Mál nr. 7/2011. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:
Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 25. mars 2011
í máli nr. 7/2011:
Hreint ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Með bréfi, dags. 11. mars 2011, kærði Hreint ehf. ákvörðun Ríkiskaupa um val á tilboði í útboðinu nr. 14877 „Ræsting fyrir Fjölbrautaskólann í Breiðholti“. Í kæru voru kröfur kæranda orðaðar með eftirfarandi hætti:
„Þess er krafist að kærunefnd útboðsmála úrskurði að stöðva skuli samningsgerð kærða við væntanlega samningsaðila, sbr. fylgiskjal 2, þar til leyst hefur verið úr kæru þessari, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.
Þá er þess jafnframt krafist að kærunefnd útboðsmála ógildi útboð nr. 14877, „Ræsting fyrir Fjölbrautaskólann í Breiðholti“, og leggi fyrir kærða að bjóða þjónustuna út að nýju, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.
Til vara er þess krafist að kærunefndin láti í té álit sitt á skaðabótaskyldu kærða, komi í ljós að samningur hafi verið undirritaður með vísan til 2. mgr. 97. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007.
Þá er þess krafist í öllum tilvikum að kærða verði gert að greiða kostnað kæranda við að hafa kæruna uppi að skaðlausu samkvæmt mati nefndarinnar eða framlögðu málskostnaðaryfirliti sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.
Kærandi áskilur sér jafnframt rétt til að koma að frekari kröfum síðar, þ. á m. að kærunefnd útboðsmála ógildi ákvörðun kærða um að ganga til samninga við væntanlega samningsaðila. Þá áskilur kærandi sér rétt til þess að krefjast áframhaldandi stöðvunar á samningsgerð þar til kærunefndin hefur skorið úr öllum kæruatriðunum.“
Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðunum sínum. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun á gerð samnings. Með bréfi, dags. 21. mars 2011, krafðist kærði þess að kröfu um stöðvun samningsgerðar yrði hafnað.
Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva gerð samnings.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar.
I.
Í desember 2010 auglýsti kærði útboð nr. 14877 „Ræsting fyrir Fjölbrautaskólann í Breiðholti“ þar sem óskað var eftir tilboðum í nánar tilgreinda ræstingarþjónustu á tímabilinu 5. ágúst 2011 til 30. júní 2012. Fyrirspurnir bjóðenda og svör kærða voru birt á vef kærða 21. janúar 2011 og 2. febrúar 2011.
Í kafla 1.2.2. í útboðslýsingu kom fram að val tilboða myndi eingöngu ráðast af lægsta boðna verði. Kærandi var meðal þeirra sem gerðu tilboð í útboðinu. Hinn 8. febrúar 2011 voru tilboð opnuð og átti kærandi hæsta tilboðið. Hinn 22. febrúar tilkynnti kærði að hann hefði ákveðið að velja tilboð ISS Ísland ehf. í hinu kærða útboði.
II.
Kærandi segir að hagstæðasta tilboð hafi ekki verið valið enda hafi AÞ-Þrif ehf. og Ós verktakar gert lægri tilboð en það sem tekið var. Kærandi vísar til þess að í útboðsgögnum hafi komið fram að hagstæðasta tilboði yrði tekið eða að öllum tilboðum yrði hafnað. Þar sem kærði hafi ekki tekið hagstæðasta tilboði hafi kærða borið að hafna öllum tilboðum. Kærandi segir kærða hafi ekki verið heimilt að velja tilboð á grundvelli annars en lægsta verðs.
Kærandi telur að útboðslýsing hafi verið ófullnægjandi og allt of almenn til þess að bjóðendur gætu boðið í þjónustuna á jafnréttisgrundvelli. Tiltekur kærandi aðallega að verklýsing hafi verið ófullkomin og veitt ófullnægjandi upplýsingar fyrir bjóðendur þannig að þeir hafi átt erfit með að átta sig á eðli og umfangi verksins.
III.
Kærði segir að samkvæmt 71. gr. laga nr. 84/2007 hafi eingöngu mátt líta til gildra tilboða. Kærði segist hafa tekið lægsta tilboði sem var gilt. Kærði segir hafa vísað frá þeim tilboðum voru lægri en tilboð ISS Ísland ehf. og þeim bjóðendum hafi verið gerð grein fyrir ástæðum þess. Kærði segist því hafa valið tilboð í samræmi við útboðsgögn.
Kærði telur að útboðslýsins hafi verið fullnægjandi. Kærði bendir á að kærandi hafi sótt útboðsgögn 28. desember 2010 og að svör við fyrirspurnum á útboðstíma hafi birst 2. febrúar 2011. Kærði telur að kæra hafi komið of seint fram enda hafi kæranda verið kunnugt um útboðslýsingu og svör við fyrirspurnum í meira en fjórar vikur án þess að kæra til kærunefndar útboðsmála.
IV.
Kærandi byggir á því að útboðsgögn hafi verið ófullnægjandi og áfátt að ýmsu leyti. Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, skal kæra borin undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Í athugasemdum við 94. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 84/2007 er m.a. tekið fram að í opinberum innkaupum sé oft og tíðum sérlega mikilvægt að ekki sé fyrir hendi óvissa um gildi tiltekinna ákvarðana, jafnvel þótt vera kunni að ákvarðanir séu ólögmætar. Af ummælum í athugasemdunum má ráða að ætlast sé til þess að kærufrestur verði túlkaður þröngt og upphaf hans miðað við fyrsta mögulega tímamark. Útboðið „nr. 14877 – Ræsting fyrir Fjölbrautaskólann í Breiðholti“ var auglýst í desember 2010. Fyrirspurnir bjóðenda og svör kærða voru birt á vef kærða 21. janúar 2011 og 2. febrúar 2011. Með hliðsjón af framangreindu var frestur liðinn til að bera meinta annmarka á útboðsgögnum undir kærunefnd útboðsmála.
Kærandi byggir einnig á því að kærði hafi ekki tekið hagstæðasta tilboðinu sem barst í hinu kærða útboði. Kærandi telur þó ekki að hans tilboð hafi verið hagstæðara en bendir á að tvö önnur tilboð hafi verið lægri að fjárhæð en tilboð ISS Ísland ehf. Kærði hefur greint frá því að þessum tveimur tilboðum hafi verið „vísað frá“. Annar bjóðandinn kærði þá niðurstöðu til kærunefndar útboðsmála og með ákvörðun í máli nr. 6/2011 fjallaði kærunefnd útboðsmála um ákvörðun kærða um að hafna því tilboði. Kærunefndin taldi ekki verulegar líkur á því að með ákvörðuninni hafi kærði brotið lög nr. 84/2007, um opinber innkaup. Hinn bjóðandinn sem átti lægra tilboð hefur ekki kært ákvörðun kærða til kærunefndar útboðsmála. Af framangreindum ástæðum telur kærunefnd útboðsmála ekki verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum nr. 84/2007 um opinber innkaup og því séu ekki efni til að stöðva samningsgerð í kjölfar hins kærða útboðs þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.
Ákvörðunarorð:
Hafnað er kröfu kæranda, Hreint ehf., um að stöðva samningsgerð í kjölfar útboðs „nr. 14877 – Ræsting fyrir Fjölbrautaskólann í Breiðholti“.
Reykjavík, 25. mars 2011.
Páll Sigurðsson
Stanley Pálsson
Rétt endurrit staðfestir,
Reykjavík, mars 2011.