Hoppa yfir valmynd

Nr. 2/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 7. janúar 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 2/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU20120012

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU19040115, dags. 18. júlí 2019, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. apríl 2019, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 22. júlí 2019. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 29. júlí 2019. Beiðni kæranda var synjað af kærunefnd þann 22. ágúst 2019. Kærandi óskaði í fyrsta sinn eftir endurupptöku á úrskurði kærunefndar þann 19. nóvember 2019. Þeirri beiðni var synjað af kærunefnd þann 17. febrúar 2020. Kærandi óskaði í annað sinn eftir endurupptöku þann 16. október 2020. Þeirri beiðni var synjað af kærunefnd þann 13. nóvember 2020.

Kærandi lagði í þriðja sinn fram beiðni um endurupptöku þann 7. desember 2020 og barst greinargerð kæranda þann sama dag ásamt fylgigögnum.

Kærunefnd telur að leggja megi þann skilning í beiðni kæranda að óskað sé eftir endurupptöku máls hans á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að felld verði úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi.

II. Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku er annars vegar byggt á því að aðstæður hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin og hins vegar að ákvörðunin hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum, í því samhengi vísi kærandi til 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi telji nýlega lagasetningu í Grikklandi breyta þeim forsendum er kærunefnd byggði úrskurð sinn á. Ný lög um alþjóðlega vernd hafi tekið gildi þann 1. janúar 2020 og hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gert athugasemdir við lögin. Kærandi telji ljóst að upplýsingar sem kærunefnd útlendingamála hafi stuðst við eigi ekki við og vísi til umsagnar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þá vísi kærandi til athugasemda Amnesty International. Kærandi telji sig ekki hafa dvalarleyfi á Grikklandi þar sem hann hafi ekki endurnýjað það á árinu 2020 og sé því ekki lengur heimil dvöl þar í landi.

Þá vísar kærandi til þess að hann hafi dvalið hér á landi síðan 19. nóvember 2018, langur tími hafi liðið án þess að stjórnvöld hafi aðhafst nokkuð í máli hans og aðstæður hans hafi því breyst. Kærandi telji það sjálfstætt tilefni til endurupptöku málsins.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 18. júlí 2019. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að sérstakar ástæður mæltu með því að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Í greinargerð kæranda er byggt á því að kæranda sé ekki heimil dvöl í Grikklandi. Kærandi telji sig ekki hafa dvalarleyfi þar í landi þar sem hann hafi ekki endurnýjað það á árinu 2020 og forsendur málsins hafi því breyst. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til athugasemda Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Amnesty International við breytingar á grískum lögum og fylgdu þær athugasemdir greinargerð kæranda. Kærunefnd telur kæranda ekki hafa sýnt fram á að aðstæður hans hafi breyst að þessu leyti og telur að ekki megi ráða af framangreindum gögnum að verið sé að skerða gildistíma þeirra dvalarleyfa sem grísk stjórnvöld hafi þegar veitt. Í þeim gögnum sem kærandi vísar til komi hins vegar fram að stytta eigi gildistíma þeirra dvalarleyfa sem veitt verði vegna viðbótarverndar og gildistími komi til með að vera eitt ár. Samkvæmt þeim gögnum sem kærandi vísar til lúta athugasemdir Flóttamannastofnunar að miklu leyti að því álagi sem slík breyting hafi á hæliskerfið í Grikklandi. Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að líta svo á að kærandi sé með gilt dvalarleyfi í Grikklandi, enda liggur fyrir svar grískra yfirvalda, dags. 5. apríl 2019, um að kæranda hafi verið veitt alþjóðleg vernd þar í landi árið 2015 og sé með dvalarleyfi á grundvelli þess til 17. júní 2021. Ekkert bendir til annars en að sú staða sé enn óbreytt.

Þá er í greinargerð kæranda byggt á því að endurupptaka eigi mál hans þar sem langur tími hafi liðið án þess að stjórnvöld hafi aðhafst nokkuð í máli hans. Kærandi hafi verið hér á landi frá 19. nóvember 2018 og aðstæður hans hafi breyst. Kærunefnd tekur fram að í úrskurði kærunefndar nr. KNU19110040, dags. 17. febrúar 2020, synjaði nefndin beiðni kæranda um endurupptöku á þeirri forsendu að kærandi hefði tafið mál sitt í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd hefur því þegar tekið afstöðu til þeirra réttaráhrifa sem dvöl kæranda hér á landi hafi á það hvort taka beri umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefur hvorki lagt fram né vísað til gagna sem benda til þess að sú synjun á endurupptöku hafi verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum. Þá lítur kærunefnd til þess að nefndin hafi úrskurðað í máli hans í fjögur skipti, á árunum 2019-2020, að framkomnum kærum og beiðnum kæranda þar að lútandi, og sé nú að úrskurða í fimmta sinn í máli kæranda. Þá hafi kærandi verið eftirlýstur af lögreglu frá 16. september 2019. Kæruefnd tekur því ekki undir þá athugasemd kæranda að stjórnvöld hafi ekki aðhafst í máli hans. Dvelji kærandi enn á landinu er ljóst að sú dvöl sé ólögleg og að kærandi hafi virt að vettugi ákvörðun stjórnvalda um frávísun.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að atvik máls kæranda hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar útlendingamála nr. KNU19040115, dags. 18. júlí 2019, var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá sé, að teknu tilliti til gagna málsins, ekki heldur unnt að fallast á að úrskurður nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, einnig sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Beiðni kæranda um endurupptöku er því hafnað.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda er hafnað.

The request of the appellant is denied.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                             Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta