Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 83/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 83/2023

Miðvikudaginn 19. apríl 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 8. febrúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. desember 2022, þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri var synjað en samþykktur tímabundinn örorkustyrkur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. desember 2022, var umsókn kæranda um örorkulífeyri synjað en samþykktur örorkustyrkur vegna tímabilsins 1. september 2022 til 31. ágúst 2024. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefnd velferðarmála tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun í málinu, dags. 7. mars 2023, þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri var samþykkt vegna tímabilsins 1. september 2022 til 31. ágúst 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 9. febrúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 7. mars 2023, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins að stofnunin hefði ákveðið að endurupptaka málið og veita kæranda örorkulífeyri. Með bréfi, dags. 10. mars 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til bréfs stofnunarinnar. Svör bárust frá kæranda með tölvupóstum 15. og 21 mars 2023.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi verið frá vinnu meira eða minna frá árinu 2016. Hún hafi verið að glíma við mjög mikil andleg veikindi og hafi ekki verið vinnufær. Kærandi hafi lokið greiðslum endurhæfingarlífeyris og sé á geðdeild. Tryggingastofnun segi að kærandi sé með skerta atvinnugetu og einnig ráðgjafar hennar á geðdeildinni. Hún hafi beðið í meira en sex mánuði eftir svari en stofnunin hafi ekki getað svarað neinu þegar hún hafi haft samband. Kæranda hafi brugðið við að fá synjun þar sem hún hafi einungis verið með níu stig af tíu varðandi andleg veikindi. Kærandi hafi reynt að fyrirfara sér tvisvar sinnum. Hún eigi tvíbura og eigi von á öðru barni. Kærandi fái örorkustyrk sem sé 29.000 kr. á mánuði og geti ekki borgað leigu og mat. Hún sé ráðalaus. Kærandi hafi verið komin ágætlega af stað, hafi mætt í dagþjónustu og hitt ráðgjafa. Ráðgjöfum hennar og öðrum í félagsþjónustu finnist þetta fáránlegt og ekki rétt unnið hjá Tryggingastofnun. Stofnunin svari engu þegar kærandi reyni að hafa samband.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi hafi verið mjög nálægt því að uppfylla skilyrði örorkulífeyris þar sem einungis eitt stig hafi vantað í hinum andlega hluta matsins. Þegar svo lítið vanti upp á sé jafnan ástæða til að fara sérlega vel yfir stig sem umsækjanda séu gefin og ganga úr skugga um hvort umsækjandi eigi skilið að fá fleiri stig. Þegar mál kæranda hafi verið skoðað að nýju í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála og gögn sem hafi fylgt kærunni hafi verið yfirfarin, hafi verið ákveðið fara aftur yfir stigagjöf kæranda. Niðurstaðan úr þeirri skoðun hafi verið sú að kærandi ætti með réttu að fá tvö stig til viðbótar í andlega hlutanum.

Af þessum sökum teljast læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris uppfyllt og Tryggingastofnun hafi því tekið ákvörðun um að endurupptaka málið og veita kæranda örorkulífeyri. Gildistími örorkumats sé frá 1. september 2022 til 31. ágúst 2024. Þar sem Tryggingastofnun hafi orðið við kröfu kæranda í málinu óski stofnunin eftir að úrskurðarnefndin vísi fyrirliggjandi kæru frá. Fallist úrskurðarnefndin ekki á frávísunarkröfu þessa áskilji stofnunin sér rétt til að leggja fram efnislega greinargerð vegna málsins.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. desember 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri var synjað en samþykktur tímabundinn örorkustyrkur.

Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála tók Tryggingastofnun ríkisins nýja ákvörðun með bréfi, dags. 7. mars 2023, þar sem fallist var á greiðslu örorkulífeyris vegna tímabilsins 1. september 2022 til 31. ágúst 2024. Þá óskaði stofnunin eftir því í bréfi, dags. 7. mars 2023, að úrskurðarnefnd velferðarmála felldi málið niður á þeim grundvelli að stofnunin hefði fallist á kröfu kæranda. Með bréfi, dags. 10. mars 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til greinargerðarinnar. Með tölvupósti 15. mars 2023 greindi kærandi frá því að hún væri mjög ánægð með að umsókn hennar hafi verið samþykkt. Með tölvupósti 16. mars 2023 óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort loka mætti kærumálinu. Með tölvupósti 21. mars 2023 greindi kærandi frá því að hún vildi ekki loka málinu. Hún hafi þurft að bíða eftir niðurstöðu í meira en sjö mánuði og hafi verið launalaus. Kærandi hafi þurft að borga leigu, lyf og annað og hafi þurft að setja allar sínar skuldir og annað í bið. Reikningar hennar hafi hækkað um helming á þessum mánuðum á meðan kærandi hafi verið að klára sína innlögn á geðdeildinni. Kærandi geti ekki verið sammála því sem Tryggingastofnun hafi gert. Hún hafi ekki átt að þurfa að bíða og vera synjað um greiðslur vegna eins stigs.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Samkvæmt þágildandi 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kveður úrskurðarnefnd velferðarmála upp úrskurði um tiltekin ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna.

Þar sem Tryggingastofnun hefur ákveðið að afturkalla hina kærðu ákvörðun og samþykkja örorkulífeyri verður ekki séð að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og stofnunarinnar, enda hefur kærandi lýst því yfir að hún sé ánægð með hina nýju ákvörðun. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta