Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 10/2007

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 10/2007:

  

A

gegn

Borgarbyggð

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 27. júní 2008 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með kæru dagsettri 20. september 2007 óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort sveitarfélagið Borgarbyggð hefði með ráðningu í starf sérkennsluráðgjafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt Borgarbyggð með bréfi dagsettu 28. september 2007. Umsögn Borgarbyggðar barst með bréfi dagsettu 11. október 2007 og var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum við hana á framfæri með bréfi dagsettu 15. október 2007.

Athugasemdir kæranda við umsögn Borgarbyggðar bárust með bréfi dagsettu 18. október 2007 og voru þær sendar Borgarbyggð til kynningar með bréfi dagsettu 31. október 2007. Athugasemdir Borgarbyggðar bárust með bréfi dagsettu 12. nóvember 2007 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi dagsettu 14. nóvember 2007.

Með bréfi dagsettu 7. febrúar 2008 óskaði kærunefnd jafnréttismála eftir öllum gögnum sem lágu til grundvallar ákvörðun Borgarbyggðar um ráðningu í starf sérkennsluráðgjafa. Með bréfi dagsettu 22. febrúar 2008 barst listi yfir spurningar þær sem lagðar voru fyrir umsækjendur í viðtölum vegna starfsins auk vinnureglna Borgarbyggðar um ráðningar. Þá var umsókn þess sem stöðuna hlaut ásamt yfirliti yfir starfsferil og nám send nefndinni með bréfsendi þann 28. febrúar 2008. Voru umrædd gögn send kæranda til kynningar með bréfi dagsettu 28. febrúar 2008. Jafnframt var umsókn kæranda um stöðuna send nefndinni með bréfsendi þann 2. mars 2008.

Svo sem rakið er í inngangi kafla V hér á eftir náði fyrri kærunefnd jafnréttismála ekki að ljúka áliti í máli þessu áður en skipun hennar rann út hinn 1. maí 2008, en þá tók ný kærunefnd við málinu. Á fundi kærunefndar þann 3. júní síðastliðinn var ákveðið, í því skyni að afla frekari upplýsinga um málsatvik, að gefa málsaðilum kost á því að koma fyrir nefndina. Þann 13. júní síðastliðinn kom sveitarstjóri Borgarbyggðar á fund nefndarinnar auk þess sem haft var samband símleiðis við kæranda þar sem hann var staddur erlendis. Fundargerð frá fundinum var send málsaðilum til kynningar með tölvubréfi þann 20. júní síðastliðinn og bárust athugasemdir frá kæranda við fundargerðina sama dag.

Engin frekari gögn eða athugasemdir bárust nefndinni.

Vegna þeirra atvika sem að framan eru rakin hefur orðið dráttur á afgreiðslu máls þessa hjá kærunefnd jafnréttismála. Þá er dráttinn að hluta til að rekja til gagnaöflunar á vegum fyrri kærunefndar.

 

II.

Málavaxtalýsing

Málavextir eru þeir að Borgarbyggð auglýsti í maí 2007 laust til umsóknar starf sérkennsluráðgjafa við sérfræðiþjónustu skóla í sveitarfélaginu frá og með 1. ágúst 2007. Í auglýsingunni var tekið fram að sérkennsluráðgjafi starfaði samkvæmt reglugerð um sérfræðiþjónustu skóla og lögum um grunnskóla og leikskóla. Fram kom að helstu viðfangsefni sérkennsluráðgjafa væru að stuðla að því að kennslufræðileg þekking nýttist sem best í skólastarfi, að efla leikskóla og grunnskóla sem faglegar stofnanir og að veita starfsmönnum skóla leiðbeiningar og aðstoð vegna sérkennslu. Sérkennsluráðgjafi hefði aðsetur í Ráðhúsi Borgarbyggðar en ynni eftir þörfum í þremur grunnskólum og sex leikskólum sveitarfélagsins. Einnig kom fram að Dipl. Ed. eða M.Ed. í sérkennslufræðum væri skilyrði og að reynsla af sambærilegum störfum væri æskileg. Auk þess kom fram að búa þyrfti yfir færni í mannlegum samskiptum og hafa sjálfstæð vinnubrögð, skipulagshæfni, frumkvæði, áhuga og metnað í starfi.

Fjórir umsækjendur sóttu um starfið og voru þeir allir metnir hæfir af sveitarstjóra og fræðslustjóra Borgarbyggðar sem fóru yfir umsóknirnar. Eftir að hafa tekið viðtöl við alla umsækjendurna komust sveitarstjórinn og fræðslustjórinn að þeirri niðurstöðu að ráða konuna Á í starfið.

Kærandi telur að Borgarbyggð hafi með ráðningu í starf sérkennsluráðgjafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem sá kvenkyns umsækjandi sem ráðinn var í starfið hafi mun minni starfsreynslu, réttindi og menntun en kærandi.

Borgarbyggð mótmælir því að sveitarfélagið hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við ráðningu í starf sérkennsluráðgjafa enda hafi hæfasti umsækjandinn verið ráðinn í starfið.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Í kærunni greinir meðal annars að sú sem ráðin var hafi verið ráðin í starf sérkennsluráðgjafa þrátt fyrir að hafa mun minni starfsreynslu, menntun og réttindi en kærandi. Kærandi sé með kandídatspróf í sérkennslufræðum frá Háskólanum í Osló auk „Hovedfag“ sem sé sambærilegt við mastersritgerð. Aðalviðfangsefni ritgerðar kæranda hafi verið sérkennsla. Einnig hafi kærandi lokið talkennaraprófi og sé löggildur talmeinafræðingur. Kærandi hafi enn fremur stundað nám í sérkennslufræðum í Danmörku. Þá hafi kærandi starfað sem deildarstjóri sérdeildar og sinnt sérkennslu í um 20 ár. Kærandi hafi jafnframt sinnt sérkennsluráðgjöf í bæði leik- og grunnskólum í um það bil 20 ár, ýmist í hálfu eða fullu starfi með sérkennslu. Konan Á hafi aðeins Dipl. Ed. nám í sérkennslufræðum og takmarkaða starfsreynslu.

Samkvæmt umsókn kæranda er menntun hans eftirtalin: Kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands árið 1973, stúdentspróf frá sama skóla 1974, forspjallsvísindi við Háskóla Íslands 1974 og sérkennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands árið 1977. Þá stundaði kærandi einnig nám við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn í sérkennslu-, lestrar- og sálfræði 1980–1982, lauk prófi í talkennslu og talmeinafræði við Statens Spesiallærerhögskolen í Osló 1984 og „hovedeksamen“ í sérkennslufræðum frá sama skóla 1988. Loks tók kærandi embættispróf (Cand. paed. spec.) í sérkennslufræðum við Háskólann í Osló (UiO) árið 1993. Starfsferill kæranda er meðal annars tilgreindur svo í ferilskrá: Kennari við unglingadeild Austurbæjarskóla í Reykjavík 1973 og við Gagnfræðaskóla Akraness 1975–1977. Sérkennari við Öskjuhlíðarskóla í hálfu starfi 1977–1978. Stundakennsla við grunnskóla í Kaupmannahöfn 1979–1980. Sérkennsla og umsjónarmaður sérdeildar við Grunnskóla Akraness 1980–1983, stundakennsla við Fjölbrautaskóla Vesturlands 1980–1982, talkennsla og ráðgjöf við grunnskóla Vesturlands frá 1984 í tengslum við Fræðsluskrifstofu Vesturlands í Borgarnesi, sérkennslufulltrúi við Skólaskrifstofu Vesturlands 1997–2000, sérkennari og talkennari í hálfri stöðu við Grundaskóla á Akranesi 2000–2007 og stundakennari við Háskóla Íslands frá 2002. Undanfarin tíu ár kveðst kærandi hafa rekið eigin ráðgjafarþjónustu og unnið þar að sérkennsluráðgjöf í tengslum við forskóla- og grunnskólabörn. Einnig hafi hann unnið fyrir framhaldsskóla, endurmenntunarstofnanir og skóla- og fræðsluskrifstofur.

Rituð umsögn fræðslustjóra og forstöðumanns skólaskrifstofu Vesturlands, sem lögð hafi verið niður sumarið 2000, vissulega gömul en kærandi hafi ekki haft formlegan yfirmann síðan þar sem hann hafi starfað sem sjálfstæður sérkennsluráðgjafi við marga skóla og fyrir mörg sveitarfélög. Aftur á móti hafi verið nefndir nokkrir umsagnaraðilar í viðtali við fræðslustjóra og sveitarstjóra Borgarbyggðar svo þeir gætu fengið nýrri staðfestingu á „góðum starfsferli“ kæranda sem sérkennsluráðgjafi og skólaráðgjafi. Viðmælendur kæranda í viðtalinu hafi hvorki haft fyrir því að leita eftir slíkri umsögn né að ræða við uppgefna meðmælendur, til dæmis sviðsstjóra menningar- og fræðslumála í Mosfellsbæ. Umsögn fræðslustjóra undirstriki aftur á móti langan og farsælan starfsferil kæranda hjá Fræðsluskrifstofu Vesturlands sem sérkennsluráðgjafi og talkennari.

Umboðsmaður Borgarbyggðar leggi áherslu á að hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn. Kæranda þykir lítið gert úr gildi menntunar og starfsreynslu með slíkri ályktun. Sú kona sem ráðin hafi verið sé með eins árs nám í sérkennslufræðum og mjög litla starfsreynslu sem sérkennsluráðgjafi. Sú staðreynd sé ljós þar sem hún hafi nýlokið eins árs framhaldsnámi í sérkennslufræðum eftir kennarapróf. Kærandi sé með sex ára framhaldsnám í sérkennslufræðum eftir kennarapróf úr viðurkenndum háskólum á Íslandi, í Danmörku og í Noregi auk þess að vera með um 20 ára starfsreynslu í sérkennsluráðgjöf. Kærandi hafi jafnframt starfað eitt ár sem námsráðgjafi við framhaldsskóla.

Á skrifstofu Borgarbyggðar vinni nú fjórir einstaklingar sem allir sinni ráðgjöf við skóla, það er fræðslustjóri, félagsmálastjóri, sálfræðingur og sérkennsluráðgjafi. Um þrjár konur sé að ræða og einn karl. Hefði kærandi verið ráðinn hefði kynjaskipting orðið jöfn. Það liggi jafnframt fyrir að á Íslandi starfi konur í yfirgnæfandi meirihluta sem sérkennsluráðgjafar.

Kæranda sé kunnugt um að nýráðinn sérkennsluráðgjafi Borgarbyggðar hafi ekki aflað sér nauðsynlegrar kunnáttu með því að sækja sérhæfð námskeið til þess geta sinnt starfi sínu til fullnustu. Sú staðreynd dragi úr þeirri fullyrðingu umboðsmanns Borgarbyggðar að hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn. Sem dæmi um slík sérhæfð námskeið megi nefna réttindanámskeið á málþroskaprófið Told-2P og Told-2I, réttindanámskeið á íslenska Þroskalistann, réttindanámskeið á GRP-14 og GRP-10 og að lokum réttindanámskeið á Aston Index. Kærandi hafi lokið öllum þessum námskeiðum auk þess að hafa réttindi til þess að nota mörg önnur próf og matslista sem skipti máli þegar komi að ráðgjöf í leik- og grunnskólum. Einnig megi nefna að kærandi hafi lokið sérstökum námskeiðum í túlkun Hljóms, sem notað sé á öllum leikskólum, og í EFl, þroskamati heilsugæslu.

Það sé furðulegt að ákvörðunartaka um val umsækjanda hafi aðeins í verið höndum fræðslustjóra og sveitarstjóra Borgarbyggðar. Engar nefndir eða aðrir aðilar sem sinni skólaráðgjöf í Borgarbyggð eða stjórnsýslu hafi komið að ákvörðunartökunni. Ekki hafi heldur verið leitað eftir umsögnum frá uppgefnum umsagnaraðilum kæranda. Það telur kærandi vera furðulegt í ljósi þeirrar staðreyndar að stjórnsýsla Borgarbyggðar hafi fengið áminningu og skattgreiðendur Borgarbyggðar hafi þurft að borga háa fjárhæð þegar yfirmenn skólamála í Borgarbyggð töldu sig hafa ráðið hæfasta umsækjandann í stöðu aðstoðarskólastjóra Grunnskólans í Borgarnesi árið 1995.

Í viðtali á fundi kærunefndarinnar þann 13. júní 2008 tók kærandi meðal annars fram um sjálfstæð störf sín sem ráðgjafi að hann hefði verið í 50% starfi sem ráðgjafi í nokkrum grunn- og leikskólum í góðu samstarfi við heilsugæslu. Sú sem ráðin var í starf sérkennsluráðgjafa hefði hins vegar nær ekkert starfað í leikskólum. Hún hefði nú náð sér í ýmis réttindi sem hún hefði ekki haft þegar ráðið var í starfið. Kærandi hefði hins vegar haft öll þau réttindi í upphafi. Starf sérkennsluráðgjafa væri í raun gamla starf kæranda en hann hefði áður starfað hjá Fræðsluskrifstofu Vesturlands. Varðandi sjónarmið sín um starf sérkennsluráðgjafa sagðist kærandi hafa lagt áherslu snemmtæka íhlutun og svo hefðbundna þjónustu, svo sem lestrargreiningar í grunnskólum. Kærandi tók jafnframt fram að hann hefði hugsað sér að starfa sem sérkennsluráðgjafi samhliða áframhaldandi sérfræðiráðgjöf á eigin vegum. Starf sérkennsluráðgjafans væri aðeins 75% starf og hann hefði ætlað að sinna sjálfstæðri sérfræðiráðgjöf sem 25% starfi á móti. Kærandi sagði að hann hefði nefnt það sem hugsanlegan möguleika í viðtali vegna starfsins að hann sinnti einhverjum hluta þess frá skrifstofu sinni á Akranesi þar sem hann hefði góða starfsaðstöðu.

Í tölvubréfi kæranda til nefndarinnar frá 20. júní 2008 tók hann fram að hann hefði í viðtali vegna starfsins einungis minnst á það sem hugmynd en ekki sem skilyrði að hann sinnti starfinu að einhverju leyti frá Akranesi. Með því að sinna því að hluta frá Akranesi mætti spara akstur og nýta þá tækni sem til staðar sé, en þekkt sé að skrifstofuvinna taki allt að helming vinnutíma skólaráðgjafa. Það sé eðlilegt og sennilega réttur hvers og eins að vinna 100% vinnu. Kærandi hafi vitað áður en hann sótti um að aðeins væri um að ræða 70% eða 75% starf. Auðvelt hefði verið fyrir kæranda að minnka verktakastarfsemi sína niður í 25% prósent og sinna henni án þess að það hefði truflað störf hans í þágu Borgarbyggðar. Verktakastarfsemi kæranda falli reyndar einstaklega vel að starfi sérkennsluráðgjafa í Borgarbyggð þar sem um hliðstæða þjónustu sé að ræða en í engri samkeppni. Verktakastarfsemi kæranda fari ekki fram á Akranesi.

 

IV.

Sjónarmið Borgarbyggðar

Í umsögn Borgarbyggðar segir að kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi sveitarfélagsins fyrir þeirri ákvörðun að ráða konuna Á í starf sérkennsluráðgjafa. Með bréfi sveitarstjóra dagsettu 31. júlí 2007 hafi kæranda verið sendur rökstuðningur fyrir ákvörðuninni. Í því bréfi sé að finna þau sjónarmið sem máli skipti en þó skuli ítrekað að eftir að forsvarsmenn Borgarbyggðar hafi rætt við umsækjendur hafi það verið einróma niðurstaða sveitarstjóra og fræðslustjóra að konan Á uppfyllti allar þær kröfur sem gerðar voru til starfsins og tilgreindar voru í auglýsingu um það. Það skuli ítrekað að auk kennaramenntunar sé Á með diplómanám í sérkennslufræðum og hafi fjölbreytta reynslu af kennslu í grunnskólum. Hún hafi verið fagstjóri sérkennslu og veitt sérkennurum faglega ráðgjöf. Í viðtölum við Á hafi sjónarmið hennar um starfið og uppbyggingu þess komið fram. Þegar önnur atriði sem voru talin skipta máli við ráðninguna og sjónarmið Á til starfsins hafi verið virt í heild hafi það verið niðurstaða sveitarfélagsins að hún uppfyllti best þær kröfur sem gerðar voru til starfsins af þeim sem sóttu um. Á hafi uppfyllt allar þær kröfur sem gerðar voru til starfsins og vel það.

Vegna meðmæla sem fylgdu umsókn kæranda er tekið fram að þau voru margra ára gömul enda veitt af fyrrverandi fræðslustjóra, en Fræðsluskrifstofa Vesturlands hafi verið lögð niður fyrir nokkrum árum síðan. Því megi segja að umrædd meðmæli hafi litla sem enga þýðingu, enda skipti störf umsækjenda á undanförnum misserum jafnan meira máli við mat á hæfni þeirra.

Í kæru séu ekki tiltekin þau ákvæði jafnréttislaga, nr. 96/2000, sem kærandi telur að Borgarbyggð hafa brotið gegn við umrædda ráðningu. Þótt lögin hafi það markmið að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins sé ljóst að lögunum sé sérstaklega ætlað að bæta stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu, sbr. d-lið 1. gr. laganna. Það sjónarmið hafi Borgarbyggð haft að leiðarljósi við ráðningar í störf á undanförnum misserum og hafi oft í atvinnuauglýsingum hvatt konur sérstaklega til að sækja um störf. Þótt kynferði hafi ekki ráðið úrslitum við þessa ráðningu eða aðrar á vegum Borgarbyggðar hafi það að sjálfsögðu ekki þótt verra að hæfasti umsækjandinn hafi verið kona og með ráðningunni hafi sveitarfélagið þar með getað stuðlað að jafnrétti í anda jafnréttislaganna.

Athygli sé vakin á því að karlmaður starfi við umrædda sérfræðiþjónustu hjá Borgarbyggð líkt og áður en kom til ráðningar á sérkennsluráðgjafa. Með hliðsjón af því hafi einnig þótt eðlilegt og í raun æskilegt að ráða konu enda hafi viljað svo vel til að hún hafi jafnframt verið hæfasti umsækjandinn um starfið.

Kærandi vilji af einhverjum ástæðum gera lítið úr reynslu og menntun Á en það skuli ítrekað að hún hafi uppfyllt allar kröfur sem gerðar hafi verið til starfsins. Þá sé fráleitt að halda því framhún geti ekki sinnt starfi sínu sem skyldi vegna lítillar kunnáttu. Sú fullyrðing sé röng og eigi sér enga stoð í raunveruleikanum.

Það sé rangt hjá kæranda að það séu fjórir aðilar sem sinni sérkennsluráðgjöf við grunnskóla Borgarbyggðar. Þeirri ráðgjöf sinni tveir aðilar, kona sú sem ráðin var sem sérkennsluráðgjafi og karlkyns sálfræðingur. Fræðslustjóri og félagsmálastjóri sinni ekki sérkennsluráðgjöf eins og kærandi haldi fram.

Ekkert hafi verið athugavert við ráðningu í starf sérkennsluráðgjafa og önnur ráðningarmál komi þessu máli ekki við. Borgarbyggð hafi ekki við umrædda ráðningu brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga, nr. 96/2000.

Fyrir liggur í málinu yfirlit yfir starferil og nám Á, sem ráðin var, en þar kemur meðal annars fram að hún hafi lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1990, stundað nám í Frakklandi 1991, stundað nám við kennaraháskóla í Kaupmannahöfn á árinu 1994, lokið B.Ed. námi frá Kennaraháskóla Íslands 1995, auk þess hafi hún diplóma í sérkennslufræðum frá Kennaraháskóla Íslands 2006. Þá hafi sú sem ráðin var stundað kennslu, þ.m.t. umsjónarkennslu og fagstjórn í sérkennslu, á árunum 1997–2007.

Á fundi kærunefndar þann 13. júní 2008 tók sveitarstjóri Borgarbyggðar fram að starf sérkennsluráðgjafa væri 75% starf og að það hefði verið rætt í viðtölum við umsækjendur og viðbrögð þeirra könnuð. Sú sem ráðin var hefði eingöngu ætlað að sinna starfi sérkennsluráðgjafa en kærandi hefði ætlað að starfa sem sjálfstæður ráðgjafi áfram en í minna mæli en áður. Kærandi hefði minnst á hvort hann gæti sinnt starfinu að einhverju leyti frá Akranesi og hefði rætt um sveigjanleika í starfi, meðal annars til að geta sinnt áfram öðru starfi meðfram starfi sérkennsluráðgjafa. Borgarbyggð hafi metið það svo að það gæti háð kæranda í starfi að vinna í öðru samhliða. Sú sem ráðin var hafi lagt áherslu á að hún ætlaði einungis að einbeita sér að starfi sérkennsluráðgjafa fyrir Borgarbyggð. Hún sé að vísu með minni menntun en kærandi en Borgarbyggð hafi litið svo á að hún uppfyllti faglegar kröfur, það er um menntun og starfsreynslu.

 

V.

Niðurstaða

Hinn 17. mars síðastliðinn tóku gildi ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III gilti umboð kærunefndar jafnréttismála samkvæmt áður gildandi lögum, nr. 96/2000, fram til þess tíma er ráðherra skipaði nýja kærunefnd jafnréttismála. Ný kærunefnd jafnréttismála var skipuð með bréfi félags- og tryggingamálaráðherra dagsettu 16. apríl 2008 og tók skipunin gildi 1. maí síðastliðinn. Þar sem fyrri kærunefnd hafði ekki lokið áliti sínu tók nýskipuð nefnd mál þetta til meðferðar.

Ekki er í lögum nr. 10/2008 kveðið á um lagaskil vegna mála sem til meðferðar voru hjá kærunefnd jafnréttismála fyrir gildistöku nýju laganna. Af hálfu nefndarinnar er litið svo á, að því er varðar mál sem til meðferðar voru við lagaskilin, að nefndin skuli miða álit sitt við lög sem í gildi voru þegar atvik þau urðu sem eru tilefni kæru til nefndarinnar. Álit þetta er því byggt á lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna.

Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.

Kærandi hefur óskað eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þegar Borgarbyggð réð konu í stöðu sérkennsluráðgjafa í júní 2007.

Í auglýsingum um starfið sem birtar voru í fjölmiðlum í maí 2007 kom fram að sérkennsluráðgjafi starfi samkvæmt reglugerð um sérfræðiþjónustu skóla og lögum um grunnskóla og leikskóla. Helstu viðfangsefni séu að stuðla að því að kennslufræðileg þekking nýtist sem best í skólastarfi, að efla leikskóla og grunnskóla sem faglegar stofnanir og að veita starfsmönnum skóla leiðbeiningar og aðstoð vegna sérkennslu. Sérkennsluráðgjafi hafi aðsetur í Ráðhúsi Borgarbyggðar en vinni eftir þörfum úti í þremur grunnskólum og sex leikskólum. Menntunar- og hæfniskröfur vegna starfsins voru samkvæmt auglýsingunni að Dipl. Ed. eða M.Ed. í sérkennslufræðum væri skilyrði, reynsla af sambærilegum störfum æskileg, auk þess sem færni í mannlegum samskiptum, sjálfstæð vinnubrögð og skipulagshæfni, frumkvæði, áhugi og metnaður í starfi væru áskilin.

Í ferilskrá kæranda er menntun hans og starfsreynsla rakin, sbr. III. kafla hér að framan. Af ferilskránni má ráða að kærandi hafi umfangsmeiri menntun á sviði kennslumála en sú sem ráðin var, þ.m.t. sérkennslu, auk þess sem kærandi telst hafa meiri starfsreynslu á þeim sviðum sem um ræðir. Að því leyti til má líta svo á að kærandi hafi staðið þeirri sem ráðin var framar.

Svo sem rakið er hér að framan er óumdeilt að um var að ræða ráðningu í hlutastarf, og var starfshlutfallið 75%. Í ráðningarferlinu, það er í starfsviðtali við kæranda og konu þá sem ráðin var, kom fram að aðstæður viðkomandi aðila voru að nokkru leyti mismunandi að því er þetta varðar. Mun kærandi hafa upplýst að hann hygðist halda áfram sjálfstæðri ráðgjafarþjónustu, þó í minna mæli en hann þá sinnti, en fyrir liggur í gögnum málsins að hann hafi sinnt sjálfstæðu ráðgjafarstarfi fyrir allmörg sveitarfélög. Á hinn bóginn mun sú sem ráðin var hafa ráðgert að sinna eingöngu þessu tiltekna starfi. Þá mun og hafa komið fram í starfsviðtali að kærandi hygðist freista þess að sinna starfinu að einhverju leyti frá starfsstöð sinni á Akranesi ef samkomulag næðist um slíkt fyrirkomulag.

Við ráðningu í opinber störf hefur almennt verið gengið út frá því að það stjórnvald sem veitir starfið skuli ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðunin eigi að byggja að teknu tilliti til ákvæða laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Enn fremur verður að líta svo á að það sé almennt komið undir mati viðkomandi stjórnvalds á hvaða sjónarmið sérstök áhersla skuli lögð. Kærunefnd hefur litið svo á með vísan til dómaframkvæmdar að játa verði atvinnurekanda nokkurt svigrúm við mat á vægi menntunar og starfsreynslu umsækjenda, svo og við mat á öðrum þáttum sem máli er talið skipta og málefnalegt að líta til í viðkomandi tilviki. Í þessu felst þó ekki að stjórnvöld hafi frjálsar hendur um það hver skuli ráðinn í opinbert starf hverju sinni. Í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar verður niðurstaðan að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum, sbr. hér að framan, eins og um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum öðrum eiginleikum sem talið er að skipti máli í hverju tilviki.

Í rökstuðningi vegna ráðningarinnar er því lýst af hálfu Borgarbyggðar á hvaða sjónarmiðum byggt hafi verið. Sú sem stöðuna hlaut hafi uppfyllt þær faglegu kröfur sem gerðar voru til starfsins og tilgreindar voru í auglýsingu. Hún hafi kennaramenntun auk þess að vera með diplómanám í sérkennslufræðum þar sem hún hafi lokið námi með afburðaárangri. Hún hafi og fjölþætta reynslu af kennslu í grunnskólum, hafi verið fagstjóri í sérkennslu og sinnt ráðgjöf til kennara vegna sérkennslunemenda. Í námi og störfum hafi hún tekið þátt í ýmsum verkefnum varðandi mótun skólastarfs sem vöktu áhuga þeirra sem í stöðuna réðu varðandi uppbyggingu skólastarfs í Borgarbyggð. Sú sem stöðuna hlaut hafi haft þá menntun og starfsreynslu sem sveitarfélagið leitaði eftir hjá sérkennsluráðgjafa, auk þess sem hún hafi boðið af sér góðan þokka og sýnt brennandi áhuga á þeim verkefnum sem starfinu tengjast. Í umsögn Borgarbyggðar um kæruna er sérstaklega tekið fram að í viðtölum við hana hafi komið fram sjónarmið hennar um starfið og uppbyggingu þess. Sérstaklega var upplýst við meðferð málsins hjá kærunefnd að litið hafi verið til þess að sú sem ráðin var hygðist sinna eingöngu umræddu starfi, gagnstætt því sem kærandi hafi ráðgert og að framan er rakið. Þegar framangreind atriði höfðu verið virt í heild hafi það verið niðurstaða sveitarfélagsins að sú sem ráðin var hafi uppfyllt best þær kröfur sem gerðar hafi verið til starfsins af umsækjendum.

Samkvæmt því sem fram hefur komið í gögnum málsins og við frekari rannsókn nefndarinnar á atvikum þess þykir hafa fram komið að við ákvörðun Borgarbyggðar um ráðningu í starfið hafi verið litið svo á að sú sem ráðin var hafi fullnægt nægilega þeim kröfum til reynslu og menntunar sem áskildar voru í auglýsingu um starfið. Þá hafi verið litið til atriða sem lutu að umsækjendum sérstaklega, svo sem hæfni í mannlegum samskiptum og ekki hvað síst þeirrar sýnar til starfsins sem umsækjendur lýstu í starfsviðtali. Mun þar hafa vegið þungt að sú sem ráðin var hygðist eingöngu sinna þessu starfi.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 er vinnuveitanda óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun ber vinnuveitanda að sýna fram á að aðrar aðstæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. s. gr.

Með vísan til framanritaðs er það álit kærunefndar jafnréttismála, þrátt fyrir framangreind sjónarmið um menntun og reynslu kæranda, sem telst vera meiri en þeirrar sem ráðin var, að Borgarbyggð hafi ekki verið óheimilt að ljá framangreindum sjónarmiðum, sem fram komu í starfsviðtölum, það vægi við mat á hæfi umsækjenda sem gert var. Því teljist ekki hafa verið um að ræða mismunun á grundvelli kynferðis í skilningi laga nr. 96/2000. Í því sambandi er bent á að í auglýsingu um starfið var sérstaklega tekið fram að gerðar væru kröfur um færni í mannlegum samskiptum, sjálfstæðum vinnubrögðum og skipulagshæfni, frumkvæði, áhuga og metnað í starfi. Telur kærunefnd að þau atriði lúti meðal annars að því fyrirkomulagi sem kærandi tilgreindi, það er að hann hygðist sinna starfinu samhliða verkefnum sem sjálfstæður ráðgjafi fyrir önnur sveitarfélög, þó í minna mæli væri en áður.

Með vísan til þess svigrúms sem stjórnvald jafnan hefur við stöðuveitingar að lagaskilyrðum uppfylltum verður að líta svo á að ekki þyki sýnt að ómálefnalegt hafi verið í máli þessu að byggja, auk menntunar og starfsreynslu, á persónulegum þáttum þeirrar sem starfið hlaut, svo sem sjónarmiðum hennar um uppbyggingu starfsins og einkum fyrirkomulagi á framkvæmd þess.

Það er því álit kærunefndar jafnréttismála að ekki hafi verið brotið gegn lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, í máli þessu.

 

Andri Árnason

Ingibjörg Rafnar

Þórey S. Þórðardóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta