Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 83/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 83/2022

Fimmtudaginn 2. júní 2022

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. febrúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 4. janúar 2022, um að synja beiðni hennar um greiðslu húsnæðisbóta aftur í tímann.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 29. nóvember 2021, sótti kærandi um greiðslur húsnæðisbóta. Sama dag óskaði kærandi eftir greiðslum húsnæðisbóta aftur í tímann frá 1. september 2021. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 8. desember 2021, var kæranda tilkynnt að umsóknin hefði verið samþykkt og fékk hún greiddar húsnæðisbætur frá og með umsóknarmánuði. Þann 4. janúar 2022 ítrekaði kærandi beiðni um greiðslu húsnæðisbóta aftur fyrir umsóknardag. Kæranda barst svar samdægurs þar sem kom fram að húsnæðisbætur væru greiddar frá umsóknarmánuði og að óheimilt væri að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 3. febrúar 2022. Með erindi, dags. 8. febrúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir því að kærandi legði fram afrit af hinni kærðu ákvörðun. Sú beiðni var ítrekuð með tölvupósti til kæranda 21. febrúar 2022. Umbeðin gögn bárust ekki. Með erindi til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 9. mars 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir að stofnunin legði fram afrit af ákvörðun í máli kæranda. Svar barst 10. mars 2022 og með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var óskað eftir greinargerð stofnunarinnar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð þann 7. apríl 2022 og aftur þann 2. maí 2022. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 3. maí 2022 og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. maí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að hún hafi þann 1. september 2021 tekið við leiguhúsnæði að X. Hún hafi farið með leigusamning til þinglýsingar og fengið að vita að það væru útlendingar skráðir á eignina og af þeim sökum gæti hún ekki þinglýst leigusamningnum. Kærandi hafi rætt við leigusala en það hafi tekið Þjóðskrá  tæpa tvo mánuði að afskrá fyrri leigjendur. Kærandi sé með leigusamning sem sé dagsettur 1. september 2021. Hún sé afar fátæk og megi ekki við því að missa bætur. Hún hafi haft samband við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og henni verið tjáð að hafa ekki áhyggjur þar sem samningurinn væri dagsettur 1. september og því fengi hún greiddar bætur aftur í tímann þegar þinglýsing hefði farið fram.

Í desember hafi kærandi sótt um hjá HMS og fengið synjun um greiðslu bóta aftur í tímann þar sem hún hafi ekki sent inn umsókn í september. Starfsmenn stofnunarinnar hafi verið með hreyting og sagt henni að hún fengi ekki bætur afturvirkt. Þetta hafi sett fjárhag kæranda á hliðina þar sem hún hafi gert ráð fyrir þessum bótum eftir áðurnefnt símtal sem starfsmenn HMS vilji ekki kannast við. Kærandi sé manneskja sem þurfi að reikna allt út um öll mánaðamót og sé með allt á hreinu svo að hún lendi ekki í veseni. Hér sé verið að svindla á henni. Hún muni líklega missa leiguhúsnæðið þar sem hún hafi ekki getað greitt fyrir einn mánuð sökum þess að hún hafi talið sig vera að fá afturvirka greiðslu sem henni hafi síðan verið neitað um. Hún þurfi aðstoð og vilji því kæra ákvörðun HMS. Hún sé með samning, dagsettan 1. september 2021, og hafi hringt og leitað upplýsinga hjá HMS en starfsmenn stofnunarinnar segi hana ekki geta sýnt fram á það þar sem hún hafi ekki tekið símtalið upp. Kærandi eigi tvö börn og þurfi á þessum bótum að halda. Þetta séu ekki mistök af hennar hálfu. Hún eigi ekki tölvu og sé að gera þetta í gegnum síma.

Kærandi eigi engin orð og hafi talið sig getað treyst á upplýsingar frá stofnuninni sem hún hafi fengið í gegnum síma. Hún hafi hringt til að athuga hvað hún ætti að gera, þrátt fyrir að þau viðurkenni það ekki. Fólk sem þurfi að hugsa fyrir hverri krónu geri það. Sérstaklega þegar um sé að ræða húsnæðið sem hýsi hana og börnin hennar. Hún hafi ekki sent inn umsókn í september þar sem henni hafi verið tjáð að hún þyrfti að þinglýsa fyrst.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að kærandi hafi skilað inn umsókn um húsnæðisbætur þann 29. nóvember 2021. Sama dag hafi kærandi sent inn erindi þar sem hún hafi farið fram á að fá greitt aftur fyrir umsóknardag. Stofnunin hafi svarað erindi kæranda samdægurs og greint frá því að óheimilt væri að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði. Þann 8. desember 2021 hafi umsókn kæranda verið samþykkt. Þann 4. janúar 2022 hafi kærandi ítrekað beiðni sína um greiðslu húsnæðisbóta aftur fyrir umsóknardag. Erindi kæranda hafi verið svarað samdægurs með tölvupósti þar sem stofnunin hafi rökstutt ákvörðun sína um að veita ekki húsnæðisbætur aftur fyrir umsóknardag.

Í máli þessu sé deilt um höfnun HMS á afgreiðslu húsnæðisbóta aftur fyrir þann mánuð sem umsókn kæranda hafi verið gerð. Í greinargerð kæranda komi fram að hún telji að réttur sinn til húsnæðisbóta skuli taka gildi frá dagsetningu þinglýsts húsaleigusamnings.

Í 2. mgr. 21. gr. laga um húsnæðisbætur sé kveðið skýrt á um að húsnæðisbætur skuli reiknast frá og með þeim almanaksmánuði þegar framkvæmdaraðili móttaki umsókn um húsnæðisbætur og jafnframt að óheimilt sé að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann. Fyrir liggi að umsókn kæranda um húsnæðisbætur hafi verið skilað til stofnunarinnar þann 29. nóvember 2021 og að réttur til húsnæðisbóta hafi verið staðfestur frá 1. nóvember 2021. Fram komi í svörum stofnunarinnar til kæranda að ákvörðun um að veita ekki húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá fyrsta degi umsóknarmánaðar sé vegna fyrrnefnds lagaákvæðis sem heimili ekki slíkar greiðslur. HMS geri kröfu um að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 4. janúar 2022 um að synja beiðni kæranda um greiðslu húsnæðisbóta aftur í tímann.

Í 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur komi til greiðslu í fyrsta skipti fyrsta dag næsta almanaksmánaðar eftir að réttur til bóta hafi verið staðreyndur. Húsnæðisbætur skuli þó reiknast frá og með þeim almanaksmánuði þegar framkvæmdaraðili móttekur umsókn um húsnæðisbætur vegna leigutíma þess almanaksmánaðar eða hluta úr þeim mánuði, hafi leigutími hafist síðar en fyrsta dag almanaksmánaðar. Óheimilt sé að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann. Þrátt fyrir 1. og 2. málsl. verða húsnæðisbætur aðeins greiddar vegna almanaksmánaðar eða hluta úr almanaksmánuði þegar leigutími er hafinn og koma til greiðslu fyrsta dag næsta almanaksmánaðar á eftir. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 skulu húsnæðisbætur einungis veittar sé umsækjandi aðili að þinglýstum leigusamningi um íbúðarhúsnæði sem sé til að minnsta kosti þriggja mánaða.

Kærandi lagði inn umsókn um húsnæðisbætur 29. nóvember 2021 og fékk greiddar húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði. Kærandi hefur vísað til þess að hún telji að réttur sinn til húsnæðisbóta eigi að taka gildi frá dagsetningu þinglýsts húsaleigusamnings. Þá hefur kærandi vísað til þess að starfsmaður HMS hafi tjáð henni að hún fengi greiddar bætur aftur í tímann þar sem leigusamningur væri dagsettur 1. september. Því beri henni að fá greiddar húsnæðisbætur frá 1. september 2021. Samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 er óheimilt að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði, auk þess sem skilyrði er að umsækjandi sé aðili að þinglýstum leigusamningi um íbúðarhúsnæði. Að því virtu er ákvörðun HMS um að synja beiðni kæranda um greiðslu húsnæðisbóta aftur í tímann staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 4. janúar 2022, um að synja beiðni A, um greiðslu húsnæðisbóta aftur í tímann, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta