Hoppa yfir valmynd

Nr. 229/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 12. júlí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 229/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18040001

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. mars 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Venesúela (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. mars 2018, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og breytt á þann veg að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi vegna sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Í hinni kærðu ákvörðun kom m.a. fram að kærandi hafi þann 18. júlí 2017 lagt fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi vegna sérstakra tengsla við landið. Með bréfi, dags. 18. október 2017, óskaði Útlendingastofnun eftir frekari gögnum frá kæranda. Þann 16. nóvember 2017 lagði kærandi fram frekari gögn til Útlendingastofnunar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. mars 2018, var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi kærði ákvörðunina þann 28. mars 2017. Greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum barst kærunefnd þann 23. apríl 2018 og frekari upplýsingar og gögn þann 18. maí og 22. júní sl. Þann 29. júní sl. dró kærandi til baka beiðni sína um frestun réttaráhrifa.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var fjallað um 78. gr. laga um útlendinga og bent á að samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins væri heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teldist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr. sömu laga. Samkvæmt 55. gr. laga um útlendinga væri það m.a. grunnskilyrði að framfærsla útlendings skv. 56. gr. laganna og sjúkratrygging væri örugg svo heimilt væri að veita dvalarleyfi. Þá skyldi útlendingur sem væri eldri en 18 ára og óskaði eftir dvalarleyfi sýna fram á að framfærsla hans væri trygg þann tíma sem hann óskaði eftir að fá að dveljast hér á landi, sbr. 56. gr. laganna.

Með vísan til þeirra framfærslugagna sem kærandi hefði lagt fram væri ljóst að samanlögð framfærsla hennar á mánuði væri 2.365 venesúelskar bólivar sem jafngilti u.þ.b. 23.700 íslenskum krónum. Þá hefði dóttir kæranda sent henni í 10 skipti 50 bandaríkjadali sem jafngilti samtals 50.000 íslenskum krónum. Samkvæmt framfærslustuðli sveitarfélaga væri framfærsla einstaklings 180.550 kr. á mánuði. Í ljósi framfærslu kæranda var talið ljóst að kærandi uppfyllti ekki grunnskilyrði a. liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga og var umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla því synjað. 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er rakið að kærandi sé fædd árið […] og sé ríkisborgari Venesúela þar sem hún sé búsett. Kærandi eigi dóttur sem búi á Íslandi ásamt eiginmanni sínum og tveimur stjúpdætrum. Jafnframt sé systurdóttir kæranda búsett hérlendis með eiginmanni og börnum. Samband kæranda við dóttur sína og systurdóttur sé gott. Kærandi sé komin á eftirlaunaaldur í heimaríki sínu en eftirlaun hennar séu lág og dugi ekki til framfærslu. Dóttir kæranda hafi því sent henni fé erlendis með reglulegu millibili. Hafi kærandi síðar sótt um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Málatilbúnaður og röksemdir kæranda eru settar fram í nokkrum liðum. Í fyrsta lagi byggir kærandi á því að útreikningur Útlendingastofnunar á framfærslu kæranda sé rangur. Hafi stofnunin skoðað framfærslu kæranda, þ.e. 23.700 kr. á mánuði auk 50.000 kr. framlags frá dóttur hennar, í ljósi framfærslustuðuls sveitarfélaga hér á landi sem nemi 180.550 kr. á mánuði. Í stað þess að styðjast eingöngu við framfærslustuðul sveitarfélaga telur kærandi að stofnuninni hafi einnig borið að líta til framfærslustuðuls og aðstæðna í Venesúela. Framfærslukostnaður á Íslandi og í Venesúela sé ekki sambærilegur og þá hafi ríkt neyðarástand í síðarnefnda ríkinu vegna efnahagsóstöðugleika og verðbólga rokið þar upp. Telur kærandi það ósanngjarnt og óraunhæft að við mat Útlendingastofnunar á því hvort hún uppfylli skilyrði a. liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga hafi einungis verið litið til framfærsluviðmiða á Íslandi. Hafi stofnunin með þessu mati brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi bendir ennfremur á að Útlendingastofnun hafi einungis verið heimilt að líta til tveggja sjónarmiða við mat á því hvort skilyrði a. liðar 1. mgr. 55. gr. hafi verið uppfyllt. Annars vegar hvort kærandi hafi verið á framfæri aðstandenda hennar hér á landi í að minnsta kosti 12 mánuði, sbr. 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Hafi kærandi sýnt fram á að hún hafi verið á framfærslu dóttur sinnar í að minnsta kosti 10 mánuði þegar umsókn hennar um dvalarleyfi hafi verið lögð fram og hafi hún þegið slíkar greiðslur áfram. Hins vegar telur kærandi að við matið hafi átt að skoða gögn um hvernig framfærsla kæranda yrði tryggð við komu til landsins. Í þeim efnum bendir kærandi á að viðeigandi hefði verið að skoða gögn um tekjur aðstandenda hennar hérlendis eða gögn um atvinnumöguleika, þ.e. ef kærandi skyldi ákveða að nýta rétt sinn til atvinnuþátttöku, sbr. 11. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002. Þar sem ekki hafi verið aflað slíkra upplýsinga hafi Útlendingastofnun ekki virt rannsóknarskyldu sína.

Í þriðja lagi er kærandi þeirrar skoðunar að við meðferð máls hennar hjá Útlendingastofnun hafi verið brotið gegn lögmætis- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Hvað varði brot gegn lögmætisreglunni byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi beitt þröngri skýringu á a. lið 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 540/2017, með því að líta svo á að hún uppfyllti ekki framfærsluskilyrði ákvæðisins þar sem tekjur hennar í heimaríki væru lægri en 180.550 kr. á mánuði. Hafi sá rökstuðningur ekki átt sér stoð í lögum og sé því ógildanlegur. Ljóst sé að samkvæmt 20. gr. áðurnefndrar reglugerðar hafi hlutverk Útlendingastofnunar verið að skoða hvort kærandi hafi verið á framfæri aðstandenda sinna en ekki hvort sú fjárhæð sem kærandi hafi þegið hafi verið í samræmi við framfærslustuðul sveitarfélaga. Slíkt mat sé óraunhæft, rangt og einfaldlega ósanngjarnt.

Að lokum tekur kærandi fram að við mat á því hvort framfærsluskilyrði a. liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga hafi verið uppfyllt hafi Útlendingastofnun borið að taka tillit til fjárhagsstöðu dóttur kæranda hérlendis, að því gefnu að kærandi hygðist ekki stunda atvinnu hér á landi. Dóttir kæranda og eiginmaður hennar séu í stöðugri atvinnu og hafi tekjur langt umfram framfærslustuðul sveitarfélaga fyrir hjón, þ.e. 270.825 kr. á mánuði. Í samræmi við framfærslustuðul sveitarfélaga dugi laun hjónanna jafnframt vegna viðbótarframfærslu upp á 90.275 kr. vegna fjölskyldumeðlims eldri en 18 ára. Vísar kærandi ennfremur til upplýsinga sem finna megi á vefsíðu Útlendingastofnunar um grunnskilyrði þar sem segir að ef umsækjandi sé á framfæri annars einstaklings þurfi sá aðili að leggja fram launaseðla síðustu þriggja mánaða sem fullnægi sömu skilyrðum og þar hafi verið talin upp sem og staðgreiðsluyfirlit þess einstaklings.

Kærandi vísar til gagna um tekjur dóttur kæranda og eiginmanns hennar sem hafi fylgt með kæru. Þau gögn sýni að kærandi og eiginmaður hennar séu í aðstöðu til að framfleyta kæranda. Þá hafi dóttir kæranda aldrei verði byrði á íslensku samfélagi. Hjónin hafi aldrei þegið framfærslu frá sveitarfélögum og séu skuldlaus við ríkissjóð, sbr. gögn sem kærandi hafi lagt fram. Einnig hafi kærandi lagt fram gögn um tekjur systurdóttur kæranda. Samkvæmt framlögðum gögnum um tekjur aðstandenda kæranda, sem og möguleika hennar á að stunda atvinnu hérlendis, sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði a. liðar 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga. Hafi rök Útlendingastofnunar farið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga enda hafi stofnunin  gengið lengra en nauðsyn krefji til að ná settu markmiði 78. gr. laga um útlendinga. Þar sem Útlendingastofnun hafi virt lögmætisregluna og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga að vettugi beri kærunefnd að ógilda hina kærðu ákvörðun.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra. Í 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi í samræmi við ákvæði VI.-IX. kafla samkvæmt umsókn uppfylli hann m.a. það skilyrði að framfærsla hans samkvæmt 56. gr. og sjúkratrygging sé örugg, sbr. a. lið 1. mgr. 55. gr.

Í 1. mgr. 56. gr. laganna er fjallað um hvenær framfærsla útlendings sé trygg. Þar kemur fram að útlendingur sem sé eldri en 18 ára og sækir um dvalarleyfi hér á landi skuli sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að fá að dveljast hér á landi. Í 2. mgr. 56. gr. segir m.a. að sýna þurfi fram á framfærslu í gjaldmiðli sem skráður sé hjá Seðlabanka Íslands. Þá er sérstaklega tekið fram í 3. mgr. 56. gr. laganna að greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélaga teljist ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt ákvæðinu. Samkvæmt 4. mgr. 56. gr. laganna er ráðherra heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um trygga framfærslu.

Í 20. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sem fjallar um skilyrði dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla hafi umsækjandi ekki búið á Íslandi, segir að umsækjandi þurfi að sýna fram á að hann hafi verið á framfæri aðstandanda í að minnsta kosti ár. Kærunefnd telur að af framangreindum lagagrundvelli leiðir að til að uppfylla skilyrði 55. gr. og 56. gr. laga um útlendinga þurfi útlendingur að sýna fram á að hann geti framfleytt sér hér á landi með eigin framfærslu eða frá einstaklingi sem ber framfærsluskyldu gagnvart umsækjanda, svo sem tekjum sem viðkomandi aflar sjálfur eða fé sem hann fer með sannanleg yfirráð yfir, t.d. innstæðu á bankareikningi sem skráður er á nafn viðkomandi eða ef innstæða á reikningi á öðru nafni er tryggð viðkomandi með öruggum hætti.

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð kæranda hyggst kærandi ýmist framfleyta sér hér á landi með því að stunda atvinnu eða treysta á framfærslu frá dóttur sinni og eiginmanni hennar að hluta eða öllu leyti. Til stuðnings framangreindum fullyrðingum sínum hefur kærandi hefur m.a. lagt fram afrit af launaseðlum vinnuveitenda dóttur sinnar, dags. 31. apríl, 31. maí og 30. júní 2017. Aftur á móti liggja hvorki fyrir gögn varðandi atvinnu kæranda hér á landi, svo sem ráðningarsamningur, né upplýsingar um innistæðu á bankareikningi hennar sem gæti nægt til framfærslu hennar.

Samkvæmt framansögðu verður ekki litið svo á að tekjur dóttur kæranda geti talist trygg framfærsla kæranda enda ber hún ekki framfærsluskyldu gagnvart kæranda. Að öðru leyti liggja ekki fyrir gögn sem sýna fram á með fullnægjandi hætti að framfærsla hennar sé trygg fyrir þann tíma sem hún hyggst dvelja hérlendis. Er skilyrðum 55. og 56. gr. því ekki fullnægt og verður umsókn hennar um dvalarleyfi synjað af þeirri ástæðu. Samkvæmt framansögðu eru ekki efni til að taka til skoðunar aðrar málsástæður kæranda sem varða stöðu hennar í heimaríki.

Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Kærunefnd bendir kæranda á að telji hún að lífi sínu eða öryggi kunni vera stefnt í hættu í heimaríki er henni heimilt, líkt og öðrum einstaklingum sem telja sig vera í sambærilegri stöðu, að leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd í samræmi við IV. kafla laga um útlendinga og samkvæmt þeim skilyrðum sem gilda um slíkar umsóknir. Með þessum leiðbeiningum hefur nefndin ekki tekið afstöðu til slíkrar umsóknar.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is confirmed.

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                        Gunnar Páll Baldvinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta