið að fyrrnefnd kostnaðaráætlun hafi verið ótrúverðug. Að þessu virtu telur nefndin ekki að sérstakt tilefni hafi verið fyrir varnaraðila að rannsaka frekar en gert var hvort tilboð Transas Marine Ltd. væri óeðlilega lágt.
Samkvæmt öllu framangreindu er það niðurstaða kærunefdar útboðsmála að ekki hafi verið brotið gegn lögum um opinber innkaup við mat á tilboðum og val á tilboði Transas Marine Ltd. Verður því að hafna öllum kröfum kæranda. Rétt er að málskostnaður falli niður.
Úrskurðarorð:
Öllum kröfum kæranda, Kongsberg Maritime AS, vegna útboðs varnaraðila Ríkiskaupa fyrir hönd Tækniskólans og Verkmenntaskólans á Akureyri nr. 20149 „Bridge and Engine Room Simulators“, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.
Reykjavík, 13. september 2016.
Skúli Magnússon
Sandra Baldvinsdóttir
Stanley Pálsson