Úrskurður nr. 354/2016
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 13. október 2016 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 354/2016
í stjórnsýslumáli nr. KNU16050046
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 13. maí 2016 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. maí 2016, um að synja henni um hæli á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002, um útlendinga.
Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt viðbótarvernd hér á landi, skv. 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um hæli hér á landi þann 2. maí 2016 ásamt foreldrum sínum og bróður. Kærandi mætti í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 12. maí 2016 ásamt talsmanni sínum. Þann 12. maí 2016 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að synja kæranda um hæli ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála við birtingu þann 13. maí 2016. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til meðferðar. Með bréfi kærunefndar, dags. 25. maí 2016, var fallist á beiðni um frestun réttaráhrifa. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 6. júní 2016. Þann 15. september sl. kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.
Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Hjá Útlendingastofnun bar kærandi því við að henni sé ómögulegt að búa í […] þar sem þar sé enga vinnu að fá og hún og fjölskylda hennar geti ekki framfleytt sér.
Útlendingastofnun lagði framburð kæranda eins og hann lá fyrir til grundvallar með ákveðnum fyrirvörum. Benti Útlendingastofnun á að samkvæmt stjórnarskrá […] sé öllum þeim sem eru án atvinnu
og hafi ekki önnur úrræði til framfærslu tryggður réttur til aðstoðar með lögum. […]. Samkvæmt þessu hafi kærandi tækifæri til þess að leita ásjár yfirvalda í […] vegna efnahagslegra aðstæðna sinna og geti fengið þá aðstoð sem henni er nauðsynleg vegna þeirra.
Þá kemur fram í ákvörðun stofnunarinnar að samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna og lögum um útlendinga megi ráða að efnahagslegar aðstæður skapi ekki grundvöll fyrir alþjóðlega vernd útlendinga þannig að þeim verði veitt hæli af þeim sökum. Þá komi jafnframt fram í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga að kjarni flóttamannahugtaksins felist í því að útlendingur hafi ástæðuríkan ótta við að verða ofsóttur og að ofsóknir verði raktar til kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að sérstökum félagsmálaflokkum eða vegna stjórnmálaskoðana. Þannig falli þeir utan hugtaksins sem flýi heimaland af öðrum ástæðum, svo sem vegna náttúruhamfara, hungursneyðar eða bágs efnahagsástands. Það var niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi eigi ekki á hættu ofsóknir eða meðferð sem jafnað verði til ofsókna í heimalandi sínu. Synjaði því stofnunin kæranda um hæli hér á landi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga. Jafnframt komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að kærandi eigi ekki á hættu að sæta illri meðferð skv. 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Einnig taldi stofnunin endursendingu kæranda ekki brjóta gegn ákvæði 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.
Varðandi kröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga taldi Útlendingastofnun að kærandi ætti ekki rétt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Eins ætti hún ekki rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna annarra atvika sem ekki megi með réttu gera henni að bera ábyrgð á eða vegna ríkrar þarfar á vernd. Auk þess hefði hún engin sérstök tengsl við landið. Var kæranda því synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða vegna sérstakra tengsla hennar við Ísland.
Var kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 56. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga. Með tilliti til atvika málsins ákvað stofnunin að kæra myndi ekki fresta framkvæmd ákvörðunar með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi hún greint frá því að ástæða flótta hennar frá heimaríki væru bágar efnahagslegar aðstæður. Foreldrar hennar séu án atvinnu og fjölskyldan fái enga félagslega aðstoð frá stjórnvöldum. Eftir að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið birt kæranda hafi hún greint talsmanni sínum frá því að aðalástæða fyrir flótta hennar séu alvarlegar hótanir og ítrekað áreiti af hendi ofbeldismanns og eiturlyfjasala í garð fjölskyldu hennar. Hún og fjölskylda hennar hafi ekki leitað til lögreglunnar í […] af ótta við viðbrögð mannsins og vegna vantrausts á lögregluna í landinu vegna spillingar sem þar ríki. Hún hafi því ekki séð annan kost en að flýja til Íslands með fjölskyldunni.
Í greinargerð kæranda er fjallað um ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga og samspil þess við m.a. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 15. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnast alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Tilskipunin hafi nú verið endurskoðuð með tilskipun nr. 2011/95/ESB. Í II. kafla tilskipunarinnar séu talin upp þau viðmið sem hafa beri til hliðsjónar við mat á þörf einstaklings fyrir alþjóðlegri vernd. Skuli slíkt mat fara fram á einstaklingsgrundvelli og verði m.a. að meta hvort hægt sé með sanngjörnum hætti að ætlast til þess að umsækjandi leiti verndar stjórnvalda í viðkomandi ríki.
Kærandi bendir á að […] sé fátækt land og að þar ríki mikil spilling, m.a. í réttarkerfinu. Kerfið standi afar höllum fæti og skipulögð glæpastarfsemi sé mikil. Spilling sé viðvarandi vandamál í landinu og fyrirfinnist í öllum þáttum hins opinbera geira. Meðal annars sé mikið um spillingu innan raða lögreglumanna. Fáum skýrslum og rannsóknum sé til að dreifa um nauðungarhjónabönd í […], en vandamálið sé engu að síður til staðar. […]. Vísar kærandi í alþjóðlegar skýrslur máli sínu til stuðnings. Telur kærandi að þetta leiði til þess að hún geti ekki leitað til yfirvalda í landinu. Því sé þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga.
Varðandi varakröfu kæranda kemur fram í greinargerð hennar að í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 115/2010, um breytingu á lögum um útlendinga, komi fram í sérstökum athugasemdum að ekki sé um tæmandi talningu að ræða í 12. gr. f laganna á forsendum dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þar sem veita verði stjórnvöldum svigrúm við mat á því hvenær rétt sé að veita dvalarleyfi samkvæmt greininni. Taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé í málum skv. VII. kafla laganna s.s. almennra aðstæðna í heimalandi hælisleitanda, þ.á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð.
Fram kemur að staða efnahagsmála í […] sé afar erfið og hagvöxtur hafi minnkað um helming í kjölfar alþjóðlegu efnahagskreppunnar. Frá árinu 2012 hafi fátækt aukist og almennt atvinnuleysi sömuleiðis. Kærandi hafi verið án atvinnu og haft litla sem enga möguleika til að framfleyta sér. Samkvæmt reglum í […] eigi einungis þeir rétt á atvinnuleysisbótum sem hafi innt af hendi sérstakar greiðslur í a.m.k. eitt ár áður en til atvinnuleysis kom.
Bendir kærandi á að ekki verði séð að aðstæður hennar myndu breytast ef hún myndi flytjast innanlands í […], enda sé landið ekki stórt og því sé ekki sjálfgefið að henni sé unnt að lifa annars staðar í landinu án afskipta þeirra sem hún óttist.
Í viðtali hjá kærunefnd útlendingamála gerði kærandi grein fyrir sambandi sínu við mann í […] og ofbeldi sem maðurinn beitti hana. Þá lýsti hún m.a. samskiptum fjölskyldunnar vegna þessara atvika og aðdraganda þess að fjölskyldan yfirgaf […].
VI. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagarammi
Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi framvísað […] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé […] ríkisborgari.
Landaupplýsingar
[…] er lýðræðisríki með um […] íbúa og eru mannréttindi almennt virt af stjórnvöldum þar í landi. […] gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1996. Landið gerðist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2006, flóttamannasamningi
Sameinuðu þjóðanna […] 1992, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 1991 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 1994. […].
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
* 2015 Country Reports on Human Rights Practices - […] (U.S. Department of State, 13. apríl 2016),
* Report by Nils Muižnieks, Commissioner for Human Rights of the Council of Europe following his visit to […],
* […],
* Freedom in the World 2016 - […],
* […],
* Report of the Working Group on the Universal Periodic Review: […] og
* Country Information and Guidance - […].
Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að […] stjórnvöld hafi tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna og að […] hafi miðað áfram í málefnum er snerta réttarkerfið og frelsi og öryggi borgara landsins. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu í löggæslunni og dómsvaldinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Endurnýjun hafi átt sér stað í lögregluliði landsins og sjálfstæði dómstóla og eftirlit með starfsemi þeirra aukið. Stjórnvöld hafi ennfremur unnið að því í samstarfi við Evrópusambandið að efla alla innviði stjórnsýslunnar og bæta þjónustu við borgara landsins. Félagslega kerfið í […] hafi einnig gengið í gegnum ýmsar breytingar á undanförnum árum og sé því ætlað að tryggja einstaklingum sem á þurfa að halda fjárhagslega aðstoð frá ríki og/eða sveitarfélögum.
Ákvæði 1. mgr. 44. gr. laga um útlendinga
Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Kærandi ber fyrir sig að hún hafi flúið frá […] með fjölskyldu sinni bæði vegna efnahagslegra ástæðna og vegna hótana og ítrekaðs áreitis af hendi ofbeldismanns og eiturlyfjasala í garð kæranda og fjölskyldu hennar.
Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.
Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða
aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.
Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:
Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að gildar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008)).
Kærandi kveðst vera að flýja hótanir og áreiti af hálfu tiltekins einstaklings sem telji sig eiga tilkall til hennar. Hún og fjölskylda hennar hafi ekki leitað til lögreglunnar í […] þar sem þau óttist viðbrögð mannsins, auk þess sem þau treysti ekki lögreglunni í landinu vegna spillingar sem þar ríki.
Hvorki kærandi né aðrir meðlimir fjölskyldu hennar báru fyrir sig ofangreinda ástæðu í viðtölum sínum hjá Útlendingastofnun. Í viðtali hjá kærunefnd kom, að mati kærunefndar, fram ákveðið innbyrðis ósamræmi í frásögn kæranda og fjölskyldu hennar, nánar tiltekið varðandi það hvort eða hvenær aðrir meðlimir fjölskyldu hennar hafi vitað af meintu ofbeldi gagnvart kæranda áður en þau ákváðu að yfirgefa […]. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem styðja við frásögn hennar um hótanir og áreiti af hálfu þess einstaklings sem hún kveðst hræðast. Telur kærunefnd að ósamræmið geri frásögn kæranda ótrúverðuga þannig að erfitt sé að byggja á henni að fullu.
Það er mat kærunefndar að þó að lagt væri til grundvallar í málinu að kærandi og fjölskylda hennar óttist þennan tiltekna einstakling og þau verði fyrir hótunum og áreiti af hans hálfu þá hafi ekki verið sýnt fram á stjórnvöld geti ekki eða vilji ekki veita henni vernd gegn ofsóknum, m.a. með því að ákæra
eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir. Kærandi hefur því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi en ekkert bendir til þess að kærandi óttist ofsóknir þeirra. Ferðafrelsi er ennfremur tryggt í löggjöf landsins og stjórnvöld virða almennt þann rétt. Að mati kærunefndar er því mögulegt fyrir kæranda að flytja sig til innanlands telji hún þess þörf. Er það því mat kærunefndar að þær hótanir sem kærandi kveðst hafa orðið fyrir teljist ekki til ofsókna í skilningi 1. mgr. 44. gr. a laga um útlendinga.
Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu réttarstöðu flóttamanns.
Ákvæði 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum teljist einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands.
Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki eru á vegum yfirvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita fullnægjandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og frásögn kæranda verður að fá stuðning í öðrum gögnum, sbr. t.d. úrlausn Mannréttindadómstóls Evrópu í máli N.M. og M.M. gegn Bretlandi (mál nr. 38851/09 og 39128/09) frá 25. janúar 2011.
Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur farið yfir kemur m.a. fram að stjórnvöld í […] vinni að því að bæta réttarkerfi landsins og frelsi og öryggi almennings. Hefur þó nokkur árangur náðst síðustu ár, þó að enn sé þörf á frekari umbótum. Kærandi hefur ekki leitað aðstoðar lögreglu eða annarra yfirvalda í heimalandi sínu vegna þeirra hótana og áreitis sem hún segir að hún og fjölskylda hennar hafi orðið fyrir. Þó að rétt sé að veikleikar séu á réttarkerfinu í […] þá hafa átt sér stað umbætur á liðnum árum. Því er það mat kærunefndar að þó svo að kærandi og fjölskylda hennar ættu raunverulega á hættu að sæta ofbeldi í heimalandi sínu, af hálfu þess aðila sem hún hefur nefnt, þá hafi hún, eins og áður hefur komið fram, raunhæfan möguleika á að leita sér ásjár stjórnvalda.
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um […] telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hennar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.
Ákvæði 12. gr. f laga um útlendinga
Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur
sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Kærunefnd telur með vísan til orðalags ákvæðisins um „rík mannúðarsjónarmið“ og „ríka þörf á vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Kærandi hefur greint frá bágum efnahagslegum aðstæðum sínum. Í greinargerð með frumvarpi því sem færði 2. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga í núverandi horf kemur fram að ákvæðið um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða yrði að jafnaði ekki talið ná til neyðar af efnahagslegum rótum, svo sem fátæktar, hungursneyðar eða húsnæðisskorts. Við meðferð málsins hafa ekki komið fram gögn sem kalla á að vikið sé frá þeim meginsjónarmiðum sem fram koma í þeirri greinargerð.
Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga og teljist því ekki flóttamaður. Þegar framburður kæranda er virtur í heild sinni ásamt gögnum málsins er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í […] séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f útlendingalaga.
Jafnframt telur kærunefndin kæranda ekki uppfylla skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl við landið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi aðeins dvalið á Íslandi í skamman tíma.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður
Pétur Dam Leifsson Anna Tryggvadóttir