Hoppa yfir valmynd

Nr. 252/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 10. apríl 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 252/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23110086

 

Kæra [...]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 20. nóvember 2023 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Pakistan ( hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. nóvember 2023, um að synja umsókn hans um endurnýjun dvalarleyfis fyrir námsmenn, sbr. 65. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Hinn 21. nóvember 2023 kærði kærandi ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2023, um að synja umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga, og gera honum að sæta brottvísun og endurkomubanni til tveggja ára í samræmi við 2. mgr. 98. gr. sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. nóvember 2023, verði felld úr gildi og dvalarleyfi hans vegna náms verði endurýjað, sbr. 65. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn hans um endurnýjun dvalarleyfis til nýrrar meðferðar. Til vara er þess einnig krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2023, um að synja kæranda um ótímabundið dvalarleyfi verði felld úr gildi, og lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknina til nýrrar meðferðar. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2023, um brottvísun og endurkomubann kæranda verði felld úr gildi.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufresta.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi fyrir námsmenn hinn 16. september 2016, með gildistíma til 15. febrúar 2017 á grundvelli 12. gr. e. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Dvalarleyfi hans var endurnýjað tvisvar sinnum á grundvelli 65. gr., sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, síðast með gildistíma til 15. júlí 2018. Hinn 28. maí 2018 sótti kærandi um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki, sbr. 62. gr. laga um útlendinga, en þeirri umsókn var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. ágúst 2018. Kærandi fékk næst útgefið dvalarleyfi fyrir námsmenn, sbr. 65. gr. laga um útlendinga, 1. nóvember 2019, með gildistíma til 15. febrúar 2020. Leyfið hefur verið endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 15. júlí 2023.

Hinn 5. júní 2023 sótti kærandi um endurnýjun leyfisins en umsókninni var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. nóvember 2023. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var námsframvinda kæranda reifuð auk aðstæðna kæranda vegna hugsanlegra óviðráðanlegra ytri aðstæðna, sbr. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Var það mat stofnunarinnar að námsárangur kæranda væri óviðunandi og að undanþáguákvæði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga ætti ekki við.

Hinn 25. október 2023 sótti kærandi um ótímabundið dvalarleyfi, sbr. 58. gr. laga um útlendinga, en umsókninni var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2023. Í ákvörðun Útlendingastofnunar voru skilyrði 58. gr. laga um útlendinga um fyrri dvöl reifuð og komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði ekki dvalist á grundvelli dvalarleyfis sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Þá eigi ákvæði b-liðar 2. mgr. 58. gr. og 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga ekki við í málinu. Með ákvörðuninni var kæranda jafnframt brottvísað í samræmi við 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Kæranda var veittur 15 daga frestur til þess að yfirgefa landið en að öðrum kosti yrði honum gert að sæta tveggja ára endurkomubanni, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. 

Samkvæmt gögnum málsins var ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. nóvember 2023 móttekin af kæranda 15. nóvember 2023, og ákvörðun, dags. 13. nóvember 2023, móttekin 16. nóvember 2023. Ákvarðanirnar voru kærðar til kærunefndar 20. og 21. nóvember 2023, og lagði kærandi fram eina greinargerð til stuðnings báðum stjórnsýslukærum 30. nóvember 2023. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd unnt að fjalla um báðar stjórnvaldsákvarðanir í einum úrskurði. Útlendingastofnun skipaði talsmann vegna málsins 16. febrúar 2024, og lagði talsmaður kæranda fram greinargerð og frekari fylgigögn með tölvubréfum dags, 7., 18., og 22. mars 2024.

Líkt og fram kemur í ákvörðunarorðum hinna kærðu ákvarðana fresta stjórnsýslukærur réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana, sbr. 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda, dags. 30. nóvember 2023, vísaði kærandi til fyrirliggjandi ákvarðana Útlendingastofnunar og fyrri dvalartíma á landinu. Hvað dvalarleyfi vegna náms varðar hafi kærandi lagt mikla vinnu í að læra íslensku og tilheyra Íslandi. Hann hafi starfað lengi sem stuðningsfulltrúi fyrir fatlað fólk samhliða námi en kveðst hafa glímt við erfiðar aðstæður vegna veikinda móður og bróður, sem hann hafi þurft að heimsækja og veita aðstoð. Kærandi vísar til heimildar til þess að víkja frá kröfu um viðunandi námsárangur ef um er að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður. Kærandi kveðst hafa verið skráður í 30 einingar á hvorri önn skólaárið 2020-2021 en árangur hans verið óviðunandi þar sem hann hafi skipt á milli námsleiða og því ekki náð tilætluðum árangri. Veturinn 2019-2020 hafi kærandi aftur á móti lokið 50 einingum. Nú hafi hann skipt um námsleið enn á ný og kveðst skráður í tölvunarfræðinám við Háskóla Íslands. Kærandi bendir á að ekki sé gerð formleg krafa af hálfu Háskóla Íslands varðandi tiltekinn einingafjölda, og vísar til upplýsinga af vefsíðu Útlendingastofnunar hvað það varðar. Telur kærandi ekki forsendur fyrir ákvörðun Útlendingastofnunar, þar sem ekki eru gerðar kröfur af hálfu Háskóla Íslands til tiltekinnar námsframvindu. Kærandi kveðst hafa sýnt fram á dvöl sína sem námsmaður á Íslandi og sé skráður í fullt nám í Háskólanum.

Vegna ótímabundins dvalarleyfis þá kveður kærandi óumdeilt að hann hafi dvalið lengur en í þau fjögur ár sem 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga áskilur. Hann hafi nú dvalið óslitið hér á landi frá september 2019. Þá bendir kærandi á að Útlendingastofnun hafi ekki rannsakað hvort önnur skilyrði 58. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt í hans tilviki. Hann kveðst t.a.m. uppfylla skilyrði um íslenskunám, framfærslu á dvalartímanum og sé með hreint sakavottorð. Þá kveður kærandi það erfitt fyrir sig að fá útgefið dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku, sem gæti þó bæði auðveldað honum að fá ótímabundið dvalarleyfi en myndi einnig gagnast vinnuveitendum hans, og skjólstæðingum, en kærandi starfi við aðstoð fatlaðs fólks, þar sem mikill skortur er á starfsfólki. Kæranda líði vel á Íslandi en kveðst hafa búið við skert réttindi í heimaríki. Hann hafi lagt sig fram við að tilheyra landi og þjóð frá upphafi dvalar sinnar. Hann eigi sterk og mikil tengsl við landið og vilji hvergi annars staðar búa.

Í greinargerð talsmanns kæranda, dags. 7. mars 2024, er vísað til fyrirliggjandi ákvarðana Útlendingastofnunar og málsatvika. Þar kemur m.a. fram að kærandi hafi átt erfitt með að halda áfram námi sínu vegna kórónuveirufaraldursins. Þá hafi hann einnig gengið í gegnum erfiðar aðstæður vegna hjartaaðgerðar móður sinnar í heimaríki, og andlegra veikinda bróður hans í Finnlandi. Kveðst kærandi hafa verið heimilislaus í nokkra mánuði en framangreindir þættir hafi haft áhrif á námsárangur hans. Kærandi hafi sótt um ótímabundið dvalarleyfi, en þeirri umsókn verið synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2023, og honum jafnframt gert að sæta brottvísun og endurkomubanni til tveggja ára.

Til stuðnings aðalkröfu sinni vísar kærandi til lagaskilyrða fyrir endurnýjun dvalarleyfis vegna náms, sbr. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Kærandi sé nemandi við Háskóla Íslands og sé ekki að sækja um fyrstu endurnýjun. Fer það því eftir reglum viðkomandi háskóla hvað teljist til viðunandi námsárangurs í skilningi lagaákvæðisins. Kærandi vísar til leiðbeininga sem Útlendingastofnun birtir á vefsíðu sinni, þar sem kemur m.a. fram að Háskóli Íslands geri ekki formlega kröfu um að nemendur ljúki tilteknum einingafjölda á hverju misseri eða ári. Þá vísar kærandi enn fremur til úrskurðar kærunefndar nr. 632/2017, dags. 19. desember 2017. Í ljósi þess að reglur Háskóla Íslands geri ekki formlega kröfu um námsframvindu, auk þess sem ákvörðun Útlendingastofnunar vísar ekki til neinna sérstakra viðmiða telji kærandi að ákvæði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga um námsárangur séu uppfyllt í hans tilviki.

Verði ekki fallist á framangreindar röksemdir telji kærandi óviðráðanlegrar ytri aðstæður eiga við í málinu. Í því samhengi vísar kærandi til 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga sem heimilar að vikið sé frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um er að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi. Í ákvörðun sinni hafi Útlendingastofnun lagt til grundvallar að ekkert í málinu benti til þess að slíkar aðstæður ættu við í máli kæranda en því er hafnað af kæranda. Til stuðnings óviðráðanlegum aðstæðum vísar hann til veikinda móður, bróður, og eigin heilsubrests, en lögð eru fram skjöl því til stuðnings. Til stuðnings kröfu hans um ótímabundið dvalarleyfi vísar kærandi til kröfu sinnar um endurnýjun dvalarleyfis fyrir námsmenn og beri því að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2023, og veita honum ótímabundið dvalarleyfi.

Til vara gerir kærandi kröfu um að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og málin send til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun. Telur kærandi hinar kærðu ákvarðanir brjóta gegn 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga, varðandi rannsókn og rökstuðning. Í fyrsta lagi sé ekki vísað til viðmiða um námsárangur og sé kæranda ókleift að standa að málatilbúnaði sínum enda verði ekki séð á hverju ákvörðun Útlendingastofnunar byggir. Þá sé í öðru lagi ekkert fjallað um aðstæður sem kærandi hafi greint frá og vörðuðu undantekningarreglu 6. mgr. 65. gr. um óviðráðanlegar ytri aðstæður. Kærandi telji Útlendingastofnun ekki hafa sinnt rannsóknarskyldu sinni, fjölmörg atriði málsins séu óupplýst, en ekki liggi fyrir á hverju Útlendingastofnun byggði mat sitt. T.a.m. hafi kæranda ekki verið veitt tækifæri á að leggja fram frekari gögn um þau atriði sem skipti máli. Meginmarkmið með stjórnsýslukæru væri að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Kærandi telji annmarka hafa verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar og að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á aðstæðum hans. Kærandi telji ekki unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og þyki því rétt að mál hans hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun. Með sömu rökum telji kærandi annmarka vera á málsmeðferð Útlendingastofnunar vegna umsóknar hans um ótímabundið dvalarleyfi.

Til þrautavara telur kærandi að fella eigi ákvörðun um brottvísun og endurkomubann til tveggja ára úr gildi. Því til stuðnings telji kærandi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, sem fjallar um vernd gegn brottvísun, eiga við í máli hans. Kærandi hafi búið hér á landi í hartnær áratug og eigi rík tengsl við land og þjóð. Kærandi tali íslensku og hafi starfað á dvalarheimili fyrir aldraða. Telji hann ósanngjarna ráðstöfun að brottvísa honum og gera honum að sæta endurkomubanni.

Samkvæmt fylgigögnum sem lögð voru fram á kærustigi kemur fram að kærandi hafi skráð sig í nám við háskólabrú Keilis á haustönn 2024 og þá lagði kærandi fram námsferilsyfirlit frá Háskóla Íslands, sem móttekið var 22. mars 2024. Fram kemur í yfirlitinu að kærandi sé skráður í 15 ECTS einingar á vorönn 2024, en hann lauk 0 einingum á haustönn 2023.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Umsókn um ótímabundið dvalarleyfi

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e-liðum 1. mgr. 58. gr. laganna.

Kærandi hefur dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna náms, sbr. 65. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 9. mgr. 65. gr. laganna getur dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu ekki verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis nema b-liður 2. mgr. 58. gr. laganna eigi við. Síðastnefnt lagaákvæði mælir m.a. fyrir um heimild til að víkja frá því skilyrði um að útlendingur hafi dvalist hér á landi síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, þegar útlendingur hefur haft slíkt dvalarleyfi í a.m.k. tvö ár og hefur áður dvalið hér á landi í samfelldri dvöl samkvæmt dvalarleyfi vegna náms samkvæmt 65. gr. þannig að heildardvöl sé a.m.k. fjögur ár. Í 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga segir m.a. að heimilt sé í vissum tilvikum að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi án þess að skilyrði um fyrri dvöl samkvæmt 1. mgr. og b-lið 2. mgr. séu uppfyllt. Kunna þessar heimildir að eiga við ef útlendingur á íslenskan ríkisborgara sem foreldri, er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara, hefur misst íslenskan ríkisborgararétt eða afsalað sér honum eða hefur dvalið hér á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi ekki dvalist hér á landi á öðrum grundvelli en sem námsmaður, sbr. 65. gr. laga um útlendinga. Kemur því ekki til beitingar b-liðar 2. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að atvik þau sem 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um, eigi við um kæranda og kemur því ekki til beitingar ákvæðisins. Í greinargerð vísar kærandi m.a. til atvinnu sinnar, en af gögnum málsins er ljóst að kærandi hefur aldrei haft dvalarleyfi í gildi á grundvelli atvinnuþátttöku, sbr. t.d. 61. og 62. gr. laga um útlendinga. Hafi kærandi hug á því að fá útgefið dvalarleyfi vegna atvinnuþátttöku getur hann lagt fram umsókn um slíkt dvalarleyfi til Útlendingastofnunar. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd þó ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis, sbr. einkum VI. kafli laga um útlendinga.

Að öllu framangreindu virtu verður ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2023, um að synja kæranda um útgáfu ótímabundins dvalarleyfis, sbr. 58. gr. laga um útlendinga, staðfest. 

Umsókn um endurnýjun dvalarleyfis vegna náms

Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem ætlar að stunda fullt nám hér á landi dvalarleyfi enda sé hann eldri en 18 ára og fullnægi þeim kröfum sem gerðar eru í viðkomandi námi. Fullt nám er samfellt nám á háskólastigi, þ.m.t. nám á háskólastigi sem fram fer á vinnustöðum, eða annað það nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Sá sem sækir einstök námskeið telst ekki stunda fullt nám.

Ákvæði 2. mgr. 65. gr. laga um útlendinga áskilur að 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt, ásamt því að útlendingur stundi fullt nám hér á landi samkvæmt staðfestingu eða vottorði frá hlutaðeigandi skóla eða hafi fengið heimild til undanþágu frá skilyrði um fullt nám, svo sem vegna skipulags náms á grundvelli beiðni frá hlutaðeigandi skóla.

Í 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um endurnýjun dvalarleyfis fyrir námsmenn en það skal gert ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. sömu greinar og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur, þar sem þess er krafist. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið samanlagt a.m.k. 75% af fullu námi á námsárinu. Heimilt er að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um er að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi.

Samkvæmt framangreindu lagaákvæði er gerður greinarmunur á fyrstu endurnýjun dvalarleyfis fyrir námsmenn og síðari endurnýjunum en undanþága lokamálsliðar ákvæðisins getur átt við hvort sem um er að ræða fyrstu endurnýjun eða seinni endurnýjanir. Samkvæmt gögnum málsins er ekki um að ræða fyrstu endurnýjun kæranda. Þarf kærandi því eingöngu að hafa lokið viðunandi námsárangri þar sem þess er krafist.

Fjallað var um námsframvindu í úrskurði kærunefndar nr. 391/2019 en í umræddu máli hafði námsmaður lokið 30 einingum af 60 á tilteknu námsári. Við meðferð málsins kom í ljós að Háskóli Íslands gerði ekki formlega kröfu um námsframvindu á hverju ári eða misseri. Því taldi kærunefnd ekki forsendur fyrir því að synja kæranda um endurnýjun dvalarleyfis vegna námsframvindu.

Kærunefnd áréttar að ekki er unnt að túlka fyrrgreindan úrskurð með svo víðtækum hætti að lagaáskilnaður um námsframvindu sé ekki til staðar, enda ljóst af 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga, sbr. til hliðsjónar a-lið 2. mgr. 65. gr. sömu laga, að tilgangur með dvöl hér á landi skuli vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um.

Af þeim námsyfirlitum sem liggja fyrir kemur fram að kærandi hafi lokið 30 ECTS einingum á haustönn 2017 og sama einingafjölda á vorönn 2018. Á haustönn 2019 hafi kærandi lokið 20 einingum og síðan lokið 30 einingum að vori 2020. Á haustönn 2020 hafi kærandi lokið 20 einingum og síðan fimm einingum á vorönn 2021. Enn fremur kemur fram að kærandi hafi verið skráður í samtals 75 einingar á vor- og haustönn 2022 og vorönn 2023 eða 25 einingar á önn, sbr. námsferilsyfirlit, dags. 6. maí 2022. Samkvæmt námsferilsyfirliti, dags. 30. maí 2023, var kærandi skráður í fullt 30 eininga nám á haustönn 2023. Þrátt fyrir framangreint hefur kærandi ekki lokið neinum einingum frá vorönn 2021. Til viðbótar er kærandi skráður í 15 eininga nám á vorönn 2024.

Af ákvæðum laga um útlendinga er ljóst að löggjafinn lagði til grundvallar að útlendingar koma hingað til lands til þess að stunda nám við íslenskar menntastofnanir ber almennt að sýna fram á námsframvindu, sbr. til hliðsjónar 6. og 7. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Um er að ræða tímabundin dvalarleyfi sem ein og sér geta ekki orðið grundvöllur ótímabundinna dvalarleyfa, sbr. 9. mgr. 65. gr. laga um útlendinga en að loknu háskólanámi hafa leyfishafar nokkuð svigrúm til áframhaldandi dvalar, sbr. 8. mgr. 65. gr. laga um útlendinga, eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 56/2023.

Enn fremur telur kærunefnd að vilji löggjafans hafi ekki verið sá að setja fastákveðin viðmið um námsframvindu, sbr. þó við fyrstu endurnýjun, heldur var stjórnvöldum eftirlátið að meta námsframvindu með hliðsjón af viðmiðum þeirra menntastofnana sem falla undir ákvæði 65. gr. laga um útlendinga. Þá hafi löggjafinn sett tilteknar reglur sem víkja frá kröfu um viðunandi námsframvindu, svo sem ef um er að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, sbr. lokamálsl. 6. mgr. 65. gr., svo og þegar meistara- eða doktorsnemar vinna að lokaverkefni, sbr. 7. mgr. 65. gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ekki unnt að túlka ákvæði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga um kröfur um viðunandi námsframvindu með slíkum hætti að ekki séu gerðar neinar kröfur um námsframvindu á grundvelli þess að menntastofnanir geri ekki almenna kröfu um námsframvindu. Kærandi hefur ekki lokið neinu námi á þeim tæpu þremur árum sem hafa liðið, fyrir uppkvaðningu þessa úrskurðar, þrátt fyrir að hafa skráð sig í 25 og 30 einingar á hverri önn. Líkt og áður segir lítur kærunefnd til 2. mgr. 55. gr. laga um útlendinga líkt og kveðið er á um í a-lið 2. mgr. 65. gr., sbr. 2. málsl. 6. mgr. 65. gr. sömu laga. Því er hafið yfir allan vafa að kærandi hafi ekki sýnt fram á viðunandi námsárangur og námsframvindu.

Kemur þá til skoðunar hvort að undanþáguákvæði lokamálsl. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga eigi við um tilvik kæranda. Í ákvæðinu kemur fram að heimilt sé að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um er að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga kemur fram að aðstæðurnar verði að vera óviðráðanlegar, svo sem alvarleg veikindi eða ef nauðsynleg námskeið falla niður. Það telst ekki til óviðráðanlegra ástæðna ef námsmaður er t.d. að vinna það mikið meðfram námi að hann nái ekki prófum, en nái að stunda vinnu þrátt fyrir veikindi.

Í greinargerð vísar kærandi m.a. til [...] móður í heimaríki og [...]bróður kæranda í Finnlandi, auk heimilisleysis kæranda í nokkurn tíma en að sögn kæranda höfðu framangreindir þættir áhrif á getu hans til þess að stunda nám á Íslandi. Ekki hafa verið lögð fram gögn sem styðja við fullyrðingar kæranda um heilsufar bróður hans né meint heimilisleysi. Kærunefnd hefur yfirfarið heilsufarsgögn móður kæranda sem lögð voru fram við meðferð málsins á kærustigi. Þar er m.a. fjallað um blóðrannsóknir, [...], skimanir fyrir [...] en einnig má sjá röntgenmyndir af [...], þar sem skrúfa er í [...]. Gögnin stafa einkum frá bæklunarskurðlækni og eru dagsett á tímabilinu mars til október 2021. Þá liggja einnig fyrir ráðningarsamningar, atvinnuleyfisumsóknir og meðmælabréf vegna starfa kæranda. Af þeim má ráða að kærandi hafi verið í 40% og 47% vinnu á liðnum árum á heimilum fyrir fatlað fólk en vinnuveitendur kæranda hafa verið [...] og [...]. Að mati kærunefndar eru aðstæður kæranda ekki þess eðlis að þær réttlæti beitingu undanþáguheimildarinnar. Í því samhengi lítur nefndin einkum til atvinnu kæranda og útgáfutíma og innihalds heilsufarsgagna móður hans.

Að öllu framangreindu virtu er staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. nóvember 2023, um að synja umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis fyrir námsmenn.

Brottvísun og endurkomubann

Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2023, vísaði stofnunin til laga um landamæri nr. 136/2022, sem m.a. breyttu 98. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðuninni kemur fram að kærandi hafi ekki lengur heimild til dvalar og var honum því gert að sæta brottvísun, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Samhliða því var kæranda gert að sæta tveggja ára endurkomubanni, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Kæranda var þó veittur 15 daga frestur frá birtingu ákvörðunar til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur en innan þess tímafrests yrði endurkomubann hans fellt niður, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Samhliða ákvörðun um brottvísun var kæranda veittur sjö daga frestur til þess að leggja fram andmæli gegn ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann, með hliðsjón af 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

Ákvarðanir stjórnvalda um brottvísun og endurkomubann eru stjórnvaldsákvarðanir sem mæla fyrir um íþyngjandi skyldur fyrir aðila máls og bundnar íþyngjandi stjórnsýsluviðurlögum. Gera verður ríkar kröfur til málsmeðferðar í slíkum málum, einkum varðandi tilkynningu um meðferð máls og andmælarétt, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga, auk annarra málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttarins og laga um útlendinga. Sú tilhögun Útlendingastofnunar að taka ákvörðun um brottvísun og endurkomubann kæranda, án þess að tilkynna honum um að stofnunin hefði slíkt til skoðunar og veita honum ekki tækifæri á að koma á framfæri andmælum sínum áður en ákvörðun var tekin, felur í sér alvarlegan annmarka á meðferð málsins. Þar að auki fær kærunefnd ekki séð að málið hafi verið nægjanlega upplýst áður en sú ákvörðun var tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, s.s. með því að fá svör við spurningum sem hafa það að markmiði að upplýsa hvort takmarkanir geta verið á ákvörðun á brottvísun, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd telur slíka annmarka á meðferð málsins að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi. Verður því að fella úr gildi þann hluta ákvörðunar Útlendingastofnunar er varðar brottvísun kæranda og endurkomubann.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 8. nóvember 2023, er staðfest. Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. nóvember 2023, er staðfest varðandi umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi, en felld úr gildi varðandi brottvísun og endurkomubann.

The decision of the Directorate of Immigration, dated 8 November 2023, is affirmed. The Directorate‘s decision, dated 13 November 2023, is affirmed regarding the appellant‘s application for a permanent residence permit, but vacated regarding his expulsion and entry ban.

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum