Hoppa yfir valmynd

Mál nr.96/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 14. maí 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 96/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 26. janúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann sama dag tekið ákvörðun um að stöðva greiðslur til hennar þar sem ekki hafi borist upplýsingar um óupplýstar tekjur í október 2011 sem óskað hafi verið eftir.

 

Kærandi skilaði inn umbeðnum gögnum 30. maí 2012 og var umsókn hennar í kjölfarið tekin fyrir að nýju á fundi stofnunarinnar og hún samþykkt frá og með 30. maí 2012. Var kæranda tjáð að hún fengi ekki greitt fyrir tímabilið frá 20. desember 2011 til 29. maí 2012 þar sem meira en þrír mánuðir væru liðnir frá því að henni hafði verið tilkynnt um ákvörðun stofnunarinnar um að stöðva greiðslur til hennar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, mótteknu 6. júní 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun 12. október 2009. Við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra virtist sem kærandi hafi haft tekjur í október 2011 frá lífeyrissjóði verslunarmanna að fjárhæð 3.291 kr. á sama tíma og hún þáði greiðslur atvinnuleysisbóta, án þess að hafa gert grein fyrir þeim. Kæranda var sent bréf, dags. 6. janúar 2012, og gefinn sjö daga frestur til að skila inn upplýsingum vegna þessa til Vinnumálastofnunar.

 

Engar upplýsingar bárust frá kæranda og var mál hennar tekið fyrir á fundi stofnunarinnar 26. janúar 2012. Með bréfi dagsettu sama dag var kæranda tilkynnt að þar sem upplýsingar um greiðslur til hennar í október 2011 hefðu ekki borist væru greiðslur bóta til hennar stöðvaðar. Jafnframt var tekið fram í bréfinu að ef Vinnumálastofnun berist umræddar upplýsingar yrði umsókn hennar tekin fyrir að nýju.

 

Vinnumálastofnun bárust umbeðnar upplýsingar 30. maí 2012 eða rúmlega fjórum mánuðum eftir að kæranda var tilkynnt um stöðvun greiðslna til hennar. Við móttöku upplýsinganna var umsókn kæranda tekin fyrir á fundi stofnunarinnar og var umsókn hennar um greiðslu atvinnuleysisbóta samþykkt frá og með 30. maí 2012. Var kæranda tjáð að hún fengi ekki greitt fyrir tímabilið 20. desember 2011 til 29. maí 2012 þar sem meira en þrír mánuðir væru liðnir frá því að henni hafði verið tilkynnt ákvörðun stofnunarinnar um að stöðva greiðslur til hennar.

 

Af hálfu kæranda kemur fram að þetta snúist um eina greiðslu frá lífeyrissjóði. Þetta séu alltaf sömu upphæðirnar í hverjum mánuði og því skilji hún ekki hvað hafi gerst. Hún kveðst ekki hafa látið vera að bregðast við beiðninni um upplýsingarnar heldur hafi hún beðið lífeyrissjóðinn um að senda upplýsingarnar til Vinnumálastofnunar en þeir hafi ekki gert það.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða dags. 14. júní 2012, bendir Vinnumálastofnun á að engar upplýsingar liggi fyrir um að kærandi hafi beðið lífeyrissjóðinn um að senda inn upplýsingar til Vinnumálastofnunar á sínum tíma.

 

Vinnumálastofnun vísar til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af ákvæðinu megi leiða að það hvíli rík upplýsingaskylda á kæranda að upplýsa um allt það sem kann að hafa áhrif á rétt hennar samkvæmt lögum þessum á þeim tíma sem hún fær greiddar atvinnuleysisbætur og þar með talið greiðslur frá lífeyrissjóðum.

Þá vísar Vinnumálstofnun enn fremur til 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í ákvæðinu sé meðal annars kveðið á um að tekjur sem kærandi þiggur úr almennum lífeyrissjóði geti skert atvinnuleysisbætur ef þær ásamt öðrum tekjum eru hærri en óskertur réttur til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki. Af ákvæðinu leiðir að ef Vinnumálastofnun berist ekki þær upplýsingar sem kveðið sé á um í ákvæðinu geti kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem henni bæri að endurgreiða.

 


Vinnumálstofnun greinir frá því að af samspili 3. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar leiði að ef kærandi sinnir ekki skýru boði Vinnumálastofnunar um að skila inn upplýsingum um tekjur þá geti það leitt til þess að stofnunin geti ekki ákvarðað rétta greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda og því sé umsókn hennar um atvinnuleysisbætur synjað þar til umbeðnar upplýsingar berist. Af þeim sökum hafi kæranda verið tilkynnt með bréfi, dags. 26. janúar 2012, að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar væru stöðvaðar.

Vinnumálastofnunar bendir á 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram komi að kærufrestur til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða séu þrír mánuðir. Kærandi hafi ekki skilað inn umbeðnum upplýsingum fyrr en 30. maí 2012 eða rúmlega fjórum mánuðum eftir að henni hafi verið tilkynnt um ákvörðun stofnunarinnar. Af þriggja mánaða fresti 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar leiði að Vinnumálastofnun hafi túlkað þau tilfelli þar sem gögnum er skilað eftir þrjá mánuði eða lengri tíma sé stofnuninni ekki fært að endurupptaka mál. Því hafi stofnunin litið á slíkt sem nýtt mál og tekið nýja ákvörðun í máli aðila á grundvelli þeirra upplýsinga.

 

Af þessum sökum líti Vinnumálastofnun svo á að þegar kærandi skilaði inn umbeðnum upplýsingum, 30. maí 2012, hafi hún skilað inn nýrri umsókn um atvinnuleysisbætur og því hafi ný ákvörðun verið tekin í máli hennar þá en eldri ákvörðun frá 26. janúar 2012 ekki endurskoðuð. Því sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu 20. desember 2011 til 29. maí 2012 þar sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar dags. 10. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. júlí 2012. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Í máli þessu liggur fyrir að með bréfi, dags. 26. janúar 2012, var kæranda tilkynnt að þar sem Vinnumálastofnun hafi ekki borist upplýsingar um óupplýstar tekjur kæranda sem óskað hafi verið eftir 5. janúar 2012 hafi stofnunin stöðvað greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar. Þá segir enn fremur að berist Vinnumálastofnun umræddar upplýsingar verði umsókn kæranda tekin fyrir á ný. Kærandi sendi inn umbeðin gögn 30. maí 2012 eða rétt tæpum fjórum mánuðum eftir að ákvörðun um stöðvun greiðslna til hennar var tekin. Vinnumálastofnun leit svo á að kærandi hefði skilað inn nýrri umsókn með þessu og var umsókn hennar samþykkt frá og með þeim degi. Stofnunin taldi sér ekki fært að endurupptaka mál kæranda þar sem þriggja mánaða kærufrestur skv. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar var liðinn.

 

Kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 6. júní 2012 þar sem kærandi greinir frá því að henni hafi ekki verið kunnugt um að umræddar upplýsingar hafi ekki borist en hún hafi beðið lífeyrissjóð sinn um að koma upplýsingunum til skila. Þar sem umsókn kæranda var samþykkt frá og með 30. maí 2012 hefur kærandi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þá ákvörðun fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Hvað varðar synjun Vinnumálastofnunar á greiðslum til kæranda fyrir tímabilið 20. desember 2011 til 29. maí 2012 er ekkert í gögnum máls þessa gefur hins til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.


 

Úrskurðarorð

Kæru A sem barst 6. júní 2012 er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta