Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 84/2022-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 84/2022

Miðvikudaginn 29. júní 2022

A

gegn

Barnavernd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur

Með kæru, dags. 3. febrúar 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B frá 15. desember 2021 vegna synjunar umsóknar kæranda og maka hennar um leyfi til að gerast stuðningsfjölskylda.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi ásamt maka sínum sótti um leyfi til að gerast stuðningsfjölskylda og var umsókn þeirra tekin fyrir á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B þann 15. desember 2021. Í bókuninni var vísað til þess að vegna þeirra tilkynninga sem borist hafi vegna dætra kæranda telji Barnavernd B vafa leika á því að kærandi og maki hennar geti tryggt öryggi barns í sinni umsjón. Umsókn kæranda um leyfi til að gerast stuðningsforeldri hafi því verið synjað.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. febrúar 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 9. febrúar 2022, var óskað eftir greinargerð Barnaverndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndar B barst nefndinni með bréfi, dags. 23. febrúar 2022, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. febrúar 2022, var hún send kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi óski þess að synjun um leyfi til að gerast stuðningsforeldri verði endurskoðuð þar sem það séu um X ár frá aðkomu barnaverndar að máli vegna elstu dóttur hennar. Stúlkan sé greind með […]. Kærandi kveðst aldrei hafa fengið að vita hvers vegna það var sent til barnaverndar, án þess að tala við foreldra hennar fyrst. Kærandi kveðst skilja vel að önnur þrjú mál hafi ratað inn til barnaverndar vegna […] þar sem hegðun hennar hafi verið mjög erfið sem barn. Kærandi óskar þess að málið verði skoðað betur og henni gefið tækifæri til að gerast stuðningsforeldri í eitt til tvö ár og svo jafnvel metið eftir það. Kærandi, sem er […], treysti sér fullkomlega til að aðstoða fjölskyldu eina helgi í mánuði. Hún hafi […] og finnist sárt að það eigi að stoppa hana í að gerast stuðningsforeldri vegna hegðunar […] fyrir um X árum síðan.

III.  Sjónarmið Barnaverndar B

Barnavernd B krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Samkvæmt 27. gr. reglugerðar nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga, skulu þeir sem óska eftir að taka að sér hlutverk stuðningsfjölskyldu sækja um leyfi til barnaverndarnefndar í sínu heimilisumdæmi. Samkvæmt 30. gr. málsmeðferðareglna Barnaverndar B sjá starfsmenn Barnaverndar B um móttöku, vinnslu og meðferð slíkra umsókna. Deildarstjóri afgreiðir umsóknina að gagnaöflun lokinni. Í greinargerð H, dags. 12. nóvember 2021, var það mat þeirra að kærandi uppfyllti kröfur sem gerðar væru til stuðningsforeldra og var mælt með því að hún fengi leyfi sem fósturforeldri. Í greinargerðinni komu ekki fram upplýsingar um þær tilkynningar sem Barnavernd B hafa borist vegna mál dætra kæranda.

Alls hafa Barnavernd B borist fimm tilkynningar í máli C og tvær tilkynningar í máli D og E sem búa á heimili kæranda. Tilkynningarnar bárust árin […].

[…]

Fjallað var um umsókn kæranda og G á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar B þann 15. desember 2021. Í bókun meðferðarfundar er vísað til 26. gr. reglugerðar nr. 652/2002 þar sem fram kemur að með stuðningsfjölskyldu sé átt við aðila sem fenginn sé á vegum barnaverndarnefndar fyrst og fremst til að taka á móti barni, eða í sumum tilvikum barni og foreldrum, á einkaheimili í því skyni meðal annars að tryggja öryggi barnsins, létta álagi af barni og fjölskyldu þess og leiðbeina foreldrum og styðja í uppeldishlutverkinu samkvæmt d-lið 24. gr. og 85. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. […]

Að mati Barnaverndar B sé nauðsynlegt að horfa til þess að þrátt fyrir að ekki hafi verið talin ástæða til inngripa í málefni barna kæranda vegna fyrrgreindra tilkynninga sé ekki unnt að horfa fram hjá alvarleika þeirra. Þegar horft sé til þess að hlutverk stuðningsforeldra er samkvæmt reglugerð nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga að tryggja öryggi barns og leiðbeina foreldrum og styðja þau í uppeldishlutverkinu má ætla að gerðar séu ríkar kröfur til stuðningsforeldra og aðstæðna á heimilum þeirra. Börn sem þurfa á stuðningsfjölskyldu að halda hafa sum hver búið við ótryggar aðstæður og eiga aðstæður stuðningsfjölskyldna að vera hafðar yfir allan vafa. Með hliðsjón af því sem fram kom í tilkynningum varðandi málefni dætra kæranda sé það mat Barnaverndar B að ekki sé óumdeilt að hægt sé að tryggja öryggi barna í umsjá X og að túlka beri þann vafa börnum í hag.

IV.  Niðurstaða

Með hinni kærðu ákvörðun frá 15. desember 2021 var kæranda synjað um leyfi til að gerast stuðningsforeldri.

Í 85. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 kemur fram að barnaverndarnefndir skuli hafa tiltækar stuðningsfjölskyldur. Þeir sem óska eftir að taka að sér hlutverk stuðningsfjölskyldu skulu sækja um leyfi barnaverndarnefndar í sínu heimilisumdæmi. Ráðherra setur reglugerð þar sem meðal annars er kveðið á um skilyrði fyrir leyfisveitingu.

Í reglugerð nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, er í 26. gr. kveðið á um hlutverk stuðningsfjölskyldu. Fram kemur í 1. mgr. 26. gr. að með stuðningsfjölskyldu sé átt við aðila sem fenginn sé á vegum barnaverndarnefndar fyrst og fremst til að taka á móti barni, eða í sumum tilvikum barni og foreldrum, á einkaheimili í því skyni meðal annars að tryggja öryggi barnsins, létta álagi af barni og fjölskyldu þess og leiðbeina foreldrum og styðja þá í uppeldishlutverkinu samkvæmt d-lið 24. gr. og 85. gr. barnaverndarlaga.

Í 30. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um afgreiðslu umsóknar. Þar segir í 1. mgr. að barnaverndarnefnd sé heimilt að leita eftir upplýsingum um umsækjanda og aðbúnað á heimilinu frá öðrum aðilum, svo sem vinnuveitendum, öðrum barnaverndarnefndum, heilbrigðisfulltrúa og eldvarnareftirliti, enda sé umsækjanda gert kunnugt um það. Í 2. mgr. kemur fram að áður en barnaverndarnefnd afgreiðir umsókn skal fulltrúi nefndarinnar fara að minnsta kosti einu sinni á heimili umsækjanda og skrifa greinargerð um málið að lokinni gagnaöflun. Barnaverndarnefnd skal kynna umsækjanda greinargerðina og gefa honum kost á að koma að athugasemdum. Að því loknu skal nefndin afgreiða umsóknina með bókun.

Samkvæmt gögnum málsins framkvæmdi H, sem er samstarfsaðili Velferðarsviðs B, fyrir Barnavernd B mat á aðstæðum kæranda og maka hennar í kjölfar umsóknar þeirra um að gerast stuðningsforeldrar. Með greinargerð H, dags. 12. nóvember 2021, var lagt til að umsókn kæranda og maka hennar um leyfi til að gerast stuðningsforeldrar yrði samþykkt. Greinargerð H ásamt frekari gögnum, sem barnavernd aflaði sérstaklega vegna umsóknarinnar, var tekin fyrir á meðferðarfundi Barnaverndar B 15. desember 2021. Barnavernd B synjaði umsókninni á grundvelli þeirra gagna sem aflað hafði verið. Var það mat barnaverndar að vafi léki á því að kærandi og maki hennar gætu tryggt öryggi barns í sinni umsjá.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður að fallast á það sjónarmið Barnaverndar B að hæfi þeirra einstaklinga, sem veitt er leyfi til að styðja við börn, verði að vera hafið yfir allan vafa. Úrskurðarnefndin telur að ekki sé tilefni til að hrófla við mati Barnaverndar B í því máli sem hér um ræðir, þ.e. að það sé hafið yfir allan vafa að kærandi geti tryggt öryggi barns með með óyggjandi hætti.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta ákvörðun Barnaverndar B um að synja kæranda um leyfi til að gerast stuðningsforeldri.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar B frá 15. desember 2021 um að synja A, um leyfi til að gerast stuðningsforeldri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta