Hoppa yfir valmynd

Nr. 546/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 28. september 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 546/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23070104

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 19. júlí 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Kína (hér eftir kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. júlí 2023, um að synja henni um vegabréfsáritun til Íslands.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að niðurstaðan verði sú að hún hafi afturkallað umsóknina.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022, með síðari breytingum, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 11. júlí 2023, óskaði kærandi eftir vegabréfsáritun til Íslands og Schengen-svæðisins í heildina fyrir 4 daga. Samkvæmt ferðaáætlun kæranda hafi hún ætlað að ferðast til Íslands 14. ágúst 2023 og og dvelja hér á landi til 17. ágúst 2023. Kærandi kveðst vera háskólaprófessor í heimaríki og stundi tímabundnar gestarannsóknir í Bandaríkjunum. Samkvæmt ferðaáætlun kæranda færi hún aftur til Bandaríkjanna að lokinni dvöl á Íslandi en dvalarheimild hennar í Bandaríkjunum gildir til 27. ágúst 2023. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. júlí 2023. Hinn 19. júlí 2023 barst kærunefnd kæra ásamt skýringum og frekari fylgigögnum frá kæranda.

III.    Málsástæður og rök kæranda

Líkt og að framan greinir er krafa kæranda sú að niðurstaða málsins verði sú að litið verði svo á að hún hafi afturkallað umsókn sína um vegabréfsáritun. Til stuðnings kröfu sinnar vísar kærandi einkum til tveggja ástæðna. Í fyrsta lagi að hún hafi óskað eftir afturköllun umsóknar 17. júlí 2023 eða degi áður en ákvörðun í málinu var tekin. Kærandi vísar til þess að henni hafi verið veittur fimm daga frestur til þess að taka ákvörðun um afturköllun umsóknarinnar samkvæmt tölvupósti dags. 14. júlí 2023. Í öðru lagi ber kærandi fyrir sig að ákvörðun Útlendingastofnunar í málinu byggist á efnislega rangri skýringu enda telur hún að fullnægjandi rök hafi verið færð fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar ferðar. Kærandi rekur meðferð málsins og vísar til þess að synjun geti haft áhrif á umsóknir um vegabréfsáritanir sem hún kunni að leggja fram síðar. Kærandi geri sér grein fyrir þeim efnisskilyrðum sem ákvörðunin grundvallist á og krefjist því ekki að niðurstaða á kærustigi verði samþykkt heldur eingöngu að málalok verði þau að litið verði svo á að umsókn hennar hafi verið afturkölluð. Meðal fylgigagna kæru eru tölvubréfssamskipti kæranda við fulltrúa utanríkisþjónustunnar, bæði miðlæga tengiliði Utanríkisráðuneytisins sem og fulltrúa sendiráðs Íslands í Washington DC, Bandaríkjunum.

IV.    Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Kína þurfa vegabréfsáritun til Íslands.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er notað staðlað form þar sem hægt er að merkja í reiti á bilinu 1-17, þ.e. ástæður þess að umsókn sé synjað. Umrætt synjunarform Útlendingastofnunar er í samræmi við reglugerð um vegabréfsáritanir og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins um vegabréfsáritanir (2009/810/EB), en nánari tilvísun er að finna í ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda. Í ákvörðun kæranda er merkt í reit 2 vegna synjunar á umsókn kæranda, þ.e. að kærandi hafi ekki fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar. Uppfyllti kærandi þar með ekki skilyrði 20. gr. laga um útlendinga sem og 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir.

Með vísan til 21. gr. stjórnsýslulaga var kæranda leiðbeint um að hún gæti óskað eftir skriflegum rökstuðningi innan 14 daga frá tilkynningu ákvörðunar. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun óskaði kærandi ekki eftir slíkum rökstuðningi hjá stofnuninni og því liggur ekki fyrir í máli kæranda frekari rökstuðningur stofnunarinnar vegna synjunar á umsókn hennar.

Í 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga kemur fram að Útlendingastofnun taki ákvörðun um umsókn um útgáfu vegabréfsáritunar og þá sé heimilt að fela utanríkisþjónustunni að taka ákvörðun um slíkar umsóknir. Enn fremur sé heimilt að fela utanríkisþjónustu annars ríkis sem taki þátt í Schengen-samstarfinu að verða við umsókn um vegabréfsáritun. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi að lögum um útlendinga kemur fram að miðað sé við að umsóknir um vegabréfsáritun verði lagðar fram í skrifstofum sendiráða og ræðisskrifstofa erlendis og þær sendar Útlendingastofnun til ákvörðunar. Viðkomandi sendiráð eða ræðisskrifstofa muni síðan gefa áritunina út að fenginni heimild Útlendingastofnunar. Þá kemur fram að gert sé ráð fyrir að ráðherra geti heimilað utanríkisþjónustunni að taka ákvörðun um umsóknir um vegabréfsáritun. Samkvæmt gögnum málsins lagði kærandi fram umsókn sína um vegabréfsáritun til Íslenska sendiráðsins í Washington DC sem tekur á móti og fer með meðferð umsókna um vegabréfsáritanir til Íslands sem lagðar eru fram í Bandaríkjunum, sbr. 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þyki skilyrði ekki fyrir hendi til útgáfu áritunar er mál lagt fyrir Útlendingastofnun til ákvörðunar.

Í gögnum málsins liggur m.a. fyrir afrit úr málaskrá Útlendingastofnunar, Erlendi, vegna máls kæranda þar sem málsmeðferð umsóknar hennar hjá sendiráðinu er rakin. Þar kemur fram að mælt sé með því að umsókn kæranda um vegabréfsáritun verði synjað. Vísað er til þess að dvalarheimild kæranda í Bandaríkjunum ljúki innan þriggja mánaða frá brottför af Schengen-svæðinu. Kemur þar enn fremur fram að kæranda hafi verið bent á möguleika að yfirgefa Schengen-svæðið til heimaríkis en að hún hafi heldur kosið að ferðast til Íslands og fara aftur til Bandaríkjanna fyrir heimför til Kína.

Samkvæmt 1. málsl. 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga er ljóst að Útlendingastofnun tekur ákvörðun um umsókn um útgáfu vegabréfsáritunar. Þó leiðir af almennum reglum stjórnsýsluréttar að aðili stjórnsýslumáls fer með forræði á eigin stjórnsýslumáli og þeim lögvörðu hagsmunum sem hann hefur að gæta. Samkvæmt málaskrá Útlendingastofnunar kemur fram að álit utanríkisþjónustunnar um synjun á umsókn kæranda sé lagt fyrir stofnunina 18. júlí 2023 og ákvörðun tekin í máli kæranda samdægurs.

Í gögnum málsins liggur fyrir að kærandi óskaði þess að umsókn hennar um vegabréfsáritun yrði afturkölluð 17. júlí 2023 og að henni yrði afhent vegabréf sitt eins fljótt og auðið er en líkt og að framan greinir var ákvörðun í máli hennar tekin næsta dag. Gögn málsins og málsmeðferð að öðru leyti benda til þess að hvorki sendiráðið né Útlendingastofnun hafi rannsakað beiðnina né veitt kæranda nauðsynlegar leiðbeiningar um réttarstöðu sína í samræmi við 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Því liggur fyrir að afstaða var ekki tekin til beiðni um afturköllun fyrir töku stjórnvaldsákvörðunar í málinu þrátt fyrir forræði kæranda á stjórnsýslumáli hennar. Að mati kærunefndar eru því ekki forsendur til að taka efnislega ákvörðun um stjórnvaldsákvörðun Útlendingastofnunar sem til umfjöllunar er áður en leyst verði úr beiðni umsækjanda um afturköllun umsóknar sinnar.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Ljóst er að kærandi óskaði þess að umsókn um vegabréfsáritun yrði afturkölluð áður en ákvörðun var tekin í málinu. Telur kærunefnd því nauðsynlegt að Útlendingastofnun taki afstöðu til beiðninnar áður en stjórnvaldsákvörðun er tekin í málinu.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

The decision of the Directorate of Immigration in the appellant’s case is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,

 

Valgerður María Sigurðardóttir, varaformaður


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta