Mál nr. 100/2012
A
gegn
umboðsmanni skuldara
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Þórhildur Líndal og Kristrún Heimisdóttir.
Þann 22. maí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 8. maí 2012, þar sem umsókn hans um greiðsluaðlögun var synjað.
Með bréfi, dags. 1. júní 2012, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 14. júní 2012.
Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 15. júní 2012 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.
I. Málsatvik
Kærandi er 52 ára og býr ásamt eiginkonu sinni í 148,8 fermetra íbúð með 14,8 fermetra bílskúr að B götu nr. 6 í sveitarfélaginu C. Eignin er í eigu eiginkonu kæranda.
Kærandi er án atvinnu og fær greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Útborgaðar tekjur hans eru að meðaltali 141.413 krónur.
Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 494.495.525 krónur og þar af falla 491.465.577 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun. Þær skuldir sem falla utan samnings eru vegna sekta og vangreidds virðisaukaskatts að fjárhæð 3.029.948 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2003-2007 og árið 2009.
Tekjur kæranda síðastliðin ár hafa verið eftirfarandi: Árið 2007 námu tekjur kæranda að frádregnum skatti 216.293 krónum að meðaltali á mánuði, árið 2008 voru þær að meðaltali 191.825 krónur á mánuði, árið 2009 að meðaltali 53.910 krónur á mánuði og árið 2010 að meðaltali 147.525 krónur á mánuði.
Kærandi lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun þann 17. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara dags. 8. maí 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með tilliti til heildarfjárhæðar skulda kæranda og neikvæðrar eignarstöðu hans, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að umboðsmaður skuldara byggi ákvörðun sína á því að háar skuldir og litlar eignir ásamt vangoldnum opinberum gjöldum fyrirtækja sem hann sé í forsvari fyrir geri það að verkum að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.
Að mati kæranda geta fjárhæðir skulda einar og sér eða neikvæð eignastaða varla talist málefnaleg ástæða til þess að hafna ósk hans um greiðsluaðlögun. Auk þess sé langt um liðið frá því að umsókn var lögð fram og skuldari hafi nú þegar leitast við að skila eignum til fjármálastofnana með samþykki embættis umboðsmanns skuldara. Þessu sé í engu getið og engar tilraunir gerðar af hálfu embættisins til þess að leiðrétta upphæðir til samræmis.
Kærandi mótmæli harðlega málsástæðum umboðsmanns skuldara um að skattskil tiltekinna fyrirtækja og „hugsanleg refsiverð háttsemi“ gæti mögulega leitt til þess að hann yrði rannsakaður, ákærður eða dæmdur, sem ólögmætri og grófri aðför að mannréttindum sínum. Í því sambandi megi vísa til 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár Íslands. Kærandi bendi á að það teljist brot gegn þessu ákvæði ef stjórnvöld lýsi yfir sekt manna án þess að dómur þess efnis liggi fyrir, svo og að stjórnvöld byggi ákvarðanir sínar á sekt sem ekki hafi verið sönnuð fyrir dómstólum. Umboðsmaður skuldara hafi því ekki heimild til þess að álíta að kærandi sé sekur eða hugsanlega sekur, þar sem eitt af grundvallaratriðum réttarríkisins sé að dómstólar ákvarði um sekt manna í kjölfar vandaðrar málsmeðferðar. Fyrri ákvarðanir kærunefndarinnar geti á engan hátt réttlætt slíkan rökstuðning.
Eðlilegur hluti af ferli greiðsluaðlögunar sé að skuldara sé í það minnsta leyft að hefja viðræður við kröfuhafa með aðstoð umsjónarmanns. Ekkert sé hægt að fullyrða um upphæð krafna án þess að slíkar viðræður fari fram. Mjög langan tíma hafi tekið að fá umsókn kæranda afgreidda en það hafi valdið honum mikilli óvissu um framtíð sína. Kærandi hafi með samþykki umboðsmanns skuldara reynt sitt ítrasta til þess að vinna með lánadrottnum sínum og stórlækkað þær kröfur sem upphaflega voru til staðar. Það skjóti skökku við að loksins þegar að hægt sé að sjá til lands skuli umboðsmaður skuldara taka illa rökstudda ákvörðun sem í raun fari gegn hagsmunum bæði kæranda og lánadrottna hans.
III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara
Í ákvörðun umboðsmanns skuldara, dags. 8. maí 2012, kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. laganna. Í liðum a-g í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lge. er greint frá því að ástæðurnar sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. gr. laganna eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari skuli eiga kost á greiðsluaðlögun ef vanda hans megi að einhverju eða öllu leyti rekja til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.
Í d-lið 2. mgr. lge. kemur fram að við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar beri m.a. að líta til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Í framkvæmd hafi ákvæðið verið túlkað á þann veg að skattskuldir sem refsing liggur við, geti girt fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei. Framangreind túlkun á ákvæðinu hafi verið staðfest með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála frá 20. september 2011 í máli nr. 10/2011.
Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, er það refsivert ef skattskyldur maður afhendir ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum borið að innheimta. Fyrir liggi í málinu að vangoldinn og gjaldfallinn virðisaukaskattur kæranda frá árinu 2006 nemi 2.977.961 krónu. Fjárhæðin sé að öllu leyti byggð á álagningu ríkisskattstjóra á grundvelli framlagðra virðisaukaskattskýrslna. Samkvæmt skattframtali 2011 vegna tekna ársins 2010 nemi heildarskuldbindingar kæranda 494.495.525 krónum. Eignir kæranda voru 11.524.388 krónur og var eignastaða kæranda því neikvæð um 482.971.137 krónur. Þótt fjárhæð framangreindrar skuldar vegna opinberra gjalda sé tiltölulega lág miðað við heildarskuldir kæranda, þá sé ekki unnt að líta framhjá fjárhæð heildarskulda og neikvæðri eignastöðu hans við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Í hlutafélagaskrá komi fram að kærandi sé stjórnarmaður í félaginu X ehf. og því hvíli meðal annars á honum sú skylda að sjá til þess að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félags, sbr. 3. mgr. 44. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá skuli fyrirsvarsmaður félags hlutast til um að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda að viðlögðum sektum eða refsingu, sbr. 1., 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Í því samhengi megi líta til dóms Hæstaréttar í máli nr. 659/2009, frá 14. október 2010, en þar var ákærða, sem framkvæmdastjóra, stjórnarmanni og prókúruhafa, gerð refsing fyrir að hafa hvorki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum né virðisaukaskatti fyrir hönd félagsins.
Í yfirliti Tollstjóra vegna X ehf. komi fram að félagið hafi ekki staðið skil á opinberum gjöldum, þ.e. virðisaukaskatti á árunum 2009-2010 að fjárhæð 1.390.902 krónur, staðgreiðslu launagreiðanda á árinu 2011 að fjárhæð 615.219 krónur, fésekt ársreikningaskrár að fjárhæð 251.840 krónur á árinu 2001, aðflutningsgjöldum í tolli að fjárhæð 150.588 krónur á árinu 2009 og þing- og sveitarsjóðsgjöldum að fjárhæð 1.270.760 krónur á árunum 2009-2011. Samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóranum í Reykjavík eru framangreind gjöld að hluta til byggð á áætlun, en þau eru gjaldfallin og í vanskilum.
Með bréfi umboðsmanns skuldara, dags. 2. mars 2012, var kærandi upplýstur um að hluti af vangoldnum gjöldum væri byggður á áætlunum og var honum jafnframt leiðbeint um leiðréttingu á áætluðum gjöldum og/eða staðfestingu á álögðum gjöldum við umboðsmann skuldara. Kærandi hafi skilað skýrslum til umboðsmanns skuldara en í ljós hafi komið að um rangar skýrslur var að ræða. Kæranda hafi verið greint frá þessu og honum veittur frestur til að skila umbeðnum gögnum en þau hafi ekki borist.
Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til úrlausna kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að með tilliti til heildarfjárhæðar skulda kæranda og neikvæðrar eignastöðu hans, þyki óhæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.
Í greinargerð umboðsmanns skuldara, dags. 14. júní 2012, komi fram að sú fjárhæð sem kærandi skuldi vegna vangoldins virðisaukaskatts geti ekki talist smávægileg. Taka verði tillit til þess að kærandi hafi um langt skeið skuldað mun meira en eignir hans stæðu undir og að tekjur hans hafi verið lágar. Þegar litið sé til þessara þátta og aðstæðna að öðru leyti verði ekki annað ályktað en að umrædd skuld teljist einhverju nema miðað við fjárhag hans. Þá sé kærandi í fyrirsvari sem stjórnarmaður fyrir félag sem skuldi einnig umtalsverða fjárhæð vegna vangoldinna opinberra gjalda, fyrst og fremst vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu launagreiðanda.
Hvað varði áhrif skulda félaga sem umsækjandi um greiðsluaðlögun er í fyrirsvari fyrir, sem stofnað hafi verið til með refsiverðri háttsemi, má auk úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 10/2011, vísa til úrskurðar kærunefndarinnar frá 14. maí 2012 í máli nr. 59/2011. Í úrskurðinum var staðfest að við matið samkvæmt 2. mgr. 6. gr. beri að líta til slíkra skulda.
Kæranda hafi verið gerð ítarleg grein fyrir þeim upplýsingum og gögnum sem lágu fyrir í máli hans með andmælabréfi dags. 2. mars 2012. Þar hafi meðal annars verið greint frá heildarskuldum kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Kærandi hafi engar athugasemdir gert við þá framsetningu áður en ákvörðun var tekin í máli hans. Á umboðsmanni skuldara hvíli leiðbeiningar- og rannsóknarskylda, en þær skyldur geta ekki náð lengra en með sanngirni má ætla af embættinu. Hafi skuldastaða kæranda verið önnur en fram kom í bréfinu hefði kæranda borið að verkja athygli umboðsmanns skuldara á því. Þar sem kærandi hvorki tjáði sig um efni bréfsins né skilaði umbeðnum gögnum var tekin ákvörðun í samræmi við fyrirliggjandi gögn.
Samkvæmt gögnum umboðsmanns skuldara hafi kærandi selt eignir fyrir 39.000.000 króna á meðan umsókn hans var til meðferðar hjá umboðsmanni skuldara. Telji umboðsmaður skuldara fjárhæðina tiltölulega lágt hlutfall af heildarskuldum kæranda og geti hún því ekki hafa bætt eignarstöðu hans svo neinu nemi. Þetta atriði geti ekki haft áhrif á það mat sem fram fór þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Þá hafa ekki verið lögð fram nein gögn sem bendi til þess að eignir kæranda séu meira virði en fyrirliggjandi gögn gáfu tilefni til að áætla.
Hafi ekki tekist samningar um uppgjör skulda eða ábyrgðaskuldbindinga geti umsækjandi ekki gert ráð fyrir því að fá heimild til greiðsluaðlögunar í þeim tilgangi að knýja kröfuhafa til slíkra samninga, þegar svo hátti til að óhæfilegt þykir að veita honum greiðsluaðlögun með vísan til þess að hann hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Því sé umboðsmanni skuldara ekki unnt að taka tillit til athugasemda kæranda í þessum efnum.
Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar og þess sem að framan greinir fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggir á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar, en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.
Skuldin sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi er vangoldinn virðisaukaskattur að fjárhæð 2.977.961 króna.
Í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga eru sérákvæði sem gilda um meðferð og áhrif skulda vegna vangoldins virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda. Hvorki frjáls samningur um greiðsluaðlögun né nauðasamningur til greiðsluaðlögunar tekur til þessara krafna, sbr. f-lið 3. gr. lge. og a-lið 1. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti. Af þessum sökum hefur samningur, eða eftir atvikum nauðasamningur til greiðsluaðlögunar, ekki áhrif á greiðsluskyldu skuldara hvað þessar skuldir varðar.
Áður en úrræðið um samningsbundna greiðsluaðlögun einstaklinga tók gildi 1. ágúst 2010 voru ákvæði um nauðasamninga til greiðsluaðlögunar í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Ákvæði þessi voru lögfest með lögum nr. 24/2009 og tóku gildi 1. apríl það ár. Ákvæðin eru í X. kafla a, sem nú nefnist nauðasamningur til greiðsluaðlögunar. Úrræði um nauðasamning til greiðsluaðlögunar tók til allra svokallaðra samningskrafna eins og þær eru skilgreindar í 29., sbr. 28. gr. gjaldþrotaskiptalaga, þ.m.t. allra skattskulda. Því höfðu nauðasamningar til greiðsluaðlögunar sömu áhrif á lækkun og/eða brottfall þessara krafna og annarra skulda þeirra sem fengu samþykkta nauðasamninga. Með lögum nr. 135/2010, sem tóku gildi 1. desember 2010, var ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga breytt á þann veg að sömu kröfur og undanþegnar eru áhrifum samningsbundinnar greiðsluaðlögunar eru einnig undanþegnar áhrifum nauðasamninga til greiðsluaðlögunar.
Við mat á því hvort rétt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar vegna skulda sem geta bakað skuldara refsingu, svo sem gildir um vörsluskatta, skiptir það máli hver afdrif þessara skulda verða, nái greiðsluaðlögun fram að ganga. Með öðrum orðum þá er mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til greiðsluaðlögunar meðal annars háð því hvort hann losnar þar með undan greiðsluskyldu slíkra skuldbindinga eða ekki. Eins og áður segir er skuldum vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu skatta nú haldið utan við réttaráhrif greiðsluaðlögunar öfugt við það sem gilti áður en lögin um greiðsluaðlögun einstaklinga voru sett og framangreindar breytingar voru gerðar á ákvæðum gjaldþrotaskiptalaga. Af þessum sökum geta dómar, sem kveðnir voru upp í tíð eldri laga, ekki haft ótvírætt fordæmisgildi við þetta mat jafnvel þótt til þeirra sé vísað í athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi til laga um greiðsluaðlögun einstaklinga.
Kærunefndin telur ekki að það hlutfall skulda sem til eru komnar vegna skatta og opinberra gjalda sé slíkt að það eitt og sér geti leitt til þess að kæranda verði synjað um heimild til greiðsluaðlögunar. Líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Eins og á stendur í máli þessu liggur fyrir að sú skuld sem ekki fellur undir samning um greiðsluaðlögun er veruleg, sé litið til tekna kæranda og nettóeignastöðu hans. Þannig virðist ómögulegt að hann muni geta staðið í skilum með þær greiðslur, jafnvel þó allar aðrar skuldir hans yrðu felldar niður í samningi um greiðsluaðlögun. Í ljósi þess verður að telja að skuldir kæranda sem falla undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu svo háar að ekki sé hæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.
Með vísan til þess sem að framan greinir er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.
Lára Sverrisdóttir
Kristrún Heimisdóttir
Þórhildur Líndal