Hoppa yfir valmynd

Nr. 120/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. mars 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 120/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010030

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 24. janúar 2019 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. janúar 2019, um að synja honum um endurnýjun á dvalarleyfi fyrir námsmenn, sbr. 65. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir stofnunina að veita honum dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi vegna náms þann 25. ágúst 2017 með gildistíma til 15. febrúar 2018. Var leyfið endurnýjað þann 13. febrúar 2018 með gildistíma til 15. júlí 2018. Þann 23. apríl 2018 sótti kærandi um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar og var þeirri umsókn synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. júní 2018. Þann 15. júní 2018 sótti kærandi um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki og var þeirri umsókn synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. nóvember 2018. Þann 9. júlí 2018 sótti kærandi um endurnýjun á dvalarleyfi vegna náms. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. janúar 2019, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 11. janúar 2019 og þann 24. janúar sl. kærði hann ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að við vinnslu umsóknarinnar hafi komið í ljós að fylgigögn með umsókn kæranda væru ófullnægjandi. Hafi stofnunin því sent kæranda bréf, dags. 13. nóvember 2018, þar sem óskað hefði verið eftir staðfestingu frá skóla um fullt nám og gögnum um framfærslu. Kærandi hefði lagt fram umbeðin gögn þann 14. nóvember 2018.

Vísaði stofnunin til þess að samkvæmt 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga væri heimilt að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu á námstíma ef útlendingur fullnægði áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og geti sýnt fram á viðunandi námsárangur þar sem þess sé krafist. Við fyrstu endurnýjun teldist námsárangur fullnægjandi hafi útlendingur lokið samanlagt a.m.k. 75% af fullu námi á námsárinu. Heimilt væri að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um sé að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi. Samkvæmt námsferilsyfirliti kæranda, dags. 13. nóvember 2018, hefði kærandi lokið 30 ECTS-einingum af 60 fyrir námsárið 2017-2018, eða með 50% námsárangri. Samkvæmt framangreindu uppfyllti kærandi því ekki skilyrði 6. mgr. 65. gr. þar sem áskilnaður væri um 75% námsárangur. Var umsókn kæranda því synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð vísar kærandi til þess að við málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi ekki legið fyrir gögn sem nú séu lögð fyrir kærunefnd. Ástæða þess að kærandi hafi ekki fullnægt kröfum um viðunandi námsárangur, sbr. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga, séu alvarleg andleg veikindi og prófkvíði. Vísar kærandi til læknisvottorðs, dags. [...], þar sem m.a. kom fram að kærandi hafi glímt við andleg veikindi [...]. Þá komi fram í vottorði sálfræðings, dags. [...], að niðurstöður úr matslista bendi til þess að kærandi glími við alvarleg einkenni þunglyndis og kvíða. Einnig virðist félagskvíði vera til staðar en ein af birtingarmyndum félagskvíða sé frammistöðukvíði. Þá tekur kærandi fram að hann hafi glímt við [...].

Kærandi byggir á því að aðstæður hans falli undir undanþáguákvæði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga en samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um sé að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, þ. á m. vegna alvarlegra veikinda. Viti kærandi til þess að fordæmi séu fyrir því að framangreind undanþága hafi verið veitt í tilvikum sem andlegir erfiðleikar hafi komið niður á námsárangri. Þá hafi kærandi leitað sér viðeigandi aðstoðar vegna veikinda sinna og hyggist ætla að halda áfram að mæta í viðtöl vegna andlegra veikinda. Hafi kærandi í því skyni m.a. óskað aðstoðar frá sálfræðingi sínum auk þess sem hann hafi leitað til náms- og starfsráðgjafar HÍ. Jafnframt hafi kærandi náð góðum árangri í því að koma námsferli sínum á réttan kjöl en hann hafi nú skipt um námsbraut úr íslenskunámi í akademíska ensku.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 65. gr. laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi vegna náms. Samkvæmt 6. mgr. ákvæðisins er heimilt að endurnýja dvalarleyfi skv. ákvæðinu á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur, þar sem þess er krafist. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið samanlagt a.m.k. 75% af fullu námi á námsárinu. Heimilt er að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um er að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi. Í athugasemdum við 65. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. að heimilt sé að endurnýja dvalarleyfi ef óviðráðanlegar ástæður valda því að fullnægjandi námsárangri hafi ekki verið náð. Þurfa ástæðurnar að hafa verið óviðráðanlegar fyrir námsmanninn, svo sem alvarleg veikindi eða ef nauðsynleg námskeið falla niður. Við endurnýjun dvalarleyfis þurfi umsækjandi að sýna fram á fullnægjandi námsárangur en með því sé átt við að útlendingur hafi staðist samanlagt 75% af heildareiningarfjölda tveggja anna og sé nóg að leyfishafi náð t.d. 50% af heildareiningarfjölda fyrstu annar ef hann nær a.m.k. 100% á næstu önn.

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi fyrir námsmenn þann 25. ágúst 2017 með gildistíma til 15. febrúar 2018 og var leyfið endurnýjað til 15. júlí 2018. Samkvæmt gögnum málsins lauk kærandi 30 ECTS-einingum skólaárið 2017-2018 en fullt nám tveggja anna er 60 ECTS-einingar. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga um viðunandi námsárangur. Kemur þá næst til skoðunar hvort um óviðráðanlegar ytri aðstæður sé að ræða hjá kæranda í skilningi 3. málsl. 6. mgr. 65. gr. laganna. Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram gögn sem ekki lágu fyrir við töku ákvörðunar hjá Útlendingastofnun. Í læknisvottorði, dags. [...]. kemur fram að kærandi hafi glímt við alvarleg andleg veikindi [...]. Hafi hann náð betri tökum á veikindunum og hitti reglulega sálfræðing. Þá kemur fram í sálfræðivottorði, dags. [...], að niðurstöður úr matslistum bendi til þess að kærandi glími við alvarleg einkenni þunglyndis og kvíða. Þá gefi niðurstöður úr MINI geðgreiningarviðtali til kynna að kærandi glími við þunglyndi og sé með fyrri sögu um þunglyndi. Þá virðist félagskvíði einnig vera til staðar, en ein af birtingarmyndum félagskvíða sé frammistöðukvíði.

Eins og að framan greinir lauk kærandi samanlagt 50% af fullu námi skólaárið 2017-2018. Gögn málsins benda til þess að hann hafi þjáðst af andlegum veikindum sem læknir hafi metið „alvarleg“ en gögnin benda jafnframt til þess að umrædd veikindi séu bundin við ytri aðstæður kæranda, þ.m.t. [...]. Að mati kærunefndar eru aðstæður kæranda slíkar að þær falla undir undanþáguákvæði 3. máls. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                            Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta