Mál nr. 33/2012. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 21. janúar 2013
í máli nr. 33/2012:
Fylkir ehf.
gegn
Reykjavíkurborg
Með bréfi, sem barst kærunefnd útboðsmála 30. október 2012, kærði Fylkir ehf. ákvörðun Reykjavíkurborgar um að ganga til samninga við Kubb ehf. í kjölfar útboðsins „Kaup á 240 l bláum sorptunnum“. Kröfur kæranda eru orðaðar með eftirfarandi hætti:
„Fylkir ehf. sem lægstbjóðandi gerir því hér með þær kröfur að hætt verði við fyrirhuguð kaup. Þess í stað er þess krafist að gengið verði til samninga við Fylki ehf. um kaup á grundvelli tilboðs félagsins, svo og hinum ítarlegu útboðsskilmálum.“
Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Með bréfi, dags. 21. nóvember, krafðist kærði þess aðallega að kærunni yrði vísað frá en til vara að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Jafnframt krafðist kærði þess að kæranda yrði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð. Með bréfi, dags. 18. desember 2012, gerði kærandi athugasemdir við greinargerð kærða og bætti við kröfu um að kærða yrði gert að greiða honum málskostnað.
I.
Í júlí 2012 auglýsti kærði útboðið „Kaup á 240 l bláum sortpunnum“ á EES svæðinu. Í útboðinu var óskað eftir tilboðum í 240 l bláar sorptunnur. Óskað var eftir einingaverði í sorptunnurnar. Tekið var fram að óljóst væri hversu margar tunnur yrðu keyptar og var óskað eftir tilboðum í allt að 14.000 tunnur en þó aldrei færri en 4000.
Í kafla 1.1.8 í útboðinu sagði m.a.:
„Eftirfarandi gögn skulu fylgja með tilboði.
[...]
B. Upplýsingar er varða vöruna
Bjóðendur skulu með tilboðum leggja fram greinargóða lýsingu á vöru sem boðin er. Þannig skal upplýsa um framleiðanda, tegund og tegundarnúmer tunna, mál tunna og mynd, auk annarra upplýsinga sem þarf til að staðfesta að varan uppfylli kröfur skv. kafla 2, vörulýsingu. Fylgja skal staðfesting á að varan uppfylli staðalinn IST EN 840:2004 og að varan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til RAL gæðavottunar (RAL Deutsches Institut für Gütesicherung und Kennzeichnung E.V., RAL-GZ 9511-1).“
Þá sagði einnig í kafla 2.1. í útboðinu sem bar heitið „Lýsing á vöru“:
„Leitað er tilboða í 240 l sorptunnur. Tunnurnar skulu vera bláar á lit, litanúmer RAL 5015, með innbrennt borgarmerki framan á tunnunum. Borgarmerkið skal vera u.þ.b. 235x150 mm að stærð, hvítt á bláum grunni (tunnulitur myndi grunninn). Kaupandi mun afhenda samningsaðila borgarmerkið og málin á því. Á tunnunum skal vera lok og tvö hjól, u.þ.b. 200 mm í þvermál. Lok tunnanna skal vera í sama lit og tunnurnar en hjólin skulu vera svört. Tunnurnar skulu uppfylla kröfur sem gerðar eru til RAL gæðavottunar, RAL Deutsches Institut für Gütesicherung und Kennzeichnung E.V., RAL-GZ 951-1, og staðalinn ÍST EN 840-1:2004, Mobile waste containers – Part 1: Containers with 2 wheels with a capacity up to 400 l for comb lifting devices – Dimensions and design.“
Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu en alls bárust 15 tilboð. Tilboð voru opnuð hinn 4. september 2012 og átti kærandi tilboð að upphæð kr. 5.460 fyrir hverja tunnu en Kubbur ehf. gerði tilboð að upphæð kr. 5.427 fyrir hverja tunnu.
Hinn 28. september 2012 tilkynnti kærði að hann hefði ákveðið að ganga til samninga við Kubb ehf. í kjölfar hins kærða útboðs. Kærandi mótmælti ákvörðun kærða, með bréfi dags. 11. október 2012. Með bréfi, dags. 23. október 2012, svaraði kærði framangreindu bréfi kæranda. Hinn 8. október 2012, tilkynnti kærði að tilboð Kubbs ehf. væri endanlega samþykkt.
II.
Kærandi segir að þær vörur sem boðnar voru í tilboði Kubbs ehf. hafi ekki uppfyllt kröfur útboðslýsingar enda uppfylli tunnurnar ekki þær kröfur sem gerðar séu til RAL gæðavottunar. Kærandi segir að opinber vottunaraðili RAL-staðalsins hafi lýst því yfir að tunnur, eins og þær sem Kubbur ehf. hafi boðið, uppfylli ekki kröfur staðalsins.
III.
Kærði segir að lægsta tilboðið sem barst í hinu kærða útboði hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðsgagna. Kubbur ehf. hafi átt gilt tilboð og um leið það næst lægsta og því hafi það verið valið. Kærði segir að Kubbur ehf. hafi lagt fram vottorð frá framleiðanda tunnanna um að þær hafi staðist prófanir samkvæmt RAL-GZ 951-staðlinum. Þá komi einnig fram að vottorðið gildi til 8. september 2014. Kærði segist hafa leitað frekari upplýsinga og staðfestingar frá Kubbi ehf. á því að umræddar tunnur uppfylltu viðmið RAL-GZ 951-1 staðalsins og í kjölfarið fengið frekari staðfestingu á því að vottorðið væri fullnægjandi.
Kærði telur að kæran sé of seint fram komin og því beri að vísa henni frá.
IV.
Hinn 28. september 2012 tilkynnti kærði að hann hefði ákveðið að ganga til samninga við Kubb ehf. í kjölfar hins kærða útboðs. Kæra barst 30. október 2012 en þá var liðinn fjögurra vikna kærufrestur 1. málsl. 1. mgr. 94. gr laga nr. 84/2007, um opinber innkaup. Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 94. gr. laganna er þó alltaf heimilt að bera kæru undir kærunefnd útboðsmála innan 15 daga frá því að rökstuðningur skv. 75. gr. er veittur.
Kærandi sendi kærða bréf, dags. 11. október 2012, þar sem hann mótmælti vali tilboðs enda taldi kærandi að boðnar vörur í tilboði Kubbs ehf. hefðu ekki uppfyllt kröfur útboðsskilmála. Kærði svaraði með bréfi, dags. 23. október 2012, þar sem kærði rökstuddi hvernig hann teldi að Kubbur ehf. hefði sýnt fram á að boðnar tunnur uppfylltu kröfur útboðsskilmála. Kærunefnd útboðsmála telur að líta beri svo á að bréf kæranda, dags. 11. október 2012, og svar kærða, dags. 23. október 2012, hafi verið beiðni um rökstuðning og rökstuðningur í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 94. gr., sbr. 75. gr. laga nr. 84/2007. Kæran barst innan 15 daga frá rökstuðningi kærða og því ber ekki að vísa henni frá.
Krafa kæranda um málskostnað barst ekki fyrr en með bréfi kæranda, dags. 18. desember 2012, en þá var kærufrestur liðinn og kröfunni er því vísað frá.
Bindandi samningur er kominn á í kjölfar útboðsins og verður hann ekki felldur úr gildi eða breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðsins eða gerð samninga hafi verið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 84/2007. Þegar af þeirri ástæðu er hafnað kröfum kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun kærða um val tilboðs og að kærða verði gert skylt að ganga til samninga við kæranda.
Kærði hefur krafist þess að kærða verði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð við að hafa kæruna uppi, sbr. seinni málslið 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007. Ljóst er að mikið þarf til að koma svo að skilyrði ákvæðisins teljist vera til staðar. Kærunefnd útboðsmála telur skilyrðin ekki til staðar í máli þessu og verður kröfu kærða þannig hafnað.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda, Fylkis ehf., um að kærði, Reykjavíkurborg, greiði kæranda málskostnað, er vísað frá kærunefnd útboðsmála.
Kröfu kæranda, Fylkis ehf., um að kærði, Reykjavíkurborg, hætti við að kaupa vörur frá Kubbi ehf. í kjölfar útboðsins „Kaup á 240 l bláum sorptunnum“ og gangi þess í stað til samninga við kæranda, er hafnað.
Kröfu kærða, Reykjavíkurborgar, um að kæranda, Fylki ehf., verði gert að greiða málskostnað í ríkissjóð, er hafnað.
Reykjavík, 21. janúar 2013.
Páll Sigurðsson
Auður Finnbogadóttir
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, janúar 2013.