Nr. 141/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 16. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 141/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23020066
Beiðni […] um endurupptöku
I. Málsatvik og málsmeðferð
Hinn 19. maí 2022 staðfesti kærunefnd útlendingamála með úrskurði nr. 197/2022 ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. mars 2022, um að synja einstaklingi er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 23. maí 2022. Hinn 30. maí 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Hinn 7. júní 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 242/2022, dags. 30. júní 2022, var beiðni kæranda um endurupptöku og frestun réttaráhrifa hafnað. Hinn 22. mars 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku að nýju.
Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar er reist á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem hún telur að ákvörðun í máli sínu hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp.
Í beiðni kæranda kemur fram að kærunefnd hafi með úrskurði nr. 242/2022 hafnað málsástæðum hennar þess efnis að aðstæður í Nígeríu væru slíkar að óheimilt væri að endursenda hana til landsins og að forsætisráðherra Íslands hefði lýst því yfir að umsækjendum um alþjóðlega vernd yrði ekki brottvísað þangað. Vísar kærandi til fyrri greinargerða sinnar til kærunefndar um aðstæður í heimaríki hennar og ástæður sem lágu að baki flótta hennar.
Nú hafi liðið um níu mánuðir frá uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar án þess að kæranda hafi verið brottvísað. Telur hún það sýna fram á að ákvörðun kærunefndar í málinu hafi byggst á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik og að stjórnvöldum sé nú ljóst að óheimilt sé að endursenda hana til Nígeríu hyggist þau uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 19. maí 2022, var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og því ætti hún ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.
Í beiðni sinni um endurupptöku byggir kærandi á því að forsætisráðherra Íslands hafi lýst því yfir að nígerískum umsækjendum um alþjóðlega vernd yrði ekki brottvísað til Nígeríu. Liðnir séu níu mánuðir frá uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar í máli kæranda án þess að til brottvísunar hennar hafi komið og sýni það fram á að óheimilt sé að endursenda einstaklinga til Nígeríu. Í endurupptökubeiðni kæranda sem hún lagði fram 7. júní 2022 var byggt á sömu málsástæðu varðandi ummæli forsætisráðherra Íslands og fjallaði kærunefnd um málsástæðuna í úrskurði sínum nr. 242/2022. Líkt og fram kom í þeim úrskurði er kærunefnd útlendingamála sjálfstæð stjórnsýslunefnd samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um útlendinga og sem slík er hún ekki bundin af orðum embættismanna í almennri opinberri umræðu. Ljóst er að framangreind orð forsætisráðherra eru hvorki réttarheimild sem kærunefnd getur byggt niðurstöðu sína á né yfirlýsing um stefnubreytingu íslenskra stjórnvalda heldur fremur almennt svar við fyrirspurn blaðamanns. Tafir á endursendingu fólks til Nígeríu hafa ekki áhrif á efnislega niðurstöðu kærunefndar í málum er varða nígeríska ríkisborgara, enda byggjast slíkar ákvarðanir á lögum um útlendinga. Í lögunum er ekki ráðgert að tafir á endursendingu þeirra sem hlotið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd á stjórnsýslustigi leiði til breytinga á réttarstöðu þeirra hér á landi.
Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar, líkt og í úrskurði nr. 242/2022 frá 30. júní 2022, að ekki sé hægt að fallast á að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar frá 19. maí 2022 var birtur kæranda, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Samantekt
Að framangreindu virtu er það því mat kærunefndar að atvik í máli kæranda hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál hennar upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.
Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kæranda um endurupptöku málsins.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.
The request of the appellant to re-examine the case is denied.
Tómas Hrafn Sveinsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir