Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 435/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 435/2019

Miðvikudaginn 12. febrúar 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 14. október 2019, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. október 2019 um heimilisuppbót.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Sótt var um heimilisuppbót með umsókn, dags. 1. október 2019. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. október 2019, var umsókn synjað með þeim rökum að ekki væri um búsetu í fasteign að ræða.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. október 2019. Með bréfi, dags. 15. október 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 20. nóvember 2019, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 21. nóvember 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að synjun Tryggingastofnunar ríkisins verði felld úr gildi og fallist verði á umsókn um heimilisuppbót.

Í kæru segir að kærandi hafi sótt um heimilisuppbót en verið synjað á þeim grundvelli að hann væri ekki með lögheimili á þeim stað sem hann greiði leigu. Þar sem ástandið á húsnæðismarkaði sé eins og það hafi verið undanfarin ár, hafi kærandi neyðst til að búa á X í X. Kærandi sé með skráð lögheimili [...] og megi sjá það í þjóðskrá. Þar sem Þjóðskrá fari með skráningu lögheimilis geti kærandi ekki skilið hvernig Tryggingastofnun ríkisins geti tekið sér þau völd að ákvarða hvað teljist vera lögheimili og hvað ekki. Kærandi hafi lagt fram öll þau gögn sem beðið hafi verið um þegar sótt hafi verið um heimilisuppbót.

Kærandi telji að brotið hafi verið á hans rétti með synjun Tryggingastofnunar. Þar sem fólk sem búi í ósamþykktu húsnæði fái heimilisuppbót geti kærandi ekki séð hvernig Tryggingastofnun sé fært að synja honum um hið sama. Kærandi krefjist þess að réttur hans verði virtur og fallist verði á umsókn um heimilisuppbót, enda hafi kærandi lagt fram gögn sem segi til um staðfestingu á búsetu hans, skráð lögheimili og samning sem segi til um leigugreiðslur til X á X sem sveitarfélagið hafi á sinni ábyrgð. Þetta sé eina úrræðið sem kærandi hafi í dag í sínum húsnæðismálum. Kærandi sjái því ekki á hvaða grundvelli Tryggingastofnun ríkisins sé fært að synja kæranda um hans rétt, sér í lagi þegar öðru fólki í sambærilegum aðstæðum sé veittur sami réttur. Kærandi skori því á úrskurðarnefnd velferðarmála að leiðrétta það órétti sem kærandi hafi verið beittur.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun um heimilisuppbót.

Heimilt sé samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Kærandi hafi sótt um heimilisuppbót með umsókn, dags. 1. október 2019, vegna leigu á stæði á húsbílastæði. Umsókninni hafi verið synjað með bréfi, dags. 10. október 2019, á grundvelli þess að ekki væri um að ræða búsetu í fasteign.

Við afgreiðslu umsóknarinnar þann 10. október 2019 hafi legið fyrir umsókn, dags. 1. október 2019, leigusamningar, dags. 10. desember 2018 (fyrir tímabilið 1. nóvember 2018 – 15. apríl 2019) og 20. september 2019 (fyrir tímabilið 16. september 2019 til 15. maí 2020) og staðfesting séra B prests, dags. 3. október 2019, um að kærandi hafi búið einn í X síðan í X 2017.

Í leigusamningunum komi fram að um sé að ræða leigu á [...]

Orðalag 8. gr. laga um félagslega aðstoð um að heimilisuppbót greiðist til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað hafi verið talið fela í sér að heimilt sé að greiða heimilisuppbót ef um sé að ræða lífeyrisþega sem sé einhleypur og búi einn í íbúðarhúsnæði í fasteign án þess að njóta hagræðis af samnýtingu húsnæðisins með öðrum einstaklingum hvað varði aðgang að og kostnað af þeim aðbúnaði og þeim heimilistækjum sem almennt séu til staðar í íbúðarhúsnæði.

Þar sem fyrir liggi upplýsingar um að kærandi búi ekki í íbúðarhúsnæði í [...] og jafnframt að hann hafi sameiginlegan aðgang með öðrum að rafmagni, salerni, sturtum, eldhúsi og þvottaaðstöðu við þvottahús á X liggi ljóst fyrir að kærandi sé ekki búsettur í íbúðarhúsnæði þar sem hann sé einn um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Þvert á móti gefi fyrirliggjandi upplýsingar tilefni til að telja að búseta kæranda sé með sambærilegum hætti og ef hann leigði herbergi með sameiginlega aðstöðu með öðrum. Þegar svo hátti til sé heimilisuppbót ekki greidd.

Tryggingastofnun telji að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að synja um heimilisuppbót, hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn kæranda um heimilisuppbót.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Í 7. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri er fjallað nánar um fjárhagslegt hagræði og hljóðar 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar svo:

„Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Heimilisuppbót verður ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segir:

  1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga.
  2. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
  3. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.“

Kæranda var synjað um heimilisuppbót á þeim grundvelli að ekki væri um búsetu í fasteign að ræða. Hvorki er tilgreint í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð né reglugerð um heimilisuppbót á lífeyri nr. 1200/2018 að skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar sé að umsækjandi búi í fasteign. Ekki er því fallist á að Tryggingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um heimilisuppbót þegar af þeirri ástæðu að hann búi ekki í fasteign. Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er hins vegar einnig vísað til þess að fyrirliggjandi upplýsingar gefi tilefni til að telja að búseta kæranda sé með sambærilegum hætti og ef hann leigði herbergi með sameiginlega aðstöðu með öðrum.

Samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá er kærandi skráður [...]. Af umsókn kæranda um heimilisuppbót verður ráðið að kærandi sé búsettur á X í X í X. Þá kemur fram í leigusamningi kæranda að leigu fylgi aðgengi að rafmagni, salerni, sturtu, eldhúsi og þvottaaðstöðu við [...]. Úrskurðarnefnd telur að ráðið verði af leigusamningi kæranda að hann deili meðal annars eldunarstöðu með öðrum og verður hann talinn njóta fjárhagslegs hagræðis af því, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð og 3. tölul. 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 1200/2018. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslu heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um heimilisuppbót er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn A, um heimilisuppbót, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                                  Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta