Nr. 446/2017- Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 15. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 446/2017
í stjórnsýslumáli nr. KNU17070013
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 4. júlí 2017 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. júní 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Frakklands.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um hæli til efnismeðferðar með vísan til 3. mgr. 36. gr., sbr. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga sem og 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 25. apríl 2017. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 25. apríl 2017, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Ungverjalandi og Frakklandi. Þann 9. maí 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Frakklandi, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 18. maí 2017 barst svar frá frönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 28. júní 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Frakklands. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 4. júlí 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 19. júlí 2017.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Frakklands. Lagt var til grundvallar að Frakkland virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Frakklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Frakklands, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Kærandi mótmælti því við málsmeðferð sína hjá Útlendingastofnun að vera sendur aftur til Frakklands þar sem hann óttist að […] í Frakklandi muni drepa hann sökum [...] hans. Var það mat Útlendingastofnunar að frönsk yfirvöld og lögregla séu í stakk búin til þess að vernda kæranda gerist þess þörf. Það sé mat Útlendingastofnunar að í Frakklandi séu engin viðvarandi mannréttindabrot og að íbúar landsins geti fengið vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum með aðstoð lögreglu eða annarra yfirvalda. Þá hafi kærandi byggt á því að í raun sé ómögulegt fyrir aðra en frönskumælandi að sækja um hæli í Frakklandi en skila þurfi inn umsókn á frönsku. Fram kemur í ákvörðun stofnunarinnar að Frakkland sé aðildarríki Evrópusambandsins og sé því bundið af löggjöf Evrópusambandsins sem tryggi ýmis réttarúrræði vegna umsóknar um alþjóðlega vernd. Þeim sé m.a. skylt að hafa frammi upplýsingar um réttarstöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd og leiðbeiningar um umsókn á máli sem þeir skilji. Engin undantekning sé á því í Frakklandi og engin fyrirfarandi tálmun við umsókn.
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að með vísan til heildstæðs mats á stöðu kæranda sé það mat stofnunarinnar að kærandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærandi geti þó leitað aðstoðar franskra yfirvalda og lögreglu óttist hann tiltekna aðila eða að á honum verði brotið. Þá sé Frakkland bundið að þjóðarrétti til að fylgja reglunni um að mönnum skuli ekki vísað brott þangað sem líf þeirra eða frelsi kunni að vera í hættu. Var það því mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að í viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun dagana 25. apríl og 24. maí 2017 hafi kærandi kveðið að hann vilji ekki vera sendur aftur til Frakklands því líf hans sé í hættu þar. Hann hafi verið í tvö ár í Frakklandi og aðstæður þar hafi verið erfiðar. Hann hafi fengið fjárhagsaðstoð en hvorki húsaskjól né mat. Aðspurður kvað kærandi að hann óttist samlanda sína í Frakklandi þar sem þeir vilji drepa hann vegna [...] hans. Hann hafi orðið fyrir grófri líkamsárás af hendi þeirra þegar upp komst um [...] hans. Í kjölfar árásarinnar hafi hann óttast um líf sitt og séð sér þann einn kost færan að flýja frá Frakklandi. Kvaðst hann einnig hafa þurft að flýja heimaland sitt, […], vegna [...] sinnar. Aðspurður um andlegt heilsufar kvað kærandi að hann væri stressaður og með stanslausan höfuðverk sem mætti m.a. rekja til vandræða tengdum [...] hans. Þá telji hann sig tilheyra minnihlutahópi í heimalandi sínu á grundvelli [...].
Fram kemur í greinargerð kæranda að 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga feli í sér meginreglu um að umsókn um alþjóðleg vernd skuli tekin til efnismeðferðar en í c-lið sömu málsgreinar megi finna heimild til handa stjórnvöldum til að synja kæranda um efnismeðferð umsóknar sinnar en ekki skyldu. Kærandi hafi fengið lokasynjun í Frakklandi og hans bíði því endursending til heimaríkis við komuna til Frakklands. Grundvallarregla þjóðarréttar um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kunni að vera í hættu sé orðuð í 42. gr. laga um útlendinga. Ótækt sé að beita heimildinni í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í tilviki kæranda. Þvert á móti njóti hann verndar 42. gr. laga um útlendinga.
Í greinargerð kæranda er fjallað um aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi. Meðal annars kemur fram að álag á hæliskerfi Frakklands sé mikið. Vegna mikils fjölda einstaklinga sem sæki þar um vernd séu búsetuúrræðin ófullnægjandi, stjórnvöld geti ekki séð öllum fyrir húsnæði og hafist margir við í ólöglegum flóttamannabúðum. Þá eigi umsækjendur um alþjóðlega vernd erfitt með að komast inn í kerfið í Frakklandi og sé þeim mismunað eftir búsetu þegar kemur að aðstoð við framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd og lögfræðiaðstoð á fyrsta stjórnsýslustigi. Nýleg skýrsla frjálsra félagasamtaka greini frá miklu lögregluofbeldi í garð umsækjenda um alþjóðlega vernd, slæmum aðstæðum þeirra og hörðum lífsskilyrðum. Þá búi innflytjendur í Frakklandi við mismunun og ofbeldi sökum uppruna síns. Þá hafi ofbeldi í garð múslima aukist í kjölfar nýlegra hryðjuverkaárása. Þá er í greinargerð kæranda fjallað um stöðu kæranda sem [...] einstaklings og stöðu [...] í Frakklandi og í heimalandi hans.Í ljósi sérstæðra málavaxta telur kærandi að íslenskum stjórnvöldum beri, með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, að taka umsókn hans til efnismeðferðar. Sé það vegna andlegrar vanheilsu kæranda, [...] hans og réttmæts ótta við endursendingu til […] og ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að hæliskerfið í Frakklandi sé komið að þolmörkum.
Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld út gildi og að útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.
Fyrir liggur í máli þessu að frönsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Frakklands er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.
Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.
Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.
Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.
Fram kom í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun þann 24. maí 2017 að hann sé líkamlega og andlega heilsuhraustur en hann sé þó stressaður og þjáist af höfuðverkjum […]. Þá greindi kærandi frá því að hann sé [...] og að hann óttist einstaklinga í Frakklandi sem vilji drepa hann sökum [...] hans. Skilgreiningu á einstaklingi í sérstaklega viðkvæmri stöðu er að finna í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga en þar kemur fram að átt sé við einstaklinga sem hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögunum án aðstoðar eða sérstaks tillits. Kærandi var metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu undir málsmeðferð sinni hjá Útlendingastofnun, með hliðsjón af heildstæðu mati á stöðu kæranda. Kærunefnd telur sig ekki hafa forsendur til að breyta því mati stofnunarinnar og leggur því til grundvallar að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
Við þetta mat er í ákvörðun Útlendingastofnunar vísað til athugasemda við 2. mgr. 36. gr. með frumvarpi því sem var að lögum nr. 80/2016, þar sem komi m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé vísað til þess að einstaklingar geti verið í viðkvæmri stöðu svo sem vegna mismununar sem viðkomandi einstaklingur verði fyrir sökum sem dæmi kynhneigðar. Í því sambandi bendir kærunefnd á að við meðferð frumvarps til laga um útlendinga á Alþingi var gerð breyting á texta ákvæðis 2. mgr. 36. gr. og tilvísun í hugtakið „viðkvæm staða“ felld brott. Kærunefnd telur því að athugasemdir frumvarpsins er þetta varðar ekki hafa þýðingu við túlkun á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
- Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Frakklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:
- Asylum Information Database, Country Report – France (European Council on Refugees and Exiles, 31. desember 2016)
- Guide for Asylum Seekers in France (Ministry of the Interior, General Directorate for Foreign Nationals in France, 1. nóvember 2015)
- France 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017)
- Dublin II Regulation & Asylum in France – Guide for Asylum Seekers – 2012 (Forum réfugiés, European Refugee Fund, 2012)
- Amnesty International Report 2016/17 – France (Amnesty International, 21. febrúar 2017)
- Freedom in the World 2016 – France (Freedom House, 7. mars 2016)
- First Steps for Demanding Asylum (Dom‘Asile, nóvember 2015)
- Report of Human Rights Commissioner of the Council of Europe following his visit to France from 22 to 26 september 2014 (Commissioner for Human Rights, Council of Europe, 17. febrúar 2015)
Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Frakklandi má ráða að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á viðtali áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra hjá frönsku útlendingastofnuninni (f. Office Français sur l’Immigration et l’Intégration). Umsækjendur sem fengið hafa synjun á umsókn sinni geta kært niðurstöðuna til stjórnsýsludómstóls (f. Cour nationale du droit d’asile). Þeir umsækjendur sem fengið hafa neikvæða niðurstöðu í máli sínu eiga jafnframt möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli kæranda geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Þá eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.
Þá er af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér ljóst að frönsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Umsækjendur eiga rétt á lögfræðiaðstoð sér að kostnaðarlausu við meðferð máls hjá frönsku útlendingastofnuninni (f. Office Français sur l’Immigration et l’Intégration).
Gögn málsins benda til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Frakklandi eigi möguleika á því að fá annaðhvort húsaskjól í hefðbundnum móttökumiðsstöðvum eða í tímabundnum gistiskýlum á vegum stjórnvalda á meðan þeir eru á biðlista eftir plássi í móttökumiðstöð. Í fyrrgreindum skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Frakklandi kemur fram að umsækjendum um alþjóðlega vernd þar í landi er tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í frönskum lögum, sbr. m.a. skýrsla Asylum Information Database, Country Report: France (European Council on Refugees and Exiles, 31. desember 2016). Þá fer í öllum tilvikum fram mat á því hvort umsækjandi teljist vera einstaklingur í viðkvæmri stöðu.
Kærandi hefur greint frá því að hann sé [...] og sé í hættu vegna þess í Frakklandi og heimalandi sínu. Kærandi hafi orðið fyrir líkamsárás í Frakklandi vegna [...] sinnar. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér má ráða að franska stjórnarskráin bannar mismunun gagnvart minnihlutahópum, þ.á m. mismunun byggða á kynhneigð og stjórnmálaskoðunum. Þá er Frakkland bundið að þjóðarétti til að fylgja reglunni um að mönnum skuli ekki vísað brott þangað sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement). Telji kærandi framangreind réttindi sín vera brotin getur hann leitað réttar síns fyrir frönskum dómstólum og Mannréttindadómstóli Evrópu. Þá getur kærandi leitað aðstoðar yfirvalda og lögreglu óttist hann tiltekna aðila eða að á honum verði brotið.
Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Frakklandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.
Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það jafnframt mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 24. maí 2017 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 25. apríl 2017.
Í greinargerð kæranda er þess krafist til vara að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Engar röksemdir eru færðar fyrir kröfunni í greinargerð. Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð stofnunarinnar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir. Varakröfu kæranda er því hafnað.
Í máli þessu hafa frönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Frakklands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir, varaformaður
Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir