Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 12/2019, úrskurður 10. október 2019

Fimmtudaginn 10. október 2019 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 12/2019

Vegagerðin

gegn

Kristjáni Jónssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, lektor, varaformanni, ásamt þeim Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, og Vífli Oddssyni, verkfræðingi, sem varaformaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni 6. júní 2019 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5-7, 105 Reykjavík (hér eftir eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á landspildu í landi Dilksness, landnúmer 159474.

Um heimild til eignarnámsins vísar eignarnemi til VII. kafla vegalaga nr. 80/2007, sbr. lög nr. 11/1973. Eignarnámsheimildin er í 37. gr. vegalaga.

Eignarnámsþoli er Kristján Jónsson, [...]. Hann er eigandi Dilksness, landnúmer 159474.

Endanlegt matsandlag er nánar tiltekið:

1.         66.851 fermetra landspilda í landi Dilksness milli vegstöðva 14680 og 16300, miðað við 40 metra breitt vegsvæði, það er 20 metra frá miðlínu til hvorrar handar. Samkvæmt matsbeiðni nýtast þar af áfram 1.786 fermetrar af eldra vegstæði innan lands eignarnámsþola sem dragast frá. Þá verða 2.462 fermetrar af eldra vegstæði innan lands eignarnámsþola lagðir af og skilað aftur til hans. Heildarflatarmál landspildunnar tekur þannig til 62.603 fermetra.

2.         3.350 fermetra kriki, sem myndast á milli Hafnarvegar og nýs þjóðvegar, Hringvegar um Hornafjörð.

III

Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir þriðjudaginn 18. júní 2019. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt 18 tölu- og stafsettum fylgiskjölum. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfa. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

Miðvikudaginn 26. júní 2019 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Þá var málsaðilum gefinn frestur til að leggja fram greinargerð.

Mánudaginn 26. ágúst 2019 var málið tekið fyrir. Matsnefndin lagði fram afrit fundargerðar vegna vettvangsgöngu 26. júní 2019. Þá hafði matsnefndinni borist til framlagningar greinargerð eignarnema ásamt tveimur fylgiskjölum, greinargerð eignarnámsþola ásamt þremur fylgiskjölum, athugasemdir eignarnema við greinargerð eignarnámsþola ásamt einu fylgiskjali og athugasemdir eignarnámsþola við greinargerð eignarnema. Voru skjöl þessi lögð fram. Af hálfu eignarnámsþola var lagt fram yfirlit yfir tímaskráningu lögmanns eignarnámsþola Var málið því næst munnlega fyrir matsnefndinni. Var málið tekið til úrskurðar að því búnu.

Matsnefnd eignarnámsbóta aflaði eftir þetta svofelldra upplýsinga í málinu:

Með tölvubréfi 5. september 2019 fór matsnefnd eignarnámsbóta þess á leit við lögmann eignarnema, að eignarnemi veitti matsnefndinni upplýsingar um lengdarsnið fyrirhugaðrar veglínu þjóðvegarins, Hringvegar um Hornafjörð, sem sýndi hæð vegarins og hæð landsins. Með tölvubréfi lögmanns eignarnema sama dag bárust nefndinni umbeðnar upplýsingar.

IV

Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi telur hæfilegar eignarnámsbætur til eignarnámsþola vera 30 krónur á fermetra, eða 300.000 krónur á hektara. Þannig nemur tilboð eignarnema vegna 66.851 fermetra landspildu í landi Dilksness milli vegstöðva 14680 og 16300 1.878.090 krónum, að teknu tilliti til 1.786 fermetra af eldra vegsvæði innan lands eignarnámsþola sem nýtast áfram og 2.462 fermetra af eldra vegstæði innan landsins sem lagðir verða af og skilað aftur til hans. Um heimild eignarnema til að skila eldra vegstæði er vísað til 4. mgr. 39. gr. vegalaga nr. 80/2007 og t.d. úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 14. september 2012 í máli nr. 2/2012. Eignarnemi hefur einnig boðist til að kaupa á 30 krónur á fermetra af eignarnámsþola 3.350 fermetra krika, sem myndast á milli Hafnarvegar og Hringvegar, á samtals 100.500 krónur þar sem sá kriki verði síður nýtanlegur eftir framkvæmdina. Þá býður eignarnemi fram bætur vegna verðrýrnunar á landi sem eignarnámsþoli heldur eftir sjávarmegin fyrirhugaðs vegar og tekur til um 33.000 fermetra landspildu, þar sem eignarnemi telur hæfilegar bætur vera 15 krónur á fermetra eða samtals 495.000 krónur. Telur eignarnemi ástæðulaust að greiða einnig bætur vegna legu nýs vegar um fjöruland, líkt og eignarnámsþoli hefur krafist.

Við mat á bótum vísar eignarnemi til þess að litið hafi verið til samninga í hliðstæðum málum og upplýsinga um verð á landi við kaup og sölu jarða. Bendir eignarnemi á að mikill meirihluti eigenda jarða í Hornafirði hafi þegar samið við eignarnema á grundvelli áðurgreinds tilboðs. Í því samhengi vísar eignarnemi til kaupsamnings 15. desember 2014[...]. Vísar eignarnemi til þess að talið sé að stærð þeirrar jarðar sé á milli 2000 og 3000 hektarar og að það hektaraverð sé því margfalt lægra verð en það sem tilboð eignarnema til eignarnámsþola taki mið af. Telur eignarnemi að kaupsamningurinn gefi raunhæfa mynd af jarðaverði í Hornafirði. Þá telur eignarnemi að sú staðreynd að ekki hafi verið lagðir fram aðrir kaupsamningar um land í Hornafirði gefi til kynna að tilboð eignarnema sé ekki fjarri lagi.

Næst vísar eignarnemi til þess að fasteignamat matsandlagsins gefi nokkra vísbendingu um verðmæti þess, sbr. 27. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Á hinn bóginn nemi fasteignamat 2019 vegna 185,6 hektara lands Dilksness 37.000 krónum, sem telja verði óraunhæft og gefi tæpast vísbendingu um verðmæti landsins, og að þar sé ekki getið um ræktað land. Eignarnemi hafnar því að líta beri til þess að fasteignaverð hafi hækkað verulega á Höfn í Hornafirði, líkt og eignarnámsþoli byggir á í málinu, því landverð lúti ekki sömu lögmálum og fasteignaverð almennt, heldur ráðist það af staðsetningu, staðháttum og gæðum lands.

Um viðmiðunarverð vísar eignarnemi einnig til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 28. júlí 2009 í máli nr. 2/2009, þar sem bætur vegna landspildu úr landi Auðshaugs í Vesturbyggð voru ákveðnar 225.000 krónur á hektara, og 14. september 2012 í máli nr. 2/2012, þar sem bætur vegna landspildu úr landi Grænaness í Strandabyggð voru ákveðnar 250.000 krónur á hektara. Í máli nr. 2/2009 hafi landið að hluta verið kjarri vaxið en að mestu beitiland og í máli nr. 2/2012 hafi land að mestu verið gróið. Því sé ekki fráleitt að ætla að eðlilegt sé að greiða 300.000 krónur á hektara fyrir land eignarnámsþola að virtri staðsetningu þess, landgæðum og notkunarmöguleikum. Þá hafnar eignarnemi því að ákvörðun um fjárhæð eignarnámsbóta í úrskurði matsnefndarinnar 6. nóvember 2018 í máli nr. 1/2017, þar sem bætur voru ákveðnar 800.000 krónur á hektara vegna landspildu úr landi Torfastaða í Bláskógabyggð, eigi við um matsandlagið líkt og eignarnámsþoli heldur fram í málinu, því aðstæður séu ekki sambærilegar. Í máli nr. 1/2017 hafi landið verið með samfelldum gróðri, að mestu beitarland en óræktað, í einni vinsælustu sumarhúsabyggð landsins í grennd við Reykjavík og því sé þar fáu saman að jafna. Eignarnemi hafnar því sem fram sé komið af hálfu eignarnámsþola, að óheimilt sé að mismuna landeigendum eftir staðsetningu við verðmat á landareignum þeirra.

Um framtíðarnýtingu eignarnámsþola á landi sínu í þágu ferðaþjónustu og uppbyggingar í þá veru sem þegar sé hafin, vísar eignarnemi til þess að sú uppbygging hafi ekki hafist fyrr en eftir að ákvarðanir um nýja veglínu og skipulag þar að lútandi hafi legið fyrir, því fyrirhuguð vegaframkvæmd hafi verið í skipulagi fyrir svæðið frá árinu 2009.

Um landshætti matsandlagsins vísar eignarnemi til þess að samkvæmt lýsingu á gróðurfari jarða í fyrirhugaðri veglínu, sem unnin hafi verið fyrir eignarnema í ágúst 2019, einkennist landspildan í landi Dilksness af mýrlendi, deiglendi og graslendi, með stöku blettum af mosagróðri. Er það álit eignarnema að matsandlagið teljist því fremur rýrt að gæðum og að ekkert bendi til þess að það land, sem eignarnámsþoli heldur eftir, muni rýrna í verði vegna staðsetningar nýja vegarins. Eignarnemi telur landið fráleitt ræktað líkt og haldið hafi verið fram af eignarnámsþola í málinu, heldur sé um að ræða blautt land.

Loks hafnar eignarnemi kröfum eignarnámsþola um bætur fyrir sérstakt rask vegna framkvæmdanna, þar sem ekki verði fallist á að hann verði fyrir slíku raski, svo og um bætur fyrir lagningu nýs vegar um fallegt fjöruland því eignarnemi hafi eins og áður greinir þegar fallist á að greiða bætur vegna verðáhrifa eignarnámsins á land sem eignarnámsþoli heldur eftir sjávarmegin vegar og ekki komi til greina að tvígreiða fyrir nálægð vegarins við fjöruna. Þá hafnar eignarnemi einnig kröfu eignarnámsþola um bætur fyrir malarefni innan þeirrar landspildu sem eignarnámið tekur til, því slíkt myndi fela í sér tvígreiðslu fyrir hlutaðeigandi land, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 8. október 2009 í máli nr. 345/2008.

V

Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að eignarnámsbætur til handa eignarnámsþola verði ákveðnar 9.793.200 krónur. Er bótakrafa eignarnámsþola nánar sundurgreind með svofelldum hætti:

Í fyrsta lagi krefst eignarnámsþoli þess að „eignarnema verði gert að greiða [sér] bætur fyrir eignaskerðingu og verðmætarýrnun sem hljótast muni af framkvæmdum [eignarnema] í landi Dilksness að fjárhæð 6.793.200 kr.“ Tekur þessi krafa eignarnámsþola hvoru tveggja mið af eignaskerðingu og verðmætarýrnun sem hann telur að eignarnámið hafi í för með sér. Miðar bótakrafan við að eignarnemi skuli greiða 80 krónur á fermetra (800.000 krónur á hektara) fyrir 68.415 fermetra landspildu eignarnámsþola, sem tekin sé eignarnámi, svo og 40 krónur á fermetra (400.000 krónur á hektara) fyrir 33.000 fermetra landsvæði sem eignarnámsþoli haldi eftir og ónýtist af völdum eignarnámsins, eins og nánar greinir hér á eftir, eða samtals 6.793.200 krónur.

Eignarnámsþoli hafnar því að eignarnemi geti skilað eldra vegstæði, þrátt fyrir fyrirmæli 4. mgr. 39. gr. vegalaga, því það muni á engan hátt nýtast eignarnámsþola. Aðstæður hans hafi breyst frá því land undir eldra vegstæði var tekið eignarnámi og óljóst sé hvort skila eigi því til eignarnámsþola, því eignarnámsþoli eigi ekki lengur land vestan fyrirhugaðs nýs vegar og skil á spildunni myndi ekki nýtast honum. Að því virtu tekur krafa eignarnámsþola til þess að greiddar verði bætur fyrir 68.415 fermetra lands, sem taki annars vegar til 66.851 fermetra landspildu að frádregnu 1.786 fermetra eldra vegsvæði í landi eignarnámsþola sem áfram nýtist og hins vegar til 3.350 fermetra krika sem myndist á milli Hafnarvegar og nýs þjóðvegar, Hringvegar um Hornafjörð, og ónýtist eignarnámsþola að fullu.

Þá vísar eignarnámsþoli til þess verðfalls sem verði á landi sem hann heldur eftir, að fyrirhugaður nýr vegur muni skilja land hans frá fjörusvæði með mjórri landræmu á milli vegar og fjöru og að um sé að ræða um 33.000 fermetra lands samkvæmt útreikningum eignarnema. Fer eignarnemi fram á að greiddar verði bætur fyrir verðfall á þessu landsvæði sem nemi helmingi þess verðs á landi sem tekið er eignarnámi.

Eignarnámsþoli telur að tilboð eignarnema sé of lágt og reisir fjárhæð bótakröfu sinnar á nýlegum úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta 6. nóvember 2018 í máli nr. 1/2017, þar sem hæfilegar bætur fyrir hvern hektara í landi Torfastaða í Bláskógabyggð hafi verið ákveðnar að fjárhæð 800.000 krónur, og aðstæðum öllum. Í því máli hafi verið um að ræða óræktað land, beitarland, í um 100 metra hæð yfir sjávarmáli, á meðan eignarnámsþoli í þessu máli byggir á því að hans land sé ræktanlegt land. Telur eignarnámsþoli að stjórnvöldum sé ekki stætt á því að mismuna landeigendum eftir því hvar land þeirra sé staðsett, nema sterk rök komi til. Til viðbótar vísar eignarnámsþoli til þess að miðað hafi verið við 1.500.000 krónur á hektara vegna lands undir möstur og í úrskurði matsnefndarinnar í máli nr. 2/2014, 1.000.000 krónur á hektara vegna lands undir möstur í úrskurði í máli nr. 9/2014, 350.000 krónur á hektara vegna lands á norðausturhluta landsins undir möstur í úrskurði 22. febrúar 2017 í máli nr. 1/2016, 500.000 krónur á hektara fyrir land undir vegsvæði í úrskurði í máli nr. 10/2014 og 1.000.000 krónur á hektara fyrir ræktað land í sama máli.

Eignarnámsþoli hafnar þeirri staðhæfingu eignarnema að land hans, matsandlagið, einkennist af mýrlendi, deiglendi og graslendi og sé því fremur rýrt að gæðum. Land eignarnámsþola sé nánast aðeins graslendi, eða mjög gott ræktunarland, sem hægt sé að nýta í hvaða tilgangi sem er, t.d. til ræktunar eða byggingar. Fullyrðing eignarnema sé reist á lýsingu á gróðurfari jarða í veglínu 3b í Hornafirði sem hann hafi aflað einhliða og fyrst lagt fram eftir vettvangsathugun í málinu. Eignarnámsþoli mótmælir þessari fullyrðingu eignarnema, um að land hans sé rýrt að gæðum, sem rangri. Þá sé ljóst að þau gögn, sem byggt sé á í áðurgreindri lýsingu á gróðurfari jarða í fyrirhugaðri veglínu séu röng eða úrelt þannig að landshættir hafi tekið breytingum frá því sem þar sé lýst.

Eignarnámsþoli mótmælir því að fjárhæð eignarnámsbóta verði miðuð við um tíu ára gamla úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta, líkt og eignarnemi byggi á í málinu, því verðlag hafi hækkað umtalsvert síðan, þ. á m. lóðaverð, einkum á ferðamannasvæðum á Suðurlandi, jafnvel þótt sjónarmið í úrskurði matsnefndarinnar í máli nr. 2/2009, um bætur fyrir fallegt fjörusvæði, jarðefni og tímabundið rask á framkvæmdatíma geti átt við í málinu. Þá mótmælir eignarnámsþoli því að byggt verði á kaupsamningi 15. desember 2014 um Árnanes 1, því óvitað sé um ástæður lágs kaupverðs umrætt sinn, svo og að kaupverðið sé ekki í neinu samræmi við fasteignaverð á Hornafirði og nágrenni  í dag. Hafnar eignarnámsþoli því að einn kaupsamningur gefi nokkrar vísbendingar um fasteigna- eða jarðaverð í sveitarfélaginu.

Þess utan byggir eignarnámsþoli á því að nú hyggist eignarnemi í annað sinn taka eignarnámi landspildu úr landi sínu í þágu vegalagningar, með tilheyrandi óþægindum og áhrifum á nýtingar- og tekjumöguleika sína til framtíðar af landi sem haldið sé eftir. Eldri vegur muni áfram liggja eftir landinu og nú komi nýr vegur þvert í gegnum landareignina og skipti því upp öðru sinni. Við ákvörðun um fjárhæð eignarnámsbóta verði einnig að taka tillit til framtíðarnýtingar lands eignarnámsþola, því eignarnám sé þvingunaraðgerð og að með henni sé eignarnámsþoli sviptur möguleika á að koma landi sínu í verð við heppilegar markaðsaðstæður og þegar uppbyggingu á landinu sé lokið eða hún komin lengra á veg. Eignarnámsþoli hafi ásamt fjölskyldu sinni hafið uppbyggingu ferðaþjónustu á landareign sinni, fengist hafi samþykki sveitafélagsins fyrir byggingu sjö sumarhúsa þar og þegar hafi fjögur þeirra verið reist og seld á leigu. Gera megi ráð fyrir að þessi uppbygging á landinu, nálægð þess við Höfn í Hornafirði og vaxandi ferðaþjónusta í Hornafirði sé til þess fallin að auka verðmæti landsins til endursölu á komandi árum. Um ferðamannastraum vísar eignarnámsþoli til fyrirliggjandi upplýsinga um umferðartölur og aukningu umferðar á svæðinu. Staðsetning þjóðvegar í landi eignarnámsþola sé ekki vænleg í sumarhúsabyggð og dragi úr verðgildi þess. Eignarnámsþoli telur að sú staðreynd að tekin hafi verið ákvörðun um staðsetningu fyrirhugaðs nýs þjóðvegar áður en uppbygging hófst breyti ekki nýtingarmöguleikum landsins í þessa veru. Nýr vegur muni einnig skilja frístundabyggð eignarnámsþola frá fjölskrúðugu fuglalífi í Flóanum, með tilheyrandi hljóð-, sjón- og loftmengun. Eignarnámsþoli vekur athygli á að landareign hans hafi töluverða sérstöðu að því er ásýnd og umhverfi hennar varðar, þar sem fallegir hólar og hæðir séu víðsvegar um landið, svonefndir Breiðhólar, en mikið flatlendi sé þess utan við Hornafjörð. Nýr vegur muni t.d. fara þvert yfir svonefndan Topphól, sem mörgum þyki mikil prýði í landslaginu. Eignarnámsþoli hafnar því að litið verði til þess að margir aðrir landeigendur á svæðinu hafi gengið að tilboði eignarnema, enda sé þar um að ræða landeigendur einkum vestan Hornafjarðarfljóts sem hafi ríka hagsmuni af nýjum vegi sem stytti vegalengd að þéttbýli á Höfn í Hornafirði. Eignarnámsþoli hafi á hinn bóginn enga hagsmuni af staðsetningu nýs vegar, enda búi hann á Höfn. Þá bendir eignarnámsþoli á gríðarlega hækkun fasteignaverðs á Höfn í Hornafirði samkvæmt yfirliti úr verðsjá Þjóðskrár Íslands, að gera verði ráð fyrir að lóðaverð hafi jafnframt hækkað einkum í tilviki lóða í grennd við Höfn líkt og við eigi um land eignarnámsþola, ásamt því að halda því fram að algengt sé að landspildur á bilinu 6-12 hektarar að stærð seljist á 10 til 20 milljónir króna á svæðinu án þess að styðja þá fullyrðingu gögnum.

Í öðru lagi krefst eignarnámsþoli þess að „eignarnema verði gert að greiða [sér] bætur fyrir tímabundið rask og ónæði sem hljótast muni af framkvæmdum [eignarnema] að fjárhæð 1.000.000 kr.“ Telur hann sanngjarnt að greiddar verði sérstakar bætur vegna ónæðis af völdum framkvæmdanna, því uppbygging ferðaþjónustu sé hafin fyrir landi hans sem muni óhjákvæmilega verða fyrir ónæði og raski á framkvæmdatíma, ásamt því að hávaða- og sjónmengun frá framkvæmdinni muni hafa áhrif þar á. Fyrirsjáanlegt sé að framkvæmdin muni taka langan tíma og verða til mikils óhagræðis og um bótafjárhæð er vísað til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 6. nóvember 2018 í máli nr. 1/2017, þar sem bætur fyrir rask vegna framkvæmda voru ákveðnar 1.000.000 krónur.

Í þriðja lagi krefst eignarnámsþoli þess að „eignarnema verði gert að greiða [sér] sérstakar bætur vegna þess að nýr vegur muni liggja um fallegt fjöruland við friðlýst fjörusvæði á landareign eignarnámsþola og takmarki þannig legu landsins að sjó að fjárhæð 1.500.000 kr.“ Telur eignarnámsþoli ljóst að umhverfi landareignarinnar muni gjörbreytast með tilkomu nýs vegar sem hafa muni áhrif á verðgildi hennar, að hann eigi ásamt fjölskyldu sinni eyjar í Hornafirði við landareignina og að tilkoma vegarins muni skilja landið, þar sem uppbygging ferðaþjónustu sé hafin og mest hafi verið nýtt til þessa, frá fjörulandinu sem liggur að eyjunum. Um bótafjárhæð er vísað til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 14. september 2012 í máli nr. 2/2012, þar sem bætur fyrir verðrýrnun jarðar vegna legu nýs vegar um fallegt fjöruland voru ákveðnar 1.500.000 krónur. Bótakröfuna telur eignarnámsþoli hóflega sökum þess hve langt sé liðið frá því úrskurðurinn gekk.

Í fjórða lagi krefst eignarnámsþoli þess að „eignarnema verði gert að greiða [sér] fyrir efnistöku úr hólum sem vegurinn mun liggja um að fjárhæð 500.000 kr.“ Telur hann eðlilegt að ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta taki tillit til þess rúmmáls af malarefni sem nýtist við framkvæmdir eignarnema. Feli efnistaka þessi af hálfu eignarnema í sér að umfang þess lands sem tekið sé eignarnámi sé meira en felist í sléttlendi og að venja standi til þess að greiða beri sérstaklega fyrir efnistöku.

Að síðustu krefst eignarnámsþoli málskostnaðar úr hendi eignarnema í samræmi við 11. gr. laga nr. 11/1973, sem samkvæmt fyrirliggjandi málskostnaðaryfirliti nemur 2.009.092 krónum vegna lögfræðiþjónustu að meðtöldum virðisaukaskatti. Krefst eignarnámsþoli þess að við ákvörðun málskostnaðar „verði tekið tillit til alls kostnaðar vegna eignarnámsins og skyldu til að greiða virðisaukaskatt af keyptri lögmannsþjónustu.“ Þá krefst eignarnámsþoli þess að höfð verði hliðsjón af því að lögmaður hans hafi í tvígang þurft að ferðast lengur en hálfa klukkustund í fyrirtökur og málflutning fyrir matsnefndinni og vísar í því samhengi til 5. gr. reglna dómstólasýslunnar nr. 11/2018 um málsvarnarlaun eða þóknun til verjanda og þóknun til réttargæslumanna o.fl.

VI

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnám á landspildu eignarnámsþola er til komið á grundvelli 37. gr. vegalaga í þágu framkvæmda við nýbyggingu þjóðvegar, Hringvegar um Hornafjörð, á um 18 km löngum kafla. Um ræðir vegalagningu frá Hólmi vestan Hornafjarðarfljóts, sem liggur sunnan Stórabóls, í suðurenda Skógeyjar, í norðurhluta Hríseyjar og Hrafnseyjar, sunnan Hafnarness, að núverandi Hafnarvegi. Þaðan liggur veglínan norðan við Flóa að núverandi vegi vestan Míganda allt til Haga. Núverandi vegstæði austan Haga verður á hinn bóginn endurbyggt allt til vegmarka endurnýjaðs vegar sem liggur að göngum í Almannaskarði. Af hálfu eignarnema er fram komið að framkvæmdin sé liður í að bæta umferðaröryggi á þjóðvegi, það er Hringvegi um Hornafjörð, og að vegurinn verði 8 metra breiður með bundnu slitlagi og öryggissvæði meðfram vegi þar sem því verði við komið, en vegrið þess utan, svo og að nýjar brýr yfir Djúpá, Hornafjarðarfljót, Hoffellsá og Bergá verði 9 metrar að breidd.

Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verður eignarnámi ekki við komið nema almenningsþörf krefji og þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 sker matsnefnd eignarnámsbóta úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögunum.

Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum, t.d. þeim sjaldgæfu tilvikum þegar svo hagar til að eignarnámsþola er skylt vegna fyrirmæla í lögum að halda áfram tiltekinni starfsemi sem hann hefur stundað á þeirri eign sem hann hefur verið sviptur.

Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 26. júní 2019 ásamt lögmönnum aðila og eignarnámsþola og kynnti sér aðstæður. Eignarnámið tekur til áðurgreindrar 66.851 fermetra landspilda í landi Dilksness (milli vegstöðva 14680 og 16300) og 3.350 fermetra krika, sem myndast á milli Hafnarvegar og nýs þjóðvegar, sem samkvæmt gögnum sem eignarnemi hefur aflað einkennist af mýrlendi, deiglendi og graslendi, með stöku blettum af mosagróðri, en ekki ræktuðu landi. Eignarnámsþoli vísar á hinn bóginn til þess að land hans sé nánast aðeins graslendi eða mjög gott ræktunarland. Vettvangsathugun leiddi í ljós gróið en fjölbreytt landslag fyrir landi eignarnámsþola, þ. á m. beitiland, ræktanlegt að hluta, og mosavaxna klapparhóla.

Er stærð matsandlagsins lýst hér á undan og óumdeild þegar virtur er endanlegur málatilbúnaður málsaðila fyrir matsnefnd, þ. á m. að eignarnema sé heimilt að draga frá matsandlaginu hluta eldra vegstæðis sem áfram nýtist, þótt aðila greini á um fyrir nefndinni hvort draga skuli frá matsandlaginu annan hluta eldra vegstæðis sem lagður verður af og skilað aftur til eignarnámsþola líkt og eignarnemi ráðgerir.

Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Engar slíkar röksemdir liggja fyrir í málinu. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þótt fyrir matsnefndinni liggi upplýsingar um stöku kaupsamning á landspildum í og við Hornafjörð, þar sem land eignarnámsþola er staðsett, er það álit nefndarinnar að ekki sé fyrir að fara virkum markaði um kaup og sölu lands á svæðinu. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins því reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 með síðari breytingum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.

Í fyrsta lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþola fyrir landspildu sem fer undir nýtt vegstæði. Telur matsnefndin að tilboð eignarnema, 30 krónur á fermetra, gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti landsins. Þá álítur matsnefndin að viðmiðunarverð það sem eignarnámsþoli byggir á og miðar við 80 krónur á fermetra gefi heldur ekki rétta mynd af verðmæti þess. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti landsvæðis austan Hornafjarðarfljóts nemi 60 krónum á fermetra eða 600.000 krónum á hektara. Er þá til þess að líta að landsvæðið sem um ræðir er á suðausturhorni landsins, í grennd við þéttbýliskjarna á Höfn í Hornafirði, það er gróðursælt og býr yfir náttúrufegurð, ásamt því að búa orðið við aukinn fjölda ferðamanna. Þá telur nefndin rök ekki standa til þess að gera greinarmun á verðmæti einstakra landspildna austan fljótsins. Miðað er við að landspildan sem sæti eignarnámi af hálfu eignarnema, taki til matsandlagsins sem á undan greinir, annars vegar 66.851 fermetra landspildu í landi Dilksness milli vegstöðva 14680 og 16300 og hins vegar 3.350 fermetra krika, sem myndast á milli Hafnarvegar og nýs þjóðvegar, Hringvegar um Hornafjörð, eða samtals 70.201 fermetri. Frá þeirri spildu dragast 1.786 fermetra hluti eldra vegstæðis, sem liggur um land eignarnámsþola, og nýtist áfram, svo og 2.462 fermetrar af eldra vegstæði innan lands eignarnámsþola sem lagðir verða af og skilað aftur til hans. Um síðastgreinda atriðið er til þess að líta að samkvæmt 4. mgr 39. gr. vegalaga skal við matsgerð, þegar eldri vegur leggst niður við lagningu nýs vegar og fellur til landeiganda, meta sérstaklega hið gamla vegsvæði og draga frá upphæð þeirri sem landeiganda er metin fyrir eignarnám lands fyrir hinn nýja veg eða jarðrask sem leiðir af lagningu hans. Skal bætur fyrir átroðning eigi meta í slíkum tilfellum nema sannað verði að meiri átroðningur stafi af hinum nýja vegi en af hinum eldri. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að meiri átroðningur stafi af hinum nýja vegi en leiði af hinum eldri og er þá meðal annars til þess að líta að í báðum tilvikum er um þjóðveg að ræða. Skulu því greiddar eignarnámsbætur fyrir 65.953 fermetra landspildu í landi Dilksness (70.201-1.786-2.462) og þykja hæfilegar eignarnámsbætur þannig vera 3.957.180 krónur (65.953x60). Eignarnámsþoli telur einnig að honum beri sérstakar bætur vegna efnistöku úr hólum sem fyrirhugað vegstæði mun liggja um, einkum með þeim rökum að hið eignarnumda land sé meira virði en sléttlendi. Við eignarnám fara fram aðilaskipti að þeirri eign sem tekin er eignarnámi og við það öðlast eignarnemi eignarrétt yfir hlutaðeigandi eign með öllum þeim gögnum og gæðum sem henni fylgja. Við ákvörðun um fjárhæð eignarnámsbóta fyrir landsvæði sem fer undir nýtt vegstæði, það er matsandlagið, hefur þannig verið tekið fullt tillits til verðmætis landspildu eignarnámsþola, þ. á m. jarðefnis innan landspildunnar sem eignarnemi kann að nýta við efnistöku í þágu fyrirhugaðrar framkvæmdar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. október 2009 í máli nr. 345/2008. Er þessari kröfu eignarnámsþola því hafnað. Samtals eru eignarnámsbætur vegna þessa þáttar áðurgreindar 3.957.180 krónur.

Í öðru lagi er það álit matsnefndarinnar að eignarnámsþola beri bætur fyrir þau fjárhagslegu áhrif sem nýtt vegstæði hefur á það land sem hann heldur eftir, það er verðrýrnun þar sem vegurinn skiptir landspildunni þannig að óhagræði hlýst af, án þess þó að til álita komi að beita heimildum 12. gr. laga nr. 11/1973. Matsnefndin telur rétt að miða verðrýrnun þessa við helming fermetraverðs vegna hins eignarnumda lands, það er 30 krónur á fermetra eða 300.000 krónur á hektara. Er það álit nefndarinnar að nýr vegur skipti landi eignarnámsþola á þann veg að verðrýrnun verði á landi sjávarmegin vegar sem nemi 3,3 hekturum í landi Dilksness og þykja hæfilegar eignarnámsbætur vera 990.000 krónur (3,3x300.000). Stærðarútreikningar þessir eru reistir á útreikningum eignarnema, sem eignarnámsþoli styðst jafnframt við í málinu, og voru útreikningarnir taldir ábyggilegir af hálfu beggja málsaðila þegar þeir voru inntir eftir því við munnlegan flutning málsins fyrir matsnefnd. Þá er það álit matsnefndar að með bótum fyrir verðrýrnun á landi sem eignarnámsþoli heldur eftir sjávarmegin vegar hafi honum verið ákveðnar bætur fyrir tjón af völdum umferðar nýs vegar um fjöruland og því er hafnað sjálfstæðri kröfu eignarnámsþola þar um. Það er einnig álit matsnefndar að þótt ekki komi til greiðslu bóta fyrir átroðning á grundvelli 4. mgr 39. gr. vegalaga vegna 2.462 fermetra af eldra vegstæði innan lands eignarnámsþola sem lagðir verða af og skilað aftur til hans, eins og áður greinir, beri eignarnámsþola réttur til bóta fyrir þau fjárhagslegu áhrif sem nýtt vegstæði hefur meðal annars á landið undir þessum hluta eldra vegstæðis sem skilað er aftur til hans, því eignarnámsþoli á ekki lengur land norðan eldra vegstæðisins og sunnan þess liggur 3.350 fermetra krikinn, sem myndast á milli Hafnarvegar og nýs þjóðvegar, Hringvegar um Hornafjörð. Matsnefndin telur einnig rétt að miða verðrýrnun þessa við helming fermetraverðs vegna hins eignarnumda lands, það er 30 krónur á fermetra  og þykja hæfilegar eignarnámsbætur vera 73.860 krónur (2.462x30). Loks er til þess að líta að svonefndur Topphóll er staðsettur innan landspildunnar sem fer undir nýtt vegstæði. Í vettvangsathugun matsnefndar kom fram að kennileiti þetta væri jafnframt nefnt Álfakirkja. Það er álit nefndarinnar að sú ákvörðun eignarnema að leggja náttúruperlu þessa undir nýtt vegstæði hafi áhrif til verðrýrnunar fyrir land í nágrenni hennar, sem eignarnámsþoli heldur eftir, þegar kennileitið er horfið úr landslaginu, svo og að auðveldlega hefði mátt sveigja hjá því. Bætur vegna þessa þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur. Samtals eru eignarnámsbætur vegna þessa þáttar 2.063.860 krónur.

Í þriðja lagi er það álit matsnefndarinnar að til komi rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma. Bætur vegna þessa þykja hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur.

Í síðari málslið 11. gr. laga nr. 11/1973 segir að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn. Í málinu hefur af hálfu eignarnámsþola verið lagt fram málskostnaðaryfirlit vegna lögfræðiráðgjafar í hans þágu eins og áður greinir. Að því virtu verður hæfilegt endurgjald til handa eignarnámsþola ákveðið að álitum, þ. á m. að teknu tilliti til ferðakostnaðar lögmanns eignarnámsþola sem ferðast þurfti í tvígang til Reykjavíkur vegna meðferðar máls þessa.

Með hliðsjón af áðurgreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur samtals vera 7.021.040 krónur. Eignarnemi skal greiða eignarnámsþola 2.010.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði.

Þá skal eignarnemi greiða 1.050.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Vegagerðin, skal greiða 7.021.040 krónur í eignarnámsbætur í máli þessu og eignarnámsþola, Kristjáni Jónssyni, samtals 2.010.000 krónur í málskostnað.

Þá skal eignarnemi greiða 1.050.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta