Hoppa yfir valmynd

Nr. 35/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. janúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 35/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18110042

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. nóvember 2018 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. nóvember 2018, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í 20 ár.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi, til vara að honum verði ekki ákveðið endurkomubann og til þrautavara að honum verði ákveðið stysta mögulega endurkomubann.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum kom kærandi til landsins sem fylgdarlaust barn þann 8. janúar 2016 og sótti um alþjóðlega vernd hér á landi. Með úrskurði kærunefndar nr. 39/2017 þann 26. janúar 2017 var lagt fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í kjölfar úrskurðarins var kæranda veitt dvalarleyfi hér á landi á þann [...]. Þann [...], var kærandi með dómi héraðsdóms Reykjavíkur dæmdur til fangelsisrefsingar í þrjú ár [...], [...]. Kærandi áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar Íslands og með dómi Hæstaréttar frá [...] í máli [...], var kærandi dæmdur til fangelsisrefsingar í tvö ár fyrir fyrrgreint brot. Samkvæmt gögnum málsins afplánaði kærandi fangelsisrefsingu fyrir brot sitt frá [...] og er nú á reynslulausn í 2 ár á eftirstöðum refsingar, 480 dagar.

Þann 27. apríl 2018 var kæranda birt tilkynning frá Útlendingastofnun þar sem fram kom að til skoðunar væri hjá stofnuninni að brottvísa honum og ákvarða endurkomubann vegna brots hans gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Kom fram í tilkynningunni að það yrði gert á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, enda hefði brot hans verið framið áður en hann hafi fengið dvalarleyfi hér á landi, sbr. 2. mgr. 99. gr. laganna. Jafnframt var kæranda tilkynnt að umsókn hans um endurnýjun á dvalarleyfi, sem borist hefði Útlendingastofnun þann 27. desember 2017, yrði sett á bið á meðan brottvísunarmálið væri til meðferðar hjá stofnuninni. Með vísan til 12. gr. laga um útlendinga og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var kæranda veittur frestur til að leggja fram greinargerð vegna hugsanlegrar brottvísunar og endurkomubanns til Íslands. Þann 1. júní 2018 barst Útlendingastofnun greinargerð og fylgigögn frá kæranda. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. nóvember 2018, var kæranda brottvísað á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og honum ákveðið endurkomubann til landsins í 20 ár. Kæranda var birt ákvörðunin þann 15. nóvember sl. og þann 29. nóvember sl. kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar, 5. nóvember 2018, á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 30. nóvember 2018 féllst kærunefndin á þá beiðni. Greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum barst kærunefnd þann 14. desember 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að þar sem brot kæranda hafi verið framið áður en honum hafið verið veitt dvalarleyfi byggði ákvörðun stofnunarinnar um brottvísun á d-lið 1. mgr. 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 99. gr. sömu laga. En með dómi Hæstaréttar í máli nr. [...] hefði kærandi verið dæmdur til tveggja ára fangelsisrefsingar fyrir brot gegn ákvæði [...]. Væri því ljóst að skilyrði d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga væri fullnægt.

Reifaði stofnunin næst þær takmarkanir sem gildi um brottvísun, sbr. 102. gr. laga um útlendinga. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefðu þrjú viðmið verið sett upp við túlkun og beitingu á 2. mgr. 8. gr. sáttmálans um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu. Í fyrsta lagi þyrfti sú ráðstöfun sem gripið væri til að hafa verið í samræmi við lög, í öðru lagi þyrfti að hafa verið stefnt að lögmætu markmiði og í þriðja lagi þyrfti ráðstöfunin að vera nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi. Ljóst væri að íslensk lög mæltu með skýrum hætti fyrir um beitingu brottvísunar, sbr. ákvæði 98. gr. laga um útlendinga, stefnt væri að lögmætu markmiði með brottvísun hans og þá væri ráðstöfunin nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi m.a. með hliðsjón af alvarleika brotsins. Þá gætu þau tengsl sem kærandi hefði myndað hér á landi ekki talist sterkari en tengsl hans við heimaland sitt enda hefði hann dvalið tiltölulega stutt hér á landi og af þeim tíma afplánað átta mánuði í fangelsi. Tók stofnunin fram að kærustu hans væri heimilt að flytjast með honum til heimalands eða annars ríkis þar sem hann hefði heimild til dvalar, auk þess sem samskipti við fjölskyldu og vini væri möguleg í gegnum ferðalög, tölvu, síma eða önnur fjarskiptaforrit. Með ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda brottvísað á grundvelli d-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og bönnuð endurkoma til Íslands í 20 ár. Við mat á lengd endurkomubanns leit Útlendingastofnun til alvarleika brots kæranda, lengd fangelsisrefsingar hans og tengsla hans við landið.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að frá komu sinni til landsins hafi hann myndað rík félags- og menningarleg tengsl við landið og sterk tengsl við tvær íslenskar fjölskyldur og kærustu sína, sem hann sé [...]. Stundi hann nú bæði nám og atvinnu. Þá hafi hann í kjölfar afplánunar fangelsisrefsingar notið aðstoðar félagsráðgjafa og sálfræðings en í mati sálfræðings hans komi fram að kærandi hafi sýnt einkenni áfallastreituröskunar og sé greinilegt að hann sé hændur að fyrrum fósturforeldrum sínum og sé nú kominn með kærustu. Megi því teljast víst að erfitt yrði fyrir hann að sjá baki að þeim og öðrum sem væru honum kærir hér á landi.

Kærandi gerir margvíslegar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærandi byggir á því að ekki hafi verið sýnt fram á hvaða samfélagslega nauðsyn krefjist brottvísunar hans nú þremur árum frá broti. Þá beri að líta til þess að brotaþoli í refsimáli kæranda hafi verið [...] ára líkt og kærandi, þau hafi því verið jafnaldrar, og því eigi sjónarmið um alvarleika brota gegn börnum síður við í þessu tilfelli. Þá hafi kærandi bætt ráð sitt sem ungur afbrotamaður, hætt allri [...] og eftirleiðis átt í heilbrigðum [...] samskiptum. Mótmælir kærandi umfjöllun Útlendingastofnunar um að tengsl hans við landið geti ekki talist sterkari en við heimaland sitt og telur að slíkur samanburður feli í sér ófullnægjandi mat. Byggir kærandi á því að tengsl hans við Íslands séu sterkari en við heimaríki og vísar til fyrirliggjandi gagna með greinargerð sinni. Móðir hans sé [...], bræður hans búi í öðrum löndum vegna [...] og hann geti ekki hitt pabba sinn og sé ekki í neinum tengslum við hann vegna þeirrar hættu. Kærandi þekki engan í [...] og eigi engin tengsl við landið í dag. Þá sé kærandi búinn að sjá fyrir sér sjálfur síðan hann varð 13 ára gamall.

Kærandi telur enga raunhæfa möguleika vera fyrir hendi um það að unnusta hans flytjist með honum úr landi og telur að Útlendingastofnun hafi borið að afla gagna um það hvort um raunhæfan möguleika væri að ræða í tilfelli hans og unnustu hans. Þar sem slíkt hafi ekki verið gert varði það ógildingu ákvörðunarinnar, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 18. júní í máli nr. 52/2004. Einnig mótmælir kærandi umfjöllun stofnunarinnar um að samskipti við fjölskyldu og vini séu möguleg í gegnum ferðalög, tölvu, síma eða önnur fjarskiptaforrit. Telur hann að líta verði til þess að þar sem brottvísunin myndi taka til allra Schengen-ríkja yrðu slík ferðalög verulegum vandkvæðum bundin, sérstaklega þar sem fjölskyldan hefur borið fyrir sig að hafa ekki ráð á slíku. Þá sé ekki hægt að jafna fjarskiptum við persónuleg samskipti við fjölskyldu, sem njóti verndar friðhelgisákvæðis 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá vísar kærandi til dómafordæma mannréttindadómstóls Evrópu og mótmælir því að Útlendingastofnun hafi ekki talið þá eiga við í máli kæranda. Telur kærandi dómana þvert á móti vera fordæmisgefandi um það hagsmunamat sem skuli fara fram í brottvísunarmálum einstaklinga sem flust hafi til ríkis á barnsaldri. Þannig væri brottvísun, með vísan til skorts á tengslum við upprunaríki, mikilla tengsla við síðara ríki og skyldna ríkja til að vinna að aðlögun barns að samfélagi á ný eftir brot, ósanngjörn í skilningi 8. gr. sáttmálans.

Kærandi mótmælir umfjöllun Útlendingastofnunar um að þau sjónarmið sem legið hefðu til grundvallar dvalarleyfis hans séu ekki lengur fyrir hendi, þar sem hann sé ekki lengur fylgdarlaust barn og þar sem engin gögn hafi verið lögð fram er varða andlega heilsu hans. Vísar kærandi til fylgiskjala um yfirstandandi sálfræðimeðferð sína og telur að aðstæður um slæma andlega hagi séu enn sambærilegar. Þá telur kærandi að þar sem Útlendingastofnun hafi kosið að byggja á því að andlegir hagir væru breyttir frá ákvörðun um dvalarleyfi, hafi stofnuninni borið skylda til að kalla eftir upplýsingum frá honum og/eða gögnum um það hvort svo væri í raun, sbr. andmælarétt hans, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Varði þetta atriði einnig ógildingu ákvörðunarinnar. Þá vísar kærandi til þess að þrátt fyrir að hann sé ekki lengur fylgdarlaust barn þá hafi sú breyting ekki áhrif á umsókn hans um endurnýjun dvalarleyfis, sem hann hafi lagt fram á tilskyldum tíma í desember 2017 og telur að skilyrði endurnýjunar séu uppfyllt. Kærandi vísar einnig til þess að þrátt fyrir að eitthvað kunni að hafa áunnist í vernd [...] stjórnvalda gegn [...] þá hafi ekki tekist að vernda frænda hans þegar hann hafi snúið aftur til [...] og hafi hann verið drepinn í [...]. Kveðst kærandi því vera mjög óöruggur um afdrif sín verði honum gert að snúa aftur til heimaríkis. Þá mótmælir kærandi þeirri niðurstöðu Útlendingastofnunar að brottvísun hans sé nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi og hafi stofnunin ekki sýnt fram á neina tilgreinda hagsmuni fyrir brottvísun hans nú tæpum þremur árum eftir að brotið hafi átt sér stað, refsing hafi verið afplánuð og hegðun hans hafi verið til fyrirmyndar. Telji kærandi að það væri í betra samræmi við meðalhóf, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, að ákvörðun Útlendingastofnunar verði ógilt og lagt verði fyrir stofnunina að veita kæranda endurnýjun á dvalarleyfi sínu eða til vara að sú umsókn verði tekin til efnismeðferðar. Með vísan til alls framangreinds byggir kærandi á því að brottvísun yrði ósanngjörn ráðstöfun í tilfelli hans og nánustu aðstandenda hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, með vísan til skilyrða ákvæðisins um málsatvik, alvarleika brots og tengsla hans við landið.

Loks mótmælir kærandi lengd endurkomubanns síns í ákvörðun Útlendingastofnunar og telur með vísan til fjölskyldutengsla hans, ungs aldurs og lengdar í öðrum brottvísunarmálum ríkisborgara utan EES sem hafi verið til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum, sbr. jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, sé bann hans of langt. Vísar kærandi einkum til tilgreinds máls kærunefndar útlendingamála þar sem marokkóskur einstaklingur sem hlotið hafi 16 ára fangelsisdóm fyrir manndráp hafi verið gert endurkomubann í 20 ár. Telur kærandi að háttsemi hans og 2 ára fangelsisrefsingu verði ekki jafnað til framangreinds og ef brottvísun hans verði staðfest beri að fallast á þrautavarakröfu hans og gera honum styttra endurkomubann. Vísar kærandi til tilgreinds dóms héraðsdóms Reykjavíkur þar sem tveir dómar ungs borgara utan EES, sem hafi verið gerð samtals 2 ára fangelsisrefsing, hafi leitt til 10 ára endurkomubanns. Telur kærandi að tveir dómar um ofbeldisbrot, líkt og í því máli, sé alvarlegri háttsemi en einn dómur í tilfelli hans, og væri réttast að endurkomubann hans yrði ákveðið skemmra en tíu ár, verði ákvörðun um brottvísun staðfest.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Kæranda var veitt dvalarleyfi þann 26. janúar 2017 með gildistíma til 26. janúar 2018. Með dómi Hæstaréttar Íslands frá [...] í máli [...] var kærandi dæmdur til fangelsisrefsingar í tvö ár [...], með því að hafa hinn [...]. Í 2. mgr. 99. gr. laga um útlendinga segir að hafi brot verið framið áður en útlendingi var veitt dvalarleyfi gildi ákvæði 98. gr. laganna. Að framangreindu virtu er ljóst að brot kæranda var framið áður en honum var veitt dvalarleyfi og gildir því ákvæði 98. gr. laga um útlendinga í máli hans.

Í 98. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um brottvísun útlendings án dvalarleyfis. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 98. gr. er heimilt að vísa útlendingi sem er án dvalarleyfis brott frá landinu ef hann hefur verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða oftar en einu sinni verið dæmdur til fangelsisrefsingar á síðustu þremur árum. Líkt og fyrr greinir var kærandi með dómi Hæstaréttar dæmdur til fangelsisrefsingar í tvö ár fyrir [...]. Samkvæmt gögnum málsins afplánaði kærandi fangelsisrefsingu fyrir brot sitt frá [...] og er nú á skilorði til [...]. Að framangreindu virtu er því ljóst að skilyrðum d-liðar 1. mgr. 98. gr. er fullnægt í máli kæranda.

Með fyrrgreindum úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 39/2017 frá 26. janúar 2017 var lagt fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í rökstuðningi kærunefndar um þá niðurstöðu segir m.a. að við matið hafi kærunefnd litið sérstaklega til hagsmuna kæranda sem fylgdarlaus barns og að endursending til heimaríkis gæti ekki talist vera kæranda fyrir bestu. Í úrskurðinum féllst kærunefndin hins vegar ekki á það með kæranda að endursending til heimaríkis bryti gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Bent var á á að [...] væri á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og að í úrskurðaframkvæmd kærunefndar hefði verið lagt til grundvallar að grundvallarmannréttindi væru almennt talin virt af yfirvöldum í landinu. Jafnframt kemur fram að [...] stjórnvöld hafi tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna og að [...] hafi miðað áfram í málefnum er snerti réttarkerfið og frelsi og öryggi borgara landsins. Því leggi kærunefnd einnig til grundvallar að kærandi geti leitað ásjár yfirvalda þar í landi, telji hann sig vera í hættu. Að mati kærunefndar kemur ákvæði 42. gr. laga um útlendinga, um bann við endursendingu (non-refoulement), því ekki í veg fyrir brottvísun kæranda til heimaríkis.

Í 102. gr. laga um útlendinga er m.a. kveðið á um vernd gegn brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun en skv. 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots, tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans.

Kærandi, sem er [...] ára, kom hingað til lands sem fylgdarlaust barn og sótti um alþjóðlega vernd þann 8. janúar 2016. Þann [...] var kæranda veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi hefur því dvalið hér á landi í rúmlega 3 ár, þar af 8 mánuði í afplánun fangelsisrefsingar. Í greinargerð byggir kærandi m.a. á því að hann hafi frá komu sinni til landsins myndað rík félags- og menningarleg tengsl við landið og sterk tengsl við tvær íslenskar fjölskyldur og kærustu sína, sem hann [...]. Þá stundi hann bæði nám og vinnu hér á landi. Einnig byggir kærandi á því að hann sé hændur að fyrrum fósturforeldrum sínum.

Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda eða nánustu aðstandendum hans verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Í dómaframkvæmd hefur Mannréttindadómstóll Evrópu vísað til þeirrar viðurkenndu meginreglu þjóðaréttar að ríki hafi, með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar sínar, rétt til að stjórna aðgengi erlendra ríkisborgara að landsvæði sínu og dvöl þeirra þar. Þá hefur dómstóllinn lagt til grundvallar að aðildarríki mannréttindasáttmálans hafi vald til þess að brottvísa útlendingi sem hefur hlotið dóma fyrir refsiverð afbrot enda sé það nauðsynlegt með tilliti til allsherjarreglu, svo sem í máli Üner gegn Hollandi (mál nr. 46410/99) frá 18. október 2006.

Við mat á því hvort slík brottvísun felur í sér skerðingu á rétti samkvæmt 8. gr. sáttmálans hefur dómstóllinn litið til þess að um sé að ræða fjölskyldulíf sem stofnað hefur verið til í aðildarríki sáttmálans af einstaklingum sem dveljast þar löglega og að það nái eingöngu til kjarnafjölskyldu, sjá t.d. mál Slivenko gegn Lettlandi (mál nr. 48321/99) frá 9. október 2003. Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi hingað til lands í byrjun árs 2016 án fylgdar fjölskyldu sinnar. Eftir komu til landsins dvaldi kærandi á heimili fyrir ungmenni. Gögn málsins bera með sér að kærandi hafi í [...] farið í fóstur til íslenskra hjóna og dvalið hjá þeim þar til í [...]. Þá flutti kærandi til annarrar íslenskrar fjölskyldu en gögn málsins benda til þess að hann hafi átt heima þar síðan. Að mati kærunefndar er ljóst að fósturfjölskyldur kæranda teljast ekki til kjarnafjölskyldu hans. Þá hefur verið byggt á því fyrir hönd kæranda að hann eigi unnustu hér á landi. Persónuleg sambönd önnur en hjónabönd kunna að njóta verndar 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu en við mat á því geta ýmis atriði komið til skoðunar, svo sem hvort einstaklingar búi saman, lengd sambands þeirra, hvort þau hafi sýnt skuldbindingu hvort gagnvart öðru með því að eigast börn saman, sbr. t.d. dóm í máli Al-Nashif gegn Búlgaríu (mál nr. 50963/99) frá 20. júní 2002. Gögn málsins bera ekki með sér að kærandi sé í sambúð. Kærunefnd telur því ekki unnt að fallast á að kærandi njóti fjölskyldulífs hér á landi. Þá liggur fyrir að kærandi dvaldi fyrst um sinn hér á landi vegna umsóknar um alþjóðlega vernd en lögleg dvöl hans hér hófst þegar hann fékk útgefið dvalarleyfi í [...] sem var gilt í eitt ár en ekki endurnýjað. Kærandi hefur því einungis dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis í eitt ár og dvaldi hluta af þeim tíma við afplánun refsingar í fangelsi. Verður því ekki litið svo á að brottvísun hans frá landinu feli í sér skerðingu á rétti samkvæmt 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Eins og að framan greinir var kærandi dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir brot [...] en við brotinu liggur refsing sem er allt að sextán ára fangelsi. Í forsendum dóms Hæstaréttar í máli hans er m.a. vísað til þess að við ákvörðun refsingar yrði m.a. litið til þess að kærandi var barn þegar hann framdi brotið, hafði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi svo vitað væri og hafði staðið höllum fæti félagslega. Þótt kærunefnd telji rétt að líta til þessara atriða við mat á alvarleika brots kæranda telur nefndin ekki unnt annað en að byggja á því að brot kæranda sé alvarlegt.

Að mati kærunefndar er ótvírætt að kærandi hefur nokkur tengsl við landið sem hann hefur myndað með dvöl hér á landi. Við mat á styrk tengslanna telur kærunefnd rétt að líta til þeirra sérstöku aðstæðna sem kærandi var í hér á landi sem barn án forráðamanna, fyrst sem umsækjandi um alþjóðlega vernd og eftir veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þó verður að mati nefndarinnar að líta til þess að dvöl kæranda hér er ekki mjög löng, þ.e.a.s. rúm þrjú ár og þarf af bara eitt ár í löglegri dvöl, auk þess sem kærandi verður ekki talinn hafa verið virkur þátttakandi í samfélaginu í þá átta mánuði sem hann afplánaði fangelsisrefsingu.

Kærunefnd telur að önnur atvik í málinu, þ.m.t. breyttar aðstæður kæranda frá því að hann framdi umrætt brot, andlegt heilsufar kæranda og aðstæður í heimaríki vegi ekki mjög þungt við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum. Í því sambandi vísar kærunefnd m.a. til þess að sjónarmið um hagsmuni barnsins var eitt af meginsjónarmiðunum sem dvalarleyfi kæranda á grundvelli mannúðarsjónarmiða var byggt, sbr. úrskurð nefndarinnar nr. 39/2017, en kærandi er ekki lengur barn að aldri. Þá beri gögn um [...] með sér að kærandi geti fengið aðstoð stjórnvalda vegna félagslegrar aðstoðar m.a. fjárhagslega aðstoð telji hann sig þurfa á slíkri aðstoð að halda.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mats kærunefndar á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga að alvarleiki brots kæranda vegi mun þyngra en hagsmunir hans af því að dvelja áfram hér á landi. Stendur 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga því ekki í vegi fyrir brottvísun kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga felur brottvísun í sér bann við komu til landsins. Endurkomubannið getur verið varanlegt eða tímabundið en skal að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár og ljóst er að endurkomubanni er m.a. ætlað að hafa almenn varnaðaráhrif gegn brotum útlendings á ákvæðum laga hér á landi m.a. á ákvæðum laga um útlendinga. Að málsatvikum virtum, alvarleika brots kæranda, aldurs kæranda þegar hann framdi brotið og hvernig tengslum kæranda við landið er háttað er það mat kærunefndar að kæranda verði gert að sæta endurkomubanni til landsins í 10 ár.

Gögn málsins bera ekki með sér að kærandi hafi yfirgefið landið og mun endurkomubann til landsins því hefjast þann dag sem hann verður færður úr landi eða fer af sjálfsdáðum af landi brott, sbr. 4. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laga um útlendinga skal óafgreiddum umsóknum um dvalarleyfi vísað frá við endanlega ákvörðun um brottvísun.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga um útlendinga er heimilt að fella endurkomubann úr gildi ef nýjar ástæður mæla með því og rökstutt er að orðið hafi verulegar breytingar á þeim aðstæðum sem réttlættu ákvörðun um endurkomubann.

Þá hefur kærunefnd farið yfir hina kærðu ákvörðun og málsmeðferð Útlendingastofnunar og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana. Að öðru leyti telur kærunefnd ekki tilefni til umfjöllunar um þau rök sem kærandi hefur fært fram við meðferð málsins hjá nefndinni.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest hvað varðar ákvörðun um brottvísun kæranda.

Endurkomubann kæranda er ákveðið 10 ár.

The decision of the Directorate of Immigration regarding the applicant’s expulsion is affirmed.

The Applicant shall be denied entry into Iceland for 10 years.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                         Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta