Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 89/2013

Fimmtudaginn 16. apríl 2015


A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 14. júní 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 5. júní 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 20. ágúst 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. ágúst 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 29. ágúst 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1954 og 1957. Þau búa ásamt sonum sínum, öðrum á unglingsaldri en hinum uppkomnum, í eigin 112,4 fermetra fasteign að Rauðhömrum 5 í Reykjavík.  

Kærandi A starfar hjá X. Kærandi B er öryrki. Mánaðarlegar meðtalstekjur kærenda eru 387.823 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína meðal annars til veikinda sinna og tekjulækkunar. Einnig hafi synir þeirra glímt við veikindi og fjárhagserfiðleika.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 25.052.400 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga árin 1991 og 2008.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 24. ágúst 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. febrúar 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var greiðsluáætlun þar sem fram kom framfærslukostnaður og greiðslugeta kærenda.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 28. september 2012 vakti umsjónarmaður athygli embættisins á því að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge. Því væri það mat hans að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kom fram að tillaga að samningi til greiðsluaðlögunar hefði verið send kröfuhöfum 13. febrúar 2012. Andmæli hafi borist við tillögunni meðal annars vegna þess að kærendur hefðu ekkert lagt til hliðar á greiðsluaðlögunartímabilinu en þau hefðu verið í greiðsluskjóli í um 22 mánuði. Samkvæmt neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara og öðrum útgjöldum sem kærendur telji regluleg, hafi þau mánaðarlega rúmlega 92.000 krónur í afgang af tekjum. Að auki hafi þau fengið vaxtabætur í ágúst 2011. Kærendur hafi ekki gefið neinar skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt neitt fyrir á tímabilinu.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 5. október 2012 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur hafi mætt á fund hjá embættinu og lagt fram gögn um ýmis óvænt útgjöld sem þau hafi talið að skertu greiðslugetu sína verulega. Kærendur hafi talið að nefnd útgjöld sýndu hvers vegna þeim hafi ekki verið unnt að leggja fé til hliðar.

Með bréfi til kærenda 5. júní 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a–lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur hafa ekki lagt athugasemdir, málsástæður eða röksemdir fyrir kærunefndina.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé  umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið að finna á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 28. febrúar 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar kæmi að því að semja við kröfuhafa.

Kærendur hafi óskað greiðsluaðlögunar 18. október 2010 og hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge., svokallað greiðsluskjól, þá hafist. Greiðsluskjól kærenda hafi samkvæmt því staðið yfir í 30 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. nóvember 2010 til 1. maí 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. mars 2011 til 30. apríl 2013 að frádregnum skatti 11.865.656
Barnabætur, vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2010-2012 452.947
Samtals 12.318.603
Mánaðarlegar meðaltekjur 410.620
Framfærslukostnaður á mánuði 274.695
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 135.925
Samtals greiðslugeta í 30 mánuði 4.077.753

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki breytingum samkvæmt vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnað játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 410.629 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 274.695 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað júnímánaðar 2013 fyrir hjón með eitt barn en reiknað sé með framfærslu 19 ára sonar kærenda til þess að veita þeim eins mikið svigrúm og mögulegt sé í ljósi aðstæðna og veikinda hans. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 4.077.750 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 135.925 krónur á mánuði í 30 mánuði.

Kærendur hafi borið því við að ýmis óvænt útgjöld hafi komið til á tímabili greiðsluskjóls og því hafi þau ekki séð sér fært að leggja til hliðar. Samkvæmt gögnum sem kærendur hafi lagt fram vegna hinna óvæntu útgjalda hafi þau greitt 29.236 krónur vegna viðgerðar og viðhalds bifreiðar og 149.541 króna vegna trygginga. Ekki verði talið að þessi kostnaður teljist til óvæntra útgjalda án frekari rökstuðnings. Viðgerðarkostnaður bíls að fjárhæð 29.236 krónur falli undir útgjaldaliðinn „rekstur bíls/almenningssamgöngur“ í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Gert sé ráð fyrir kostnaði við tryggingar í mánaðarlegum framfærslukostnaði samkvæmt þeirri greiðsluáætlun sem kærendur hafi fengið. Verði því ekki tekið tillit til þessara útgjalda.

Þá hafi kærendur lagt fram kvittanir vegna lyfja-, læknis- og tannlæknakostnaðar að fjárhæð 598.779 krónur. Reikningar vegna lækniskostnaðar falli undir liðinn „læknis- og lyfjakostnaður“ samkvæmt fyrrnefndum framfærsluviðmiðum. Alls séu 140.769 krónur umfram þann kostnað sem gert sé ráð fyrir í framfærsluviðmiðum og verði hann því tekinn til greina sem nauðsynleg útgjöld kærenda. Þessu til viðbótar hafi kærendur lagt fram kvittun vegna greiðslu að fjárhæð 1.135.296 krónur til húsfélags vegna viðgerða á fasteign þeirra. Hafi meirihluti húsfélagsins samþykkt að ráðast í viðgerðirnar í óþökk kærenda en þau hafi strax gert umsjónarmanni viðvart um fyrirhugaðar framkvæmdir. Í ljósi aðstæðna í málinu verði umrædd greiðsla talin til óvæntra útgjalda kærenda og hún talin nauðsynlegur kostnaður þeirra. Enn fremur hafi kærendur lagt fram kvittanir vegna endurnýjunar á baðherbergi en þau hafi verið knúin til að standa straum af þessum kostnaði vegna veikinda sonar síns. Þyki sá kostnaður mjög hóflegur og verði tekið tillit til hans þar sem um sérstakar og erfiðar aðstæður hafi verið að ræða.

Samkvæmt framangreindu lækkar sú fjárhæð sem kærendur hefðu átt að leggja til hliðar úr 4.077.750 krónum í 2.546.386 krónur eða um 1.531.364 krónur. Hafi kærendur ekki gert grein fyrir því hvernig þau hafi ráðstafað umræddum 2.546.386 krónum.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 28. september 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Því væri það mat hans að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 5. júní 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 4.077.750 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 24. ágúst 2010, eða 18. október 2010 eftir að lagabreytingin hafði tekið gildi til 5. júní 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 135.925 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi lagt fram skýringar og kvittanir vegna kostnaðar í greiðsluskjóli, samtals að fjárhæð 1.531.364 krónur, sem komi til frádráttar fyrrnefndum 4.077.750 krónum. Eigi sparnaður kærenda því að nema 2.546.386 krónum.

Kærendur kveðast ekki hafa haft tök á því að leggja fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. vegna óvæntra útgjalda.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. september 2010 til 31. desember 2010: 4 mánuðir
Nettótekjur A 828.986
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 207.247
Nettótekjur B 603.083
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 150.771
Nettótekjur alls 1.432.069
Mánaðartekjur alls að meðaltali 358.017


Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.549.711
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 212.476
Nettótekjur  B 1.947.368
Nettó mánaðartekjur  B að meðaltali 162.281
Nettótekjur alls 4.497.079
Mánaðartekjur alls að meðaltali 374.757


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.593.002
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 216.084
Nettótekjur  B 2.020.328
Nettó mánaðartekjur  B að meðaltali 168.361
Nettótekjur alls 4.613.330
Mánaðartekjur alls að meðaltali 384.444


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. maí 2013: 5 mánuðir
Nettótekjur A 1.088.976
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 217.795
Nettótekjur B 881.352
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 176.270
Nettótekjur alls 1.970.328
Mánaðartekjur alls að meðaltali 394.066


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 12.512.806
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 379.176

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. september 2010 til 31. maí 2013: 33 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 12.512.806
Bótagreiðslur 376.882
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 12.889.688
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 390.597
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 274.695
Greiðslugeta kæranda á mánuði 115.902
Alls sparnaður í 33 mánuði í greiðsluskjóli x 115.902 3.824.753

 

Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara lögðu kærendur fram reikninga vegna útgjalda að fjárhæð 2.205.150 krónur sem sundurliðast svo:

 

Útgjaldaliður Fjárhæð
Lyfjakostnaður 406.272
Læknisþjónusta 6.918
Tannlæknakostnaður 244.650
Tryggingar 127.479
Viðhald bifreiðar 29.236
Endurnýjun á baðherbergi 255.299
Viðgerð á vegum húsfélags 1.135.296
Samtals 2.205.150

 

Af ofangreindum útgjaldaliðum eru lyfja- og lækniskostnaður að fjárhæð 437.277 krónur innifaldir í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara en kostnaður kærenda vegna þessara liða samkvæmt framlögðum reikningum er 413.190 krónur á tímabilinu eða 60.087 krónum lægri en framfærsluviðmiðin gera ráð fyrir. Er því ekki unnt að taka tillit til þessa þegar reiknað er út hver sparnaður kærenda hefði átt að vera í greiðsluskjóli. Þá hafa kærendur vísað fram reikningum vegna trygginga og viðhaldskostnaðar á bíl. Gert er ráð fyrir þessum kostnaði í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara og því ekki unnt að telja hann til óvæntra útgjalda. Loks hafa kærendur greitt 255.299 krónur vegna endurnýjunar á baðherbergi. Engin gögn hafa verið lögð fram um að þessi kostnaður hafi verið nauðsynlegur og verður ekki tekið tillit til hans.

Tannlæknakostnaður kærenda nam 244.650 krónum á tímabilinu. Telst þessi kostnaður til óvæntra útgjalda og verður því dreginn frá þeirri fjárhæð sem kærendur hefðu átt að leggja til hliðar í greiðsluskjóli. Sama gildir um kostnað vegna viðgerðar á vegum húsfélags að fjárhæð 1.135.296 krónur. Þegar framangreint er dregið saman hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 2.444.807 krónur á tímabili greiðsluskjóls (3.824.753 krónur- 244.650 krónur - 1.135.296 krónur).

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur og leiðbeininga umsjónarmanns, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Þó er ljóst að jafnvel þótt  fallist væri á að taka tillit til alls þess kostnaðar sem kærendur tiltaka að fjárhæð 2.205.150 krónur skortir enn töluvert upp á að kærendur hafi lagt til hliðar svo sem þeim bar í greiðsluskjólinu.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta